Fréttablaðið - 17.05.2010, Síða 12
12 17. maí 2010 MÁNUDAGUR
Í fyrsta sinn í langan tíma
virðast peningar vera helsta
hitamálið í kosningabar-
áttunni á Seltjarnarnesi.
Bæjarbúar hafa úr fjórum
framboðum að velja, fleir-
um en í undanförnum sex
kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla
tíð haft firna sterka stöðu á Sel-
tjarnarnesi og verið í meirihluta
í bæjarstjórn svo lengi sem elstu
menn muna. Í síðustu kosning-
um fengu sjálfstæðismenn fimm
bæjarfulltrúa og bættu þá við sig
einum manni frá kosningunum
2002. Neslistinn - bæjarmálafélag
Seltjarnarness fékk tvo menn.
Fjórir listar eru í framboði.
Sjálfstæðisflokkurinn býður fram
sem fyrr en önnur framboð eru
Framsókn og óháðir, Neslistinn og
Samfylkingin. Undanfarnar fimm
kosningar hafa aðrir flokkar og öfl
en Sjálfstæðisflokkurinn samein-
ast um framboð undir merkjum
Neslistans.
Slíkt sameiginlegt framboð kom
enn til álita nú en eftir að Samfylk-
ingin hafði ákveðið að bjóða fram
sér afréðu framsóknarmenn að
gera það líka. Síðast gerðist það
1982 að kjósendur á Nesinu höfðu
úr svo mörgum framboðum að
velja.
Bæjarstjóraskipti urðu á kjör-
tímabilinu. Jónmundur Guðmars-
son lét af embættinu og gerðist
framkvæmdastjóri Sjálfstæðis-
flokksins. Við tók Ásgerður Hall-
dórsdóttir, bæjarfulltrúi flokks-
ins til margra ára. Hún fer fyrir
listanum nú og í næstu sætum eru
ýmist sitjandi bæjarfulltrúar eða
nýliðar.
Hvorugur bæjarfulltrúa Nes-
listans er í framboði en þar er
Árni Einarsson varabæjarfulltrúi
í efsta sæti. Margrét Lind Ólafs-
dóttir er oddviti Samfylkingarinn-
ar og Kristjana Bergsdóttir leiðir
lista Framsóknar og óháðra.
Fjármál bæjarins eru í kast-
ljósinu í kosningabaráttunni. Sótt
er að Sjálfstæðisflokknum vegna
fjármálastjórnar en talsverður
halli varð á rekstri bæjarins tvö
undangengin ár. Það er nýtt á Sel-
tjarnarnesi þar sem jafnan hefur
verið afgangur af rekstrinum.
Hrunið hafði vitaskuld sitt að
segja um fjárhagsstöðuna en gagn-
rýnendur Sjálfstæðismanna segja
þá hafa brugðist seint og illa við.
Benda þeir á að nágrannasveitar-
félögum hafi tekist að laga rekst-
urinn að breyttum aðstæðum.
Áhyggjur af fjármálum ná líka
inn í raðir dyggra stuðningsmanna
Sjálfstæðisflokksins. Samtöl við
slíka leiða í ljós að þeir telja flokk-
inn ekki hafa gripið til nægilegra
aðhaldsaðgerða í kjölfar hrunsins.
Leggja þeir hart að sínum mönn-
um að einhenda sér í verkið þegar
umboð þeirra verður endurnýjað -
eins og það er orðað.
Nokkrum sinnum á undanförn-
um árum hefur komið til talsverðra
deilna á Seltjarnesi vegna skipu-
lagsmála. Hafa þær sett mark sitt
á mannlífið í þessu fámenna sveit-
arfélagi og skilið eftir sig sár. Fátt
bendir til að til slíkra deilna komi
á næstunni enda skipulag bygg-
ingasvæða og stórframkvæmdir
ekki í kortunum.
Líkt og víðast hvar annars staðar
eru íbúar á Nesinu ekki mjög upp-
teknir af kosningunum. Ekki enn
allavega. Þreyta gagnvart póli-
tískum málefnum er tilfinnanleg
og leiða og reiði gætir hjá fólki.
SVEITARSTJÓRNAR-
KOSNINGAR 2010 18 ár eru síðan framboðslistar hafa verið jafn margir á Seltjarnarnesi
Fjármálin í forgrunni á Seltjarnarnesi
SELTJARNARNES Sjálfstæðismenn hafa alla tíð farið með stjórntaumana á Nesinu. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
„Helstu áherslur okkar eru á fjármál bæjarins. Bærinn
tapaði 953 milljónum króna á árunum 2008 og 2009
sem eru miklir peningar,“ segir Kristjana Bergsdóttir,
oddviti Framsóknar og óháðra.“ Hún segir erfiðlega hafa
gengið að afla upplýsinga um fjárhagsstöðuna, meiri-
hluti Sjálfstæðisflokks hafi í raun reynt að þagga niður
umræður um málið. Við það verði ekki unað og fram-
sóknarmenn og óháðir berjist nú fyrir að afla upplýsinga,
gera útreikninga og miðla til íbúa. „Við ætlum að taka til
í rekstrinum og snúa þessari stöðu við. Flest bæjarfélög
stóðu í tapi árið 2008 en sneru taflinu við 2009. Hér
jókst hins vegar tapið til muna og sjálfstæðismenn hafa látið eins og þeir hafi
ekki áhyggjur af þessu.“ Hún kveðst ekki vilja hækka skatta á íbúa, nóg hafi
verið um gjaldahækkanir. „Við segjum hreinlega báknið burt og viljum skera
niður yfirbygginguna.“
Kristjana nefnir líka skipulagsmálin og hvernig staðið hefur verið að þeim.
„Bæjaryfirvöld hafa oft lent í stríði við bæjarbúa. Þau hafa rokið til og íbúar
þurft að efna til mótmæla til að koma í veg fyrir framkvæmdir. Okkar markmið
er að haga allri umræðu um skipulagsmál þannig að haft verði samráð við
fólk. Nýjar framkvæmdir eiga ekki að ráðast gegn forsendum þeirrar byggðar
sem fyrir er. Í raun má segja að við viljum ekki fleiri stríð um skipulagsmál.“
Ætlum að taka til í rekstrinum
„Við ætlum að standa vörð um félagslega velferð íbúa á
Seltjarnarnesi, þar með talin skólamálin og öldrunarmál-
in,“ segir Margrét Lind Ólafsdóttir, oddviti Samfylkingar-
innar. „Svo höfum við miklar áhyggjur af fjármálunum, við
viljum hagræðingu og endurmat forgangsröðunar í anda
jafnréttis og jafnaðar. Það þarf að endurskoða stjórnkerfið
og færa það nær því sem er eðlilegt miðað við stærð
bæjarfélagsins. Þetta er lítið bæjarfélag og við þurfum
ekki jafn mikla yfirbyggingu og hér er. Þar má spara.“
Margrét Lind segir ekki mega skera niður í velferðarmál-
um. „Það þarf að gæta að þeim málum sem snúa að
einstaklingunum. Það þarf að standa vörð um skólastarfið, bæði í grunnskól-
anum og tónlistarskólanum, enda mjög brýnt að sinna þeim málaflokkum vel.
Hér hefur ekki verið tekið á eineltismálum, svo dæmi sé nefnt.“
Íbúaþróunin er Margréti Lind ofarlega í huga. „Við stöndum frammi fyrir
fækkun í bæjarfélaginu og það er áhyggjuefni því samfélagið verður einsleitara.
Ungt fólk á erfitt með að fá íbúðir í bænum.“
Hún segir líka að bærinn hafi staðið illa að upplýsingamálum. „Hér er of lítið
gagnsæi og erfitt að nálgast upplýsingar. Ákvarðanir eru teknar og þeim komið
í framkvæmd án þess að tilkynna sérstaklega um það. Sem dæmi má nefna að
þegar gjaldskrár voru hækkaðar birtist það bara í heimabönknum fólks.“
Sparað með því að minnka yfirbyggingu
„Fjármálin
eru ofarlega á
baugi,“ segir
Árni Einars-
son, oddviti
Neslistans.
„Bæjarsjóður
var rekinn með
umtalsverðum
halla í tvö
ár og það þarf að rétta hann af
og koma rekstrinum í jafnvægi.
Meirihlutinn byggði á þessum
góðærissandi.“ Árni segir bæjarsjóð
hafa tapað þrátt fyrir að útsvarstekjur
á Seltjarnarnesi séu með því allra
hæsta sem gerist á landinu. Enginn
áhugi sé á að hækka útsvarið, mæta
þurfi stöðunni með hagræðingu án
þess þó að hún bitni á velferðarþjón-
ustunni.
Íbúaþróunin á Nesinu veldur Árna
áhyggjum. „Ef litið er til síðustu tíu
ára hefur börnum undir sextán ára
fækkað um 23 prósent á meðan
þeim hefur fjölgað í sveitarfélögun-
um í kringum okkur. Á sama tíma
hefur fólki, eldra en 67 ára, fjölgað
um 40 prósent. Þessi þróun hefur
áhrif á innviði samfélagsins, til
dæmis skólana og öldrunarmálin.“
Árni segir mikilvægt að standa
vörð um barnafólkið í bænum, ekki
megi þyngja byrðar þess.
„Svo leggjum við áherslu á
íbúalýðræði og breytt vinnulag. Íbúar
verða að hafa betri og meiri aðkomu
að veigamiklum málum á borð
við skipulag og sameiningu skóla.
Umhverfismálin eru líka í forgrunni.
Hér höfum við frábæra náttúru,
strönd og útivistarsvæði og viljum
halda því óspilltu sem enn er óspillt.“
Meirihlutinn
byggði á
góðærissandi
„Helstu áherslur okkar snú-
ast um að standa vörð um
þá grunnþjónustu sem nú
þegar er veitt í bæjarfélag-
inu og halda áfram aðhalds-
aðgerðum,“ segir Ásgerður
Halldórsdóttir, bæjarstjóri
og oddviti sjálfstæðis-
manna. „Það skiptir máli að
haga kostnaði í samræmi
við tekjur bæjarins á meðan við finn-
um fyrir lækkandi tekjum.“
Ásgerður segir að ráðist hafi verið
í aðhaldsaðgerðir síðast-
liðið haust. Tekist hafi að
draga kostnað saman um
hundrað milljónir króna
sem komi fram í ársreikn-
ingi. Þetta hafi verið unnið
í samstarfi við forstöðu-
menn sviða og stofnana
bæjarins og þeirri vinnu
verði framhaldið.
Ásgerður segir engar stórar fram-
kvæmdir á stefnuskrá sjálfstæðis-
manna fyrir næsta kjörtímabil. Hún
sjái fyrir sér að viðhaldsverkefnum
verði haldið áfram.
„Við viljum halda áfram að styðja
vel við ungar barnafjölskyldur
og samþykktum nýlega að auka
niðurgreiðslur til foreldra sem eru
með börn hjá dagforeldrum svo
þeir hafi raunverulegt val um hvort
börnin séu hjá dagforeldrum eða á
leikskóla. Einnig ætlum við að styðja
áfram þá öflugu starfsemi sem er í
grunnskólanum og félagsmiðstöð-
inni.“
Stöndum vörð um grunnþjónustuna
Björn Þór
Sigbjörnsson
bjorn@frettabladid.is