Gripla - 01.01.1980, Síða 105
100
GRIPLA
hverfingar gera í augum, því að hann sá allt eftir því sem var,” enda
varar hann menn sína við sjónhverfingum Skroppu, “því að eigi er hér
allt sem sýnist.”13 Þessi þáttur í mannlýsingu Harðar gæti ef til vill bent
til þess að höfundur Harðar sögu hafi af ásettu ráði valið atriði í því
skyni að skerpa muninn á honum og öðrum köppum, sem létu glepjast
af sjónhverfingum. I Orkneyinga sögu kemur fyrir spakmælið “Fár er
svo vitur að sjái allt sem er”, enda er hugmyndin um missýni manna
svo algeng í sögunum, að óþarfi er að telja upp alla þá staði.14 En
hvergi í Islendingasögum er missýni beitt á svo magnaðan hátt sem í
Grettlu.
Orðið glámsýni er notað á nokkrum stöðum í fornritum okkar, en þó
gegnir það hvergi sama hlutverki og í Grettlu. í Guðmundar sögu dýra
(23. kap.) lýtur orðið að raunverulegu missýni í þoku: “En þá er ljóst
var orðið, gaf glámsýni þeim er til voru komnir. Þeim sýndist sem menn
færi alla vega nær að þeim. En þar sáu þeir torfhrauka og stakkgarða,
en þoka var um mýramar, og komu upp úr kollarnir.” í Stjórn (Dóm-
arabókinni, ix 36) hagar svo til að Abimelech er á leið til Sicchem með
lið sitt, en þar eru við staddir þeir Zebul, sem vill greiða götu hans, og
Gaal, sem ætlar að veita Abimelech mótspyrnu. “Þá kallaði Gaal á
Zebul og mælti: ‘Sé nú hvar mikill fjöldi manna skundar til borgarinnar
frá fjöllum ofan.’ Zebul svaraði: ‘Þér gefur glámsýni, svo að þú veizt eigi
hvað þú segir, ætlar það manna höfuð sem þú sér skugga fjallanna.’”15
Allt um það lætur Gaal ekki blekkjast. Höfundur Þorsteins sögu Síðu-
Hallssonar beitir orðinu glámsýni í einni af draumaskýringum Steins:
“Þórhaddur mælti: ‘Sá er hinn níundi draumur minn, að ég þóttist vera
á fjalli því er Gerpir heitir . . . og þaðan sá ég um mörg lönd en hvergi
í nánd mér, því að myrkvi lá yfir allt.’ Steinn mælti: ‘Þar er þú varst á
fjalli því er Gerpir heitir, það sýnist í því að ráð þitt var gerpilegt, þá
er þú fórst með goðorð Þorsteins og veittir mörgum bæði í fjártillögum
og málafylgjum, en nú gefur þér glámsýni, er þú hefur illt ráð upp tekið
og þú sérð eigi satt um það er hjá þér er, en það sérð þú glöggt er fjarri
13 Harðar saga (1960), útg. Sture Hast, 138 og 159.
14 Hér má þó nefna dæmi úr Ljósvetninga sögu (Isl. fornrit x, 9): ‘Þórður . . .
kvað Þorgeiri mjög missýnast, er hann gekk í mót sonum sínum í orrustu;’ og
Fóstbrœðra sögu (Isl. fornrit vi, 141): ‘Sýnist oss að þeir Þorgeir og Þormóður hafi
það unnið er þér skylduð gert hafa eða láta gera, og mun yður svo sýnast sem ég
segi, ef yður gefur eigi niissýni í þessu máli.’
15 Stjórn, útg. Ungers, 401. Svar Zebuls í Vúlgötu hljóðar svo: ‘Umbras mon-
tium vides quasi capita hominum, et hoc errore deciperis.