Morgunblaðið

Dagsetning
  • fyrri mánuðurfebrúar 2010næsti mánuður
    SuÞrMiFiLa
    31123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28123456
    78910111213

Morgunblaðið - 09.02.2010, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 09.02.2010, Blaðsíða 21
aðdáun, vinsældir og velgengni sköð- uðu hann ekki. Hjartahlýr, um- hyggjusamur og lítillátur gekk hann fram í hverjum leik, þótt mikið skap og metnaður byggi í honum. Hann var einlægur og öll hreinskilin svör skópu honum lýðhylli um leið og framgangan var glæsileg. Þjóðinni fannst hann föðurlegur leiðtogi, henni fannst að hún ætti mikið í hon- um. Hann var borgarbarn en landið allt var hans, bundinn órofaböndum við náttúruna og fólkið í landinu. Þrátt fyrir nám erlendis var það landið og þjóðin sem kallaði hann heim, hér var vettvangurinn sem hann þráði að um- breyta. Steingrímur var frumkvöðull og mörg fyrirtæki í nýsköpun síðustu ára voru hans. Hann var maður mála- miðlana og sátta, kunni öðrum betur að lægja öldur. Leiðtogahæfileikar forsætisráð- herrans voru einstakir um það deila menn ekki. Stundum var eins og fjöl- flokka stjórnir hans ættu sér sjö líf, með lagni skákaði hann mönnum og flokkum inn á völlinn og hélt ótrauður áfram. Steingrímur var mikill fund- armaður og ötull á sínum pólitíska ferli að halda sambandi við fólkið í landinu, lagði áherslu á að fundar- menn töluðu og var góður hlustandi. Ég minnist þess þegar hann sat undir ómaklegri gagnrýni og stóryrð- um á Alþingi, þá gneistaði af kapp- anum, og þegar hann svaraði réð hann yfir tilfinningum og tókst á við andstæðinginn af föðurlegri mýkt. Stefnuræða forsætisráðherra er skrifuð og oft tilþrifaminni fyrir bragðið. Hins vegar er eldhúsdags- ræðan frjálsari, þá sótti Steingrímur oft orku í gönguferð upp í Heiðmörk og andaði að sér vorkomunni. Angan vors og gróðurs gaf honum þrótt. Í blaðlausum ræðum þar sem hann var frjáls og honum hitnaði við hjarta- rætur var hann bestur og höfðu fáir roð í hann í kappræðum. Steingrímur var í raun mjög stefnufastur maður og sjálfum sér samkvæmur. Þjóð- félagsmyndin var skýr, hann studdi undirstöðuatvinnuvegi landsins, landbúnað og sjávarútveg. Hann var baráttumaður iðnaðar og nýsköpunar og sá mannauðinn og menntun í hyll- ingum. Steingrímur var framsóknar- maður af þeim meiði sem flokkurinn var stofnaður til í öndverðu og var meðvitaður um veginn sem flokknum ber að fylgja í þjóðfélagi breyting- anna. Jafnframt var hann einlægur samvinnumaður en studdi frelsi og framtak einstaklingsins en græðginni varð að halda í skefjum. Steingrímur var aldrei einn, við hlið hans stóð eiginkonan Edda Guð- mundsdóttir, myndin af þeim saman er stór og glæsileg í mikilvægum störfum fyrir okkur Íslendinga. Á kveðjustund þökkum við Margrét honum góð kynni og vinarþel. Minn- ingin um mikilhæfan þjóðarleiðtoga mun lifa. Stærst er þó minningin um drengskaparmanninn sem var alltaf hann sjálfur einlægur opinskár og hlýr. Guðni Ágústsson. Á níunda tug síðustu aldar var Steingrímur Hermannsson í hópi þeirra sem áhrifaríkastir voru í ís- lenskum stjórnmálum. Fáum afger- andi málefnum var þá ráðið til lykta án þess að hann ætti þar hlut að. Hann var flokki sínum happadrjúgur leiðtogi ekki síst fyrir þá sök að hann naut almennra vinsælda langt utan eigin raða. Sjálfstæðisflokkurinn og Fram- sóknarflokkurinn áttu tvívegis sam- starf um ríkisstjórn á þessum áratug. Það var hlutskipti okkar Steingríms í báðum þessum stjórnum að leiða það samstarf, hvor fyrir sinn flokk. Þetta var áratugur óstöðugleika á vettvangi stjórnmálanna. Frá gamalli tíð ríkti tortryggni í báðum fylkingum eins og gengur og gerist á átakavelli stjórnmálanna. Í fyrri ríkisstjórn flokkanna á þessum þverbrestasama áratug var Stein- grímur forsætisráðherra. Þrátt fyrir margvíslega erfiðleika og efasemdir tókst það samstarf vel. Forsætisráð- herrann varð oft og tíðum að sýna lip- urð og víkja af hefðbundinni línu flokks síns til að tryggja þann árang- ur. Í síðari ríkisstjórn flokkanna á þessum tíma bættist Alþýðuflokkur- inn í samstarfið. Gömul tortryggni gróf þá fljótt um sig og upp úr sam- starfinu slitnaði. Sams konar rof varð í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þrjátíu og tveim- ur árum áður með svipuðum pólitísk- um afleiðingum. Stundum verða slík- ir atburðir ekki umflúnir. Þvílík tíðindi verða tæpast án þess að þau snerti strengi tilfinninganna. Öðru verður heldur ekki haldið fram. Hitt er annað að lögmál tímans kenn- ir mönnum að meta þær taugar sem héldu þeim saman til góðra verka en huga minna að hinum sem slitnuðu. Hjartað kemur þar líka lítið eitt við sögu. Á áttræðisafmæli Steingríms Her- mannssonar þótti mér gott að finna að við gátum báðir litið til liðinnar tíð- ar í þessu ljósi. Sjálfstæðismenn sem tóku þátt í pólitísku samstarfi með Steingrími Hermannssyni við ríkis- stjórnarborðið kveðja með þökk og einlægri virðingu fyrir því fjölmarga sem hann vann þjóð sinni vel. Í dag beinist hugurinn til þeirra sem stóðu Steingrími Hermannssyni næst og sakna mest þegar hinsti spöl- urinn með honum er á endann geng- inn. Þorsteinn Pálsson. Það hafa verið mikil forréttindi fyr- ir Grænlendinga að eiga Ísland að næsta nágranna. Í þau 37 ár sem ég átti sæti á grænlenska þjóðþinginu, þar af í sjö ár sem formaður land- stjórnar, varð mér sífellt betur ljóst hversu mikill pólitískur, efnahags-, menningar- og atvinnulegur ávinn- ingur það var fyrir Grænland að eiga náin og góð samskipti við Ísland. Allt frá æskuárum mínum í Suður- Grænlandi og minnist ég með þökk allra þeirra íslensku bænda og fræði- manna sem allt fram á þennan dag hafa stutt við bakið á grænlenskum landbúnaði sem, ásamt fiskveiðum, hefur verið annar undirstöðuatvinnu- vegur þjóðarinnar frá þeim tíma er norrænir menn námu land í þessum hluta Grænlands fyrir um eitt þúsund árum. Ég er einn þeirra Grænlendinga sem vona og trúi því að gott samstarf og góð persónuleg tengsl muni um alla framtíð verða ríkjandi milli þess- ara tveggja vinaþjóða. Þau pólitísku og persónulegu viðhorf til Grænlands einkenndu Steingrím Hermannsson alla hans stjórnmálatíð. Við, grænlenskir stjórnmálamenn, eigum fjölmargar skemmtilegar minningar um heimsóknir til Stein- gríms og eiginkonu hans, Eddu, á heimili þeirra, með starfsliði í stjórn- arráðunum, og um ferðir þeirra til Grænlands. Við erum þakklátir fyrir allt það sem Steingrímur kom til leið- ar eða átti virkan þátt í fyrir Græn- land, t.d. að opna íslenskar hafnir fyr- ir grænlenskum togurum. Nýting fiskistofnanna í Norður- Atlantshafi verður alla tíð að byggj- ast á góðum, vísindalegum grunni og Steingrímur gerði sér góða grein fyr- ir því. Ég minnist þess að á erfiðum samningafundi um fiskveiðikvóta í Norður-Atlantshafi lét íslenskur fiskifræðingur þau orð falla að „fyr- irhugaðir, pólitískir fiskveiðikvótar stefna framtíð Íslands í hættu“. Steingrímur tók þessari athugasemd vel og tekið var tillit til hennar. Við lát Steingríms Hermannssonar vil ég, fyrir hönd fjölmargra græn- lenskra vina og kunningja, votta konu hans og fjölskyldu dýpstu samúð. Grænland hefur misst einn af bestu og tryggustu vinum sínum. Ég þakka Steingrími af alhug fyrir langa, per- sónulega vináttu og óska þess að samstarf og vinátta Grænlands og Ís- lands, sem hann átti ríkan þátt í að byggja upp með svo margvíslegum hætti, haldi áfram að aukast og styrkjast, báðum þessum þjóðum á norðurslóð til velfarnaðar. Blessuð sé minning Steingríms Hermannssonar. Jonathan Motzfeldt, fv. formaður landstjórnar og þjóðþings Grænlands. Þess verður getið í sögubókum að áratugirnir 1971 til 1991 hafi verið áratugir framfara á Íslandi. Í upphafi var landhelgin færð út í 50 sjómílur, svo í 200 sjómílur. Í upphafi fór verð- bólgan úr öllum böndum; að lokum tókst að hemja hana með þjóðarsátt- inni. Í upphafi var farið að ræða um náttúruvernd sem alvarlegt og brýnt pólitískt viðfangsefni. Í lok tímans var umhverfisráðuneytið stofnað þrátt fyrir eitraða andstöðu. Umbætur í fé- lags-, heilbrigðis og menntamálum urðu stórstígari en nokkru sinni fyrr eða síðar. Og í byggðamálum. Á þessum tíma sátu margar ríkis- tjórnir. Alþýðubandalagið átti aðild að fimm þeirra ráðuneyta. Steingrím- ur Hermannsson sat í sex ráðuneyt- um; fjórum með Alþýðubandalaginu. Hann var ritari Framsóknarflokksins á tímabili fyrstu vinstri stjórnarinnar 1971 til 1974 sem var jafnframt önnur vinstri stjórnin í sögunni. Frá 1971 er hann alltaf í aðstöðu til þess að hafa áhrif á þróun mála; á meirihluta þess tímabils er hann í samstarfi við Al- þýðubandalagið. Þessi staðreynd sýn- ir að Steingrímur og Framsóknar- flokkur hans málaði sig aldrei út í horn; hann var alltaf gerandi. Ég var svo heppinn að við Steingrímur vor- um saman í fjórum þessara ráðuneyta sem hann sat í – á áttunda ár alls. Sát- um saman í ríkisstjórnum á svona 800 ríkisstjórnarfundum fyrir utan alla hina fundina. En ég á ekkert nema já- kvæðar minningar frá öllum þessum fundum, sem segir heilmikið um Steingrím Hermannsson. Og kunn- ingskapur okkar og gleði stundum fram eftir kvöldum var engu líkur. Landsbergis spilaði á píanóið þegar best lét. Því miður fékk stjórnin ekki að sitja áfram eftir 1991 þó hún hefði þingmeirihluta til þess. Stærsta mál síðustu stjórnar Stein- gríms var þjóðarsáttin. Einmitt nú er hann kveður er meiri þörf en nokkru sinni fyrir breiða sátt – ekki þannig að hver og einn hafi neitunarvald heldur þannig að allir virði niðurstöður hinna lýðræðislegu stofnana samfélagsins. Lokahnykkurinn í þjóðarsáttinni voru afar umdeild bráðabirgðalög um kjaramál. Þau hefðu örugglega verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu en þá hefðum við líka haft verðbólguna í amk. 20 ár í viðbót. Eddu og niðjum þeirra Steingríms og tengdabörnum sendum við Guðrún samúðarkveðjur þegar Steingrímur Hermannsson er allur. Við sem unn- um með honum og glöddumst með honum þekktum hlýja og manneskju- lega hlið hans. Í því lá hans styrkur einnig sem stjórnmálamanns. Þær ylja hans nánustu á erfiðri stund. Svavar Gestsson. Framsóknarmenn kveðja nú mik- ilhæfan og vinsælan foringja. Stein- grímur Hermannsson tók við for- mennsku í Framsóknarflokknum eftir mikið umbrotaskeið í sögu flokksins. Hann sameinaði flokks- menn að baki sér og leiddi Framsókn og þjóðina til margvíslegra framfara. Steingrímur var vel menntaður frá virtum skólum vestanhafs. Þegar hann sneri heim flutti hann með sér nýja strauma, hugmyndir og hug- sjónir. Hann var maður nýjunga og frjálsrar hugsunar. Allt taldi hann mögulegt ef vilji væri fyrir hendi. En um leið og hann dáðist að dugnaði og framtakssemi skildi hann öðrum fremur að siðað þjóðfélag ber ríkar skyldur gagnvart þeim sem standa höllum fæti. Steingrímur lagði áherslu á drenglyndi og heiðarleika í samskiptum, var alþýðlegur í viðmóti og átti gott með samskipti við annað fólk. Manngildi ofar auðgildi voru hans einkunnarorð. Steingrímur Hermannsson naut ekki aðeins hylli meðal framsóknarmanna heldur stórs hluta þjóðarinnar. Einlægni og augljós velvilji Steingríms skapaði honum vinsemd og virðingu íslensks almennings. Steingrímur hafði mikla trú á dugnaði og getu ungs fólks til góðra verka og var óhræddur við að fela ungu fólki flókin og mikilvæg verkefni en um leið var hann sjálfur hamhleypa til verka. Steingrímur var raunsæismaður í pólitík en jafnframt hugsjónarmaður með skýr markmið. Hann hafði sterka sýn á hvernig standa bæri vörð um hagsmuni og stöðu íslenskrar þjóðar og þeirri bar- áttu lagði hann lið allt til síðasta dags. Hann unni náttúru landsins og lagði sitt af mörkum til umhverfisverndar og skógræktar. Stjórnmálaforingjar eiga ekki margar frístundir en Stein- grímur var duglegur að nýta vel þær stundir sem gáfust. Útivist, göngu- ferðir, skíði og veiði voru áhugamál hans, auk þess sem hann var lagtæk- ur smiður. Sem stjórnmálamaður markaði Steingrímur áberandi spor í sögu samtímans. Baráttan fyrir nýjungum og fjölþættara atvinnulífi var honum ofarlega í huga ásamt nýsköpun og tækniframförum. Hann lagði grunn að gerð þjóðarsáttar í efnahags- og atvinnumálum og átti stóran þátt í þeim árangri sem náðist í baráttu við verðbólguna. Steingrímur Her- mannsson skipar stóran og verð- skuldaðan sess í sögu íslensku þjóð- arinnar á síðustu áratugum 20. aldar. Framsóknarmenn minnast mikils foringja með djúpri virðingu og þakk- læti. Fyrir hönd Framsóknarflokksins votta ég aðstandendum innilega sam- úð og þakka ómetanlegt framlag í þágu Framsóknarflokksins og ís- lensku þjóðarinnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Steingrímur okkar er dáinn. Glæsi- legt æviskeið er á enda runnið. Mikl- ar vonir voru bundnar við Steingrím þegar í æsku, sakir atgjörvis og ætt- ernis. Hann var vel íþróttum búinn, námsmaður ágætur, hraustur og ákaflega kappsamur. Hann nam verkfræði í Bandaríkjunum og gerð- ist framkvæmdastjóri Rannsóknar- ráðs ríkisins. Hann var kjörinn á þing fyrir Vestfirði 1971 og starfaði hann að stjórnmálum til 1994. Steingrímur var maður hins nýja tíma, áhugamaður framan af ævi um stórvirkjanir og stóriðju fremur en flestir flokksbræður hans. Leiðir okkar lágu saman á Alþingi 1974. Hann var starfsamur stjórnmála- maður, einkar skipulagður og prýði- legur ræðumaður. Hann var ritari Framsóknarflokksins og sinnti flokksstarfi af dugnaði og ósérhlífni. Haustið 1978 tók hann sæti í ríkis- stjórn Ólafs Jóhannessonar og gegndi störfum í öllum ríkisstjórnum til 1991 nema nokkra mánuði haustið 1979. Árið 1979 var Steingrímur kjörinn formaður flokksins og leiddi hann til mikils kosningasigurs þá um haustið. Hann var fæddur foringi, glæsilegur, Leiðtogafundur í Reykjavík. Mikhail Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna hitt- ust í Reykjavík 1986. Á meðfylgjandi mynd tekur Steingrímur Hermannsson á móti Reagan við komuna til Íslands. Á Alþingi veturinn 1980- 1981. Steingrímur Her- mannsson ræðir við Geir Hallgrímsson og Ragnar Arnalds. Frá vinstri: Magnús Magnússon, Geir Hallgrímsson, Steingrímur Her- mannsson, Ólafur Ragn- ar Grímsson, Ragnar Arnalds, Tómas Árnason og Jón Helgason. SJÁ SÍÐU 22 Minningar 21 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 9. FEBRÚAR 2010

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað: 32. tölublað (09.02.2010)
https://timarit.is/issue/336648

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

32. tölublað (09.02.2010)

Aðgerðir: