Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.11.2011, Blaðsíða 41

Skinfaxi - 01.11.2011, Blaðsíða 41
 SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands 41 Það er mikið rætt um D-vítamín þessa dag- ana, og ekki að ástæðulausu. Hver rannsókn- in á fætur annarri síðustu áratugi hefur sýnt að Íslendingar fá allt of lítið af þessu mikil- væga vítamíni úr fæðunni og að styrkur D-vítamíns í blóði þeirra sem hvorki taka lýsi né önnur fæðubótarefni er töluvert undir viðmiðunarmörkum. Sérstaklega er það áber- andi að vetri til þegar sól er lágt á lofti og D-vítamín nær ekki að myndast í húðinni. Eftir áratuga margítrekaða áherslu á D-víta- mín og lýsi í öllum opinberum ráðleggingum um mataræði, og hversu nauðsynlegt það sé að taka D-vítamín aukalega, hefur boðskapur- inn loks komist rækilega til skila. Ástæðu þessa nýtilkomna áhuga má aðal- lega rekja til nýrri rannsókna sem benda til þess að D-vítamín gegni enn mikilvægara hlutverki fyrir heilsu en áður var talið. Það eru sem sagt ekki bara beinin sem þurfa á D-víta- míni að halda, heldur fjöldi annarra vefja í líkamanum. Í ljósi þessarar nýju þekkingar á hlutverki og virkni D-vítamíns hafa ráðlegg- ingar um æskilegt magn af D-vítamíni verið teknar til gagngerrar endurskoðunar víða um heim og nýjar ráðleggingar hafa sums staðar birst nú þegar. Bandaríkjamenn og Kanada- menn hafa þannig nýlega hækkað sínar ráðleggingar samkvæmt áliti sérfræðinefnd- ar á vegum Institute of Medicine. Þar er nú fullorðnum og börnum frá tveggja ára aldri ráðlagt að taka 15 míkró- grömm eða 600 alþjóðaeiningar á dag en öldruðum 20 míkrógrömm á dag (800 AE). Ráðleggingar fyrir börn eru óbreyttar, 10 míkrógrömm á dag (400 AE). Hér á landi hefur Lýðheilsustöð ráðlagt 10 míkrógrömm fyrir alla að 60 ára aldri en 15 fyrir þá sem eru eldri. Á Norðurlöndum er nú unnið að endurskoðun ráðlegginganna og taka íslenskir sérfræðingar virkan þátt í þeirri vinnu. Ekki er ólíklegt að nýju ráðleggingun- um muni svipa til þeirra amerísku, enda hafa fáar rannsóknir verið birtar sem hnekkja þeirri niðurstöðu. Það má þó benda á að íslenskar ráðleggingar um D-vítamín hafa lengi verið nokkuð hærri en þær norrænu og hefur þar verið tekið mið af íslenskum rannsóknum á D-vítamín-hag. Til að ná 10–15 míkrógrömm- um á dag er bráðnauðsynlegt að taka vítamín eða lýsi, til dæmis eina barnaskeið af þorska- lýsi og til að ná hærri skömmtum er jafnvel þörf á að taka bæði lýsi og D vítamín. Venju- legt hollt fæði veitir engan veginn nægilegt magn því að D-vítamín er aðeins í örfáum fæðutegundum, þá helst feitum fiski eins og síld, laxi eða silungi, og svo að sjálfsögðu í lýsinu. Jafnvel D-vítamínbætta fjörmjólkin inniheldur aðeins um 1 míkrógramm í einu glasi, og svipað magn er í einum diski af D-vítamínbættu morgunkorni. Að sumra mati gengu amerísku ráðlegg- ingarnar alls ekki nógu langt í átt til hækkun- ar, og það þurfi mun stærri skammta til að tryggja fólki ákjósanlegan D-vítamín-hag. Reynt hefur verið að svara gagnrýnisröddum með vísan í vandaða og umfangsmikla vinnu sérfræðingahópsins. Bent hefur verið á að enn hefur alls ekki komið nægilega skýrt í ljós að hærri skammt- ar tengist betri heilsu fyrir allan þorra fólks, og það sem meira er, að stærri skammtar geti ekki haft þveröfug áhrif á heilsutengda þætti á borð við krabbameinsáhættu, hjartasjúk- dóma og útkomu meðgöngu. Því að þótt flestir sérfræðingar séu þeirrar skoðunar að D-vítamín sé ekki það stórhættulega efni sem gjarnan var talið á árum áður, og að eiturmörk fyrir fullorðna séu líklega of varlega áætluð af alþjóðlegum stofnunum um eiturefni, er sannarlega ástæða til að fara varlega við gerð opinberra ráðlegginga fyrir allan almenning. Þá er betra að vera nokkuð viss í sinni sök og byggja ráðleggingar á traustum vísindaleg- um grunni. Ráðleggingum fyrir almenning er ætlað að fullnægja þörfum 98% heilbrigðra ein- staklinga, og samkvæmt skilgreiningu verða þá ævinlega einhverjir sem þurfa meira. Fólk, sem er mjög feitt, þarf til dæmis gjarnan að að fá meira D-vítamín til að ná æskilegum mörkum í blóði heldur en þeir grennri og eins er arfbundinn breytileiki í þörfum á D-vítamíni eins og flestum öðrum mannlegum eiginleikum. Eins getur fólk, sem er haldið ákveðnum sjúkdómum eða kvillum, haft óvenjulegar þarfir og þurft mun hærri skammta en allur þorri fólks. Það á ekki aðeins við um D-vítamín, heldur fleiri næringarefni á borð við járn og B12-vítamín, þar sem sumir sjúklingahópar þurfa miklu stærri skammta en aðrir. Þannig sérþarfir geta þó aldrei orðið til að ákvarða almennar næringarráðlegg- ingar. Þegar D-vítamín var fyrst uppgötvað á fyrstu árum síðustu aldar varð það fljótlega útnefnt sannkallað töfralyf, þar sem það í einni sviphendingu gat útrýmt landlægri beinkröm meðal barna. Sérstaklega átti það við í iðnaðarborgum Evrópu þar sem svartur kolareykurinn kom í veg fyrir eðlilega myndun D-vítamíns í húð. Nú er ný áskorun á ferðinni, þar sem almenn notkun sólarvarnar kemur í veg fyrir nýmyndun D-vítamíns, rétt eins og kolareykurinn forðum. Því er enn meiri ástæða til að tryggja börnum og fullorðnum nægi- legt D-vítamín. Laufey Steingríms- dóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands. Gleymdu ekki D-vítamíninu – þú færð ekki nóg úr matnum Pétur Eyþórsson, Glímufélaginu Ármanni, og Marín Laufey Davíðsdóttir, Héraðssambandinu Skarphéðni, voru valin glímufólk ársins 2011 en stjórn Glímusambandsins ákvað þetta á stjórn- arfundi 28. nóvember sl. Pétur er 33 ára gamall og hefur stund- að glímu í yfir tuttugu ár. Pétur hampaði Grettisbeltinu í sjötta sinn, varð tvöfald- ur Íslands- og bikarmeistari auk þess að sigra alþjóðlegt fangbragðamót á Sardiníu. Pétur hefur ótvírætt verið fremsti glímumaður Íslands undanfarin ár. Hann glímir vel og er góð fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan. Marín Laufey er 16 ára gömul og átti frábæru gengi að fagna á glímuvellin- um árið 2011. Marín vann Íslandsglím- una 2011 og hlaut þar með Freyjumen- ið í fyrsta sinn, varð tvöfaldur Íslands- meistari, leiddi sveit HSK til sigurs í sveitaglímunni auk fjölda annarra sigra. Marín er fyrirmyndaríþróttakona, jafnt innan vallar sem utan. Pétur Eyþórsson og Marín Laufey Davíðsdóttir. Pétur og Marín Laufey glímufólk ársins

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.