Gripla - 01.01.1980, Page 203
DAVÍÐ ERLINGSSON
HJÖRLEIFUR KVENSAMI OG
FERGUS MAC LÉITE
í samskotagjöf handa þeim manni sem hverjum betur í samtíð
sinni skilur og metur gildi þess að vita sem gleggst deili á tengslum
sagna, virðist eiga vel við að senda honum eilítinn hliðstæðufróðleik
um fáein atriði í Hálfs sögu og Hálfsrekka.
í framanverðri þessari sögu, áður en komið er að því að segja frá
Hálfi kóngi Hjörleifssyni og rekkum hans, greinir nokkuð frá forfeðrum
hans, kóngum á Rogalandi og Hörðalandi í Noregi, og renna þær
kóngaættir saman í föður hans, Hjörleifi kvensama, sem ríkir í báðum
þessum ríkjum, að því er sagan hermir. Þessi hluti Hálfs sögu er stakar
sundurlausar sagnir, og veit höfundur fornaldarsögunnar ekki mikið að
segja frá hverjum einum þessara fomkonunga. Frásögnin ber skýr merki
þessa, og á það einnig við um það sem frá Hjörleifi kvensama er sagt.
Það er stuttaraleg frásögn, og má rekja hér helzta efni hennar lesanda
til upprifjunar og glöggvunar. Þetta efni er ekki tengt öðru efni öðrum
böndum en ættarböndum Hálfs konungs, að því er séð verður, og má
því vel tala um Hjörleifs sögu kvensama sem sérstaka sögu. Efni hennar
er þetta:1
Hjörleifur er í upphafi sögu kvæntur Æsu hinni ljósu, jarlsdóttur af
Valdresi. Hann fer í fjáraflaferð til Bjarmalands. Á leiðinni þangað
kemur hann við í Njarðey fyrir Naumudalsminni hjá Högna hinum
auðga og gengur að eiga Hildi dóttur hans, og fara hún og Sölvi bróðir
hennar síðan með honum. Á Bjarmalandi nærri Vínuminni fær Hjör-
leifur sér fé með haugbroti. Á heimleiðinni lágu þau um nótt á tilnefnd-
um stað á sunnanverðri Finnmörk. Við vatnsbólið sáu menn brunnmiga,
og er að skilja, að hann spillti vatninu fyrir þeim, þangað til Hjörleifur
kvað til hans burtrekstrarvísu, skipar honum að hverfa heim til sín og
sendir honum ‘sveiðanda spjót’, hitað í eldi. ‘Þá tóku þeir vatn, en
þussinn skauzt inn í bjargið.’ Síðar, þegar þau sitja við eld, kveður
1 Stuðzt er hér við útgáfu A. Le Roy Andrews í Altnordische Saga-Bibliothek
14 (Halle 1909).