Saga - 2000, Page 17
ÞRÓUN ÍSLENZKRAR SAGNFRÆÐI FRÁ MIÐÖLDUM TIL NÚTÍMANS 15
bilið. Athyglisvert er, að ýmsir þessara sagnaritara voru tengdir
ættar- eða venzlaböndum. Auk Jóns Espólíns ber einkum að til-
greina Hannes Finnsson og Magnús Stephensen. Áhrif upplýsing-
arinnar eru mjög skýr í því sagnariti Hannesar, sem mikilvægast
má kalla, Um mannfækkun af hallærum á íslandi. Og stefnan setti
svip á flest það, sem Magnús Stephensen skrifaði um sagnfræði-
leg efni. Má þar nefna helztu rit hans á þessu sviði, sem fjalla um
sögu íslands á 18. öld (Eftirmæli átjándu aldar, dönsk gerð: lsland i
det Attende Aarhundrede).
Ymsar nýjungar komu fram í íslenzkri sagnfræði á upplýsingar-
öld, en ekki urðu áhrif þeirra allra mikilvæg til langframa. Sagna-
ritun landsmanna verður nú fjölbreyttari en áður. Þannig er farið
að fjalla um viðfangsefni, sem geta kallazt hagsöguleg, og áhugi á
þjóðfélagsþróun kemur fram í ríkari mæli en áður hafði þekkzt.
Mikill áhugi á söguspekilegum efnum birtist hjá sumum sagnarit-
urum upplýsingarinnar; það er ekki fyrr en á síðustu áratugum,
að jafnmikill áhugi á söguspeki sést í ritum íslenzkra sagnaritara.
Áhrif upplýsingarinnar eru skýr í söguspeki ýmissa höfunda og
allri túlkun þeirra á sögunni. Nefna má, að framfaramælikvarði er
lagður á gang sögunnar og andúð á hjátrú kemur mjög skýrt fram,
svo og ákveðin mannúðarstefna. Sú skoðun, að draga megi lær-
dóma af sögunni, birtist víða; í þessu sambandi er talað um kenni-
söguviðhorf. Slík viðhorf eiga sér langa sögu, en þau setja sterkan
svip á sagnaritun upplýsingarinnar.
Tímabilið frá um 1830 til um 1920
Straumhvörf urðu í íslenzkri sagnfræði, eftir að upplýsingaröld
lauk. Skörpustu skil frá þeim tíma til samtímans urðu á áttunda
og níunda áratugi 20. aldar. Fram að því er unnt að greina ákveð-
na áfanga í þróun íslenzkrar sagnfræði. Einna skýrust mörk urðu
á öndverðri 20. öld, og má setja þau um 1920.
Á tímabilinu frá um 1830 til um 1920 féll sagnaritun íslendinga
að sumu leyti í svipaðan farveg og gerðist meðal grannþjóða yfir-
leitt, en sérstakar þjóðfélagsaðstæður, sem áður voru nefndar,
sköpuðu íslenzkri sagnfræði á ýmsan hátt sérstöðu, borið saman
við það, sem gerðist hjá fjölmennari grannþjóðum. Hafa verður í
huga, hve fáir íslenzkir sagnaritarar voru. Verulegur hluti rann-