Morgunblaðið - 05.01.2009, Síða 8
8 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. JANÚAR 2009
Eftir Halldór Armand Ásgeirsson
haa@mbl.is
EKKI er enn vitað nákvæmlega
hvernig drengurinn, sem handtekinn
var í Fellahverfinu á föstudagskvöld
fyrir að bera á sér hlaðna skamm-
byssu, komst yfir vopnið. Vitað er að
byssan var í eigu föður drengsins og
hann hafði fyrir henni tilskilin leyfi
þrátt fyrir að ólöglegt sé að flytja
slík vopn til landsins.
„Það er hægt að fá undanþágur
frá banninu og fá leyfi fyrir skot-
vopnum sem þessu. Eigandi byss-
unnar hefur leyfi fyrir henni,“ segir
Friðrik Smári Björgvinsson, yfir-
maður rannsóknardeildar lögregl-
unnar á höfuðborgarsvæðinu.
Drengurinn tók byssuna án vitundar
föðurins.
Eftirmál óljós
Ekki hefur fengist upplýst hvers
vegna maðurinn, sem er fyrrverandi
lögreglumaður, hefur leyfi fyrir
byssunni eða hvenær það var gefið
út.
Málið er enn í rannsókn. Skýrslu-
tökur í málinu miða að því að upplýsa
hvernig drengurinn, sem er 16 ára
gamall, komst yfir vopnið. Sú stað-
reynd getur haft áhrif á hver eftir-
málin verða.
„Það er verið að rannsaka málið
og það á eftir að skoða allar hliðar
þess. Ef það kemur í ljós að geymslu
vopnsins hefur verið ábótavant eða
farið hefur verið í bága við reglur
verður að skoða hvaða viðurlög
liggja við því – hvort sem það er sekt
eða mögulega svipting leyfis.“
Hvar var byssan geymd?
Byssan í eigu föður drengsins sem hafði fyrir henni tilskilin leyfi
Ekki enn vitað hvort vopnið var geymt með þeim hætti sem reglur kveða á um
Í HNOTSKURN
»Ólöglegt er að flytjaskammbyssur til landsins
en hægt er að fá undanþágu
frá banninu. Eigandi byss-
unnar hafði fyrir henni leyfi.
»Eigi menn fleiri en tvöskotvopn ber þeim að
geyma þau í læstum skáp
fjarri skotfærum.
EINAR K. Guðfinnsson, sjávar-
útvegs- og landbúnaðarráðherra,
telur að krónan styrkist hratt á
næstunni og skuldastaða sjávar-
útvegsfyrirtækja lagist þar með.
„Ég tel ekki þjóna miklum til-
gangi að vera að álykta mikið um
skuldir sjávarútvegsins, eða ann-
arra fyrirtækja, út frá því gengi
sem nú er. Skuldastaðan er þó al-
varleg, ég geri ekki lítið úr því. Það
bendir allt til þess að krónan styrk-
ist mikið á næstu mánuðum. Fyrir
því eru augljósar ástæður. Það hef-
ur verið jákvæður vöruskiptajöfn-
uður síðustu mánuði. Það hefur
verið mikið innstreymi af útflutn-
ingstekjum og það hefur gert meira
en að vega upp kostnað af innflutn-
ingi. Þess vegna tel ég að krónan
styrkist, og skuldastaðan þar með
batna,“ segir Einar.
Eins og greint hefur verið frá í
Morgunblaðinu skulda sjáv-
arútvegsfyrirtæki í landinu 25-30
milljarða króna miðað við núver-
andi gengi, vegna afleiðu- og gjald-
miðlaskiptasamninga sem fyr-
irtækin gerðu við gömlu bankanna.
Stærstur hluti þessara samninga
var við gamla Landsbankann en
virði samninga sem tilheyra honum
er um 18 milljarðar. Sjávarútvegs-
fyrirtæki hafa átt í viðræðum við
Landsbankann um hvernig sé
mögulegt að gera upp samningana.
Þau vilja að samningarnir séu gerð-
ir upp á gengi sem er lægra en nú
er. Gengisvísitalan er nú um 215.
Einari finnst koma til álita að gera
samningana miðað við lægri geng-
isvísitölu en nú er.
„Við þessar aðstæður sem nú eru
uppi er gengið mjög afbrigðilegt og
í raun ekki til neitt raunverulegt
markaðsverð á krónunni sem hægt
er að styðjast við til uppgjörs við
þessar aðstæður.“
magnush@mbl.is
Skuldir
minnka
Segir markaðsvirði
krónunnar vanta
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Á sjó Skuldir sjávarútvegsfyr-
irtækja munu minnka.
FRÉTTASKÝRING
Eftir Guðna Einarsson
gudni@mbl.is
KOMUGJALD á sjúkrahús er nú al-
mennt 1.400 kr. hærra en almennt
komugjald á slysadeild eða bráða-
móttöku. Það er vegna þess að það
fyrrnefnda innifelur alla þjónustu.
Þeir sem leita þjónustu slysadeildar
eða bráðamóttöku þurfa auk komu-
gjaldsins að greiða sérstaklega fyrir
ýmsar rannsóknir, t.d. röntgen-
myndir, að sögn Hönnu Katrínar
Friðriksson, aðstoðarmanns heil-
brigðisráðherra. Hún sagði að
markmiðið með komugjaldi á
sjúkrahús hefði verið að jafna þann
mun sem var á milli þeirra sem
komu á slysa- eða bráðadeild, án
þess að leggjast inn, og þeirra sem
lagðir voru inn. Þeir fyrrnefndu
greiddu komugjald og rannsóknir
en hinir ekkert.
Komugjald vegna innlagnar á
sjúkrahús, þó ekki á fæðingardeild,
tók gildi um áramótin. Það er al-
mennt 6.000 kr. en helmingi lægra
fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.
Börn yngri en 18 ára og börn með
umönnunarkort geiða ekkert.
Rætt um svipað gjald
Þegar rætt var um upptöku
komugjaldsins á Alþingi kom fram
að með því væri verið að auka sam-
ræmi í gjaldtöku. Af umræðunni
mátti ráða að komugjaldið á spítala
yrði svipað og komugjald á bráða-
móttöku. Raunin varð sú að komu-
gjald á spítala er nú almennt 6.000
kr. en 4.600 kr. almennt á slysadeild
eða bráðamóttöku.
Í umsögn meirihluta heilbrigðis-
nefndar um komugjaldið segir að
markmiðið með því sé m.a. „að auka
samræmi í gjaldtöku í heilbrigðis-
kerfinu, en þegar er innheimt gjald
vegna komu eða innritunar á m.a.
göngudeildir, dagdeildir, rannsókn-
ardeildir og bráðamóttökur sjúkra-
húsa.“ Einnig að með breytingunni
sé komið á „samræmi í gjaldtöku af
innlögn annars vegar og þjónustu á
göngu- eða bráðadeildum án inn-
lagnar hins vegar.“ Þá telji nefndin
rökrétt „að meira jafnræði sé á milli
gjalda hvort sem einstaklingur er
lagður inn eða nýtir sér göngudeild-
ir eða bráðadeildir sjúkrahúsa.“
Ásta Möller, formaður heilbrigð-
isnefndar, sagði að upphæð komu-
gjaldsins hefði ekki verið nefnd
beinlínis í heilbrigðisnefnd né held-
ur hefði upphæð þess borist frá heil-
brigðisráðuneytinu. Í umræðum
hefði hins vegar verið gengið út frá
því að grunngjaldið yrði svipað og
þegar farið væri á bráðamóttöku.
„Mér fannst við frekar ganga út frá
því að þetta væri svipuð upphæð og
inn á slysadeildina,“ sagði Ásta.
Hún benti á að ofan á komugjald á
slysadeild gætu bæst við ýmis önnur
gjöld.
Álfheiður Ingadóttir, alþingis-
maður og fulltrúi í heilbrigðisnefnd,
sagði að tveir fulltrúar heilbrigðis-
ráðuneytis auk fulltrúa Landspítala
hefðu verið meðal þeirra sem komu
á fund nefndarinnar. Eins og rakið
er í umsögn minni hluta heilbrigð-
isnefndar, þeirra Álfheiðar, Þuríðar
Backman og Eyglóar Harðardóttur,
mun meðal annars hafa komið fram
á fundinum að nýtt innlagnargjald
myndi „líklegast verða að svipaðri
fjárhæð og komugjöld sem nú eru
innheimt á slysa- og bráðadeildum,
eða um 4.000 kr.“
Í greinargerð með bandorminum
þar sem kveðið var á um upptöku
komugjalds kemur m.a. fram að
komugjöld vegna innlagnar eru inn-
heimt á sjúkrahúsum í Svíþjóð og
Finnlandi og því sé síður en svo um
einsdæmi að ræða á Norðurlöndun-
um.
Morgunblaðið/Júlíus
Gjöld Greitt er komugjald hvort sem menn koma á slysadeild eða leggjast inn, ekkert komugjald er á fæðingardeild.
Gjaldtaka samræmd
með komugjaldi
Nú greiða allir komugjald sem fá þjónustu á sjúkrahúsi
»Almenntgreiða
sjúkratryggð-
ir nú 6.000
kr. komugjald
þegar þeir
leggjast inn á
sjúkrahús.
»Greiðaþarf al-
mennt 4.600
kr. grunn-
gjald fyrir
komu á slysa-
deild og fyrir
ýmsar rann-
sóknir og
þjónustu ofan
á það gjald.
Hanna Katrín
Friðriksson
Álfheiður
Ingadóttir
Ásta Möller
Í HNOTSKURN
HÚSBÍLL af
Volkswagen
Transporter-
gerð, sem lög-
reglan leitaði að
í gær, fannst
síðdegis í gær í
grennd við
Þingvelli.
Þegar lög-
reglan lýsti eftir
bílnum kom
fram að óttast væri um eiganda bif-
reiðarinnar en síðast var vitað um
ferðir hans á nýársdag. Að sögn
lögreglunnar amaði ekkert að
manninum þegar hann fannst.
Maður og
bíll fundust
Fundinn Lögreglan
leitaði að þessum bíl.
„ÞETTA leggst
bara vel í mig og
ég er bjartsýn,“
segir Ingibjörg
Sólrún Gísladótt-
ir, utanrík-
isráðherra, en
hún fer í geisla-
meðferð á Karól-
ínska sjúkrahús-
inu í Stokkhólmi
í lok næstu viku.
Um er að ræða lokahnykkinn á
meðferð sem hófst í september þeg-
ar Ingibjörg Sólrún var greind með
heilaæxli og í Stokkhólmi eru til
tæki sem ekki eru til hér á landi.
„Þessi aðgerð tekur ekki nema
einn dag. Eftir því sem mér er sagt
tekst þetta í 85-90% tilvika og eft-
irköstin eru lítil,“ segir Ingibjörg
Sólrún og bætir við að henni hafi
verið ljóst að hún gæti þurft að fara
í þessa aðgerð og þetta komi því
ekki á óvart. Hún áætlar að vera í
3-5 daga frá vinnu. halla@mbl.is
Þetta leggst
bara vel í mig
Ingibjörg Sólrún
Gísladóttir
EKKERT nýtt hefur gerst í söl-
unni á Kaupþingi í Lúxemborg. Að
sögn Friðjóns Einarssonar, tals-
manns Kaupþings þar ytra, mun
ekkert gerast í sölu bankans fyrr
en seinna í vikunni. „Það hefur
ekkert gerst í málinu síðan fyrir
jól og ég sé ekki fram á að neitt
gerist fyrr en á næstu vikum. Þá
ættu málin að taka að skýrast
nokkuð.“
Viðræður um sölu bankans hafa
lengi staðið við líbýskan fjárfest-
ingabanka. Fullyrt hefur verið í
fréttum að kaupverð bankans sé 1
evra en kaupendur þurfi að leggja
20 milljarða króna hlutafé inn í
bankann. Viðskiptavinir bankans
eru 23 þúsund og þeir eiga sam-
tals um 800 milljónir evra hjá
bankanum. Gangi kaupin eftir fá
viðskiptavinir innstæður sínar
greiddar út. haa@mbl.is
Óbreytt staða
hjá Kaupþingi
í Lúxemborg
HALLDÓR Ás-
grímsson, fyrr-
verandi forsætis-
ráðherra og
formaður Fram-
sóknarflokksins,
er laus úr önd-
unarvél. Halldór
dvelur á gjör-
gæsludeild Land-
spítala í Fossvogi
vegna lungna-
bólgu. Hann var tekinn úr önd-
unarvélinni á laugardag.
Halldór hefur dvalið á sjúkrahús-
inu frá því fyrir jól og er líðan hans
eftir atvikum, að sögn sérfræðings
á gjörgæsludeildinni.
Halldór úr
öndunarvél
Halldór
Ásgrímsson
STUTT