Gripla - 01.01.1980, Page 242
UM GRÆNLANDSRIT
237
annála, bæði þeim sem hafa textagildi og hinum sem frá varðveittum
handritum eru komin. Allt virðist þetta traustlega gert, og er þarflaust
að hafa um það mörg orð.
Þess skal rétt getið að á bls. 177-180, þar sem gerð er grein fyrir
eftirritum af AM 115 8vo (A), er vantalið UB 1193 4to í Ósló, upp-
skrift Jóns Þorkelssonar á síðari hluta Grænlands annála, gerð fyrir
norska fræðimanninn Gustav Storm. Eiríks sögu uppskriftinni er sleppt,
og hefst eftirritið á Griplu, AM 115 8vo, bl. 24r. Athugasemdir eru
sagðar á spássíum með hendi Storms.54
Á bls. 188-93 er kafli um handritið AM 778a 4to. Samkvæmt hand-
ritaskrá Kálunds er handrit að hluta með sama efni í Konunglega
safninu í Kaupmannahöfn, Ny kgl. sml. 1657 4to, sennilega eftirrit af
778. Hér hefði til að fullnægja reglunum mátt nefna þessa uppskrift og
ganga úr skugga um sambandið.
Eftirrit eftir AM 778a 4to virðist einnig vera í Ny kgl. sml. 1956 4to,
og er svo að sjá af skrá Kálunds að þar séu einnig uppskriftir úr AM
770b 4to. Þetta hefði einnig mátt kanna og gera grein fyrir, þótt ekki
væri af öðru en því, að stundum hefur tapast efni úr Árnasafnshand-
ritum, eftir að þau voru skrifuð upp á 18. öldinni eða við það.
í næstu köflum er lagður traustur grundvöllur að útgáfu textans og
orðamun framar í bókinni. Hér er gerð grein fyrir skyldleika handrita
og sett að lokum upp ættarskrá. Við þetta hefur útgefandi haft stuðning
af ritum sem enn eru til og höfundur Grænlands annála sótti í efni,
og mátti þá sjá hvað var upphaflegur texti og hvað voru villur eftir-
ritara. Það styrkir sem að líkum lætur niðurstöðuna.
Meginhlutinn af efni Grænlands annála er að upphafi runninn frá
Hauksbók. Annálahöfundurinn notar þó ekki sjálfa skinnbókina,
heldur útdrætti úr henni. Þetta sýndi Jón Helgason fram á 1960 í grein
sinni um sögu Hauksbókar á 17. öld. í kafla á bls. 209-28 um Hauks-
bókarútdrættina sem heimild að Grænlands annálum fellst Ólafur á
niðurstöðu Jóns í þessum efnum, og bætir hann við nýju samanburðar-
efni og ræðir ýmis vandamál í textum handritanna. Niðurstaða Ólafs
um innbyrðis afstöðu Grænlands annálanna og varðveittra handrita
útdráttanna er eins og Jón hafði áður leitt rök að, og ætti hún að mega
teljast ótvíræð.
54 Hér er farið eftir vélritaðri skrá Jónasar Kristjánssonar um íslensk handrit
í Noregi, bls. 105-6.