SunnudagsMogginn - 12.06.2011, Blaðsíða 47

SunnudagsMogginn - 12.06.2011, Blaðsíða 47
K omin er út hjá Sögum ný bók eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, Stolnar stundir. Áður hefur hann sent frá sér eina ljóðabók, fimm smásagnasöfn og eina skáldsögu. Stolnar stundir er saga upp á 110 bls. og erfitt að segja til um hvort hún er löng smásaga eða stutt skáldsaga við fyrstu sýn. „Ég myndi segja að þetta væri löng smásaga, mér finnst sagan það einföld. Mér finnst þetta ekki einu sinni vera nóvella, en ég horfi frekar á formið en lengd- ina,“ segir Ágúst Borgþór. Hann segir talsverðan mun á því að skrifa sögu af þessari lengd og styttri smásögur. „Það er meira kjöt á beinunum og það tekur lengri tíma að skrifa.“ Nokkurs konar tvífaraminni Það er margt keimlíkt með aðalpersónu sögunnar, Þóri, og skapara hennar. Ágúst Borgþór segir þessi líkindi milli þeirra í rauninni hafa orðið til af sjálfu sér og hann ekki verið meðvitaður um þau til að byrja með. Hann segir þetta sprottið af því að hann fáist að miklu leyti við það sama í sögunni og hann geri í eigin lífi. „Ég er að fjalla um minn reynsluheim, þetta menningar- og mið- bæjarlíf í Reykjavík og það sem ég hef verið að kljást við sjálfur. Það er að sameina það að vera fjölskyldufaðir og launþegi og reyna að vera listmaður um leið án þess þó að vera viðurkenndur listamaður og hafa miklar tekjur af því. Svo ákvað ég bara að ganga alla leið með þetta og vera ekkert að fela þessi líkindi þannig,“ segir Ágúst Borgþór. Hann segir þó sum lykilatriðin í sögunni ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. „Ég hef ekki lent í neinni hjónabandskrísu eins og Þórir og skrifin mín hafa aldrei verið leyndarmál hjá mér eins og hjá honum. Við erum líka ólíkir persónuleikar, ég er opinn en hann er dulur.“ Hann segir það í rauninni hafa verið ákveðinn leik hjá sér að gera aðalpersónuna svona líka sjálfum sér. „Ég veit svo sem ekki hversu merkilegur sá leikur er eða hversu miklu máli hann skiptir,“ segir Ágúst Borgþór og bætir við að hann hafi velt fyrir sér svokölluðu tvífara- minni sem kemur fram í mörgum tegundum bók- mennta. Með tvífaraminni er átt við persónu sem á sér tvífara og er því tvöföld. Tvífarinn og fyrirmyndin eru ekki endilega eins og þótt þeim geti svipað saman í útliti er innrætið oft ólíkt. Sagan af Dr. Jekyll og Herra Hyde eftir Robert Louis Stevenson byggist t.d. á fyrrnefndu tví- faraminni þar sem Dr. Jekyll og Herra Hyde eru tvær andstæðar hliðar á sömu manneskjunni sem takast á. „Það er þessi hin útgáfa af manni sjálfum. Ég er svolítið að hugsa um það að til sé einhver annar ég sem samt er allt öðruvísi í rauninni.“ Ágúst Borgþór segir einnig skemmtilegt frá því að segja að hann vinnur nú á sömu þýðingastofu og Þórir gerir í sögunni. Þegar Ágúst Borgþór byrjaði að skrifa söguna hafði hann þó ekki hugmynd um að hann ætti eftir að enda á því að vinna á þessari tilteknu stofu en þá þekkti hann aðeins til hennar í gegnum vinnu sínu á auglýsingastofu. „Að því leyti varð Þórir fyrirmynd mín.“ Óraunverulegt tímabil Ágúst Borgþór kallar Stolnar stundir „hrunbókina“ sína. Hann segist á seinni árum hafa skrifað sögur sem gerast í núinu og hann hafi gert sér grein fyrir því fyrir tveimur árum að hann gat ekki hunsað hrunið lengur þótt hann hafi ekki langað til að skrifa um það.„Það gerðist eitt- hvað hérna og margt breyttist. Ég skynjaði smám saman eftir því sem lengur leið frá hruni og lífið fór að jafnast aðeins að það sem ég hafði áhuga á var að horfa aftur til ársins 2007 og tímabilsins þar á undan. Ég var að horfa á tíma sem var farinn og kæmi aldrei aftur.“ Hann segist halda að sér hafi tekist að hitta á þá stemningu í sögunni og hafi skynjað það sjálfur að hann væri að fjalla um nokkuð óraunverulegt tímabil sem væri búið að vera. Mikil glíma framundan Spurður að því hvað knýi hann áfram sem rithöfund segir hann allt hafa byrjað með sköpunarþörfinni. „Ég er ekki að segja að allir hafi sköpunarþörf en ofboðslega margir. Upprunalega er ég með einhverja sköpunargáfu, kannski aðallega sköpunarþörf en einhverja hæfileika líka.“ Hann segist hafa upplifað það snemma á ævinni að hann ætti gott með tungumálið en hins vegar hafi lík- amlegum hæfileikum sínum verið ábótavant. „Fólk uppgötvar styrkleika sína smám saman. Svo kom þessi bókmenntaáhugi hjá mér sem varð að ástríðu fyrir texta og stíl og söguformi og þar með var þetta orðið eitthvað sem lét mig ekki í friði. Ég get ekki lýst því betur.“ Ágúst Borgþór segist vera að vinna að nýrri skáldsögu en sé svo stutt kominn að hann geti lítið sagt annað en að hann sé að skrifa um heim sem er mjög fjarri þeim sem hann fjallar um í Stolnum röddum. Að öllum lík- indum muni bókin einnig vera þannig að enginn geti sagt að hann sé að skrifa um sjálfan sig. „Ég held að það sé mjög mikilvægt stundum að snúa algjörlega við blaðinu. Ég á mjög mikið óunnið og það er mikil glíma framundan,“ segir hann. Miðbæjarlíf og tvífara- minni í langri smásögu Ágúst Borgþór Sverrisson hefur sent frá sér smásöguna Stolnar stundir, sem hann kallar kallar „hrunbókina“ sína. Hann segist haldinn ástríðu fyrir texta, stíl og söguformi. Díana Rós A. Rivera diana@mbl.is Ágúst Borgtor Sverrisson segir Stolnar stundir langa smásögu, frekar en stutta skáldsögu. Morgunblaðið/Sigurgeir S.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.