SunnudagsMogginn - 18.09.2011, Síða 34
34 18. september 2011
Þ
að er óræður sjarmi yfir Gamla
bíói. Skyldi engan undra,
menningarsaga þessarar þjóðar
drýpur þar af veggjum. Í 85 ár
hefur þetta svipmikla hús verið snar
þáttur í menningarlífi höfuðborgarinnar.
Kvikmyndir, tónlist og leiklist hafa átt
þar í öruggt hús að venda, að ekki sé talað
um alla fundina, þar sem stálinu hefur
verið stappað í fólk.
Þegar Íslenska óperan flutti úr húsinu í
Hörpuna fyrr á þessu ári hafa eflaust
margir borið kvíðboga fyrir framtíð þess.
Hinir sömu geta nú andað léttar enda bú-
ið að tryggja að starfsemin í húsinu mun
áfram verða á menningarlegum nótum.
Leikhúsmógúllinn, sem er alþjóðlegt
leikhúsfyrirtæki, leigir nú húsnæðið af
Íslensku óperunni og hyggst reka þar
starfsemi undir heitinu Gamla bíó Leik-
hús.
Þegar stungið er við stafni nokkrum
dögum fyrir opnun vekur athygli að sára-
litlu hefur verið breytt í húsinu. „Mark-
mið okkar hefur verið að varðveita anda
og útlit hússins enda liggur styrkur þess
fyrst og fremst í því hvað það er ósnert.
Gamla bíó hefur algjörlega lifað af míni-
malismann,“ segir Signý Eiríksdóttir,
verkefnastjóri Gamla bíós Leikhúss.
Lengi langað að reka leikhús
Þegar Íslenska óperan auglýsti húsið til
leigu þurftu forsprakkar Leikhúsmógúls-
ins ekki að hugsa sig um tvisvar. „Það er
mikill heiður að vera treyst fyrir falleg-
asta leikhúsi á Íslandi. Þetta er mikil
áskorun,“ segir Signý og undirstrikar að
húsið verði að vera í notkun.
Óskar Eiríksson, framkvæmdastjóri
Leikhúsmógúlsins og Gamla bíós Leik-
húss, tekur í sama streng. „Við höfum
verið að framleiða sýningar inn í leikhús
en ekki gert það innan frá áður. Það verð-
ur skemmtileg áskorun, okkur hefur
lengi langað að prófa að reka leikhús.“
Óskar segir Gamla bíó þó eina leikhúsið
sem komið hafi til greina. „Gamla bíó er
einstakt hús, því kynntist maður þegar í
barnæsku. Það er alltaf jafngóð tilfinning
að koma þarna inn. Eftir að við tókum við
húsinu hef ég stundum labbað þangað inn
bara til að anda að mér loftinu,“ segir
Óskar sem staddur er í Sviss þessa dag-
ana.
Mógúllinn byrjar á því að leigja húsið í
eitt ár „en gangi vel í vetur erum við opin
fyrir því að vera hér áfram“, segir Signý.
Ekki spillir fyrir að Gamla bíó hefur
sérstaka þýðingu fyrir Leikhúsmógúlinn.
„Okkar ævintýri byrjaði hér í þessu húsi
þegar ég og maðurinn minn Jón Tryggva-
son sáum Hellisbúann árið 1999. Hann
fékk þá þessa frábæru hugmynd að fá
réttinn af því verki í Evrópu og ekki var
aftur snúið,“ segir Signý en síðan hefur
það verk verið sýnt vítt og breitt um
heiminn. Ekkert lát er á vinsældum
Hellisbúans og í desember næstkomandi
verður hann frumsýndur í Kína. „Við
vorum stórhuga í upphafi en þetta æv-
intýri er orðið miklu stærra en okkur ór-
aði fyrir,“ segir Signý en Leikhúsmógúll-
inn er með starfsemi í fimm löndum, á
Íslandi, í Bandaríkjunum, Kína, Sviss og
Þýskalandi.
Edda og Laddi í essinu sínu
Af öðrum verkefnum Leikhúsmógúlsins
má nefna Helliskonuna eftir Emmu Pier-
son, sem þegar hefur verið frumsýnd í
fjórum löndum, og söngleikinn Silence
sem nýlega var frumsýndur í New York,
Off-Broadway. „Sú sýning hefur gengið
„Fallegasta
leikhús
á Íslandi“
Leikhúsmógúllinn hefur tekið við lyklavöldum í
Gamla bíói og mun standa þar fyrir leiksýn-
ingum og annarri menningarstarfsemi í vetur.
Sáraitlu hefur verið breytt enda ætla nýir hús-
bændur að varðveita anda og útlit hússins.
Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Myndir: Eggert Jóhannesson eggert@mbl.is
Enda þótt lágt sé til lofts er aðstaða fyrir listamenn í kjallara hússins býsna rúmgóð. Gamla bíó við Ingólfsstræti verður áfram vettvangur menningar- og listviðburða.
Edda Björgvinsdóttir og Laddi leika í
fyrstu sýningu vetrarins, Hjónabands-
sælu eftir Michele Riml. Frumsýnt verð-
ur á föstudaginn kemur.