Gripla - 01.01.1980, Síða 200
ÞJÓÐSAGNASÖFNUN OG ÞJÓÐFRELSISHREYFING 195
var reyndar ekki kjörinn forseti Hins íslenska bókmenntafélags fyrr en
1851, og hefur sennilega talið sig hafa um annað að hugsa það árið en
aðstoð við útgáfu íslenzkra æfintýra. Þá væri líka gaman að komast til
botns í því, hvaða áhuga Bókmenntafélagið hafi á þessum árum sýnt á
að koma út safni því af þulum, gátum og þjóðkvæðum, sem Jón Áma-
son og Magnús Grímsson hófust handa um að efna til árið 1845.
Þetta tómlæti Jóns Sigurðssonar um útgáfu sagna og ævintýra fram
að 1860 og þjóðkvæða að sagnadönsum undanskildum er samt langt
frá því að vera undarlegt, því að fæstir evrópskir þjóðemissinnar litu á
söfnun og útgáfu þjóðfræða sem takmark í sjálfu sér. Áhugi þeirra á
fræðum þessum var aðallega kominn til af því, að þeim þóttu þjóðfræðin
einkar vel til þess fallin að efla þjóðernisstefnuna á ýmsan hátt, t. d.
á bókmenntasviðinu. Víða um lönd varð nýtt og jákvætt mat á þjóð-
fræðum ein meginstoð þjóðlegrar endurfæðingar bókmenntanna. Af
meginlandsþjóðum Evrópu urðu Þjóðverjar þar einna fyrstir til og líkt
varð uppi á teningnum hjá Tékkum. Hjá þeim síðarnefndu urðu þjóð-
fræðin einnig mikilsverður þáttur í endurfæðingu tékkneskunnar sem
ritmáls. Segja má líka, að þjóðfræðin hafi staðið við vöggu færeysks
ritmáls og hjá Finnum varð hið mikla verk Kalevala, sem Elias Lönnrot
skapaði úr finnskum söguljóðum, undirstaða þjóðlegra bókmennta og
finnsks ritmáls. Hér á landi horfði málið nokkru öðru vísi við. Enda
þótt sumir útlendir vinir þjóðarinnar eins og Rasmus Kristján Rask
teldi íslenskuna í bráðri hættu á fyrri hluta 19. aldar, voru fáir ís-
lendingar á sömu skoðun. Þeir vildu auðvitað halda henni fram sem
eina opinbera máli landsins, en þeir voru ekki haldnir sama nagandi
kvíða um bráð endalok hennar og færeyskir, tékkneskir og finnskir
þjóðernissinnar. Þar að auki áttu íslendingar fomar, merkilegar bók-
menntir, þjóðlegar í bestu merkingu þess orðs, sem allar þjóðir öfund-
uðu þá af, — sumar eins og Danir og Svíar höfðu gert það öldum
saman —, og þessar bókmenntir voru einmitt að öðlast alþjóðlega
viðurkenningu á öndverðri 19. öld. Hjá íslendingasögum bliknuðu allar
þjóðsögur og hjá Eddukvæðum öll seinni alda þjóðkvæði. Svo höfðu
þeir Bjami Thorarensen og Jónas Hallgrímsson sýnt fram á, að unnt
var að endumýja íslenska ljóðagerð án þess að styðjast við þjóðsögur
eða þjóðkvæði. Þetta gátu þeir, vegna þess að samhengið í ljóðagerð
þjóðarinnar hafði ekki rofnað. Um bókmenntir í óbundnu máli gegndi
hins vegar allt öðm máli. Þetta hljóta þeir, sem fengust við sagna- og
leikritagerð að hafa fundið, að minnsta kosti finnst mér ekki einleikið,