Gripla - 01.01.1980, Side 204
HJÖRLEIFUR KVENSAMI OG FERGUS MAC LÉITE 199
þussinn vísu, sem ekki er að öllu auðskilin, enda óheil, en þussinn veit
lengra nefi sínu, að brestur muni verða á hjónabandssælu Hildar, og
hann hvetur Hildi að halda Hjörleifi nær loga. ‘Þá skaut Hjörleifur hinu
sama spjóti í auga því trölli’. Hildur og Sölvi fara með Hjörleifi heim
til hans, og varð Æsa ‘ófegin konungi og hans föruneyti’.
Næst segir, að Hjörleifur fer (kaupferð) til Konungahellu, og kemst
þar í kynni við Hreiðar Sjálandskóng og Hera, son hans, og fer heim
með þeim í boði þeirra. Þar kvænist hann Hringju Hreiðarsdóttur og
siglir síðan heim á leið með hana. í Jótlandshafi sér Hjörleifur ‘í norður
upp koma úr sjónum mikið fjall og jafnt vaxið sem mann’. í kviðlingi
sér vættur þessi fyrir andlát Hringju, Hera og Hreiðars, og að Hjörleifi
verði ‘haftbönd snúin’. Skipin ganga nú ekki, og Hringja verður sjúk
og andast og er síðan lögð í kistu, sem fer greitt með hana suður heim.
Hjörleifur kemst þá leiðar sinnar, en feðgar á Sjálandi kenna Hjörleifi
um lát Hringju.
Nú kemur sagan um marmennil, dreginn úr sjó og í haldi hjá Hjör-
leifi kóngi. Þar er eljurígur í húsum. Hildur hellti úr horni á skikkju
Æsu. Kóngur sló þá til Hildar, en hún sagði hundinn valda. Þá sló
kóngur hundinn. Þá hló marmennill. Kóngur spyr hví? ‘Því að þér varð
heimslega, því að þau munu þér líf gefa’. Marmennill er þögull og vill
í sjó, og Hjörleifur lofar að sleppa honum, ef hann segi sér það sem
hann þurfi að vita. Þá segir marmennill í kvæði, að danskur konungur
komi nú með her að hefna dóttur á Hjörleifi. Danir koma, og Hjörleifur
einn kemst nauðulega undan, en fellir þó Hera með spjótsskoti um leið
og hann hleypir burt. Hreiðar brenndi bæinn og tók konurnar herfangi
til Sjálands. Þangað kom Hjörleifur síðar á laun og bað Æsu aðstoðar,
en hún læsti hann í voðkeri sínu og sagði Hreiðari til. Var hann tekinn
og bundinn með skóþvengjum sínum milli tveggja elda í höllinni, en
hirðin sat að drykkju. Æsa sat í hnjám Hreiðari sofandi, en Hildur jós
fyrst mungáti á eldana, en síðan leysti hún Hjörleif með sverði. Hann
drap Hreiðar, náði síðan liði sínu og lét hengja Hreiðar dauðan á þann
gálga sem honum var sjálfum ætlaður. Sölva, bróður Hildar, gerði
Hjörleifur jarl á Sjálandi, en sat sjálfur að ríkjum sínum í Noregi, og
um andlát hans er sagt, að hann féll í víkingu.
Nú víkur málinu til írskrar sögu, sem mun talin frá 13.-14. öld og
ber heitið Imthechta Tuaithe Luchra ocus aided Fergusa, en það mætti
þýða Álfheimsœvintýr og sviplegt fall Fergusar. Þessi saga er mestöll
um viðskipti Úlaztírsmanna undir forustu fornkonungsins Fergusar mac