Saga - 2000, Page 140
138
LOFTUR GUTTORMSSON
drede, hvernig lýsa mætti daglegum siðvenjum löngu liðinna kyn-
slóða í ljósi þjóðfræði og menningarsögu. Ritverk Troels-Lunds
var endurútgefið hvað eftir annað og þýtt á nokkur tungumál.12
Höfundurinn sætti allharðri gagnrýni af hálfu sagnfræðinga fyrir
að hafa gefið hugmyndafluginu lausan tauminn, en með verki
sínu lagði hann grunn að lýsandi þjóðháttasögu í anda þróunar-
hyggju.13 Varla er að efa að Jónas Jónasson frá Hrafnagili þekkti til
þessa rits þegar hann hóf að efna til íslenskra þjóðhátta um síðustu
aldamót. Áframhaldandi iðkun þjóðháttasögu hérlendis á síðari
helmingi aldarinnar mælir með því að fjallað sé um þjóðhætti og
verklega menningu sem sérstakan efnisflokk í félagssögu.
Það var fyrst með vaxandi sérhæfingu í sagnfræði og þenslu há-
skólastigsins á Vesturlöndum á sjöunda áratug aldarinnar að fé-
lags- og fólksfjöldasaga afmarkaðist sem meira eða minna sjálf-
stæð undirgrein, með sínar eigin „launhelgar", tfmarit, ráðstefnur
o.þ.h. Þetta gerðist að miklu leyti fyrir áhrif hinna ört vaxandi
félagsvísinda, lýðfræði, félagsfræði og síðar mannfræði - áhrif
sem voru fjarri því einhliða heldur gagnvirk. Svo rík voru þessi
áhrif að segja má að nýtt kennimið, „félagsvísindasaga" (social
science history), hafi rutt sér til rúms í Evrópu og Norður-Amer-
íku.14 Iðkendur hinnar nýju, greinandi sagnfræði, eins og farið
var að kalla félagssöguna á áttunda áratugnum, tileinkuðu sér í
ríkum mæli kenningarleg sjónarmið í anda formgerðarstefnu og
nýmarxisma og beittu gjarnan tölfræðilegum, megindlegum að-
ferðum þar sem tölvutækni kom brátt til skjalanna. Áberandi er
hve mikil útvíkkun á verkefnasviði félagssögunnar fylgdi þessum
skoðunarhætti.15
Hér á landi varð þó nokkur bið á að félagssaga í hinum nýja stíl
ryddi sér til rúms, það gerðist ekki fyrr en um 1980. Gætir hér að
12 Dagligt liv i Norden kom út í 14 bindum á árabilinu 1879-1901.
13 Stuðst við fyrirlestur sem Bjarne Stoklund prófessor flutti á „Forsker-
kursus i historisk antropologi", Kaupmannahöfn, 28. ágúst 1980.
14 Georg G. Iggers, Historiography, bls. 59-61,65-70- Adrian Wilson, „Acritical
portrait of social history", bls. 16-20 - Peter Burke, History & Social Theory,
bls. 17-21. - Loftur Guttormsson, „Sagnfræði og félagsfræði", bls. 223-33-
15 Peter Burke, History & Social Theory, bls. 22-38. - Reinhard Sieder, „Sozial-
geschichte auf den Weg zur einer historischen Kulturwissenschaft", bls.
445-47. - Lynn Hunt, „Introduction", bls. 1-4.