Morgunblaðið - 27.02.2009, Qupperneq 24
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. FEBRÚAR 2009
Í FRÉTTABLAÐINU 19. febrúar s.l. er
fróðleg grein í samantekt Brjáns Jónassonar.
Greinin heitir „Niðurskurður líklegri en mikl-
ar skattahækkanir“.
Í greininni segir: – „Umræða um hvar skuli
höggva og hvar skuli hlífa hefur þó sjaldan
verið mikilvægari.“
Ég er sammála því að það þurfi að höggva
og hlífa. Spurningin er einnig: Er ekki líka
hægt að jafna? Það virðist sjaldan lagt til að
jafna þurfi kjör og lífsins gæði í útfærslum
hagfræðinga. Við gerð þessarar greinar er
tilkallaður einn hagfræðingur sem átti trúnað fyrrver-
andi forsætisráðherra a.m.k. um stundarsakir. Þar segir:
– Tryggvi Þór Herbertsson, prófessor í hagfræði við Há-
skólann í Reykjavík, segir að ríkið geti þurft að skera
niður allt að tíunda hluta af útgjöldum sínum. Það eru
um 56 milljarðar króna…. Þá sé einnig mögulegt að
horfa til annarra útgjalda sem stofnað hefur verið til á
undanförnum árum, til dæmis með því að skerða réttindi
til fæðingarorlofs tímabundið. Fæðingarorlofið í heild
kostar ríkið um 10,6 milljarða króna á árinu 2009.
Nú þurfa menn að vita að Tryggvi er jafnframt þátt-
takandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í
Norðausturkjördæmi svo einhvern fyrirvara
verður að hafa á skoðunum hans og lausnum.
Fram að þessu hafa sjálfstæðismenn ekki haft
neinn sérlegan áhuga á velferðarmálum og
jöfnuður ekki í orðabókum Valhallar. –Skatta-
hækkanir á þessum tímapunkti eru þó afar
óráðlegar að mati Tryggva. Skattahækkanir
eru jú ekki heldur til í orðabókum Valhallar.
Ástæðan er sú að skattahækkanir eru ein leið
af mörgum til að jafna kjörin. Ójöfnuður hef-
ur aukist jafnt og þétt frá 1993. Ójöfnuður
hefur aukist jafnt og þétt frá 2003, ef miðað er
við önnur Norðurlönd (sjá Hagstofu).
Margir eru þeirrar skoðunar að það náist „einungis“ 4
milljarðar með hátekjuskatti.
Ég tel að það megi jafna kjörin með þrepaskiptum há-
tekjuskatti.
Jöfnum kjörin í djúpri kreppu á svipaðan hátt og gert
er á öðrum Norðurlöndum. Því má nefnilega stýra með
sköttum og jafna kjörin.
Hátekjuskattur –
hvað fæst með honum?
Eftir Gísla Baldvinsson
Gísli Baldvinsson
Höfundur er náms- og starfsráðgjafi og sækist eftir 4.-6. sæti
í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.
Á ÍSLANDI hefur ávallt verið lögð áhersla
á gildi fjölskyldunnar enda grunnstoð sam-
félagsins. Áhersla og vægi fjölskyldueining-
arinnar hefur þó án efa verið eitthvað mismun-
andi allt eftir aðstæðum á hverjum tíma. Í
góðæri og á tímum mikillar uppsveiflu má vera
að meginþunginn færist um tíma á gildi ver-
aldargæða og kapp við að auka fjárhagsleg
verðmæti. Hjón sem stofna sem dæmi fyr-
irtæki verja oft öllum kröftum og atorku við
uppbyggingu þess fyrstu árin. Eðli málsins
samkvæmt situr annað á hakanum á meðan,
þar á meðal samskipti og samvera við fjöl-
skyldu.
Fyrir komandi kosningar virðist sem áhugi á velferð-
armálum sé meiri en áður. Það kemur ekki á óvart enda
þjóðin að ganga í gegnum fjárhagslegar hremmingar.
Áhyggjur sliga margar fjölskyldur um þessar mundir.
Börnin verða óumflýjanlega fyrir áhrifum enda fara þau
mörg hver ekki varhluta af áhyggjum foreldra sinna. Í
ljósi aðstæðna er ekki ósennilegt að margir kjósi þann
stjórnmálaflokk sem lýsir því yfir að ætla að leggja
áherslu á málefni fjölskyldunnar og velferð
hennar. Þetta þýðir ekki að önnur málefni séu
ekki einnig brýn. Hitt er víst að eigi fólk við erf-
iðleika að stríða hefur það margföldunaráhrif.
Almenn grunnvelferð er undirstaða farsællar
uppbyggingar. Brýnast er að koma hjólum at-
vinnulífsins af stað aftur svo forða megi sem
flestum frá gjaldþroti. Sérhver einstaklingur
þarf að geta fundið tilgang í lífi sínu. Sá sem
hvorki hefur tækifæri til að stunda vinnu né
nám er í áhættuhópi þeirra sem kenna dep-
urðar og tilgangsleysis. Rútína af einhverju
tagi er flestum mikilvæg ef ekki nauðsynleg.
Hún skapar tilfinningu um verðleika og tilgang
þegar einhver sækist eftir kröftum manns og
nærveru. Ekki er óalgengt að þeir sem hafa misst vinnu
missi sjónar á markmiðum sínum um tíma. Þessu fólki
þarf að hjálpa að finna hvar tækifæri kunna að leynast.
Þetta er meðal verkefna þingmanna á komandi misserum.
Takist vel til að bæta hag og þar með líðan fólksins er út-
koman örugg fjárfesting fyrir allt þjóðarbúið.
Fjölskyldan hornsteinn
samfélagsins
Eftir Kolbrúnu Baldursdóttur
Kolbrún
Baldursdóttir
Höfundur er sálfræðingur og gefur kost á sér í 4.-5. sæti í
prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
ER EÐLILEGT að íslenska þjóðin þurfi
að greiða hundruð milljarða króna vegna
misheppnaðrar starfsemi íslenskra banka í
nokkrum aðildarlöndum Evrópusambands-
ins? Er sanngjarnt að setja þjóðina í gapa-
stokk skulda upp á hundruð milljarða vegna
þeirrar starfsemi? Er það virkilega svo að
þjóðir sem við höfum hingað til talið meðal
vina okkar setji okkur stólinn fyrir dyrnar
og einangri okkur í viðskipta- og sam-
skiptalegu tilliti?
Þessar spurningar eru áleitnar nú þegar
vinir okkar í Evrópu undir forystu Breta reyna að
kúga okkur til að greiða tjón sem varð vegna glæfra-
legrar útrásar íslenskra fjármálafyrirtækja. Spurning-
arnar eru mikilvægar, en það er niðurstaðan sem skipt-
ir öllu máli.
Menn eru sammála um að þær reglur um fjármála-
starfsemi sem við innleiddum frá Evrópusambandinu
og fengum í morgungjöf með EES-samningnum séu
stórlega gallaðar. Regluverkið gerði klárlega ekki ráð
fyrir því að fjármálastarfsemi sem var orðin svo um-
fangsmikil sem raun ber vitni í okkar tilfelli færi öll í
þrot á sama tíma. Reglur um tryggingasjóð innistæðna
voru ekki þess eðlis að nokkur möguleiki væri fyrir
þann sjóð að standa undir svo stóru áfalli.
Sem þjóð höfum við Íslendingar alltaf staðið við
skuldbindingar okkar, ef einhverjar eru, og vissulega
viljum við gera það í þessu tilfelli. Spurningin er hins
vegar þessi: Hverjar eru skuldbindingar okkar? Er
ekki óeðlilegt og ósanngjarnt að Íslendingar taki einir
skellinn af gölluðu regluverki Evrópusambandsins sem
við fengum með EES-samningnum? Það er umhugs-
unarefni hvað Evrópusambandinu gengur til með því
að ganga hart fram með Bretum og fleirum til þess að
kúga okkur til greiðslu óbærilegra skulda sem urðu til í
skjóli gallaðra reglna frá þeim sjálfum. Ætli ástæðan
sé sú að hrikta muni í grunnstoðum fjármálakerfis
sambandsins ef látið yrði reyna á ábyrgð
þess sjálfs á eigin reglusmíð? Það er augljóst
að Evrópusambandið getur ekki skotið sér
undan ábyrgð í þessu máli og ætlast til þess
að Íslendingar greiði tjónið sem skapaðist
m.a. vegna galla í regluverki þeirra sjálfra.
Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu
þar sem samþykkt er að ganga til samninga
um Icesave-reikningana. Skilyrði þeirrar
samþykktar eru að tekið verði tillit til okkar
vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem hér hafa
skapast. Svo virðist sem viðsemjendur okkar
séu mjög einstrengingslegir og ætli í krafti
afls síns að kúga okkur til samninga. Í
nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar kemur
fram að ekki sé sjálfgefið að samkomulag takist. Um-
boð samningamanna okkar er því takmarkað.
Það sem mun standa undir viðreisn íslensks sam-
félags er skynsamleg nýting náttúruauðlinda okkar til
lands og sjávar. Við erum heppin að grunnstoðir ís-
lensks samfélags hafa ekki laskast, það er og verður
markaður fyrir endurnýjanlega orku og afurðir úr haf-
inu. Þótt verð lækki tímabundið mun það ná jafnvægi
aftur.
Verulegar líkur eru taldar á að við eigum miklar
ónýttar auðlindir á Hatton Rockall-svæðinu og svoköll-
uðu Drekasvæði. Framtíð lands og þjóðar er því björt
og komandi kynslóðir eiga ekki að þurfa að bera kvíð-
boga fyrir framtíðinni. Verði niðurstaðan sú að svokall-
aðar vinaþjóðir okkar nauðbeygja okkur til þess að
standa ein undir eða að taka þátt í greiðslum vegna
Icesave-reikninganna verður sú endurgreiðsla að vera
með þeim hætti að viðráðanlegt sé. Einn möguleikinn
er að hluti arðs af framtíðarauðlindum okkar á áð-
urnefndum svæðum renni til greiðslu á þessum skuld-
um þannig að þær verði gerðar upp á löngum tíma en
ekki sá myllusteinn um háls okkar sem annars gæti
orðið.
Icesave
Eftir Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Höfundur er alþingismaður.
Í fermingarblaði Morgunblaðsins er fjallað um allt
sem tengist fermingunni og fermingarundirbún-
ingnum ásamt því hvernig þessum tímamótum í lífi
fjölskyldunnar er fagnað. Blaðið í ár verður sérlega
glæsilegt og efnismikið.
Meðal efnis:
• Veitingar í veisluna – heimatilbúnar eða keyptar
• Mismunandi fermingar
• Skreytingar í veisluna
• Veisluföng og tertur
• Fermingartíska, stelpur og strákar
• Fermingarförðun og hárgreiðsla
• Fermingarmyndatakan
• Fermingargjafir – hvað er vinsælast?
• Hvað breytist við þessi tímamót í lífi barnanna?
• Hvað merkir fermingin?
• Viðtöl við fermingarbörn
• Fermingarskeytin
• Ásamt fullt af spennandi fróðleiksmolum
Fermingarblaðið verður borið út á hvert
einasta heimili á höfuðborgarsvæðinu
ásamt nágrannabyggðum.
Allar nánari upplýsingar veitir Katrín
Theódórsdóttir í síma 569 1105 eða
kata@mbl.is Tekið er við auglýsingapönt-
unum til kl. 16.00, mánudaginn 2. mars.
fermingar
kemur út föstudaginn 6. mars
Efnismikið sérblað Morgunblaðsins um
– meira fyrir auglýsendur
Fáðu þér áskrift á
mbl.is/askrift