Morgunn - 01.06.1943, Blaðsíða 67
MORGUNN
61
að gera þær tortryggilegar fáfróðu fólki, hampa því, að
myrkrið, sem oft þarf að vera um miðlana, sé til þess að
fela svikin. Ef engin svik væru, þyrfti ekkert myrkur að
vera. Sá Guð, sem talaði við Móse, vissi betur en þessir
spekingar. Hann kom venjulega til spámanns síns í myrkri
eða dimmu skýi, því að hann þekkti betur en þeir þau lög-
mál, sem sálræn fyrirbrigði verða að lúta hér í heimi.
„Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi“, sagði hann einu
sinni við Móse, og þegar Salómon, hinn spaki konungur,
hafði lokið við að byggja musterið og hafði sett sáttmáls-
örkina, þar sem guðsnálægðin átti að verða sterkust,
í dimma stúku, sagði hann: „Því að Jahve hefir sjálfur
sagt, að hann vilji búa í dimmu“.
Eitt þýðingarmesta verk Móse var það, að hann byggði
tjaldbúðina, guðshúsið, fyrir lýðinn, og leiðbeiningar til
þess fékk hann í vitrun. Það er eftirtektarvert, að öll bygg-
ing þess hefir verið við það miðuð, að þar gæti gerzt sál-
ræn fyrirbrigði. Þar var stúka aðskilin frá aðaltjaldinu
með þykkum tjöldum. Þar var Sáttmálsörkin höfð í þessu
dimma byrgi, og umhverfis náðarstólinn áttu spámenn-
irnir að vera og taka við leiðbeiningum frá þeirri háu
andaveru, sem stundum birti sýnilega dýrð sína á þessum
heilaga stað. Fortjaldið, sem Móse lét aðskilja dimmu
stúkuna frá aðaltjaldinu, er notað enn við sálrænar til-
raunir, og það er notað til varnar gegn utan að komandi
áhrifum, sem geta hindrað eða truflað fyrirbrigðin. Þekk-
ingin á þessum efnum er nú víðast horfin úr kirkjunni,
en sumstaðar sjást hennar menjar enn, eins og t. d. mun
vera um tjaldið kring um altarið í Hólakirkju, sem þjóð-
minjavörður hefir látið endurnýja þar, um leið og kirkj-
an þar var aftur færð í sitt gamla horf. Ég hygg það vera
vafalaust, að þessi tjöld umhverfis altarið séu leifar frá
þeim tíma, þegar menn vissu, að altari hverrar kirkju er
sálræn orkustöð, og að fyrirmyndin sé tekin frá hinni
fyrstu kirkju ísraels, sem Móse lét byggja eftir sálrænni
leiðsögn. „Þar vil ég eiga samfundi við ísraelsmenn og