SunnudagsMogginn - 18.09.2011, Blaðsíða 27

SunnudagsMogginn - 18.09.2011, Blaðsíða 27
18. september 2011 27 Lýsingar Moya eru óhugnanlegar, en engu að síður hefur lýðræði rutt sér til rúms þar sem áður ríktu einræðisherrar. „Þetta kemur lýðræði ekkert við,“ segir Moya. „Það eru engir einræðisherrar lengur í Mið-Ameríku, þótt Ortega langi kannski til að verða einræðisherra í Ník- aragúa. Það er ekki einræðisherra í Mexikó, en sjáðu samt drápin og ofbeldið þar. Þetta er málið: Ef lýðræðinu er bara beitt á pólitíska sviðinu, en ekki á fé- lagslega og efnahagslega sviðinu, verða breytingarnar bara innan stofnana, ekki í hinu raunverulega lífi. Þótt þú kjósir fólk- ið, sem á að stjórna landinu þínu, þýðir það ekki að félagsleg og efnhagsleg staða þín muni breytast. Það hafa ekki orðið breytingar í rómönsku Ameríku hvað snertir jöfnuð eða nýja samfélagsgerð.“ Moya segir að staðan sé reyndar aðeins öðruvísi í Suður-Ameríku, Chile, Úrú- gvæ, en í Mið-Ameríku og Mexíkó og bætir við: „Lýðræðið virkar, en það virkar bara fyrir stjórnmálamennina og stofn- anirnar, ekki fyrir fólkið, í þeim skilningi að það færir ekki atvinnu, heilbrigð- isþjónustu eða menntun. Í stað þess að heyja borgarastyrjaldir reka menn nú kosningabaráttu og almenningur er gleymdur nema rétt fyrir kosningar.“ Tíðni morða með því hæsta sem gerist Tími borgarastyrjalda er liðinn í Mið- Ameríku, en ofbeldinu linnir ekki. „Í El Salvador er tíðni morða með því hæsta sem gerist á plánetunni,“ segir Moya. „Þetta er gríðarlegur vandi og það virðist engin leið að breyta málum. Hver stefnan rekur aðra og ég skil ekki hvers vegna ekk- ert virkar.“ Moya segir að ofbeldið í El Salvador sé ekki alveg sambærilegt við ástandið í Mexíkó. „Í Mexíkó er meira um skipulagða glæpastarfsemi,“ segir hann. „Í El Salvador er skipulögð glæpastarfsemi og gengi, sem heita maras og fást líka við eiturlyf. En þau eru miklu meira félagslegt fyrirbæri. Mjög ungt fólk er í maras. Þetta snýst um að til- heyra hópi. Stór hluti íbúanna er ekki hluti af kerfinu. Það er mikið áhyggjuefni hvað margir eru í þessum gengjum. Fjöldinn er næstum sá sami og var í skæruliða- samtökum hér áður fyrr. Á áttunda ára- tugnum var talað um að þrjú til fimm þús- und manns hefðu ákveðið að berjast, að drepa og vera drepnir, út af hugmynd. Og nú, þrjátíu árum síðar, er nánast sami fjöldi í skipulagðri glæpastarfsemi í þessum gengj- um. Þetta er önnur kynslóð, sem var ekki einu sinni fædd á tímum skæruliðanna.“ Á heima þar sem ég er Moya hefur allt sitt líf verið á faraldsfæti og oft þurft að flytja sig um set vegna þess að honum var ekki vært lengur þar sem hann var. Söguhetjan í bókinni er sömu- leiðis aðkomumaður, sem var knúinn til að fara frá einu landi til annars. „Svona líf hefur áhrif á mann,“ segir Moya. „Sú tilfinning að tilheyra, eiga einhvers staðar heima, verður öðruvísi. Þegar maður er alltaf á sama stað getur maður gengið að ákveðnum hlutum vís- um. Þegar maður fer frá einum stað til annars, ekki vegna þess að maður hafi gaman af að ferðast, heldur vegna þess að maður lendir þannig í lífinu, reynir mað- ur að skilgreina sjálfan sig út frá fortíð- inni, út frá minningunum. Um leið sér maður hvað þær eru afstæðar þannig að skilningurinn á heiminum verður með öðrum hætti. Ég spyr mig hvar ég eigi heima og svarið er þar sem ég er hverju sinni, en auðvitað hef ég í minni mínu heilmikla reynslu, sem ég nota til að skrifa skáldsögur. Því ágengari sem reynslan er því áleitnari verður hún í minninu. Því myndi ég ekki skrifa um Ís- land þótt ég kæmi hingað og dveldi í ár. Ég myndi áfram skrifa um þá reynslu, sem herti mig og hafði áhrif á mig.“ Ein fyrsta minning Moya er frá því að sprengja sprakk á pallinum fyrir utan heimili afa hans í Hondúras. „Ég var átta ára gamall,“ segir hann. „Afi var íhaldssamur stjórnmálamaður og var að undirbúa valdarán gegn frjáls- lyndum forseta landsins. Og það tókst, þeir komu forsetanum frá.“ Það hljóta að vera mikil viðbrigði að koma úr eldlínunni í Mið-Ameríku í verndaða líf á stöðum eins og Þýskalandi og Bandaríkjunum. „Ég hugsa þó ekki þannig að fólk, sem á þess kost að lifa friðsælu lífi, hafi ekki hugmynd um út á hvað lífið gangi. Auðvitað er betra að hafa þannig líf. Stundum upplifi ég hluti, sem slá mig alveg út af laginu. Árið 2009 var ég í neðanjarðarlestinni í Tókýó og sá tvær eða þrjár ungar stúlkur, sex eða sjö ára gamlar, einar saman í lestinni og hugsaði með mér að þetta væri ótrúlegt. Enginn myndi ræna þeim, nauðga þeim eða reyna að skaða þær. Og þá fer ég að velta fyrir mér hvað ég hljóti að koma frá hryllilegum stað fyrst mér finnst þetta undrum sæta.“ Meiri tengsl við Chandler en Marquez Gagnrýnendur hafa hampað verkum Moya og sagt að hann sé einn af fánaber- um nýrrar kynslóðar rithöfunda frá Suð- ur-Ameríku. Hann segist ekki hugsa mikið um sjálfan sig í samhengi við aðra rithöfunda, hvort sem það er Gabriel Garcia Marquez og kynslóð hans eða Ro- berto Bolano, sem hvað mest er hampað um þessar mundir. „Ég tilheyri auðvitað ákveðinni hefð og hluti af því er að skrifa á spænsku,“ segir hann. „Rithöfundurinn er tungu- málið, sem hann skrifar á, og í gegnum það fjallar hann um umhverfi sitt. Það geta verið óravíddir á milli mín og rithöf- undar frá Argentínu eða Spáni, en við notum sama tungumál. Þannig er ég skyldur þeim, en ég hugsa ekki um það. Fyrir mér gæti Garcia Marquez með sína litlu bæi og töfra allt eins verið íslenskur rithöfundur. Í mínum huga og ungs fólks, sem býr í rómönsku Ameríku og fæddist í borgarsamfélagi, er meiri ná- lægð við bandaríska glæpasagnahöfunda á borð við Raymond Chandler en Garcia Marquez. Ég kann að meta hann, en Chandler segir mér meira.“ ð þig Otto Perez Molina hershöfðingi verður lík- lega næsti forseti Gvatemala. Kona í El Salvador horfir á myndir af löndum sínum, sem voru myrtir í borgarastyrjöldinni. Lík fórnarlamba eiturlyfjagengja í Mexikó hanga niður úr brú bloggurum til viðvörunar. Morgunblaðið/Eggert Ofbeldi og morð eru daglegt brauð í ríkjum Mið-Ameríku og hafa farið vaxandi und- anfarin ár. Samkvæmt samantekt á Wikipediu var mest framið af morðum í Hondúras í fyrra eða 75 manns miðað við hverja hundrað þúsund íbúa. El Salvador kom næst á eftir með 65 morð á hverja hundrað þúsund íbúa. Í Guatemala var hlutfallið 42 morð og í Venesúela 48 morð á hverja hundrað þúsund íbúa. Í Mexíkó var talan 18 morð miðað við hverja hundrað þúsund íbúa. Tölfræðin er vitaskuld ekki tekin saman með sama hætti í hverju landi fyrir sig, en þessar tölur gefa hins vegar vísbendingu um ástandið í löndunum. Í löndum á borð við Danmörku, Japan, Þýskaland og Ísland er þessi tala vel undir einu morði á hverja hundrað þúsund íbúa. Morðalda í Mið-Ameríku Reuters

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.