SunnudagsMogginn - 29.05.2011, Blaðsíða 26
26 29. maí 2011
E
inhver myndi segja að hún væri geggjuð – all-
tént léttgeggjuð – að hlaupa maraþon í öllum
fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna. Og hún hefur
raunar pappíra upp á það. „Á þessum hlaupum
mínum hef ég oft séð fólk í bolum merktum „Marathon
Maniac“ og ég grennslaðist einmitt fyrir um það með
tölvupósti í vikunni hvort ég væri gjaldgeng í þann fé-
lagsskap,“ útskýrir Bryndís Svavarsdóttir. Hún fékk svar
um hæl. „Mér var sagt að ég uppfyllti skilyrði fimmta stigs
fyrir að hafa hlaupið tuttugu maraþon á einu og sama
árinu. Það stig kallast einmitt geggjunarstigið.“
Hún hlær dátt.
Fimmta stig. Er það hæsta stigið? böðla ég vandræða-
lega út úr mér.
„Nei, nei, stigin eru fleiri. Ætli það næsta sé ekki snar-
geggjunarstigið?“ segir Bryndís sposk.
Í alvöru talað. Hún hefur á ferðum sínum hitt fjölda
fólks sem hleypur fleiri en tuttugu maraþon á ári, jafnvel
mun fleiri.
„Fyrir nokkrum árum hittum við bandarískan mann
við Mývatn sem við höfum oft séð í hlaupum gegnum tíð-
ina,“ skýtur bóndi Bryndísar, Lúther Þorgeirsson, inn í.
„Hann var alveg arfavitlaus yfir því að Mývatns-
maraþonið væri eina maraþonhlaupið á Íslandi þá helgina
enda hleypur hann iðulega tvö maraþon um hverja ein-
ustu helgi. Aumingja maðurinn vissi ekkert hvað hann
átti af sér að gera á sunnudeginum.“
Bryndís og Lúther hafa hitt marga sem hafa hlaupið um
eða yfir 1.000 hlaup um dagana. „Það eru 42.000 kíló-
metrar, næstum því kringum hnöttinn, fyrir utan æfing-
ar,“ segir Lúther og slær sér á lær.
Endaði í fyrsta ríkinu
Bryndís náði langþráðu takmarki fyrr í þessum mánuði
þegar hún kláraði maraþon í síðasta ríki Bandaríkjanna,
Delaware. „Það var raunar dálítið öfugsnúið,“ segir hún.
„Ríkin hafa öll gælunafn og gælunafn Delaware er „fyrsta
ríkið“. En þeir síðustu verða víst oft fyrstir. Þetta var mjög
biblíulegt.“
Bryndís á nú aðild að tveimur klúbbum vestra: 50 ríkja
maraþonklúbbnum og 50 ríkja og DC maraþonklúbbnum
en DC (District of Columbia) er sem kunnugt er ekki ríki.
En hvernig byrjaði þetta allt saman?
„Þetta byrjaði fyrir tuttugu árum. Ég var aldrei í íþrótt-
um en byrjaði að skokka eftir að hafa séð ljósmynd af
brosandi skokkhópi í blöðunum. Þetta hlýtur að vera
gaman, hugsaði ég með mér og mætti á næstu æfingu. Ég
fann fljótt að þetta átti vel við mig og hélt því áfram.“
Fyrsta maraþonið rann Bryndís í Stokkhólmi og síðan
Dyflinni. Þá var röðin komin að New York. „Það hlaup er
gríðarlega stórt og það opnaðist alveg nýr heimur fyrir
mér.“
Þaðan lá leiðin til Los Angeles en því hlaupi hefur Bryn-
dís nú lokið í þrígang. Í það heila hefur hún hlaupið tólf
maraþon í Kaliforníu og oftar en einu sinni í nokkrum
öðrum ríkjum. Hlaupið í Delaware var númer 129 í röðinni
hjá Bryndísi og í sumar bætist 130. hlaupið á ferilskrána,
Reykjavíkurmaraþonið.
Sjö hlaup í sömu ferðinni
Það var þó ekki fyrr en mörgum árum seinna að hún fór að
velta fyrir sér þeim möguleika að ljúka við hlaup í öllum
ríkjunum fimmtíu. „Þegar ég var búin með tíu ríki fékk ég
inngöngu í 50 ríkja klúbbinn og þá fór ég að gæla aðeins
við þetta. Síðan hefur þetta undið smám saman upp á sig.“
Flest hlaupin hefur Bryndís klárað á undanförnum
þremur til fjórum árum. „Þegar ég var búin að gera upp
við mig að ná þessu markmiði færðist fjör í leikinn. Mest
tók ég sjö hlaup í einni og sömu ferðinni, á fimm vikum.
Þrisvar hef ég hlaupið tvö maraþon sömu helgina.“
– Er það ráðlegt?
„Nei, blessaður vertu, en ég er samt ekki eini brjál-
æðingurinn sem gerir þetta.“
Við blasir að spyrja Bryndísi hvort hún hafi búið í
Bandaríkjunum. Svo er ekki.
„Ég geri alltaf út héðan að heiman. Ég hélt því lengi
fram að ódýrt væri að stunda hlaup en er hætt því núna.
Það er dýrt áhugamál að hlaupa svona mikið erlendis. Við
hjónin förum yfirleitt saman og stundum fleiri með okkur.
Ferðirnar taka allt frá einni helgi upp í nokkrar vikur og
við notum oftast tímann til að skoða okkur um. Við höfum
séð flest það markverðasta í Bandaríkjunum.“
Hún segir Lúther taka virkan þátt í að skipuleggja ferð-
irnar enda þótt hann hlaupi ekki sjálfur. Hann var lengi til
sjós en er nú sestur í helgan stein. „Ég hljóp einu sinni
hálfmaraþon en þetta þýðir ekkert fyrir mig, hnén eru
ónýt. Ég get hins vegar hjólað, auk þess sem við hjónin
göngum mikið saman,“ segir Lúther.
Bryndís ætlar að halda upp á 50 ríkja-áfangann fljótlega.
„Kannski held ég sýningu á þessum,“ segir hún og mokar
verðlaunapeningum upp úr stórum kössum. Vel er í
marga þeirra lagt. „Þetta eru eigulegustu gripir, sér-
staklega þeir sem ég hef fengið í Bandaríkjunum en allir
sem ljúka hlaupum eru leystir út með verðlaunapeningi,“
segir Bryndís en stærsti peningurinn er frá Little Rock,
heimabæ Bills Clintons.
Það er óhætt að taka undir orð hennar og verðlauna-
peningurinn úr Reykjavíkurmaraþoninu er ansi hreint
hjárænulegur í samanburðinum. Er ekki mál til komið að
breyta því?
Bryndís segir þetta allt skipta máli, mun skemmtilegra
sé að handleika veglegan verðlaunapening en þennan
klassíska gyllta þegar afrekið er rifjað upp síðar meir.
„Þegar peningarnir eru ljótir eru hlaupin lítil.“
Þá skipti bolirnir, sem iðulega eru gerðir í tilefni af
maraþonhlaupum, líka máli. „Séu þeir eigulegir klæðist
fólk þeim frekar eftir hlaupið og þannig berst hróður
hlaupsins.“
Eins og að hlaupa inn í málverk
Þegar Bryndís er spurð hvar í Bandaríkjunum sé skemmti-
legast að hlaupa stendur ekki á svari: „Í Kaliforníu. Hún
hefur allt með sér, ekki síst veðrið. Það er dásamlegt að
hlaupa í Kaliforníu. Það er líka mjög gaman að hlaupa á
sögufrægum stöðum eins og við Grand Canyon. Það var
ólýsanleg tilfinning að vera þar við brúnina – eins og að
hlaupa inn í málverk.“
Hún nefnir líka óvenjuleg hlaup eins og tónlistarmara-
þon en þau eru fjölmörg vestra. Þá raða hljómsveitir sér
upp á hlaupaleiðinni og leika af fingrum fram fyrir kepp-
endur.
Bryndís er að vonum í skýjunum með áfangann nú. „Ég
var búin að skipuleggja síðustu hlaupin síðasta sumar og
spennan var því orðin býsna mikil á loaksprettinum. Ég
trúi því varla enn að þetta sé búið.“
Því fer þó fjarri að hún sé hætt að hlaupa í Bandaríkjun-
um. Næsta hlaup er bókað í haust í Santa Barbara.
Hún hleypur líka mikið hér heima. Hefur tekið þátt í
Reykjavíkurmaraþoninu undanfarin fimmtán ár og
hlaupið Laugaveginn níu sinnum, svo dæmi séu tekin.
Bryndís viðurkennir líka að hugsa enn stærra. „Það væri
gaman að reyna sig við allar heimsálfurnar. Ég sé þó ekki
fyrir mér að ná því markmiði, það er svo dýrt, sérstaklega
að komast á suðurskautið. Það er líka 3-4 ára bið eftir að
komast þangað. Ég yrði sennilega að vera með fjáröflun.“
Hvers vegna ekki?
Bryndís Svavarsdóttir með kort
af Bandaríkjunum. Hún hefur
vitaskuld merkt inn staðina þar
sem hún hefur hlaupið maraþon.
Morgunblaðið/Sigurgeir S
Komin á geggjunarstigið
Bryndís Svavarsdóttir, guð-
fræðinemi og amma, varð á
dögunum fyrsti Íslendingurinn
til að hlaupa maraþon í öllum
ríkjum Bandaríkjanna. Hún er
hvergi nærri hætt og gælir nú
við allar heimsálfurnar.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is