Eimreiðin - 01.10.1927, Side 30
334
NORÐURLJÓS
EIMREIÐIN
skuggsjár. En mjög er það undarlegt, að höfundur hennar
(þ. e. faðirinn) talar aðeins um norðurljós á Grænlandi eftir
annara sögusögn. Er Konungsskuggsjá þó rituð norðarlega
í Noregi, þar sem norðurljós eru algeng; höfundur auk þess
athugull mjög og stórlærður í náttúrufræði á sínum tíma.
Þá hefur Jónas Hallgrímsson lýst norðurljósum — en
því miður á dönsku. Af því að þátturinn mun ekki hafa verið
þýddur á íslenzku fyr, þykir mér ekki fjarri að birta hann
hér í heild sinni eftir Landfræðisögu Þ. Thoroddsens; en þar
er hann prentaður á frummálinu (IV. B. bls. 280—82).
»Kvöldið var yndisfagurt, blæjalogn og alheiður himinn.
Lestin okkar var komin norður á Grímstunguheiði, og sáum
við þaðan hilla undir gnípurnar á fjallgörðum þeim, sem
kvíslast norður úr heiðasléttunum, alt í sjó fram. Fjallgarðar
þessir eru allmikið hærri heldur en heiðarnar um miðbik
landsins, og milli þeirra liggja dalir þeir og flatlendi, sem
bygð eru; en heiðarnar eru aðeins notaðar sem bithagi íyrir
fé og hesta, sem rekið er »á fjall« að vorinu. — Bláhvít
þoka lá í daladrögunum, en hún náði ekki svo hátt sem við
vorum staddir. Utsýnin var opin norður yfir fjallaklasann, þar
sem gnípurnar gnæfðu í fjarska upp úr þokuhafinu, eins og
seiðandi töframynd. Fegurst var þessi sýn meðan birtunni var
að bregða og kvöldbjarminn háði baráttu við náttkomuna.
Eftir að sólin var horfin af hásléttunni, þar sem við vorum
staddir, glóðu þessir fjallatindar í kveldbjarmanum. En smám
saman færðist rökkrið upp eftir þeim, og þeir slokknuðu sem
kyndlar hver af öðrum og gnæfðu þá sem svartir kleítar í
þokuhafinu, unz þeir runnu saman í dökka og óskíra heild.
Máninn var lágt á lofti, fölur og drungalegur. Lagði daufa
skímu af honum í gegnum þokumóðuna, og gerði hún fjalla-
sýnina aðeins ennþá óskírari. En þetta stóð ekki á löngu.
Þegar alnáttað var orðið, var eins og stjörnuskinið glæddist.
Hlutir, sem í námunda voru, tóku aftur að verða greinilegri.
Stafaði þetta að nokkru leyti frá sjálfri jörðunni; náttfallið
hafði breyzt í hvíta héluhúð við næturkuldann og glitraði nú
í stjörnuskininu. Um kl. 11 komu í ljós tvær bjartar rákir á
norðurloftinu. Það var fyrsti boðberi um norðurljósin. Fyrst í
stað mintu þessar rákir á bleikföl blikubönd, en smám saman