Morgunblaðið - 02.10.2009, Síða 29

Morgunblaðið - 02.10.2009, Síða 29
Minningar 29 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. OKTÓBER 2009 stormsveipur og stalst henni mömmu minni frá mér, hvernig átti ég nú að lifa með henni mömmu og allt í einu þér sem kærastanum hennar. Það tók mig langan tíma að samþykkja þig, sem þriðja aðila í litlu fjölskyldunni okkar, en þér tókst að vinna hjarta mitt. Þú leyfðir mér að gera margt skemmtilegt, kenndir mér mikilvæga hluti í lífinu og þú varst umburðarlyndur, en samt strangur þegar þess var þörf. Þú varst einnig mjög gjafmildur við þá sem þér þótti vænt um. Svo komu unglingsárin og þá var gott að hafa þig nærri, sérstaklega þegar afi minn dó. Heimur minn hrundi og þá varst það þú sem pass- aðir upp á mig. Það varst þú sem studdir mig til þess að kveðja hann í síðasta skipti, og því hef ég aldrei gleymt, Óli minn. Sama gerðir þú í fyrra þegar ég þurfti að kveðja ömmu mína, þú varst þar líka fyrir mig. Hver á að styðja mig núna í þetta skipti, því nú ert það þú sem ég þarf að kveðja. Þú fórst allt of fljótt frá okkur öllum saman og ég vildi óska þess að LEON minn hefði getað fengið meiri tíma með afa sínum. Þú vannst nefnilega hjarta hans líka og hann er ennþá að leita að þér. Spyr mig oft og mörgum sinnum hvar áva (afi) er. Þú ættir að sjá hvað hann er orðinn duglegur í sundi! Ég var svo heppin að þú gafst mér tvær bestu gjafir í heimi, sem eru Ólafur Páll og Ingunn María og ég skal lofa þér því, að ég mun ávallt passa upp á þau fyrir þig. Ég skal halda áfram að styðja þau, svo þau nái að verða að einhverju eins og þú gerðir fyrir mig. Ég elska þig, elsku stjúpi, og ég á eftir að sakna þín meira en orð fá lýst og ég vona bara innilega að þú hafir það betra núna og þú sért hamingju- samur hvar sem þú ert. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, sagt við mig og sýnt mér. Vonandi færðu frið á jörðu þessi jól líka, eins og þú biður um hver jól. Þín, Halldóra Jóhanna. Við Óli deildum herbergi öll upp- vaxtarárin. Rúmt ár var á milli okkar í aldri, hann eldri. Við áttum samleið í skóla, þekktum ágætlega til vina- hópa hvor annars og deildum áhuga- málum. Við vorum hluti af fimm systkinum sem ólust upp hjá ein- stæðri móður sem lést fyrr á þessu ári. Óli var stóri bróðir minn í orði og verki. Hann var hvað líkastur móður okkar, nokkuð skapstór en hjarta- hlýr og gjafmildur. Samband Óla og mömmu var ein- stakt og vildi hann sem minnst hreyfa sig frá hennar hlið sem barn. Við vorum sendir í sveit á sumrin, ég dvaldi í sveitinni, Óli fór heim eftir 1-2 vikur með eða án vilja þeirra sem áttu að gæta hans. Einn veturinn vorum við báðir sendir á sundæfingu hjá KR í Sund- höllinni. Þetta reyndust tímamót hjá Óla, þarna fann hann sig og keppn- isskapi sínu farveg, í sundinu var hann á heimavelli. Eins og margt sem vakti áhuga Óla varð sundið honum að lífsþrá, allt snerist um sundið, betri árangur, styttri tímar, mataræði o.sv.frv. Þegar keppnis- ferli lauk tók hann til við sundþjálfun með sama áhuga og krafti. Við gátum oft ergt mömmu sem ungir menn, komið mjúkir heim af trallinu og sungið hástöfum fyrir hana á bílaplaninu fyrir framan blokkina sem við bjuggum í. Við eitt slíkt tækifæri klifraði Óli upp tvær hæðir bara til að faðma mömmu sem stóð á svölunum og var lítið hrifin. Bróðir minn missti aðeins fótanna þegar móðir okkar varð fyrir skot- árás sjúks manns sem tengdist okk- ur. Óli hafði eftir miklar fortölur þann daginn fengist til að sækja landsliðsæfingu í sundi sem hann hafði trassað í nokkurn tíma þar sem hann þorði ekki að fara af heimilinu vegna viðkomandi einstaklings, en mamma sannfærði hann um að allt yrði í lagi. Eftirleikurinn varð Óla gríðarlegt áfall enda búinn að passa mömmu lengi. Glímdi hann við þessa atburði um árabil. Hann þáði loksins hjálp og í kjölfarið flutti hann til Ísafjarðar sem reyndist honum mikið gæfu- spor. Þar fann hann ástina sína og lífsförunaut, Svanhvíti. Hann hóf þjálfun hjá Vestra og ekki leið á löngu þar til iðkendur hans tóku að blómstra í landsliðinu og sumir rötuðu alla leið á Ólympíu- leika. Það var gott að koma til litlu fjöl- skyldunnar á Ísafirði, andrúmsloftið afslappað. Það sem þau komust ekki yfir að gera í dag beið bara rólega morgundagsins. Óli var góður pabbi, þrjú börn fundu hann í því hlutverki og meira en gerist og gengur þar sem sund- þjálfunin gaf honum meiri tíma heima hjá börnunum. Mín börn minnast hans sem Óla platkarls en hann hafði eins og ég gaman af að segja krökkunum vel ýktar sögur. Það er lítið hægt að segja eða gera sem huggar Svanhvíti, Hönnu Dóru, Ólaf Pál eða Ingunni Maríu á þessari stundu. Óli tapaði ekki oft glímum í sínu lífshlaupi en núna laut hann í lægra haldi fyrir illvígum sjúkdómi. Síðasta verk hans var að halda upp á afmæli Svanhvítar. Morguninn eftir var hann allur. Óli heldur því áfram að passa mömmu. Guð launi honum erfiðið og blessi um leið alla syrgj- endur. Birgir og fjölskyldan Leiðhömr- um. Þau voru þung sporin sem ég tók þriðjudaginn 22. september er ég fékk fréttirnar um að Ólafur bróðir minn væri að kveðja þetta líf. Hann var ætíð minn besti vinur jafnframt því að vera bróðir minn. Hann studdi mig á erfiðum stundum í lífi mínu og var ætíð tilbúinn að rétta hjálpar- hönd ásamt konu sinni Svanhvíti. Er ég lít til baka þá minnist ég allra af- reka hans í sundinu og fyllist stolti yfir að hafa átt hann sem bróður. Með þessum orðum kveð ég ást- kæran bróður og vin. Ég bið góðan Guð að veita eiginkonu og börnum hans styrk í sorginni. Guð blessi minningu hans. Þórhallur. Þú, sem eldinn átt í hjarta, óhikandi og djarfur gengur út í myrkrið ægisvarta eins og hetja og góður drengur. Alltaf leggur bjarmann bjarta af brautryðjandans helgu glóð. Orð þín loga, allt þitt blóð; á undan ferðu og treður slóð. Þeir þurfa ekki um kulda að kvarta, sem kunna öll sín sólarljóð. Þú, sem eldinn átt í hjarta, yljar, lýsir, þó þú deyir. Vald þitt eykst og vonir skarta, verk þín tala, þótt þú þegir. Alltaf sjá menn bjarmann bjarta blika gegnum húmsins tjöld. Eldurinn hefur æðstu völd; uppskera hans er þúsundföld. Mannssálin og myrkrið svarta mundu án hans dauðaköld. (Davíð Stefánsson.) Ég kveð þig nú, kæri bróðir, en hugur minn er hjá Svanhvíti og börnum sem hafa misst mest allra. Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum. Einar Viðar Gunnlaugsson. Í dag er sorg í hjörtum margra þar sem þau minnast góðs manns sem ef- laust hefur breytt lífi þeirra á einn eða annan hátt. Hann var sonur, eig- inmaður, faðir, bróðir og frændi. Við minnumst hans sem barn og ungs manns og eigum eftir að sakna hans. Óli var mikill sundmaður enda byrj- aði hann víst snemma, að sögn móð- ur okkar, að synda. Hann synti sitt fyrsta sund í tjörninni, þar sem ísinn brotnaði undan Óla og eins bróður hans. Fengu þeir skömm í hattinn fyrir, frá mömmu. En svo varð þetta að ævistarfi og ástríðu hans. Hann var einnig mikill aðdáandi Bítlanna, mér til mikils hryllings. Sem unglingur varð ég oft að hlusta tímunum saman á þessa stráka og fékk sjaldan að spila minn Donny Os- mond. Ég gleymdi Donny en hann hélt trú sinni við Bítlana og má sjá þá enn prýða veggi heimili hans. Og það lýsir því hver Óli var. Trúr þeim sem áttu hann að. Trúr fjöl- skyldu sinni. Þegar mamma varð veik, þá vék hann ekki frá henni. Einu sinni kom ég að þeim á sjúkrastofunni og sá þar sem hann hélt í hönd á mömmu. Ég gat ekki annað en brosað og fundið hlýju gagnvart honum. Þar sá ég aft- ur strákinn sem hann var, alltaf svo trúr og fylginn sér. Það var ekki allt- af dans á rósum hjá Óla bróður, en hann tók á því með einlægri ákveðni og styrk sem við þekktum hann fyrir. Í orðum Lennons og Jesú var talað um betri veröld. Þar sem engin yrðu tárin. Þar sem stríð yrðu ekki háð. Þar sem allir lifðu í sátt. Ég vona að við hittumst aftur, bróðir sæll, í þeirri veröld. Við getum þá sest nið- ur með kaffi og rætt strákana og líf okkar saman sem börn, unglingar og fullorðið fólk. Hvíldu í friði, kæri bróðir, until we meet again. Þín yngsta systir, Fanney. Ég veit þú fékkst engu, vinur, ráðið um það, en vissulega hefði það komið sérbetur, að lát þitt hefði ekki borið svo bráðan að. Við bjuggumst við að hitta þig oft í vetur. Og nú var um seinan að sýna þér allt það traust, sem samferðafólki þínu hingað til láðist að votta þér. Það virtist svo ástæðulaust að vera að slíku fyrst daglega til þín náðist. (Tómas Guðmundsson.) Það er sagt, að oft sé skammt stórra högga á milli. Fyrst Ella amma, nú þú, Óli frændi, Óli plat- karl. Ég man, hvað mér þótti þú ótrúlega töff, þegar ég var yngri. Varst með sítt hárskott, reyktir pípu, hlustaðir á Bítlana og sagðir okkur systkinunum platsögur. Síðan þegar árin tóku að líða og ég kynntist þér á annan hátt, t.d. í gegnum ungbarna- sundið, sá ég að það álit sem ég hafði á þér í barnæsku var að fullu verð- skuldað. Þú varst í senn flottur, fyndinn og skemmtilegur, en jafn- framt gefandi og góð manneskja. Þau eru stór skörðin sem höggvin hafa verið í fjölskylduna og er hugur minn hjá Svanhvíti og börnum ykkar á þessari stundu. Um leið og ég kveð þig, Óli frændi, óska ég þess að allar góðar vættir verndi og styrki þá sem eftir lifa. Þorsteinn Mar Gunnlaugsson. Hugurinn leitar aftur í tímann og minningarnar þyrlast upp. Skemmti- legir góðir tímar sem verða ljóslif- andi og virðast enn mikilvægari nú þegar þú, Óli minn, hefur kvatt okk- ur að sinni. Ég hitti Óla fyrst þegar ég var 11 ára á minni fyrstu æfingu hjá sund- deild KR. Síðan þá höfum við alla tíð verið í sambandi og miklir vinir. Strax í upphafi skynjaði ég forystu- og keppniseiginleika Óla Þórs. Við sundkrakkarnir urðum eins og stór- fjölskylda, alltaf saman utan laugar sem innan. Margt var brallað á þess- um tíma, m.a. voru haldin diskótek til fjáröflunar og skemmtilegast að halda þau í Djassballettskóla Báru, systur Óla, undir forystu hans. Þá var hlustað á og dansað við tónlist Bítlanna sem voru í sérstöku uppá- haldi Óla og þá einkum allt það er kom frá Lennon sjálfum. Óli var afreksmaður í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann gaf sig allan í þau verk og hugsjónir og náði þess vegna alltaf árangri. Oft er talað um í íþróttum að afreksmönn- um sé líkt við ketti, því þeir fara sín- ar eigin óhefðbundnu leiðir og þann- ig var Óli, hann fór sínar eigin leiðir að markmiðum sínum. Menn voru ekki alltaf sammála Óla Þór um þær aðferðir sem hann notaði við þjálfun, en hann lét verkin tala og sýndi fram á að hægt var að gera það ómögulega t.d. þegar hann breytti sunddeild Vestra á Ísafirði, úr litlu liði í 150 manna stórveldi við mjög ófullkomnar aðstæður til þjálf- unar, aðeins ein þriggja brauta 16 m sundlaug. Hann var með krakka á öllum aldri að æfa keppnissund. Börn og unglingar breyttust í af- reksfólk sem vann m.a. Bikarkeppni Íslands nokkur ár í röð. Sundfólkið hans komst í fremstu röð í landslið og ólympíulið Íslands. Sama var upp á teningnum þegar hann og fjöl- skylda hans fluttust til Reykjavíkur, þar sem hann fór fyrst heim til sund- deildar KR og þegar hann kom að stofnun og þjálfun sunddeildar Fjölnis hvar hann starfaði sem yf- irþjálfari í 11 ár og enn urðu ólymp- íufarar til. Óli Þór meira að segja fjarstýrði æfingum af sjúkrabeði sínum undir lokin, það átti ekki við hann að sitja aðgerðarlaus. Óli Þór starfaði samtímis við vatnsaðlögun, sundkennslu og þjálf- un afreksmanna á aldrinum þriggja mánaða til fullorðinna því hann rak eigin sundskóla, Svamla, ásamt eig- inkonu sinni, og sinnti þjálfastörfum hjá Fjölni samtímis. Árangur hans og kunnátta á sundsviði varð til þess að hann miðlaði árlega sem gesta- kennari, reynslu sinni og þekkingu til verðandi íþróttafræðinga á Íþróttafræðibraut Háskóla Íslands á Laugarvatni. Horfinn er nú frá okkur alltof fljótt einn mesti sundfrömuður sem Ísland hefur átt. Erfitt verður að fylla skarð Ólafs Þórs því að honum var ekkert óviðkomandi þegar sund var annars vegar. Hann starfaði alla tíð af mikilli ósérhlífni og óeigingirni í hinum ýmsu fagnefndum og fé- lagsmálum á vegum sundfélaga og Sundsambands Íslands ásamt félagi ungbarnasundkennara. Elsku Svanhvít mín, börnin ykkar og fjölskylda. Megi guð vera með ykkur og styrkja á þessum erfiða tíma. Söknuðurinn er sár og mikill en minningin um Óla Þór mun ætíð lifa. Hafþór, Sigríður og synir. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífs þíns nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði nú sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. (Þórunn Sigurðardóttir.) Elsku Svanhvít, Ólafur Páll, Ing- unn María, Hanna Dóra, Geir, Leon Jóhann og aðrir aðstandendur, ég sendi ykkur mínar innilegustu sam- úðarkveðjur og vona að góður Guð styrki ykkur á þessum erfiðu tímum. Martha Jörundsdóttir. Óli þjálfari eins og hann var alltaf kallaður á okkar heimili er ein af þeim persónum sem mótaði dreng- ina okkar í það sem þeir eru í dag. Fyrir 11 árum voru fyrstu kynni okkar af Óla og Svanhvíti, konu hans. Á þeim tíma var sunddeild Fjölnis að byrja. Allir synir okkar lærðu að synda hjá Óla. Á þessum tíma gengum við inn í íþrótt sem okkur óraði ekki fyrir að ætti eftir að hafa svo mikil áhrif á líf okkar. Þau hjónin hrifu okkur með krafti sínum og áhuga á því að leggja allt sitt í sundið. Allri drengirnir okkar eru íþróttamenn í dag vegna þess grunns sem Óli kenndi þeim og okk- ur hjónunum. Alltaf var það sund- maðurinn sem átti að vera númer eitt. Óli hikaði ekki við að segja hvað honum fannst um krakkana sína en aldrei í þeirra eyru. Foreldrar áttu að standa sig fyrir sundmanninn. Ef krakkinn hans Óla léttist eða mætti illa eða hvað sem var að var það for- eldrið sem átti að grípa í taumana. Við vorum uppalendur og áttum að kenna og sinna okkar börnum svo þau gætu staðið sig í því sem þau ákváðu að gera. Okkur þótti þetta strax fábær lærdómur fyrir okkur sem foreldra barna í íþróttum. Við vissum til hvers hann ætlaðist af okkur. Rýtingur í bakið var ekki hans stíll heldur kom hreint fram við alla. Óli var eini þjálfarinn sem tók einn son okkar í kennslu. Aðrir þorðu ekki að hafa hann vegna þess að hann var flogaveikur. Allir áttu rétt á því að æfa sund. Engin vanda- mál voru við þjálfun heldur bara verkefni sem átti að takast á við. Við þökkum fyrir allt sem þú hef- ur kennt okkur. Við munum búa að því alla ævi að hafa kynnst ykkur hjónunum og verðum ykkur ævin- lega þakklát. Steinunn Rósa og Kristján. Stórt skarð er höggvið í íslenskt sundlíf. Fallinn er frá sá þjálfari sem lengst hefur staðið vaktina og fært hefur íslensku sundlífi marga frá- bæra sundmenn og einstaklinga. Óli Þór sem lifði og hrærðist í sundinu af lífi og sál, gaf sundhreyfingunni mikið. Hann var litríkur karakter með festu og eldmóð, sem hreyft gat við mönnum og málefnum. Oftar en ekki varð hann sú kveikja sem þurfti til að koma af stað nýjum hugmynd- um og sjónarmiðum. Hann gat verið snöggur upp, en hann var líka jafn- fljótur niður og var ekki að erfa neitt við neinn. Óli Þór var ljúfur einstaklingur sem var vinur vina sinna, hann var uppfullur af fróðleik og áhuga um sund, og gaman var að ræða um þau mál við hann því hvergi var komið að tómum kofunum. Hann hafði ávallt fastmótaðar skoðanir og gat ávallt fært rök fyrir máli sínu. Hann var frumkvöðull í mörgum málum í ís- lensku sundlífi, svo sem útfærslum á AMÍ og stofnun hins íslenska sund- þjálfarafélags. Óli Þór þjálfaði hjá nokkrum fé- lögum á íslandi og þá stýrði hann einnig sundskóla fyrir yngstu sund- mennina með stakri prýði bæði í Reykjavík og á Suðurnesjunum. Því má með sanni segja að hann hafi komið víða við í þjálfunarferlinu og Óli Þór sé guðfaðir ótrúlega margra íslenskra sundmanna. Þegar við minnumst Óla Þórs Gunnlaugssonar kemur upp í huga okkar erindi úr Hávamálum. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. Það er sjónarsviptir að Óla Þór sem gæddi íslenska sundheima svo miklu lífi. Um leið og við sendum Svanhvíti og börnunum okkar inni- legustu samúðarkveðjur biðjum við Guð að geyma Óla Þór Gunnlaugs- son og styrkja fjölskyldu hans í sorginni. Blessuð sé minning hans. Fyrir hönd ÍRB, Steindór Gunnarsson, Eðvarð Þór Eðvarðsson og stjórnir sunddeilda Keflavíkur og Njarðvíkur. Það kom okkur félögunum í opna skjöldu þegar við fréttum af andláti Ólafs Þórs. Ekki áttum við von á því að síðustu samverustundir okkar yrðu við útför annars sundfrömuð- ar, Fylkis Ágústssonar, er lést fyrir tæpu ári síðan. Kynni okkar hófust fyrir nær þrjátíu árum þegar Óli var þjálfari Vestra á Ísafirði en við í Borgarfirði og Vestur-Húnavatns- sýslu. Þá mynduðust tengsl sem aldrei rofnuðu þó að síðustu ár yrði stundum langur tími milli endur- funda. Í þá daga var samvinna sund- félaga á landsbyggðinni með mikl- um ágætum með æfingabúðum, dómaranámskeiðum og mótum. Fyrst og fremst var hugsunin að þjappa fólki saman og vinna sundí- þróttinni sem mestan veg til fram- tíðar. Í gegnum tíðina er margs að minnast frá sundbúðum, mótum og ekki síst frá sundþingum. Þar var oft tekist á um hin ýmsu málefni og oftar en ekki fór okkar maður í pontu enda hafði hann skoðun á flestum málum sem hann barðist fyrir, en tók jafnan þeirri niðurstöðu sem kynnt var. Við félagarnir nutum góðs af mikilli þekkingu hans á sundíþróttinni og baráttu hans fyrir útbreiðslu hennar. Árangur þeirra félaga sem hann þjálfaði ber glöggt þess merki að þar fór fagmaður, sem lagði metnað og mikla vinnu í að góður árangur næðist. Þá vann hann ötullega að ungbarnasundi sem lagði góðan grunn að sundfærni barna og unglinga. Við félagarnir þökkum Óla góð kynni og ómetanlega ráðgjöf og að- stoð í tímans rás og sendum Svan- hvíti, börnum og ástvinum hans okk- ar innilegustu samúðarkveðjur. Flemming og Ingimundur.  Fleiri minningargreinar um Ólaf Þór Gunnlaugsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.