Fréttablaðið - 10.09.2010, Blaðsíða 22
22 10. september 2010 FÖSTUDAGUR
Fyrir skemmstu gerði Ríkisend-urskoðun alvarlegar athuga-
semdir við stöðu og stjórnun á
málefnum fatlaðra. Geðhjálp tekur
undir þá gagnrýni og sérstaklega
það að stefnumótun og eftirlit með
þjónustunni hefur verið í ólestri.
Aðgreining ráðuneyta velferðar-
mála í heilbrigðis- og félagsmála-
ráðuneyti hefur lengi verið þyrnir
í augum Geðhjálpar og höfum við
lagt áherslu á að geðheilbrigðis-
mál eru og verða ætíð heilbrigðis-
og félagsmál sem líta verði heild-
stætt á. Þessi aðgreining er án efa
stór hluti ástæðunnar fyrir því að
svo er komið sem raun ber vitni og
skýrsla Ríkisendurskoðunar varp-
ar ljósi á. Þegar stefnan er óskýr,
ábyrgð og stjórnun sömuleiðis er
ekki von á góðu. Ráðuneytin hafa
löngum kastað málefnum fatlaðra
á milli sín eins og heitri kartöflu í
því skyni að losna við kostnað. Þar
að auki hefur verkaskipting ríkis
og sveitarfélaga verið óskýr. Sam-
einað velferðarráðuneyti getur og
verður að breyta þessu. Geðhjálp
styður einnig flutning á málefnum
fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
Málefni fatlaðra eiga heima sem
hluti nærþjónustunnar rétt eins og
þjónusta við aðra íbúa sveitarfélag-
anna. Þetta er grundvallaratriði og
brýnt að hugmyndafræðin á bak
við yfirfrærsluna sé á hreinu. Þess
vegna er það áhyggjuefni að ekki
liggi fyrir skýrt markmið stjórn-
valda með yfirfærslunni eins og
Ríkisendurskoðun bendir á.
Höfum hlutina á hreinu
Markmiðið má ekki vera aðeins
tæknilegt heldur verður það að snú-
ast um að bæta þjónustuna og að
koma á fót nýjum þjónustuþáttum
í því skyni að skapa fötluðum tæki-
færi til sjálfstæðs lífs og virkrar
þátttöku í samfélaginu. Allt sem
gert er í stefnumótun í málaflokkn-
um verður að miða að þessu. Not-
endastýrð persónuleg aðstoð (NPA)
og talsmannakerfi er þar ofarlega á
blaði. Þá skiptir líka miklu máli að
skilgreining og skilningur á hug-
tökum sé á hreinu. NPA er ekki
heimaþjónusta heldur persónubund-
in einstaklingsþjónusta sem tekur
mið af þörfum hvers og eins þannig
að viðkomandi geti lifað sjálfstæðu
og innihaldsríku lífi og verið virkur
þátttakandi í samfélaginu. Það má
ekki gefa neinn afslátt af þessari
hugsun. Talsmaður er sömuleiðis
aðeins talsmaður hins fatlaða sem
ekki getur gætt hagsmuna sinna
af einhverjum ástæðum en ekki
aðstandenda hans eða annarra.
Í aðdraganda að yfirfærslunni á
málefnum fatlaðra til sveitarfé-
laga þarf að ræða þessi mál miklu
meira og skapa til þess opinn vett-
vang í þjóðfélaginu þannig að sveit-
arfélögin verði sem best undirbú-
in þegar þar að kemur. Sérstaklega
er brýnt að búið verði að koma á
fót virku opinberu eftirlitskerfi i
stað hins handónýta kerfis svæðis-
ráða sem enn er við lýði. Þótt mikið
verk sé að vinna við undirbúning
yfirfærslunnar og ekki hafi verið
nægilega vel að honum staðið hing-
að til er engin ástæða til að hverfa
frá þeim áformum.
Reynslan kennir okkur
Staða fatlaðra í þeim sveitarfé-
lögum þar sem yfirfærslan hefur
þegar átt sér stað, Akureyri, Norð-
urþingi, Höfn í Hornafirði og Vest-
mannaeyjum, er mun betri en
allajafna í öðrum sambærilegum
sveitarfélögum á landinu. Reynd-
ar liggur engin heildstæð úttekt
á þessu fyrir eins og Ríkisendur-
skoðun bendir á og sýnir enn og
aftur það sleifarlag sem ríkt hefur
í málefnum fatlaðra. Af samtöl-
um við aðila í þessum sveitarfé-
lögum og þeim úttektum sem þó
hafa verið gerðar má hins vegar
draga þessa ályktun. Við þurfum
að fara óhrædd inn í það breyt-
ingarferli sem framundan er, líta
til tækifæranna en um leið gera
ríkar kröfur um að allar breyt-
ingar leiði til framfara. Það kann
að taka nokkurn tíma að fá marg-
ar hinar jákvæðu hliðar breyting-
anna fram í dagsljósið en ég er
sannfærður um að það mun gerast
og því megum við hvergi hvika frá
framtíðarsýninni. Sú staðreynd að
málefni fatlaðra eru að miklu leyti
í ólestri á Íslandi er kerfislægur
vandi. Hann snýst um vont stjórn-
skipulag sem leitt hefur til lélegr-
ar stjórnsýslu, hentistefnu og ójafn-
ræðis. Ein stærsta frumorsök þessa
vanda hefur að mínu mati verið tví-
skipting velferðarráðuneytanna
fram til þessa. Eftir höfðinu dansa
limirnir. Þetta stendur nú til bóta
og er Guðbjarti Hannessyni óskað
velfarnaðar við að sameina ráðu-
neytin og endurskipuleggja mála-
flokkinn. Um leið skorar Geðhjálp
á nýjan velferðarráðherra að taka
aðfinnslur Ríkisendurskoðunar
mjög alvarlega og kippa þeim taf-
arlaust í liðinn.
Komið að samtökum fatlaðra
Nú er komið að samtökum fatlaðra
sjálfra að líta í eigin barm og end-
urskoða sína starfshætti og fyrir-
komulag og þótt fyrr hefði verið.
Við megum ekki gleyma því að á
Íslandi leika félög fatlaðra óvenju
stórt þjónustuhlutverk í samanburði
við þau ríki sem við viljum bera
okkur saman við. Það hefur aftur
veikt samtök fatlaðra í hagsmuna-
baráttu sinni fyrir fólk með fötlun
án nokkurs vafa. Það er ekki í anda
nútímaviðhorfa og þeirra mikil-
vægu breytinga sem stjórnvöld
standa nú fyrir að félög fatlaðra séu
umsvifamikil á fasteignamarkaði
og séu ábyrg fyrir útleigu hundraða
íbúða til öryrkja. Í þvi felst augljós
hætta á hagsmunaárekstrum. Hús-
næðismál eru órjúfanlegur hluti af
velferð hvers einstaklings og með
réttu ættu hagsmunafélögin að berj-
ast fyrir rétti fatlaðra til aðgengi-
legs húsnæðis á góðum kjörum í
stað þess að hirða af þeim leigu-
tekjur og spara viðhald. Það sama
gildir um ýmsa aðra þjónustu sem
lögum samkvæmt á að hvíla á ríki
eða sveitarfélögum en félög fatl-
aðra hafa í hallæri tekið að sér. Það
er oft mjög erfitt að breyta, sam-
eina eða leggja niður stofnanir. Nú
þegar ríkið virðist ætla að ganga á
undan með góðu fordæmi er nauð-
synlegt að aðrir skoði gaumgæfi-
lega sína stöðu, endurskipuleggi
sig frá grunni og móti stefnu sem
er fólki með fötlun raunverulega til
hagsbóta en ekki hindrun.
Færi á allsherjaruppstokkun
Málefni geðfatlaðra
Sigursteinn Másson
formaður Geðhjálpar
Komið að skuldadögum í Helguvík
Álbræðsla í Helguvík hefur verið töluvert til umræðu
undanfarið vegna fyrirsjáan-
legra tafa á afhendingu orkunn-
ar. Skýringar hagsmunahópa
eru allar á sama veg. Stjórnvöld
bregða fæti fyrir atvinnuupp-
byggingu! HS Orka fær ekki leyfi
til að stækka Reykjanesvirkj-
un! Seinagangur við afgreiðslu
skipulagsáætlana! Bæjarstjór-
inn í Reykjanesbæ lagður í pól-
itískt einelti! – O.s.frv.
Umfjöllun fjölmiðla er hefð-
bundin. Hvorki er vilji né geta
til að fjalla um kjarna málsins og
stjórnmálamenn óttast óvinsæld-
ir. Þeir eru hræddir um að verða
kallaðir til ábyrgðar og þora ekki
að viðurkenna að verkefnið hafi
verið tálsýn frá upphafi.
Aðdragandinn
Þegar áform um dularfulla stál-
pípuverksmiðju í Helguvík guf-
uðu upp um miðjan þennan ára-
tug var Norðuráli boðin þar
aðstaða fyrir álbræðslu. Norð-
urál sló til og samdi um kaup á
raforku. Skipulag og umhverfis-
mat voru unnin fyrir álbræðslu,
orkuver og háspennulínur. Svo
kom kreppan og eyðilagði allt.
Eða hvað?
Orkan til álbræðslunnar
Núverandi áform Norðuráls gera
ráð fyrir að álbræðsla í Helgu-
vík verði reist í fjórum jafnstór-
um áföngum sem hver framleið-
ir 90 þús. tonna á ári, alls 360
þús. tonn. Heildar orkuþörf er
liðlega 600 MWe og þarf fyrsti
áfanginn um 150 MWe. Árið 2007
var samið við Hitaveitu Suður-
nesja (nú HS Orka) og Orkuveitu
Reykjavíkur um afhendingu
allt að 250 MWe rafafls í fyrsta
áfanga álbræðslunnar fyrir árs-
lok 2010. Jafnframt gáfu fyrir-
tækin vilyrði fyrir allt að 185
MWe til viðbótar, samtals 435
MWe, en ekki hafa verið gerðir
frekari orkusamningar.
Brauðfætur Reykjanesvirkjunar
Samkvæmt umhverfismats-
skýrslu vegna Helguvíkur frá
árinu 2007 hyggst Hitaveita
Suðurnesja tutla orku úr öllum
háhitasvæðum á Reykjanesskaga
vestan Kleifarvatns til að næra
álbræðsluna. Í Reykjanesvirkj-
un eru nú framleidd 100 MWe.
Áformað er að stækka virkjun-
ina í 200 MWe fyrir fyrsta áfang-
ann í Helguvík. Í matsskýrslu um
stækkunina frá júní 2009 er ítar-
leg umsögn Orkustofnunar um
áformin en þessi sama stofnun
veitir hið endanlega virkjunar-
leyfi. Þar kemur skýrt fram á hví-
líkum brauðfótum framkvæmdin
stendur.
Í umsögninni segir að þrýst-
ingslækkun í jarðhitakerfinu
hafi á fyrstu þremur árum nýt-
ingar orðið umtalsvert meiri en
gert var ráð fyrir. Þetta telur
Orkustofnun að eigi að hvetja til
varúðar við frekari orkuvinnslu
úr svæðinu. Þá segir að þegar
horft sé til stærðar (flatarmáls)
vinnslusvæðisins á Reykjanesi
sé það fjarri því að standa undir
fyrirhugaðri tvöföldun Reykja-
nesvirkjunar í 200 MWe til lengri
tíma. Að auki bendir Orkustofn-
un á að nýtingin bjóði heim hættu
á gufusprengingum og að kaldur
jarðsjór gæti komist inn í jarð-
hitageyminn þar sem undir-
þrýstingur er mikill. Bent er á
að virkar jarðskjálftasprungur
á jarðhitasvæðinu hafi hreyfst
a.m.k. fjórum sinnum á síðustu
öld.
Umsögn Orkustofnunar sýnir
að hugmyndir HS Orku um
stækkun Reykjanesvirkjunar
hafa frá upphafi verið óraunsæj-
ar svo ekki sé meira sagt og skýr-
ir þann vanda sem nú er uppi við
afhendingu orkunnar til Helgu-
víkur. Reyndar segist HS Orka
nú hafa nýjar upplýsingar um
jarðhitasvæðið og nú er bara að
bíða og sjá hvað sérfræðingar
Orkustofnunar segja þegar þær
berast.
Af einhverjum undarlegum
ástæðum sá Skipulagsstofnun
ekki ástæðu til að taka afstöðu til
ofangreindrar umsagnar Orku-
stofnunar í áliti sínu um mat á
umhverfisáhrifum vegna Reykja-
nesvirkjunar.
Vonbrigði á Hellisheiði
Í umhverfismatsskýrslu um
Helguvík frá 2007 segir að árið
2010 muni tvær 45 MWe vélar
bætast við Hellisheiðarvirkj-
un, tvær í Bitruvirkjun og tvær í
Hverahlíðarvirkjun, samtals 270
MWe. Orkan muni m.a. fara til
Helguvíkur. Eftir að ljóst varð að
boranir Orkuveitunnar á Skarðs-
mýrarfjalli skiluðu ekki þeim
árangri sem vonast var eftir
hefur lítið frést af orkuvinnslu
á Hellisheiði. Bitruvirkjun hefur
verið slegin af í bili og Hvera-
hlíðarvirkjun er strand í skulda-
feni Orkuveitunnar. Raforku til
Helguvíkur er því vart að vænta
úr þessari átt á þessu ári og ekki
heldur því næsta.
Engar háspennulínur
Til að koma raforkunni frá Hell-
isheiði til Helguvíkur þarf Lands-
net að reisa háspennulínur. Ekk-
ert bólar á línunum en gert er ráð
fyrir að þær liggi þvert um vernd-
arsvæði vatnsbóla höfuðborgar-
svæðisins. Þetta hljómar líkt og
Vatnsveita Reykjavíkur hafi týnst
í Orkuveitunni. Hvort skyldi vera
mikilvægara, neysluvatnið eða
álbræðslan?
Ber einhver ábyrgð?
Fróðlegt verður að fylgjast með
málinu næstu vikurnar. HS Orka
fær líklegast ekkert virkjunar-
leyfi, engin er háspennulínan og
engin orka frá Hellisheiði í sjón-
máli. Nú er líklega rétti tíminn
fyrir yfirvöld að rifja upp þær
kröfur sem gerðar voru um sam-
eiginlegt umhverfismat fyrir
álbræðslu og tengdar fram-
kvæmdir. Kröfur sem Skipulags-
stofnun og umhverfisráðuneyti
höfnuðu á sínum tíma.
Hætt er við að nú sé farið að
hilla undir dánarvottorð álbræðsl-
unnar í Helguvík og komið að
skuldadögum. En ber einhver
ábyrgð? Og gagnvart hverjum?
Hvað um allar framkvæmdirn-
ar á kostnað Reykjanesbæjar
og Helguvíkurhafnar? Hvað um
orkufyrirtæki sem lofuðu upp í
ermina á sér?
Auðvitað verður kreppu og
fjárskorti kennt um. En ábyrgð-
in liggur fyrst og síðast í óábyrg-
um loforðum um orkusölu ásamt
óraunsæjum væntingum stjórn-
valda um orku úr iðrum jarðar.
Orkumál
Sigmundur
Einarsson
jarðfræðingur
Auðvitað verður kreppu og fjárskorti
kennt um. En ábyrgðin liggur fyrst
og síðast í óábyrgum loforðum um
orkusölu ásamt óraunsæjum vænt-
ingum stjórnvalda um orku úr iðrum jarðar.
Þú getur alltaf lesið Fréttablaðið frítt á Vísi
eða fengið sendan daglegan tölvupóst
með blaði dagsins. Nánari
upplýsingar á: visir.is/dreifing
FRÉTTABLAÐIÐ Á NETINU
Plankaparket
Verð frá 7.990,- pr m2
Eik Sauvage plankar, lakkað, smellt,
burstað og micro fasað,
Framleiðsluland: Þýskaland
▲
ÚTSALA