Gripla - 01.01.1980, Page 101
96
GRIPLA
vegar er sá munur á að við getum tekið hrossaþáttinn bókstaflega sem
lýsingu á íslenzku þjóðlífi, en skessuþátturinn gegnir táknrænu hlutverki
einvörðungu, og báðum þáttum er það sameiginlegt að þeir eru hluti
af ævi Grettis í skáldverkinu. Höfundur virðist hafa gert sér ljósa grein
fyrir því að tröll og draugar áttu ekki síður þegnrétt í listaverkinu en
húnvetnskir bændur og vinnufólk, enda var honum sjálfrátt að skapa
þann heim sem söguhetjunni samdi. Sagnfræðingur lýtur öðrum aga og
nýtur annars konar frelsis.
Veruleiki og hugarburður eru ekki einungis andstæður í Grettlu
sjálfri, heldur togast á heilskyggni og glámsýni í aðalhetju sögunnar.
Ýmis spakmæli Grettis lúta beinlínis að reynslu: “Fleira veit sá er fleira
reynir”; “Lengi skal manninn reyna”; “Þá veit það er reynt er”; “Gott
er það jafnan að gefa betri raun en margir ætla.” í fljótu bragði mætti
virðast sem hér sé um almenn og alþýðleg orðtök að ræða, en þó koma
þau býsna vel heim við hugmyndir í húmanistaritum frá tólftu öld, þar
sem mikil áherzla var lögð á að beita skynsemi og reynd til að kynnast
sjálfum sér og öðrum.1 Hér má taka smáglefsur úr einu af þessum ritum,
og var það íslenzkað á þrettándu öld að öllum líkindum: “Hversu
reynast berserkir og kappar ef enginn býður þeim hólmgöngu? Nær
reynir jarðlegur konungur hirð sína utan þá er óvinir ganga á ríki hans?
. . . Raun skal vin prófa. Sá er sannur vin er í nauðsynjum hans er
búinn til hjálpar eftir megni. . . Með falsi er vinar nafn nema raun fylgi
með sannri vingan.”2 Reynsla er nátengd hugtökunum mannþekking
og sjálfsþekking, og þegar menn eru ekki heilskyggnir í bókstaflegri og
óeiginlegri merkingu er þeim fyrirmunað að öðlast raunsanna mynd af
sjálfum sér og öðrum. Ævi Grettis er mikil eldraun, allt frá því er hann
þolir vinnuhörku og vosbúð í æsku unz hann er veginn dauðvona norður
í Drangey í köldu skammdegi. Mér hefur stundum komið til hugar að
lýsingin á hinztu dögum Grettis og þjáningu, sem er ekki alls kostar
óskyld píslarvættisdauða, gæti fólgið í sér bergmál frá öðru tólftu aldar
riti: “Eigi má í því einu reyna manninn, hversu harður hann er í ann-
marka eða hraustur í bardaga; eigi reynir síður manninn sótt en orrusta:
1 Sjá t. a. m. ritgerð mína ‘Icelandic Sagas and Medieval Ethics’, Medieval
Scandinavia vii (1974), 61-75.
2 Viðrœða sálar og líkama (þ. e. Soliloquium de arrhá animœ, eins og titillinn
hljóðar á latínu) eftir Hugo a Sancto Victore, prentað í Hauksbók, útgáfu Finns
Jónssonar (1892-96), 315.