SunnudagsMogginn - 01.05.2011, Side 47
1. maí 2011 47
Þ
etta var skemmtileg áskorun,“ segir Héðinn
Steingrímsson sem varð Íslandsmeistari í skák á
Eiðum um liðna helgi. Hann er stigahæsti virki
skákmaðurinn á Íslandi á listanum sem birtist 1.
maí, vantar 13 elóstig í Jóhann Hjartarson og er 20 stigum
yfir Hannesi Hlífari Stefánssyni. Þessir tveir hafa þó verið
stigahæstir íslenskra skákmanna undanfarin ár.
„Aðalatriðið er auðvitað að hafa gaman af þessu. Þetta
var í fallegu umhverfi fyrir austan, náttúrufegurðin mikil
og ég tók góða göngutúra. Hann Guðmundur Yngvi hjá
Skáksambandi Austurlands var líka duglegur að keyra mig
í sund eftir skákirnar.“
– Hvernig undirbýrðu þig fyrir skákmót?
„Maður getur undirbúið sig sérstaklega; það gerði ég
ekki fyrir þetta mót. En síðan er hægt að vinna stöðugt í að
þróa og bæta sína taflmennsku, finna nýjar leiðir og fá
hugmyndir. Og ef tækifæri gefst nýtir maður þær í svona
móti. Mér finnst almennt meira spennandi að vinna að því
að bæta styrkleika minn og skilning á skák, en að stefna að
því að vinna einhvern ákveðinn skákmann.“
– Hvað kom til að þú hættir að tefla á sínum tíma?
„Eftir að ég varð Íslandsmeistari 15 ára töldu sumir að ég
ætti að leggja taflmennskuna fyrir mig og sleppa því að fara
í háskólanám, þar á meðal sterkir erlendir skákþjálfarar.
Þá var ég kominn yfir 2500 elóstig, sem bara sterkustu
skákmenn heims hafa náð á þessum aldri, og í réttu um-
hverfi hefði ég getað stefnt á heimsmeistaratitilinn. En til
þess hefði ég þurft að fara utan, sem að var ekki raunhæft,
eða fá verulega aðstoð við rannsóknir á byrjunum, helst
aðgang að rannsóknum atvinnumanns, sem ekki bauðst.
Mig langaði til að mennta mig og fór í háskólann í tölv-
unarfræði. Ég hafði fram að því, sem barn og unglingur,
farið á skákmót í sumarfríum. Ég hef þó alltaf lesið mér til
sjálfur og tel að það sé nauðsynlegt ef að skákmaður vill ná
langt. En eftir að ég byrjaði í tölvunarfræði vann ég á
sumrin við forritun, því hagnýt reynsla er nauðsynleg í því
fagi, sumt er bara hægt að læra þannig, og þá vék tafl-
mennskan.“
– En svo byrjaðirðu aftur!
„Eftir að hafa lokið BS-prófi vann ég þrjú ár hjá Flug-
kerfum sem hugbúnaðarsérfræðingur, við að þróa íslenska
flugumferðarstjórnunarkerfið. Ég var í meistaranámi í
tölvunarfræði meðfram vinnunni og þegar ég lauk við það
langaði mig að læra meira. Í fjölskyldunni minni eru miklir
námsmenn. Það má því segja, að mér hafi runnið blóðið til
skyldunnar.
Mér fannst spennandi að taka kúrsa í rafmagnsverk-
fræði, sem snúast um hvernig gefa má tölvum raunveru-
lega greind. Það var nokkuð sem hafði heillað mig vegna
vinnu minnar við flugumferðarstjórnunarkerfið og líka í
gegnum skákina. Svona nám er ekki til á Íslandi, svo ég
fór til Bremen í Þýskalandi og vann í tvö ár við rann-
sóknir í fræðilegri taugaeðlisfræði.
Ég hafði teflt í Bundesligunni með Stuttgart, flogið í
viðureignirnar frá Íslandi, og sú síðasta var einmitt við
Werder Bremen. Ég hafði ekki teflt í talsverðan tíma þeg-
ar ég gekk til liðs við félagið. Þeir voru með sterkt lið,
kepptu um fyrsta sæti í Bundesligunni og voru með lið í
annarri deild, sem hafði rokkað á milli annarrar og
þriðju. Stefnan var að halda sæti í deildinni og einhverra
hluta vegna var ég settur á fyrsta borð, þó að ég væri ekki
stigahæstur í liðinu. En svo fór að ég fékk
átta vinninga úr níu skákum, við unnum
allar viðureignirnar, og það var nokkuð
sem alls ekki var búist við. Minn árangur í
stigum var yfir því sem þarf fyrir stór-
meistaraáfanga, en ég hefði þurft að tefla
við einn stórmeistara í viðbót. Þetta varð
til þess að ég sá að ýmislegt væri hægt í
skákinni og ákvað að gefa því séns, hellti
mér í þetta og náði stórmeistaratitli.“
– Hvað tók þá við?
„Síðan tefldi ég eitthvað með aðalliðinu,
sem varð í öðru sæti í efstu deild, og nú hef
ég yfirleitt teflt á fyrsta borði hjá Hansa
Dortmund. Við teflum í efstu deild á næsta
tímabili og ég mun tefla á hærra borði en
Íslendingur hefur áður gert í þeirri keppni.
Við erum líka í fjögurra liða úrslitum í bikarkeppninni,
teflum þar í maí, meðal annars við þýsku meistarana Ba-
den Oos, sem heimsmeistarinn Anand teflir fyrir, marg-
falda þýska meistara Köln Porz og svo lið frá Berlín.“
– Það eru ekki margir stórmeistarar virkir hér á landi?
„Já, það er rétt. Ástæðan er sú að fjárhagslega er ekki
mikið upp úr því að hafa að vera stórmeistari. Það var
betra áður en járntjaldið féll, þegar Sovétríkin sálugu
voru og hétu, því þá voru skorður við ferðalögum sov-
éskra skákmanna til Vesturlanda á skákmót. En eftir að
þetta opnaðist allt saman, þá varð mikið framboð af stór-
meisturum frá Austur-Evrópu sem undirbuðu mark-
aðinn og það varð til þess að kjörin sem stórmeisturum
stóðu til boða versnuðu til muna. Í raun er þetta þannig,
að ef ég fengi ekki stórmeistaralaun á Íslandi, þá væri
ekki hægt að stunda þetta. En launin eru ekki há, 250
þúsund fyrir skatta. Mér skilst þau eigi að samsvara lekt-
orslaunum í Háskólanum, en laun lektora séu talsvert
hærri. Þetta er ástæðan fyrir því að fjórmenningarnir,
Helgi Ólafsson, Margeir Pétursson, Jón L. Árnason og Jó-
hann Hjartarson hættu atvinnumennsku og því er eins
farið hjá mér, að ég er menntaður tölvunarfræðingur og
hefði mun hærri tekjur ef ég ynni ekki sem skákmaður.“
– Berðu skyldur gagnvart íslensku skáklífi?
„Ég tefli fyrir Íslands hönd, hef lagt mikla áherslu á það
og það hefur gengið vel hjá mér. Ég var til dæmis taplaus
á síðasta Ólympíumóti, mér skilst að það sé sjaldgæft hjá
íslenskum skákmönnum. Og með því að sigra á Íslands-
mótinu hef ég unnið mér inn rétt til þess að keppa á Evr-
ópumóti einstaklinga á næsta ári. Síðan
kenni ég skák. Ég var t.d. núna að koma
úr skákkennslu í Kópavogi, kenni um
helgina og verð með helgarnámskeið
þarnæstu helgi.“
– Hvenær verður Evrópumótið?
„Í mars á næsta ári í Búlgaríu. Síðan er
Evrópumót landsliða á Krít 1.-12. nóv-
ember í ár. Það væri gaman að fá fleiri
tækifæri til að tefla fyrir Íslands hönd, s.s.
tefla við önnur landslið og eða einvígi, ef
til vill í Hörpunni. Ég finn góða strauma
og mér finnst sérstaklega skemmtilegt að
tefla á Íslandi“
– Er skák listgrein eða íþrótt?
„Skák hefur þann mikla kost, að hún er
eins og fólk upplifir hana – það getur
fundið það sem höfðar til þess í skákinni. Áhugasviðin
eru ólík. Sumum finnst keppnin mest spennandi og fé-
lagslegi þátturinn, stemmningin í mótunum, aðrir
heillast af skák sem listgrein, vettvangi fyrir sköpun, en
síðan er líka hægt að líta á skákina sem vísindagrein,
segja má að með vissri nálgun sé skák eins og fræðileg
eðlisfræði, þ.e. í báðum tilvikum er verið að vinna með
abstrakt líkön, sem að lúta ákveðnum lögmálum og eru
einföldun á flóknari hlutum. Skákin er því eins og mál-
verk, fólk hefur tækifæri til að meta fegurðina sjálft og
hana er ekki að finna í sama þætti skákarinnar í augum
allra.“
Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is
Síðasta orðið …
Héðinn Steingrímsson
Skákin er eins og málverk
’
Mér finnst
almennt
meira
spennandi að
vinna að því að
bæta styrkleika
minn og skilning á
skák, en að stefna
að því að vinna
einhvern ákveðinn
skákmann.