Skinfaxi

Volume

Skinfaxi - 01.11.2009, Page 31

Skinfaxi - 01.11.2009, Page 31
 SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands 31 Gönguverkefni UMFÍ – Fjölskyldan á fjallið Gönguverkefni Ungmenna- félags Íslands og sambands- aðila, Fjölskyldan á fjallið, tókst með afbrigðum vel í ár. Eins og undanfarin ár tilnefndi Héraðssam- bandið Skarphéðinn tvö fjöll til að ganga á í sumar. Annars vegar var það Mosfell í Grímsnesi og hins vegar Hvolsfjall við Hvolsvöll. Alls gengu tæplega eitt þúsund manns á þessi fjöll og hefur þátttakan aldrei verið meiri. Bæði eru fjöllin frekar auðveld upp- göngu og má vafalaust þakka því þessa góðu þáttöku að einhverju leyti. Í gestabækur, sem komið er fyrir á tind- um fjallanna, rita göngugarpar nafn sitt og margir hverjir síma- númer. Á haustin er síðan dregið út eitt nafn í hvorri gestabók og hlýtur sá heppni viðurkenningu frá HSK og UMFÍ. Í ár voru dregin út þau Nathan Freyr Morthens frá Sauðárkróki og Guðrún Sveinsdóttir sem dvelur á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli. Nathan Freyr er 10 ára og Guðrún er 92 ára. Það er ekkert kynslóðabil í þessu verkefni. Guðrún gekk ekki einu sinni á Hvolsfjall heldur hvorki í fleiri né færri en í 44 skipti. Hér er örugglega um að ræða nýtt HSK-met í fjölda gönguferða, auk þess að ekki er líklegt að margir yfir níræðu hafi tekið þátt í þessu góða verkefni. Guðrún er góð fyrirmynd annarra eldri borgara og ættu sem flestir að nota gott veður yfir sumartímann og að hausti til að njóta íslenskrar náttúru. Guðrúnu var afhent viðurkenning fyrir skemmstu og var hún hin hressasta. „Ég hef frá því að ég var krakki alltaf verið dugleg að ganga. Það þekktist ekk- ert annað í þá daga en að ganga á milli staða því þá var ekki mikið um farartæki. Þessi hreyfing hefur gert mér gott og mér finnst sjálfsagt fyrir alla að hreyfa sig meira en gert er í dag,“ sagði Guðrún Sveinsdóttir hress í bragði í samtali við Skinfaxa. Guðrún Sveinsdóttir, 92 ára, gekk 44 sinnum á Hvolsfjall í sumar Hún vill ekki gera mikið úr afrekum sínum en Guðrún var svo óheppin nú á haust- dögum að detta á heimili sínu. Hún segist bjartsýn á að komast á kreik á nýjan leik. „Ég sakna þess að geta ekki hreyft mig núna, en um leið og ég hef náð mér fer ég af stað aftur. Ég ætla að halda ótrauð áfram, ann- að kemur ekki til greina í mínum huga. Mér finnst fólk almennt ekki hreyfa sig nóg í dag. Ég skil bara ekki þegar verið að keyra krakka í skóla sem er næstum því við bæjardyrnar. Ég þurfti alltaf að ganga í þrjú korter í skóla þegar ég var yngri og skipti þá engu hvernig veðrið var. Það eru breyttir tímar í dag,“ sagði Guðrún. Guðrún segist aldrei hafa stund- að neinar íþróttir en á yngri árum var kennari hennar stundum með Müllersæfingar. „Ég hef bara gengið um ævina, en ég er ekki synd einu sinni. Það hefur hjálpað mér mikið að ég hef alltaf verið heilsuhraust og það hefur ekki haft lítið að segja,“ sagði Guðrún Sveinsdóttir. Efsta mynd: Guðrún Sveinsdóttir á göngu niður Hvolsfjall. Til hægri: Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Gísli Páll Pálsson, formaður HSK, en þau færðu Guðrúnu viður- kenningu og blómvönd. Natan Freyr Morthens var dreginn út af HSK og hlaut að launum bol og jakka frá HSK, ásamt bókargjöf frá UMFÍ. Hér er hann ásamt bekknum sínum og Ómari Braga Stefánssyni, landsfulltrúa UMFÍ.

x

Skinfaxi

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.