Gripla - 01.01.1980, Page 174
SOLTINN VARÐ SIGURÐR
169
ræða hans. Ef við gerum hins vegar ráð fyrir að fyrstu tvö vísuorðin séu
líka bein ræða fellur allt í Ijúfa löð. En hver talar, og hvar á þessi
ræðustúfur heima? Getur verið að um samtal fugla sé að ræða sem
einhver góður málamaður hefur heyrt og skilið? Víst er það nærtæk
skýring, ekki síst vegna þess að hrafns er einnig getið síðar, þ. e. í
13. vísu:
Fót nam at hrœra,
figlð nam at spialla,
hitt herglptuðr
hyggia téði,
hvat þeir í boðvi
báðir spgðo,
hrafn ey oc prn,
er þeir heim riðo.
Eins og áður hefur komið fram hefur Bugge séð að hér væri hugsanlegt
að koma 5. vísu fyrir, þótt hann telji það neyðarúrræði. Eðlilegast væri
þá að hugsa sér upphafsorðin lögð erninum í munn eða þeim báðum í
kór hrafni og erni. Bersýnilega er Gunnar hér, nóttina eftir vígið, að
rifja upp atvik sem hefur gerst á leið þeirra heim frá víginu. Örninn er
reyndar eina ‘persóna’ í Sigurðarkviðu sem eðlilegt væri að leggja þessi
orð í munn, og mun líklegri til að hafa mælt þau en kvæðamaður sjálfur.
En hvar eiga orðaskipti þessi heima í kvæðinu? Á réttum stað í tíma-
röðinni, þar sem Bugge vill helst hafa 5. vísu, eða í því atriði þar sem
segir frá andvöku Gunnars Gjúkasonar?
Ekki þarf að draga í efa að Sigurðarkviða hefur átt alllangt líf að
baki á manna vörum þegar hún var fest á bókfell og vafalaust hefur hún
á því skeiði tekið margvíslegum breytingum eins og önnur kvæði í
munnlegri geymd. Öll viðleitni til að gera sér í hugarlund, hvernig
kvæðið hafi litið út áður en það var fest á blað, hlýtur að verða reist
á ágiskunum, en um leið og farið er að hrófla við texta K þarf að grípa
til slíkra ágiskana.
Hugsanlegt er, að eitthvað hafi gleymst úr kvæðinu milli 4. og 6.
vísu. Þar kemur til álita atriði með frásögn af vígi Sigurðar, svo og
atriði þar sem lýst hafi verið heimferð þeirra bræðra að víginu loknu
þegar Gunnar heyrir samtal arnar og hrafns. Ekki er að finna í brotinu
neinar vísbendingar um annað efni sem hefði getað átt þarna heima.
Nú er það reyndar einkennilegt ef gleymst hefur úr kvæði áhrifamesta