Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.08.2011, Blaðsíða 32

Skinfaxi - 01.08.2011, Blaðsíða 32
32 SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands Á þessu ári eru 100 ár liðin síðan Tryggvi Gunnarsson athafnamaður gaf Ungmenna- félagi Íslands spildu úr landi Öndverðar- ness í Grímsnesi til eignar sem síðar hlaut nafnið Þrastaskógur. Stjórn UMFÍ skipaði 100 ára afmælisnefnd Þrastaskógar. Í henni sátu Björn B. Jónsson formaður, Einar Kr. Jónsson og Jón Sævar Þórðarson. Í tilefni af afmæli skógarins var sett upp veglegt upplýsingaskilti um skóginn við Þrastalund. Á skiltinu eru kort af skóginum með gönguleiðum og örnefnum, upplýs- ingar um gefandann og saga skógarins sett fram í stuttu máli. Einnig var hliðið fræga, sem Ríkarður Jónsson hannaði fyrir 80 árum, lagfært og sett í upprunalegt horf. Hópur ungmenna frá Selfossi gekk alla göngustíga skógarins í sumar og tíndi rusl og klippti slútandi greinar. Fyrr á árinu voru tré og runnar fjarlægð frá göngustíg- um þar sem þrengdi að gangandi fólki. Þrastaskógur skartaði því sínu fegursta á aldarafmæli skógarins. Afmælisskógargöngur Í júlímánuði sl. var boðið upp á afmælis- skógargöngur öll þriðjudagskvöld kl. átta. Nær tvö hundruð manns mættu í þessar göngur. Hver ganga hafði ákveðið þema þar sem nokkrir einstaklingar skiptu á milli sín leiðsögn. Fyrst var saga skógarins sem Björn B. Jónsson og Einar Kr. Jónsson leiddu, þar næst lífið í skóginum sem var undir leiðsögn dr. Bjarna Diðriks Sigurðs- sonar, síðan fuglar í skóginum sem Örn Óskarsson líffræðingur sá um og síðast var tekin fyrir almenn skógrækt þar sem Böðvar Guðmundsson var í leiðsögn. 100 ár liðin síðan Tryggvi Gunnarsson gaf UMFÍ Þrastaskóg: Um 200 manns tók þátt í Þrastaskógargöngum Árvissar skógargöngur „Við vorum mjög ánægð með viðtökur almennings í skógargöngunum í sumar og þær fóru reyndar fram úr okkar björt- ustu vonum. Það hafa margir sett sig í samband og spurt hvort göngurnar verði ekki árviss viðburður hér eftir. Þetta sýnir að göngurnar hittu svo sannarlega í mark,“ sagði Björn B. Jónsson, formaður afmælis- nefndar Þrastaskógar, í samtali við Skinfaxa. Björn sagði að tímamótanna hefði verið minnst með ýmsum hætti. Upplýsingaskilti og hlið Ríkarðs Jónssonar „Við vorum með hópa af ungu fólki sem hreinsaði skóginn vel. Við gerðum enn- fremur aðgengið að skóginum betra þannig að búið er að klippa greinar sem voru farnar að vaxa inn í göngustíga. Það eru ákveðin minnismerki í skóginum sem ber að varðveita, eins og hliðið sem Rík- arður Jónsson hannaði og teiknaði á sín- um tíma. Hliðið er orðið 80 ára gamalt og var ákveðið taka það í gegn og koma því í upprunalega mynd. Þessu er lokið og við settum meira að segja réttan lit á hliðið. Hliðið á því nú að vera nákvæmlega eins og það var upphaflega. Við höfum einnig komið upp veglegu upplýsingaskilti sem er sex metrar á breidd og tveir metrar á hæðina. Skiltið á vonandi eftir að nýtast mörgum sem eiga eftir að koma í skóginn í framtíðinni. Við gerðum því mikið að því að minnast afmælisins með því opna skóginn betur og gera hann aðgengilegri fyrir almenning,“ sagði Björn B. Jónsson. Í skógargöngu í Þrastaskógi í sum- ar. Björn B. Jónsson, fyrrverandi for- maður UMFÍ, segir frá sögu Þrasta- skógar. Bjarni Dagur Sigurðsson, skóg- fræðingur, segir frá lífinu í skóginum. Alls voru haldnar fjórar skógargöng- ur í tilefni 100 ára afmælis Þrasta- skógar.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.