SunnudagsMogginn - 19.06.2011, Blaðsíða 40

SunnudagsMogginn - 19.06.2011, Blaðsíða 40
40 19. júní 2011 V ei þeim sem reynir að hringja í íslenskan tónlistarmann fyrir tíu á morgnana, enda er það að sumra mati einn stærsti kostur tónlistarbransans að geta vakað langt fram á nótt og vaknað seint og um síðir. En þannig er það ekki á Kúbu og Eliades Och- oa svarar hress og sprækur þegar blaða- maður hringir, og klukkan varla orðin átta að morgni að staðartíma, suður á Kúbu. „Ég myndi helst vilja vera uppi í rúmi, en það þarf að vinna og nota tímann,“ segir hann. Eliades er staddur í stúdíói að taka upp, vill vera almennilegur og veita gott viðtal eins og um var samið en má ekki sjá af of miklum tíma. Ekki bætir úr skák að línan er slæm, slitnar nokkrum sinnum, en þessi kúbverski gítarmeistari og gullbarki lætur það ekki slá sig út af laginu: „Þær láta stundum svona, símalínurnar hérna.“ Eliades, eða maðurinn með hattinn eins og aðdáendur Buena Vista Social Club þekkja hann best, er á leið til Íslands með fríðum hópi kúbverskra og malískra tón- listarmanna. Þeir ætla að færa landanum afrakstur tilraunar sem var 14 ár í undir- búningi: Afró-kúbismi er heitið sem notað er yfir bæði hópinn og tónlistina sem hann spilar. Eliades er leiðtogi kúbverska helm- ingsins, sem hefur á að skipa Buena Vista- meðlimum, og Toumani Diabaté fer fyrir malíska hlutanum. Og vei þeim sem reynir að skrifa grein um afró-kúbisma, því um leið og maður byrjar að hlusta á lög Eliadesar og félaga í tölvunni hverfur öll löngun til að vinna, og aðeins með erfiðismunum að tekst að halda aftur af lönguninni til að blanda sér mojito og setjast út á svalir í sólbað, eða hreinlega hendast upp í næstu flugvél og á vit hvítra stranda og föngulegra og ástríðufullra Kúbverja sem kunna að bræða íshjarta vinnuhokins Íslendings. Ah, Kúba, sælla minninga. Gamall draumur „Þetta hófst allt saman árið 1996 þegar heimstónlistarútgefandinn Nick Gold og tónlistarmaðurinn Ry Cooder fengu þá hugmynd að tvinna saman tónlistarhefðir Kúbu og Malí. Ætlunin var að taka upp plötu hér á Kúbu, en þegar stóra stundin rann upp tókst ekki að útvega malísku listamönnunum leyfi til að ferðast til landsins – hafði eitthvað að gera með vegabréfsáritanir,“ segir Eliades söguna, en til stóð að hann yrði leiðandi í tilrauna- verkefninu á sínum tíma. „Þá standa þeir félagar frammi fyrir stórum vanda: með allt klárt fyrir upptöku en hálfa hljóm- sveit, og hvað á að gera nú?“ Ritaðar hafa verið ótal greinar og bækur um það sem gerðist síðan. „Entonces; það var þá sem Buena Vista Social Club varð til. Þeir félagar fengu veður af tónlistar- mönnum sem höfðu gert það gott hér á árum áður, en voru orðnir gamalt fólk og sópuðu gólf.“ Íslendingar þekkja vel söguna á bak við Buena Vista Social Club enda hafa tónleik- ar hljómsveitarinnar hér á landi slegið í gegn, og stemningin verið með slíkum en- demum að menn muna varla annað eins. Sá fáheyrði atburður á að hafa gerst á tón- leikum Buena Vista árið 2001 að stífir og stirðbusalegir Íslendingar, sem í þúsund ár hafa helst getað sótt sér fyrirmyndir í sögur um gaddfreðna, léttbrjálaða og fé- lagsfælna víkinga, fóru að dansa. Og það ódrukknir. Mjaðmir fóru að hreyfast, svitaperlur að glitra og brosin að breikka. Arnar Eggert Thoroddsen, gagnrýnandi Morgunblaðsins, sem varð vitni að herleg- heitunum, lýsir því hvernig stemningin magnaðist upp uns áheyrendurnir sem næstir voru sviðinu þoldu ekki lengur við og hófu að stíga trylltan dans. Landinn var gjörsamlega kolfallinn fyrir töfrum kúbverskar tónlistar, haldnar voru Buena Vista-veislur um borg og bý, for- setinn bauð hópnum í kvöldverð og af- henti þeim gullplötu. Svo sneri hópurinn aftur til Íslands 2008, að vísu búinn að missa marga höfuðliðsmennina yfir móð- una miklu (um flesta voru skrifaðar langar og lærðar æviágripsgreinar í Mogganum), og fór þá létt með að fylla heila íþróttahöll. „Já, það er eitthvað við kúbverska tón- list; hún kemur þér til að dansa,“ segir Eliades. „Þú getur ekki staðist það.“ Fegurðin skín í gegn En hvað hefur hann að segja um afró- kúbismann? Núna hefur loksins tekist að koma kúbversku og malísku tónlistar- mönnunum saman, eftir allan þennan tíma, og platan sem kom út í október hef- ur fengið mjög góðar viðtökur. Er að verða til ný tónlistarstefna? Í einu viðtalinu kemst Eliades þannig að orði að þegar fólk heyrir kúbversku tónlistina og þá malísku bræddar saman heyri það skýrt fegurðina sem er þeim báðum eðlislæg. „Þetta er góð tónlist, og móttökur áheyrenda virðast vera í samræmi við það. Við héldum eina sextán tónleika hér um daginn, í einum rykk, og var fullt á þeim öllum.“ Hvort þessi litla tilraun á eftir að marka djúp spor í tónlistarsögunni er vandi að spá. „Þetta er bræðingur sem hefur vissan potencial. Við sem myndum þennan hóp höfum mjóg góðan skilning innbyrðis, lærum mikið hver af öðrum, og erum að gera eitthvað sem – músíkalskt séð – virk- ar.“ Það er í sjálfu sér ekki svo skrítið að malísk og kúbönsk tónlist eigi samleið, þótt eitt og hálft haf skilji löndin að og lífs- hættir á hvorum stað fyrir sig séu eins ólíkir og hugsast getur. „Báðar eiga þessar tónlistarstefnur sameiginlega rót, og kúb- önsk tónlist mótaðist undir greinilegum áhrifum frá Afríku á sínum tíma.“ Sveifla sem lagði undir sig heiminn Blaðamaður þarf að bíta í tunguna á sér til að spyrja ekki Eliades hvort hann hlakki til að koma til Kúbu norðursins. Hann myndi sennilega ekki fatta fimmaura- brandarann. Reyndar heyrist á manninum að hann muni ekki alveg nógu greinilega eftir Íslandsferðum sínum, og ekki að furða enda heljarinnar þeytingur á Buena Vista-hópnum. Hitt skilst alveg yfir slitr- ótta línuna að hann er stoltur af að hafa fengið að vera hluti af þessu ævintýri, þótt hann hafi reyndar verið vel þekktur tón- listarmaður innan og utan Kúbu áður en Buena Vista-havarííð fór á flug. „Auðvitað hefur þetta verið ótrúlegur tími, og öll þessi ferðalög um allan heim, en hreykn- astur er maður kannski af að hafa náð að kynna svona mörgum kúbanska tónlist.“ Það má ekki heldur gleyma þeim áhrif- um sem frægðarför Eliadesar og félaga höfðu til að efla tónlistarmenninguna inn- anlands. „Unga fólkið á Kúbu spilar enn þessa tónlist. Auðvitað sjá þau og heyra allskonar popp og reggaeton,“ segir hann en stjórnvöld þar í landi hafa einmitt látið í ljósi áhyggjur af miklum vinsældum síð- astnefndu tónlistarstefnunnar enda ekki fyrir þá allra siðprúðustu. Lesendum er raunar ráðlagt að fá sér eina hjartastillandi áður en þeir hlusta á Cubaton-tónverk eins og Chupa Chupa með listamanninum El Medico, hvað þá ef horft er á mynd- bandið. „Alls kyns áhrif leika um landið, en þegar allt kemur til alls leitar unga fólkið í sígilda kúbanska tónlist. Að hluta til er það vegna þess að þetta er tónlistin sem gestir á eyjunni vilja heyra, og vinnu að fá ef þú kannt að spila Son Cubano- tónlist. En þetta er líka tónlistin sem stendur hjarta okkar næst.“ Meðlimir AfroCubism stilla sér upp, nettir á því. Draumurinn var fjórtán ár að rætast Afró-kúbisma-verk- efnið þykir með merki- legri viðburðum í heimstónlistarsenunni síðustu ár. Íslendingar fá að kynnast honum í Hörpu 28. júní og for- sprakki hópsins reiknar með að landinn geti ekki staðist galdrana. Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Tónleikar AfroCubism verða í Eldborg Hörpu þriðjudaginn 28. júní kl. 21. Miðaverð er frá 3.500 kr til 7.500.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.