Fréttablaðið - 13.05.2011, Blaðsíða 8
13. maí 2011 FÖSTUDAGUR
FJÖLMIÐLAR Neytendastofa hefur
bannað Morgunblaðinu að birta
auglýsingar með samanburði við
Fréttablaðið vegna villandi fram-
setningar og rangra fullyrðinga
sem fram komu í auglýsingunum.
Neytendastofa tók ríflega ár í að
úrskurða um auglýsingarnar, sem
hafa ekki verið í umferð í rúmt ár.
Í auglýsingum Morgunblaðs-
ins voru að mati Neytendastofu
rangar fullyrðingar um að Frétta-
blaðinu sé aðeins dreift á hluta höf-
uðborgarsvæðisins og Akureyri. Í
ákvörðun Neytendastofu segir að
hlutfallið sé svo hátt að orðalagið
í auglýsingunum sé rangt.
Neytendastofa telur einnig rangt
að fullyrða að fólk verji stuttum
tíma í að lesa Fréttablaðið en mun
lengri tíma í að lesa Morgunblað-
ið. Munurinn sé minni en svo að
þessi fullyrðing standist. Þá gerir
Neytendastofa einnig athugasemd-
ir við að borinn sé saman heildar-
lestur yfir vikuna á sex tölublöðum
Fréttablaðsins en sjö tölublöðum
Morgunblaðsins.
Að lokum telur Neytendastofa að
framsetning í sjónvarpsauglýsing-
um á hraðabreytingum, sem sýna
áttu muninn á lestrartíma blað-
anna, hafi verið villandi. - bj
Neytendastofa bannar auglýsingar Morgunblaðsins rúmu ári eftir að þær birtust:
Villandi og rangar fullyrðingar
DAGBLÖÐ Rúmlega ár tók að fá niður-
stöðu Neytendastofu um auglýsingar
um lestur dagblaða. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
EFNAHAGSMÁL Röng skattastefna
vinstristjórnarinnar í dýpsta
samdráttarskeiði landsins í tæp
hundrað ár án hagvaxtar gæti
valdið því að ríkið yrði gjaldþrota
eftir þrjú til fjögur ár. Þetta full-
yrðir Ragnar Árnason, prófessor
við hagfræðideild Háskóla
Íslands.
„Ríkið hækkar skatta og
gjöld og leitar uppi nýja skatt-
stofna. Það er ógn við framtak og
atvinnurekstur,“ segir hann.
Ragnar var með erindi um
tengsl skatta og hagvaxtar á
morgunverðarfundi Deloitte í
gær ásamt Völu Valtýsdóttur,
sviðsstjóra skatta- og lögfræði-
sviðs fyrirtækisins.
Ragnar fór harkalegum orðum
um stjórnvöld. Hann benti á að
íslenskt hagkerfi hefði dregist
saman um næstum ellefu prósent
á síðastliðnum þremur árum, þar
af um 3,5 prósent í fyrra. Hefði
verið haldið rétt á spilunum hefði
hagvöxtur þvert á móti getað orðið
allt að 2,0 prósent í fyrra eins og
í mörgum löndum hins vestræna
heims. Háir vextir, gjaldeyris-
höft, óstöðugleiki, árásir á grunn-
atvinnuvegi þjóðarinnar og ráða-
leysi stjórnvalda í mörgum málum
hefðu hins vegar gert illt verra, í
raun valdið því að hagvöxtur hefði
orðið 5,5 prósentum lægri en ella
og landsmenn því tapað áttatíu
milljörðum króna, samkvæmt
útreikningum hans.
Ragnar sagði mikilvægt að gera
allt til að byggja undir hagvöxt,
þar á meðal að koma því fólki í
vinnu sem vildi vinna. Hefði það
verið gert í fyrra hefði hagvöxt-
ur getað orðið sex til átta prósent,
tekjur ríkisins aukist og stjórn-
völd getað greitt niður skuldir.
„Það er nauðsynlegt að gera
vinnu ábatasamari. Allir þurfa að
sjá sér hag í því að fara út á vinnu-
markað,“ sagði Ragnar og bætti
við að í stað þess að lokka fólk út
á vinnumarkað hefði bótakerf-
ið verið styrkt og auknar byrð-
ar verið lagðar á herðar atvinnu-
rekenda. Það skilaði þveröfugum
áhrifum, fólk sæi hag sínum betur
borgið að vera á atvinnuleysisbót-
um en í vinnu og fyrirtæki gætu
ekki ráðið fólk vegna hækkunar á
sköttum og gjöldum.
jonab@frettabladid.is
Hagstjórnarmistök
gætu leitt til hruns
Allt að átta prósenta hagvöxtur hefði getað orðið hér í fyrra í stað 3,5 prósenta
samdráttar. Þjóðin tapaði áttatíu milljörðum króna vegna hringlandaháttar og
skattastefnu ríkisstjórnarinnar, að sögn Ragnars Árnasonar hagfræðiprófessors.
RANGT AÐ HÆKKA SKATTA Í MIÐRI KREPPU Ragnar Árnason hagfræðiprófessor segir
að allt hefði átt að gera til að koma fólki í vinnu. Þess í stað hafi bótakerfið verið
styrkt og álögur á fyrirtæki verið auknar. Afleiðingin verði sú að atvinnuleysi aukist.
FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
EVRÓPUMÁL, AP Nú er líklegt orðið
að Finnar styðji aðgerðir ESB um
að veita portúgölskum stjórnvöld-
um lán til að bregðast við fjárhags-
vandræðum sínum. Þrír af fjórum
stærstu flokkum Finna eru orðnir
ásáttir um að taka þátt í því.
Svokallaðir Sannir Finnar,
flokkur efasemdamanna um Evr-
ópusambandið, tilkynntu í gær að
þeir hefðu dregið sig út úr stjórn-
armyndunarviðræðum vegna
þessa. Sönnum Finnum skaut upp
á stjörnuhimininn í þingkosningun-
um í síðasta mánuði og urðu óvænt
þriðji stærsti flokkurinn.
Jyrki Katainen, væntanlegur
forsætisráðherra Finna úr Sam-
stöðuflokki, segir að samkomu-
lagið um stuðninginn feli í sér að
Portúgölum verði sett strangari
skilyrði fyrir lánveitingunni.
„Sem ábyrg Evrópuþjóð vinnum
við saman í þessari kreppu,“ segir
hann.
Neyðarláninu, upp á 78 millj-
arða evra, hefur þegar verið heitið
Portúgölum af ESB og AGS, en öll
sautján evrulöndin hafa neitunar-
vald yfir aðgerðunum, þar á meðal
Finnar.
Timo Suoini, leiðtogi Sannra
Finna, er ósáttur við framvinduna.
„Það hefði verið gaman að
vera í ríkisstjórn. Þetta var erfið
ákvörðun,“ segir hann. - kóþ
Sannir Finnar slíta stjórnarmyndunarviðræðum í Finnlandi:
Finnar styðja björgunarsjóð ESB
STYRKIR EVRUNA Framkvæmdastjórn
ESB fagnaði í gær ákvörðun Finna, og
sagði hana verða til þess að tryggja
fjárhagslegan stöðugleika í Evrópu og
Finnlandi. NORDICPHOTOS/GETTY
Skattaflóð hefur skollið á
„Það er goðsögn að hér séu lágir fjármagnstekju-
skattar,“ segir Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og
lögfræðisviðs Deloitte. Í erindi sínu tíndi hún til
mýgrút skatta af ýmsum toga sem hefðu hækkað ört
um tugi prósenta án þess að almenningur hefði gert
sér grein fyrir því. Þar á meðal hefði erfðafjárskattur
tvöfaldast, kolefnisgjald hækkað um tæp hundrað
prósent, tólf aurar bæst við hverja kílóvattstund af
seldri raforku, áfengisgjald hækkað, bankaskattur verið
tekinn upp og allt að tuttugu prósenta afdráttarskattur
verið lagður á vexti sem færu úr landi. Þá benti hún á
að þótt álagningarprósenta á fjármagnstekjur kynni að
vera hærri erlendis kæmu ýmsir liðir til lækkunar á skattinum. Því væri ekki
til að dreifa hér og því væri hann með þeim hæstu.
VALA VALTÝSDÓTTIR