Saga - 2000, Page 274
272 JÓN Þ. ÞÓR
Er þá ekki meðtalið það, sem hann skrifaði í Ægi á ritstjórnarárum
sínum þar.
En titlafjöldinn segir ekki nema hálfa sögu. Allar bækur Lúðvíks
og meiriháttar ritgerðir eru byggðar á rannsóknum frumheimilda,
skjala, bréfa, fundargerðarbóka og dagbóka, að ógleymdum við-
tölum við mikinn fjölda heimildarmanna um allt land. Heimildar-
menn hans að íslenzkum sjávarháttum voru samtals 374, hinir elstu
fæddir um miðja 19. öld. Með viðræðum við þá bjargaði Lúðvík
ómetanlegum fróðleik frá gleymsku og með söfnun munnlegra
heimilda fór hann í fararbroddi, ruddi brautina fyrir aðra fræði-
menn.
En Lúðvík stóð ekki einn að verki. Eiginkona hans, Helga J.
Proppé, studdi hann með ráðum og dáð og vann með honum að
rannsóknum og ritstörfum. Átti það ekki síst við um íslenzka sjáv-
arhætti, þar sem Helga safnaði efni úr prentmáli og handritum og
hreinskrifaði að lokum allt handritið, skýrri og fagurri rithönd.
Var oft gaman og lærdómsríkt að fylgjast með þeim hjónum er
þau unnu saman daglangt í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Þar var
aldrei slegið slöku við.
Lúðvík Kristjánsson var mikill eljumaður við rannsóknir og rit-
störf, og stundum gat virst svo sem hann ynni eftir fyrirfram-
gerðri áætlun. Þó er ég ekki viss um, að svo hafi verið. Hann var
hrifnæmur maður og fljótur að fá áhuga á viðfangsefnum. Ef und-
an eru skildar ævisögurnar, sem hann vann að á 5. áratugnum,
mynda rannsóknir hans tvær heildir: sögu 19. aldar og sögu sjáv-
arháttanna. Eins og áður var frá skýrt, hófst vinnan við 19. aldar
söguna nánast fyrir tilviljun, var eins konar hliðarspor, sem þó tók
fulla tvo áratugi. Þá sneri hann sér aftur að sjávarháttunum, tók
upp þráðinn þar sem frá var horfið, rétt eins og hann hefði aldrei
fellt verkið.
íslenzkir sjávarhættir munu vafalaust halda nafni Lúðvíks Krist-
jánssonar lengur á lofti en önnur verk hans, sem þó voru í raun
engu ómerkari. Af því verki er hann kunnur víða um lönd og naut
mikillar og verðskuldaðrar virðingar. Þessu kynntist ég vel vorið
1998. Þá efndi Sjóminjasafnið í Stokkhólmi til ráðstefnu um báta
og bátasmíði á Norðurlöndum og gaf út rit um efnið. Þar fjölluðu
þeir Lúðvík og Ágúst Ó. Georgsson um íslenska árabátinn í ágætri
grein og þegar kom að ráðstefnunni buðu Svíar Lúðvík að koma
sem heiðursgestur. Hann treystist ekki til fararinnar og var þá