Gripla - 01.01.1980, Page 218
UM GRÆNLANDSRIT
213
hefði ekki orðið fyrr en um eða eftir 1015, þegar Ólafur digri komst til
ríkis í Noregi. Eiríkur rauði hefði þess vegna vel getað dáið í heiðni,
eins og Grs. segir.
í þessu sambandi setur Ólafur fram skemmtilega tilgátu (bls. 335).
í Grs. segir að Bjarni Herjólfsson hafi komið á fund Eiríks jarls og
sagt honum af landafundi sínum. Þetta hefur valdið mönnum heila-
brotum af tímatalsástæðum, enda vandséð hvaða erindi Eiríkur jarl átti
í söguna. Ólafur leggur nú til að þama hafi upphaflega staðið E. r.,
þ. e. Eiríkur rauði, en r. hafi verið mislesið sem j. Þó að þetta verði
ekki sannað, er tilgátan mjög sennileg; öll atburðarásin verður með því
eðlilegri og tímatal skiljanlegra.
Ólafur hefur bent á aðra leið til þess að komast að nokkurri við-
miðun um tímatal. Með athugun á ættliðum sem frá Þorfinni karlsefni
eru komnir, svo og framætt hans, hefur hann sýnt fram á að allar líkur
séu til að þau Þorfinnur og Guðríður kona hans hafi verið fædd um
eða skömmu eftir 990. Af því leiðir að Vínlandsferð þeirra hefur ekki
getað orðið fyrr en um 1020. Eins og Ólafur tekur fram er þessi hug-
mynd ekki ný. Guðbrandur Vigfússon setti hana fram í Origines Is-
landicae, og Gathome-Hardy komst að svipaðri niðurstöðu án þess að
hann virðist hafa þekkt kenningu Guðbrands. En enginn sem síðar
hefur um þessi efni skrifað hefur tekið mark á þessu fyrr en nú, og má
það raunar undarlegt heita. Hér eins og víðar hefur Ólafur farið betur
í saumana á þessum atriðum og stutt þessa skoðun fleiri rökum, en
með því verður margt skiljanlegra í tímatali og rás viðburða. Enn
fremur rennir það stoðum undir þá skoðun Ólafs að kristnitaka á
Grænlandi hafi ekki orðið fyrr en um eða upp úr 1015. Loks sýna
rökin um aldur Guðríðar að hún getur ekki verið sonardóttir Vífils í
Vífilsdal, og má það heita fullgild sönnun þess að sú ættfærsla er til-
búningur höfundar Eir., eins og áður hefur verið vikið að.
Ólafur er sammála fyrri fræðimönnum um að spásagnir Þorbjargar
lítilvölvu í Eir. og Þorsteins Eiríkssonar í Grs. um framtíð Guðríðar og
afkomendur séu svo keimlíkar að þar hljóti að vera samband á milli.
En honum hefur hugkvæmst athyglisverð tilgáta til skýringar á þessu
sambandi (bls. 393-94). Þar sem í Grs. er sagt um afkvæmi Guðríðar
að það muni verða bjart og ágætt, sætt og ilmað vel, en í Eir. að yfir
ættkvíslum hennar muni skína bjartur geisli, þá telur Ólafur það benda
til þess að helgur maður muni verða meðal afkomenda hennar. Þvílíkt
orðalag, ilmur og bjartur geisli, má heita föst ritklifun (topos) í helgi-