SunnudagsMogginn - 29.05.2011, Blaðsíða 21
29. maí 2011 21
H
erta Müller hefur verið umsetin frá því að
hún fékk nóbelsverðlaunin í bókmenntum
árið 2009 og svarar erindum um að koma
fram sjaldnast játandi. Hún er þó á leið til
Íslands í haust og verður gestur bókmenntahátíðar,
sem fram fer í Reykjavík 7. til 11. september. Ástæðan
er sú að henni var boðið að koma hingað áður en hún
fékk nóbelsverðlaunin og vildi hún standa við vilyrðið,
sem hún þá hafði gefið um að koma.
Í haust kemur einnig út þýðing á nýjustu skáldsögu
Müller, Atemschaukel. Bjarni Jónsson er að þýða bók-
ina og segir að hún sé skrifuð í þeim sérstæða stíl, sem
einkenni aðrar sögur hennar.
„Ekki er beint hægt að segja að stíllinn sé flæðandi
og lesandi, sem er að kynnast henni í fyrsta sinn, mun
rekast á hvað formhugsun hennar byggist mikið á
myndmáli, sem við myndum tengja við absúrdisma
frekar en natúralisma.“
Bjarni segir að mikið búi undir orðum Müller. „Hún
býr til orð og heiti bókarinnar, Atemschaukel, er dæmi
um það,“ segir hann. Atem þýðir andardráttur og
Schaukel róla. Bjarni segir að kannski megi segja and-
sláttur á íslensku. „Hún skeytir saman orðum þegar
hún lýsir andardrætti manneskju sem býr við hung-
ursneyð og það koma sveiflur í andardráttinn.“
Bókin er byggð á dagbókum og æviminningum ljóð-
skáldsins Oskars Pastiors, sem lést árið 2007.
„Guðbergur hefur þýtt og birt ljóð eftir hann,“ segir
Bjarni. „Herta Müller vinnur að
sumu leyti í hans anda í bókinni.
Áhrifin af bókinni verða aldrei
skilin alveg frá þessu skáldi, þótt
Herta skrifi hana alls ekki sem
ævisögu hans. Sagan tengist fimm
ára dvöl í gúlagi í Sovétríkjunum
þangað sem Rúmeníu-Þjóðverjar
voru sendir unnvörpum, bæði
karlar og konur í lok seinni heims-
styrjaldar. Frásögnin er fyrst og fremst lýsing á skorti,
hún lýsir hungri og í raun lífi fólks, sem ekkert á og sér
ekki fram á að eiga neina framtíð.“
Mögnuð lýsing á skorti og drifkraftinum í skortinum
Bjarni lýsir því hvernig fangarnir í gúlaginu eru í nauð-
ungarvinnu fyrir Rússa og rússnesk fyrirtæki. „Fanga-
búðirnar eru eins og nýlenda sem hefur verið flutt frá
Transylvaníu eða Siebenburgen yfir á gresjurnar,“ segir
Bjarni. „Í öllum þessum lýsingum, sem tengjast mjög
sterkt árunum eftir seinni heimsstyrjöldina, tekst
henni líka að búa til mynd af okkar eigin nútíma-
samfélagi, vegna þess að fólkið í vinnubúðunum geng-
ur í gegnum sömu hluti og við gerum í dag þótt með
allt öðrum hætti sé og alls ekki hægt að tala um skort.
Hún lýsir vöruskiptunum og versluninni innan fanga-
búðanna og um leið brennandi kapítalískri hugsun nú-
tímans þar sem fólk er sífellt að reyna að ná sér í betri
bita en endar með minna í höndunum en það lagði upp
með. Hún reynir að setja okkur í spor þessa fólks með
því að minna á að hvunndagurinn er alltaf eins, ein-
kennist af miklum skorti hjá manneskjunni.“
Bókin er byggð upp á mörgum, litlum köflum, sem
að sögn Bjarna virðast í fyrstu ekki hanga mikið saman
eða mynda krónólógíska frásögn, en geri það engu að
síður: „Þetta eru margar smærri og stærri myndir úr
þessu lífi á rússnesku gresjunum og mögnuð lýsing á
skorti og drifkraftinum í skortinum.“
Bjarni segist ekki hafa átt samskipti við Müller vegna
þýðingarinnar, en hann hafi átt gagnleg samskipti við
aðra þýðendur, sem hafi þýtt bókina yfir á önnur mál.
Þeir hafi sent henni spurningar, en hún verið misjafn-
lega til í að svara.
Eftir að Atemschaukel kom út komu í ljós gögn um
að Pastior hefði árum saman veitt rúmensku öryggis-
lögreglunni, Securitate, upplýsingar um fólk sem hann
umgekkst, sagt til vina og vanda-
manna.
Í september í fyrra komu fyrstu
upplýsingarnar fram og sagði Müller
þá að hún þyrfti ekki að snúa baki
við Pastior: „Mér þykir jafn vænt um
hann og áður.“
Í nóvember sagði svo rúmensk-
þýski útgáfustjórinn Dieter Schelsak
að hann hefði í skrá Securitate um
sig fundið skýrslur sem merktar voru dulnefni Pastiors.
Þá voru viðbrögð Müller á annan veg og hún sagði að
hefði hún vitað af þessum ásökunum hefði hún skrifað
Atemschaukel með öðrum hætti. Hún væri bæði reið
og bitur. „Oskar Pastior er til í tveimur útgáfum. Nú
fyrst er ég að kynnast þeirri síðari og það fyllir mig
beiskju.“
Andóf í einræðisríki Ceausescus
Müller fæddist 17. ágúst 1953 í Nitchidorf í Siebenbur-
gen eða Transylvaníu í Rúmeníu, sem þá var undir
járnhæl Nicolaes Ceausescus. Bækur hennar bera vitni
ofbeldi og ógn alræðisstjórnar hans og hún notar iðu-
lega sjónarhól þýska minnihlutans í Rúmeníu. Faðir
hennar var í SS-sveitum þýska hersins og móðir henn-
ar var sautján ára hneppt í sovéskar þrælkunarbúðir og
var þar í fimm ár. Saga móður hennar mun hafa haft
áhrif á Atemschaukel.
Móðurmál Müller er þýska og hún lærði ekki rúm-
ensku fyrr en í skóla. Hún nam þýsk fræði og rúm-
enskar bókmenntir við háskólann í Timisoara í Rúm-
eníu. 1976 hóf hún störf sem þýðandi í verksmiðju, en
var rekin árið 1979 fyrir að neita að starfa með Sec-
uritate.
Müller var í hópi andófsmanna í Rúmeníu og sætti
ofsóknum og ritskoðun fyrir að mótmæla stjórnarfari
Ceausescus. Árið 1987 fékk hún að fara úr landi ásamt
manni sínum og flutti til Vestur-Berlínar.
Ein bók Müller hefur komið út á íslensku, Der Fuchs
war damals schon der Jäger, sem nefnist í þýðingu
Franz Gíslasonar Ennislokkur einvaldsins. Hún kom út
1992, gerist á síðustu dögum stjórnar Ceausescus þar
sem eymdin ríkir, þjóðfélagið er í molum og það eina,
sem eftir er af hugsjónum og fyrirheitum samfélagsins
eru skilti með gömlum slagorðum.
Þekki maður einn ofsóttan einstakling …
Það kemur kannski ekki á óvart að Müller notar rödd
sína í þágu þeirra sem komast í kast við ráðamenn í
einræðisríkjum. Á fundi samtakanna Human Rights
Watch í Berlín fyrr í þessum mánuði minnti hún á
mikilvægi mannréttindasamtaka. „Þekki maður aðeins
einn ofsóttan einstakling persónulega verða ofsóknir í
fjarlægu landi persónulegar,“ sagði hún. „Þið, mann-
réttindasamtökin, gerið okkur, hin ofsóttu, að þekktu
fólki.“ Á fundinum gagnrýndi hún einnig handtöku
kínverska listamannsins Ais Weiweis: „Ai Weiwei er
ekki fyrsta dæmið um mannrán á ríkisvegum í Kína.“
Í október 2009 var tilkynnt að Müller hlyti bók-
menntaverðlaun Nóbels það ár. Í rökstuðningi nób-
elsnefndarinnar sagði að hún fengi verðlaunin af því að
í verkum sínum hefði hún „dregið upp mynd af lands-
lagi hinna landlausu með einbeitni ljóðsins og hrein-
skilni hins lausa máls“.
Ertu með vasaklút?
Müller sagði þegar tilkynnt var um verðlaunin að þau
þrjátíu ár, sem hún bjó í einræðisríki, hefðu verið erfið
og talaði um vinina sem lifðu ekki af. Hverjum morgni
hefði fylgt óttinn um að vera ekki á lífi um kvöldið.
Þremur dögum áður en hún tók við nóbelsverðlaun-
unum minnti hún á afleiðingar kúgunar, niðurlægingar
og einangrunar manneskjunnar í einræðisríkjum í
hefðbundnum fyrirlestri í Stokkhólmi með yfirskrift-
inni Allir þekkja eitthvað til vítahringsins. Þar rifjaði
hún upp að móðir hennar hefði alltaf spurt sig áður en
hún fór í skólann: Ertu með vasaklút? Vasaklúturinn
var bæði huggun og haldreipi þegar hún streittist gegn
tilraunum Securitate til að ná til sín. „Ég vildi að ég
gæti sagt setningu í þágu allra þeirra sem alla daga
fram á þennan dag eru sviptir virðingu sinni í einræð-
isríkjum – jafnvel setningu með orðinu vasaklútur.“
Fyrirlestrinum lauk hún á orðunum: „Getur verið að
spurningin um vasaklútinn hafi aldrei snúist um vasa-
klútinn heldur hina nístandi einsemd manneskj-
unnar?“
Nóbelsskáldið Herta Müller kemur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í haust.
Óhugnaður einræðis og
nístandi einsemd manneskjunnar
Nóbelsskáldið Herta Müller
er væntanleg á bókmenntahátíð
í Reykjavík í september.
Í verkum sínum lýsir hún
mannskemmandi afleiðingum
einræðis og nístandi einsemd
manneskjunnar.
Karl Blöndal kbl@mbl.is
’
… mynd af lands-
lagi hinna land-
lausu með einbeitni
ljóðsins og hreinskilni
hins lausa máls.