SunnudagsMogginn - 19.06.2011, Blaðsíða 36

SunnudagsMogginn - 19.06.2011, Blaðsíða 36
Þ að eru eflaust fimm kílómetrar milli veiðistaða í Kráká,“ segir þriðji maðurinn í jeppanum sem þokast eftir slóðum suður Mý- vatnsheiði, meðfram ánni sem um er rætt. Bílstjórinn segir að vissulega gæti eitthvað verið til í því, en það séu líka fallegir veiðistaðir! Undir stýri situr Jón Eyfjörð en hann er með kunnugustu veiðimönnum á þessum slóðum, enda einn af leigutökum Krákár, ásamt þeim Snorra Jóelssyni og Halldóri Jónssyni. „Ég held að þetta sé sjöunda árið okkar með ána,“ segir hann og bætir við að í hana komi menn að veiða urriða, og þá oft væna. „Þetta eru mikið fiskar á bilinu tvö til fjögur pund. Yfirleitt eru þeir frekar stórir. Það er áramunur á þeim, hvernig þeir koma undan vetri.“ Við erum á ferðinni í lok maí og í raun- inni að opna ána. Það er svalt og hefur fryst á heiðum síðustu nætur. Hæðarmæl- irinn á GPS-tækinu sem Jón ekur eftir er kominn vel yfir 300 metrana og í slökkum sitja enn snjóskaflar. Þriðji maðurinn í bílnum er Guð- mundur Guðjónsson, veiðiblaðamaður og ritstjóri, en hann hefur áður veitt með Jóni í Kráká og hrifist af, enda landað þarna sterkum og spretthröðum fiskum nánast uppi á öræfum. Það er heillandi að tengjast náttúrunni á þann hátt. Við byrj- uðum hinsvegar á að skoða ána þar sem hún streymir tær og lygn í sveigum niðri í byggð, nærri bænum Litluströnd. Þar kastaði ég á fallegan streng og vænn urriði elti straumfluguna alveg upp að fótum mér. Hann tók samt ekki. Við ökum síðan til baka og upp að bænum Grænavatni. Þaðan er ekinn slóði áleiðis inn í Suður- árbotna og á meðan fræðir Jón okkur um ána og tignarlega náttúruna. Upptök Krákár eru í heiðalöndunum norðaustan Svartárvatns í Bárðardal, sunnan Sellandafjalls, ekki svo langt frá Suðurárbotnum. Hún fellur norður af Mývatnsheiði og sameinast Laxá í Mý- vatnssveit skömmu eftir að hún kemur úr Mývatni. „Kráká er um 35 kílómetrar,“ segir hann, „og það eru sex stangir í ánni. Hörður Halldórsson á Arnarvatni og Sveinn Guðmundsson í veiðibúðinni Horninu á Akureyri eru með svæðið frá brúnni á þjóðveginum og niður að Laxá og selja í það. Þar eru tvær stanganna og það svæði er til að mynda heppilegt fyrir fjöl- skylduveiði, en þar hefur fólki verið leyft að beita spúni. Hér upp frá er hinsvegar bara veitt á flugu og veiðimenn sleppa fiskunum, nema ef þeir eru svangir, þá er hægt að hirða einn eða tvo í matinn.“ Það er skynsamleg ráðstöfun, enda er þessi staðbundni urriði hægvaxta og auð- velt að ganga nærri slíkum stofnum með stjórnlausu drápi; þá verður hann sífellt meira spennandi fyrir veiðimenn með hverju pundinu sem hann bætir á sig. 24 urriðar og sandskaflar Við nemum staðar við mikla breiðu neðan við Strengjabrekkur. Þar segist Jón hafa lent í ævintýrum ásamt félaga sínum; þeir fengu 24 urriða í einni heimsókninni. Miklir ísskaflar, kolsvartir af sandi, liggja þarna með bökkum og vitna um ógnvæn- leg vorflóð og einnig gífurlegan sand- framburð Krákár, sem löngum hefur verið vandamál niðri í sveit. Sandur barst áður fyrr upp á tún bænda í Aðaldal, þegar Laxá skolaði honum fram, en nú hefur Lax- árvirkjun dregið úr slíkum flóðum en sandurinn hefur haldið áfram að vera til vandræða í Laxá; sumir kenna honum til að mynda um minnkandi seiðaframleiðslu laxins. Rannsóknir Landsvirkjunar hafa sýnt að 10 til 30.000 tonn af sandi skolist árlega með Laxá til sjávar og berst megnið af honum fram með Kráká. Á liðnum ára- tugum hefur verið reynt að binda sandinn með landgræðslu. Mikið sandfok og upp- blástur hefur verið á svokölluðu Katla- svæði suður af Mývatni og hefur sand- urinn eytt mólendi við upptök Krákár. Víðtækar landgræðsluaðgerðir hafa skilað árangri en engu að síður berst enn gríð- armikið af sandi niður farveginn, um það vitna svartir skaflarnir. Jón hyggst veiða breiðuna og segir að í henni séu þrír álar, að austan þar sem við stöndum, í miðj- unni þar sem einnig sé góður hylur, og að vestan. Hann veður út og kastar á meðan, fljótlega tekur fallegur urriði fluguna, tveggja punda fiskur, sem tekur fer spor- ðadans fyrir áhorfendur. Ég veð þá út í og kasta á hylinn þar sem Jón fékk fiskinn, en Jón kannar vesturálinn. Það þýðir þó lítið, hann hefur fyllst af sandi síðan í fyrra og við fáum ekki meira á þessum stað. Eftirminnilegar tökur Áfram ökum við upp með áni og næst nemur Jón staðar við fallegan og hraðan streng við Strengjabrekkur. Þaðan sést norður að Mývatni. „Hér fáum við oft einn fisk, í mesta lagi tvo,“ segir Jón og bendir Guðmundi á hvar sé vænlegt að kasta straumflugunni. Þegar Guðmundur gengur niður að ánni spyr ég Jón hvernig hann lýsi þessari á, sem fáir þekkja. „Nú erum við á leið suður í Sellönd,“ segir hann og bendir, og um það vitnar Sellandafjall suðaustan við okkur sem nær hátt í þúsund metra hæð. „Kráká skiptist eiginlega í þrennt. Niðurfrá, á flatlendinu hérna fyrir neðan Strengjabrekkur, eru talsverðar breiður. Hér er hún býsna hröð á kafla, en ofar hægist aftur á henni. Það er fiskur í öllu þessu vatni. Við fáum aldrei marga – en við fáum eftirminnileg- ar tökur. Víða er stífur straumur hér og tökurnar geta verið fanta-skemmtilegar.“ Jón þagnar, horfir um stund og segir „Ég dýrka þessi svæði“ Jón Eyfjörð þekkir suðurþingeyska urriðann vel. Hann hefur um árabil veitt í Laxá í Mývatns- sveit, er einn af leigutökum Krákár á Mývatns- heiði og er að kynna urriðaveiði í Laxá í Aðaldal fyrir veiðimönnum. „Veiðilöngunin dofnar ekk- ert,“ segir Jón og fylgir blaðamanni með Kráká. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Andstreymistæknin reyndist vel þeg- ar Jón Eyfjörð setti í vænan urriða í hröðum streng í Kráká. „Hér fáum við oft einn,“ sagði hann og það stóðst. Togast á við urriða í fallegum flóa í Kráká. Fjallið Vindbelgur við Mývatn blasir við í norðri. 36 19. júní 2011 Stangveiði

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.