SunnudagsMogginn - 08.05.2011, Blaðsíða 16

SunnudagsMogginn - 08.05.2011, Blaðsíða 16
16 8. maí 2011 L itla stúlkan sem sótt var til Grænlands var aðeins tveggja mánaða gömul. Hún var með kíghósta og átti mjög erfitt með öndun. Fjölskyldan býr í þorpi við ströndina og stúlkan komst ekki undir læknishendur fyrr en nokkrum dögum eftir að hún veiktist og var þá mjög illa haldin. Ekki er öndunarvél fyrir hendi á sjúkrahúsinu í Tasiilaq og þegar flugvélin komst loks frá Ís- landi höfðu læknar handdælt súrefni í stúlkuna í rúman sólarhring. Sjúkraflugvél Mýflugs fór frá Akureyri og lenti í Kulusuk, þangað fóru Björn Gunn- arsson læknir og Jónas Baldur Hallsson neyðarflutningamaður með þyrlu til Tasiilaq og eftir að Björn skoðaði barnið gaumgæfilega var flogið með það sömu leið. Við komuna til Kulusuk var stúlkan strax tengd við öndunarvél í vél Mýflugs. Stúlkan lá á vökudeild Landspítalans og var lengi vel í lífshættu. Nú, tveimur mánuðum eftir flugið til Íslands, er hún loks komin á almenna deild á Landspítalanum og sem betur fer að braggast. Þrjú merkileg framfaraskref Grundvallarbreyting varð í sjúkraflugi á Akureyri um 1990, að sögn Björns Gunn- arssonar læknis, þegar ákveðið var að sjúkraflutningamaður færi með í allar ferðir. Þetta var gert að áeggjan Sveinbjörns Dúasonar slökkviliðs- og sjúkraflutninga- manns. „Hér áður fyrr var ekki þjónusta um borð; fólk var sett á börur og inn í flugvél, og svo var flogið af stað. Þetta var því talsvert framfaraskref,“ segir Björn í samtali við Sunnudagsmoggann. Björn er læknisfræðilegur forstöðumaður sjúkraflugs á Íslandi, sem Mýflug sér um. Árið 2002 var stigið annað merkilegt framfaraskref, einnig að áeggjan Sveinbjörns og með stuðningi héraðslæknanna á Norður- og Austurlandi, Ólafs Hergils Oddssonar og Stefáns Þórarinssonar, þegar læknar hófu að ganga vaktir vegna sjúkraflugsins. „Fyrir kom að læknir þurfti að fylgja sjúklingi úr héraði, sumir með takmarkaða reynslu og þekkingu miðað við aðstæður, og komu ef til vill ekki heim aftur fyrr en eftir einn eða tvo daga og héraðið var því læknislaust á meðan. Það var auðvitað óþolandi ástand,“ segir Oddur Ólafsson, einn þeirra lækna á FSA sem sinna sjúkrafluginu töluvert en blaðamaður ræddi við þá Björn saman. Þriðja merkilega framfaraskrefið í þessum efnum var stigið í ársbyrjun 2006 þegar gerður var þjónustusamningur við Mýflug, eftir útboð, um sérútbúna flugvél, þá fyrstu á Íslandi. Áður þurfti að setja allan búnað í vélina fyrir hvert flug en nú er allt fyrir hendi. Miklu meiri kröfur en áður Mýflug hefur farið hátt í 500 sjúkraflug á ári síðan félagið tók við starfseminni, alls 475 að meðaltali. „Umfangið hefur ekki breyst mikið en kröfurnar eru meiri en áður. Nú er meira hugsað um gæði en fólk ekki bara sett upp í flugvél,“ segir Björn. Læknarnir benda á að í nágrannalöndunum séu það meira og minna sérmenntaðir læknar sem sinni sjúkraflugi. „Hér heima höfum við verið að færa okkur úr því að unglæknar eða læknakandídatar séu í sjúkraflugi yfir í að vera með sérfræðilækna á sérstakri vaktalínu.“ Þeir nefna að á sumrin, þegar lítt reyndir menn séu víða við störf, ungir læknar eða læknanemar, verði yfirleitt þrír til fjórir mjög alvarlegir atburðir, bílslys eða flugslys þar sem fólk hljóti slæma áverka og reyni verulega á þá sem koma að. „Menn þurfa að vera orðnir þurrir á bak við eyrun til að ráða við það. Það skiptir miklu máli því ungir læknar eða læknanemar þjóna oft stórum landsvæðum þegar umferðin er mest og slysahættan þar af leiðandi líka mest. Þegar slys verður eru góðar líkur á að þeir sem mæta á svæðið séu læknanemi og sjúkraflutningamaður með takmarkaða reynslu. Það getur tekið fjóra til fimm tíma að koma fólki á sjúkrahús en gjarnan er talað um að koma þurfi alvarlega slösuðum sjúklingi á „hátæknisjúkrahús“ innan klukkutíma, en þar sem ekki er möguleiki á því skiptir miklu máli að sú meðferð sem boðið er upp á á leiðinni sé mjög góð,“ segir Björn. Þeir Oddur standa oft vaktina og kollegar þeirra meðal reyndustu lækna sjúkra- hússins. Þeir fullyrða að fyrirkomulagið sé að mörgu leyti mjög gott en læknar hafi þó setið eftir, og Björn sé aðeins í 6% stöðu sem umsjónarmaður sjúkraflugsins. „Vandamálið er heilbrigðispólitískt,“ segir Björn. Jón Kristjánsson heilbrigð- isráðherra kom hingað til Akureyrar í byrjun árs 2002 og lýsti yfir að hér væri mið- stöð sjúkraflugs á Íslandi. Því fylgdi einhver smáupphæð, átta milljónir á fjárlögum að mig minnir, en nú fær sjúkrahúsið miklu minni peninga en það leggur í þessa starfsemi. Kostnaður FSA er rúmlega 30 milljónir króna á ári og nú vantar í raun stöðugildi og viðurkenningu á því að þetta er orðið dálítið meira starf en áður.“ Heilsugæslustöð ekki rekin í 6% starfi Segja má að smám saman hafi sjúkraflugið breyst út hálf-atvinnumennsku í atvinnu- mennsku, að sögn Odds. „Áður en Mýflug tók við voru það flugmenn sem fóru út í Grímsey og til Þórshafnar og Vopnafjarðar sem voru kallaðir í sjúkraflug þegar með þurfti; þetta var sem sagt algjör aukabúgrein, en nú eru nokkrir alltaf til taks og sinna þessu nær eingöngu. Þetta er þeirra vinna og sama þróun hefur orðið hjá sjúkraflutningamönnum. Þeir eru slökkviliðsmenn sem taka vaktir hjá Slökkviliðinu á Akureyri en áður var sjúkraflugið aukavinna hjá þeim; nú eru sjúkraflutningamenn hluti af vakt Slökkviliðsins. Þá þarf ekki að redda einhverjum í flug um jól eða ára- mót heldur er alltaf einhver tilbúinn.“ Öðru máli gegnir um lækna, að sögn Björns og Odds. „Læknarnir sitja eftir. Nú er aðeins 6% starfshlutfalls eins læknis vegna sjúkraflugs á Íslandi og það er ekki nóg, þótt læknir sé ekki með í för nema í helmingi ferðanna,“ segir Oddur Ólafsson. „Líta má á sjúkraflugið eins og litla heilsugæslustöð úti á landi, og allir sjá að slík stöð verður ekki rekin með lækni í 6% starfi. Þar verður að hafa starfsfólk í fastri vinnu sem sinnir fyrst og fremst stöðinni en ekki öðru,“ segir Oddur. „Þetta gengur ekki til lengdar. Við erum með frumskyldur við aðra vaktavinnu, og fólk býður sig fram á aukavaktir vegna sjúkraflugsins en auðvitað getur verið erfitt að manna þær. Breytingar yrðu mjög til góðs og eins það ef sérmenntaðir læknar yrðu meira á ferðinni í stað unglækna því flug getur verið mjög krefjandi og er oft ekki verkefni fyrir þá sem eru lítið reyndir.“ Þeir segja stjórnunarvandann felast í því að ekki séu til sérstakar reglur varðandi fyrirkomulag sjúkraflugs og enginn einn sem stjórni. „Þetta snýst ekki um að við séum að biðja um hærri laun eða neitt slíkt. Við fáum ágætlega borgað og erum fyrst og fremst að hugsa um gæði þjónustunnar og teljum nauðsynlegt að breyting verði á,“ segir Björn Gunnarsson. Fljúgandi gjörgæsla Mýflug fer hátt í 500 sjúkraflugferðir á ári. Morgunblaðið kynnti sér starfsemina og slóst m.a. í för þegar veikt barn var sótt til Grænlands. Læknar og flugmenn segja lykilatriði að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki lagður niður. Texti og ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.