SunnudagsMogginn - 10.04.2011, Page 15
10. apríl 2011 15
Og ég sé hvernig þau hreyfa sig á æfingunum og í tímunum
og hvort dansinn sé þeim eðlislægur. Sumir hafa ríkan
áhuga en þá er það líkaminn sem er ekki vel skapaður fyrir
dans. Það er oft sem það kemur fyrir. Ég sé þetta einhvern
veginn. Ég get ekki útskýrt hvernig en ég veit það þegar ég
sé það.“
Líkaminn breytist
– Nú breytist líkaminn á körlum mikið eftir að þeir eru 14,
15 ára ...?
„Jú, jú, og á dömunum líka.“
– Það er engu að síður orðið tímabært að skera úr um
þetta þá?
„Já. Ég get alveg séð hvort það leynist eitthvað að baki.
Svo kemur það fyrir að 14 ára drengur er ekki búinn að
taka út fullan vöxt en ég get engu að síður séð mikla mögu-
leika. Svo spilar margt inn í. Þegar komið er á 16 og 17 ára
aldurinn geta önnur áhugamál tekið við, hafnabolti og
stelpur,“ segir Helgi og brosir.
„Það er þá ekki hægt að breyta því. En ég get séð á þess-
um aldri hvort dansinn liggi fyrir þeim. Svo er spurning
hvort þau hafi nógu mikinn neista í sér, hvort þau vilji
þetta meira en nokkuð annað.“
Nauðsynlegt að hafa neistann
– Er neistinn nauðsynlegur til að ná á toppinn?
„Hann er nauðsynlegur til að verða atvinnudansari.“
– Er samkeppnin alltaf að aukast?
„Já. Það er það mikil samkeppni. Margir dansarar eiga
erfitt með að finna vinnu þótt þeir séu góðir dansarar. Það
er ekki nógu mikið af tækifærum. Það eru margir sem fá
góða þjálfun og eru tilbúnir að komast inn í dansflokk en
þá eru kannski ekki nógu margir flokkar. Þetta er eilíft
peningavandamál.“
– Eru þetta mikil umskipti frá því þegar þú tókst við San
Francisco-ballettinum fyrir rúmum aldarfjórðungi?
„Ég get ekki sagt það. Það var frekar hitt að þegar ég
kom hingað vildu flestir dansarar fara til New York. Það
var litið svo á að til að eiga kost á að verða atvinnudansari
yrði maður að fara til New York. En það er ekki lengur svo-
leiðis. Nú vita dansarar að þeir geta átt stórkostlegan feril
hérna, svo dæmi sé tekið, og í öðrum flokkum, fyrir utan
New York. Þegar ég byrjaði hérna vildu allir fara til New
York. Það var erfitt að fá fólk. Þegar ég tók við skólanum
kom mikið af dönsurum, sérstaklega frá Evrópu, sem voru
að leita að atvinnu og ég tók þá því það var engin önnur
lausn. Mig vantaði dansara.“
Meðalmennskunni úthýst
– Þeir hafa síðan tekið framförum í þínum höndum?
„Já.“
– Hvaða brögðum beittirðu til að fá fólk hingað?
„Þegar ég kom til San Francisco byrjaði ég á því að fá
góða danshöfunda hingað til að semja ný verk fyrir okkur.
Það var mikill áhugi á því. Svo var það kannski líka hitt að
fólk þekkti til þess að ég var stórt nafn í dansinum og vildi
laða það besta fram og skapa stórkostlegan dansflokk. Ég
var ekki ánægður með meðalmennskuna. Þetta var því
tvíþætt. Dansararnir vildu vinna fyrir mig og svo um leið
uppgötva þessa nýju balletta sem voru samdir fyrir okkur.
Við höfum yfirleitt samið fleiri nýja balletta á hverju dans-
ári en flestir aðrir flokkar. Það hefur færst í vöxt að dans-
arar vilja koma hvaðanæva að, þ.m.t. frá Asíu og Evrópu.“
Þrotlausar æfingar
– Hvernig er hinn dæmigerði dagur í lífi ballettdansara?
„Rútínan hjá okkur, sérstaklega þegar við erum að
dansa í leikhúsinu, byrjar klukkan 10 á morgnana með
upphitunaræfingu. Klukkan hálftólf eru svo æfðir mis-
munandi ballettar til klukkan hálfsex, stundum sex, og svo
er sýning um kvöldið. Að henni lokinni er dansarinn kom-
inn heim um tíu- eða ellefuleytið og er svo mættur aftur
hingað klukkan tíu að morgni morguninn eftir.
Aftur á sumrin þegar við erum að undirbúa nýju ballett-
ana og semja þá byrjum við á sama tíma en hættum yf-
irleitt um svona hálfsjö, sjö. En það er nóg að gera allan
daginn.“
– Rétt eins og þú gerðir á sjötta áratugnum horfir nú ef-
laust margt ungt listafólk á Íslandi til útlanda og veltir því
fyrir sér hvort það geti náð langt í listum á erlendri
grundu. Hver er lykillinn að velgengni í listaheiminum?
„Mikil vinna.“
– Er þetta 99% vinna og 1% hæfileikar?
„Já. Og svo heppni, að vera á réttum stað á réttum tíma.
Það skiptir miklu máli. Þetta hefur verið mikil vinna öll ár-
in sem ég hef dansað. Samkeppnin er það mikil að þú
verður að vera eins góður eða betri en dansarinn sem er
við hliðina á þér.“
– Nú er Harpan að opna í maí. Sérðu fyrir þér að hóp-
urinn geti dansað þar?
„Já. Þetta er dálítið góð spurning. Þegar ég var með hóp-
inn heima síðast og við dönsuðum í Borgarleikhúsinu var
ég hafður með í ráðum við hönnun Hörpunnar. Ég benti á
að það væri hægt að hanna húsið þannig að hópar gætu
komið þangað og dansað. Ég benti líka á að svona tónleika-
höll var byggð í Fort Worth í Texas. Ég aflaði upplýsinga
um þá höll og sendi teikningar af því hvernig væri hægt að
nota Hörpuna fyrir aðra viðburði, ef á þarf að halda.
Það væri afskaplega gaman að geta komið einu sinn enn
með dansflokkinn heim. Nú veit ég ekki hvernig tónlistar-
húsið Harpan er eða hvort ballettinn geti fengið tækifæri til
að komast þangað inn. Það væri gaman að skoða Hörpuna
og kynna sér hvernig aðstæður væru fyrir því að komast
heim aftur.“
Verður alltaf Íslendingur
– Minnst er á Ísland. Fylgistu náið með gangi mála á Íslandi
eða er hugurinn fyrst og fremst hérna?
„Það er mjög erfitt fyrir mig að fylgjast með því sem er
að gerast heima, sérstaklega í dansinum. Ég hef það mikið á
minni könnu og er það langt í burtu.“
– Þegar hagkerfið hrundi 2008 varstu þá daglega að
fylgjast með nýjustu fréttum á netinu eða hvernig heldurðu
sambandi við Ísland?
„Ég tala við bróður minn og frænkur mínar í síma og fer
oft á netið og les í blöðunum hvað er gerast heima.“
– Snerta fréttirnar þig eða ertu kannski orðinn Banda-
ríkjamaður?
„Ég get ekki sagt það. Ég er Íslendingur við beinið. Al-
gjör,“ segir Helgi og leggur áherslu á orð sín. Hann hugsar
sig síðan um og segir svo: „Ísland mótaði mig. Ég dvaldi er-
lendis í Danmörku í næstum fjögur ár áður en ég fluttist til
Bandaríkjanna. Síðan hef ég verið hér. En það er sama. Ís-
land er alltaf heimalandið,“ segir Helgi Tómasson.
Stjórnandinn fylgir blaðamanni svo að lyftunni um
klukkustund eftir að samtalið hófst. Helgi gaf þann tíma
sem þurfti. Á leiðinni gefur hann aðstoðarfólki fyrirmæli
vegna beiðni um ljósmyndir. Fer ekki á milli mála hver
heldur um stjórnvölinn. Fyrirmælin bera þó ekki vott um
stjórnsemi. Ein aðstoðarkonan kemur þá aðvífandi með
dagskrá og segir: „Hér er fimmtudagurinn“. Samt er bara
þriðjudagur.
Ljósmynd/Erik Tomasson
Yuan Yuan Tan og Damian
Smith í ballettinum RAkU
eftir Júrí Possokhov.
1992 Sæmdur heiðurstitli
American Academy of
Achievement ásamt m.a.
leikstjóranum Oliver Stone.
1993 Setur upp Þyrnirós við Konunglega danska ballettinn.
1995 Fær menningarverðlaun
The American-Scandinavian
Foundation í New York.
1996 Ballettinn flytur úr War
Memorial Opera House vegna
skjálftavirkni á San Francisco-
svæðinu. Til greina kemur
að flytja ballettinn í minna
húsnæði til langframa vegna
fjárhagserfiðleika.
2009 Afhent heiðursverðlaun
Leiklistarsambands Íslands í
Borgarleikhúsinu.
2007 Forseti Íslands,
Ólafur Ragnar Grímsson,
sæmir Helga stórkrossi
hinnar íslensku fálkaorðu.
2007 Kemur með
San Francisco-
ballettinn á Listahátíð
í Reykjavík.
1998 Ballettinn heimsækir Kaupmannahöfn og
vekur mikla athygli. Helgi dansar í Sirkuspolkinum
eftir sinn gamla lærimeistara Jerome Robbins.
2011 Lýsir yfir áhuga á að koma
með flokkinn í Hörpuna. Á tvö ár
eftir af samningnum.
1990 San Francisco-ballettinn
sýnir í Borgarleikhúsinu.
1988 Setur upp Svanavatnið í San
Francisco í fyrsta sinn. Sýningin
hlýtur lof víða um Bandaríkin.
1985 Ráðinn listrænn
stjórnandi San
Francisco-ballettsins.