Morgunblaðið - 27.05.2010, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 27.05.2010, Blaðsíða 31
Minningar 31 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. MAÍ 2010 Fallin er frá kær vinkona og frábær göngufélagi. Undan- farin tuttugu ár hefur gönguhópur sem kall- ar sig Fjallalömb gengið um Ísland og víðar í vikutíma á hverju sumri. Heiðrún hefur verið ómissandi félagi í þessum hópi. Margs er að minnast þegar horft er til baka. Heiðrún og Þorsteinn maðurinn hennar hafa oft haldið upp á brúðkaupsafmælið sitt í gönguferðunum okkar, þar á meðal 25 ára brúðkaupsafmæli þegar verið var að leggja af stað á Lónsöræfi og 40 ára afmælið síðastliðið sumar, en þá buðu þau upp á stóra marsíp- antertu á tjaldstæðinu í Norðurfirði eftir frábæra ferð á Austur-Strand- ir. Heiðrún var einstaklega góður fé- lagi, alltaf stutt í gamansemina og mjög hugsandi manneskja sem vildi leggja sitt af mörkum til að bæta mannlífið og umhverfið í kring um sig. Það var afar gaman að spjalla við hana um alla heima og geima á meðan gengið var um öræfin, hún var alltaf vel á sig komin og gat verið erfitt að fylgja henni eftir þegar á brattann var að sækja. Eitt atvik í þessum ferðum er okkur þó sérstaklega minnisstætt og lýsir Heiðrúnu vel. Sumarið 1999 gengum við um Öræfasveit og ná- grenni og fórum einnig inn í Núp- staðaskóga og þaðan inn að Græna- lóni. Í lok þeirrar erfiðu göngu, en farið var fram og til baka á sama degi, þá hrasaði Heiðrún við það að stökkva yfir lítinn læk og fótbrotn- aði, rétt áður en við komum til baka í náttstað fyrir ofan Klifið. Ekki þarf að orðlengja það en nú hófst mikið ferli í að koma Heiðrúnu undir lækn- ishendur. Heiðrún handlangaði sig með aðstoð niður keðju, hossaðist á „hestbaki“ á vöskum félögum og síð- an aftur í jeppa þar til komið var til læknis á Klaustri. Þar var hún sett í gifs en viti menn, Heiðrún kom aftur í tjaldbúðirnar í Svínafelli og var þar með Fjallalömbunum til loka ferð- arinnar. Allan tímann sýndi Heiðrún makalaust æðruleysi sem var svo einkennandi fyrir hana, auk þess sem hún var mjög hörð af sér, en það var ekki óvanalegt í þessum ferðum. Hún sagðist sjálf aldrei hafa orðið jafn sólbrún þar sem hún sól- aði sig fótbrotin í frábæru Svína- fellsveðri. Ótrúlegt er að hugsa til þess að það er bara tæpt ár síðan Heiðrún sló í gegn á árshátíð Fjallalambanna en þá lék hún Marilyn Monroe á ógleymanlegan hátt og var hrókur alls fagnaðar eins og oft áður. Heiðrún var frábær manneskja og við munum sakna hennar mjög mik- ið í næstu ferð en um leið getum við hugsað til þessarar sterku konu með miklu þakklæti fyrir ógleymanlegar samverustundir á undanförnum tuttugu árum. Elsku Þorsteinn, Sverrir, Þröstur og fjölskylda. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykk- ar allra og hlökkum til að labba áfram um fjöll og firnindi með þér Þorsteinn. Fyrir hönd Fjallalambanna, Björg Eiríksdóttir. Eldur er bestur með ýta sonum og sólar sýn, heilyndi sitt, ef maður hafa náir, án við löst að lifa. (Úr Hávamálum) Þessi vísa úr Hávamálum finnst okkur „Kellum“, en það var það nafn sem við gáfum vinahópi okkar, lýsa vel Heiðrúnu Sverrisdóttur. Hún Heiðrún Sverrisdóttir ✝ Heiðrún Sverris-dóttir fæddist 7. desember 1949 í Skógum, Hörgárdal. Hún andaðist 14. maí 2010. Heiðrún var jarð- sungin frá Digra- neskirkju 26. maí 2010. tamdi sér grandvart líf, nýtti frumgæði lífs- ins, horfði ávallt til sólar, var bjartsýn, hjartahlý og lifði heil- brigðu lífi. Heiðrún var límið bæði á vinnustað og í vina- hópum. Hvar sem hún var fylgdu henni gleði og hlýir straumar. Hún lét sig allt varða, hvort heldur það voru menn eða málefni, og ávallt tók hún upp hanskann fyrir þá sem minna máttu sín. Við erum þakklátar fyrir að hafa notið þeirrar gæfu að hafa átt Heið- rúnu sem samferðakonu og vinkonu. Við „Kellurnar“ áttum margar gleði- stundirnar saman enda markmiðið með okkar reglulegu fundum að hafa gaman saman sem við gerðum svo sannarlega. Við hittumst til skiptis hver hjá annarri, skemmtum okkur og nutum góðra veitinga. Heiðrún var kölluð yfir í annan heim allt of snemma en við trúum því að dyr að annarri tilveru bíði hennar, tilveru sem er dásamlegri en nokkurn grunar en hins vegar munum við sakna hennar sárt. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (Vald. Briem) Minning um einstaka konu verður Þorsteini og fjölskyldu hennar styrkur og bjart leiðarljós um ókom- in ár. Blessuð sé minning Heiðrún- ar. Við biðjum Þorsteini og fjöl- skyldu styrks í sorginni og megi orðspor góðrar konu lifa með ykkur um langa framtíð. Guðrún, Sigurborg og Ingibjörg Loga. Vorið er komið og grundirnar gróa og um leið og allt er að vakna til lífsins berst sú frétt að góð vinkona mín og samstarfskona til margra ára, Heiðrún Sverrisdóttir, sé látin. Það er erfitt að sætta sig við slíka frétt þó svo hræðslan við þá stað- reynd að fréttin gæti borist þá og þegar væri ávallt í undirmeðvitund- inni. Heiðrún var ráðgjafi leikskóla á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar þar sem leiðir okkar lágu fyrst saman. Með okkur skapaðist mjög náin vin- átta sem náði langt út fyrir vinnu- staðinn og stundum ræddum við það hvort sambandið væri einmitt svona náið og gott þar sem við ættum sama afmælisdag. Áhugamálin voru lík og þær voru ófáar stundirnar sem Heiðrún settist inn á skrifstof- una mína og við ræddum um það sem efst var á baugi hvort sem var í starfinu eða á stjórnmálasviðinu því Heiðrún var svo áhugasöm um lífið og tilveruna og fylgdist vel með þjóðmálunum. Það var einmitt í slíku samtali í október sem mér fannst Heiðrún að- eins föl á vangann svo ég spurði hana hvort hún væri nokkuð lasin. Hún taldi það nú ekki vera en nokkrum dögum síðar var hún orðin veik og þá uppgötvaðist hjá henni meinsemd sú sem nú náði yfirhönd- inni. Heiðrún sýndi mikinn styrk í bar- áttunni við veikindin og var ávallt ákveðin í að hafa betur. Hún var hraust kona og vel á sig komin og hafði lifað heilbrigðu lífi og nú var hún tilbúin að takast á við erfitt verkefni af fullum krafti. Lengi héldum við vinirnir líka í vonina en því miður varð Heiðrún mín að láta í minni pokann fyrir þeim sem öllu ræður. Hver sá til- gangur er vitum við ekki en trúum því að það hafi vantað slíkan öðling til starfa á öðru tilverustigi. Vinahópur Heiðrúnar er stór og hún lagði sig fram um að sinna öllum sínum góðu vinum. Við vorum saman í alþjóðlegum félagsskap kvenna sem heitir Delta Kappa Gamma og þar var hún verð- ugur fulltrúi og trú einkunnarorðum samtakanna sem eru einmitt vinátta, hjálpsemi og trúmennska. Það er því sama hvar borið er niður, alls staðar hefur hún bætt umhverfið og styrkt fólk og málefni. En þrátt fyrir alla góðu vinina var fjölskyldan ávallt í fyrirrúmi og hún var svo stolt af sonum sínum, tengdadóttur og barnabörnunum. Missir þeirra og Þorsteins og aldraðrar móður er mestur og þau hefðu svo sannarlega átt skilið að njóta samvista við hana lengur og það þráði hún líka ákaft. Það var einstaklega uppbyggjandi að eiga Heiðrúnu að vini, hún hafði slíka útgeislun og allir fóru ríkari af hennar fundi. Ég kveð hana nú með djúpum söknuði og jafnframt þakklæti fyrir að hafa fengið að vera vinkona henn- ar í þessi ár. Sé ég fjöld af förnum dögum, finn mér skylt að þakka að nýju góðhug þinn og alúð alla, endalausa tryggð og hlýju. (Guðmundur Böðvarsson) Fjölskyldunni allri sendi ég inni- legar samúðarkveðjur og vona að góðar minningar veiti styrk á þess- um erfiðu tímamótum. Ingibjörg Einarsdóttir. Í dag er kær vinkona kvödd. Það er sárt að horfa á bak henni eftir stutt veikindi. Fyrir um 15 árum lágu leiðir okkar saman í gegnum starf á Skólaskrifstofu Hafnarfjarð- ar. Það var lágvaxin og glaðleg kona sem vann hug og hjarta samstarfs- fólks síns með ljúfu og hressu við- móti. Samvinna okkar við ráðgjöf varð náin og með okkur þróaðist einkar góð vinátta. Heiðrún hafði einstakt lag á að hrósa, uppörva, milda ágreining og gera gott úr erf- iðum málum. Hún var mannasættir að eðlisfari og gefandi persónuleiki sem laðaði að sér ótrúlegan fjölda vina bæði gegnum vinnu og áhuga- mál. Áhugamál hennar voru fjöl- mörg og flest lutu þau að því að bæta mannlífið, hlúa að lítilmagnan- um og skapa betri heim. Í brjósti hennar sló stórt hjarta jafnaðar og réttlætis til handa öllu fólki. Það er skiljanlegt að kona með slíkar hug- sjónir velji sér að ævistarfi að hlúa að börnum og skapa þeim betri lífs- skilyrði og því starfi sinnti hún af al- úð og samviskusemi. Stundir okkar vinkvenna voru margar en þó allt of fáar þegar litið er til baka. Að setj- ast niður yfir kaffibolla eða salatskál og kryfja málin, leita leiða eða bara hlæja og gantast og sjá spaugilegu hliðarnar á mannlífinu var gefandi og alltaf fór maður ríkari af hennar fundi. Hún gaf svo mikinn kærleika af sér. Í desember varð Heiðrún sex- tug. Ég var svo lánsöm að eiga þá með henni og Þorsteini einstakt og ógleymanlegt kvöld í friðsældinni í sveitinni minni. Slíkar stundir verða perlur á bandi minninganna. Milli hennar og Þorsteins voru einstaklega sterk bönd. Þar fóru sterkir sjálfstæðir persónuleikar sem virtu sjálfstæði hvor annars. Þorsteinn var hennar styrkur og stoð. Fjölskyldan var þeim báðum mikils virði og saman hlúðu þau að öllu sínu fólki bæði ungu og öldnu. Hjá þeim áttu margir skjól. Missir ykkar allra er mikill en þó sérstak- lega eiginmanns, sona, tengdadóttur og barnabarna. Megi allar góðar vættir umvefja ykkur og sefa sorg ykkar. Hólmfríður Árnadóttir. Allt of fljótt ertu farin á feðra þinna fund. Vel í minningu varin er vinátta þín og lund. (H.P.) Það er komið að kveðjustund og hetjulegri baráttu Heiðrúnar vin- konu minnar er lokið. Þegar litið er til baka í sjóð minn- inganna koma í ljós ótal myndir frá liðnum árum. Það er af mörgu að taka en vinátta okkar hófst þegar Heiðrún var að feta sín fyrstu skref sem nýútskrifaður leikskólakennari á Kópasteini. Á Hábrautarárunum þróaðist einstök vinátta og hversu mörg myndaalbúm sem ég skoða fram til dagsins í dag þá eru alls staðar myndir frá skemmtilegum stundum í lífi okkar. Þær eru ýmist tengdar fjölskyldunni, sælkera- klúbbnum, félagsskapnum Hinar gömlu, bridgehópnum, vinnunni eða faglegum málum stéttarinnar. Til margra ára störfuðum við saman á skólaskrifstofu Hafnar- fjarðar en á þeim árum hélt Heiðrún utan um sérkennslumál leikskól- anna. Það var henni svo eiginlegt að leggja þeim lið sem þurftu á ein- hvern hátt að hafa meira fyrir hlut- unum. Umhyggjan fyrir málaflokkn- um var einstök og var það gæfa mín að hafa hana mér við hlið. Brennandi áhugi á leikskólamálefnum gaf oft tilefni til mikilla rökræðna um þau málefni leikskólans sem voru í brennidepli í það skiptið og því svo sjálfgefið hversu oft hún valdist til trúnaðar- og ábyrgðarstarfa. Það var svo margt jákvætt og gott sem einkenndi mína góðu vinkonu og sú umhyggja sem hún bar fyrir öðrum var einstök. Þá var hún afar góður hlustandi en lagði einnig jafn- an eitthvað til málanna. Hún hafði skoðanir á hlutunum og rökræddi pólitík af mikilli innlifun enda hafði hún verið bæjarfulltrúi í Kópavogi í nokkur ár og hafði alltaf áhuga á að ræða um landsins gagn og nauðsynj- ar. Hún hafði húmor og ef sá gállinn var á henni að setja hlutina í leik- búning þá fórst henni það afar vel. Í mörg ár höfum við fern hjón ver- ið saman í sælkeraklúbbi þar sem allt hefur verið fært til bókar í máli og myndum. Auk þess hittumst við í fjölda mörg ár ásamt Kristjönu og Guðmundi og börnum okkar sama dag á milli jóla og nýárs og borð- uðum glæsilega jólamáltíð. Þegar börnin urðu fullorðin og flogin úr hreiðrinu sameinuðust jólaboðin sælkerahópnum. Þessar stundir lifa í minningunni um hlátur og lífsgleði og þessi hópur saknar nú góðs vinar. Við Bjarni og börnin okkar Helga Huld og Ásgeir þökkum af öllu hjarta allar samverustundirnar. Ég kveð kæra vinkonu og tel það gæfu mína að hafa átt hana að vini. Elsku Þorsteinn, Þröstur, Sverrir Ágúst og fjölskylda, til ykkar hugs- um við með hlýhug og biðjum þess að allar góðu minningarnar ylji ykk- ur um ókomin ár. Vertu sæl mín kæra og ég sakna þín. Sigurlaug Einarsdóttir. Kveðja frá Félagi leikskólakennara Fallin er frá langt fyrir aldur fram félagi góður Heiðrún Sverrisdóttir. Heiðrún var leikskólakennari af lífi og sál og helgaði leikskólabörnum og leikskólamálum starfskrafta sína alla tíð, lengst af í Kópavogi og síðan Hafnarfirði. Hún tilheyrði kraft- miklum útskriftarárgangi leikskóla- kennara sem hefur verið þekktur fyrir sterka fag- og stéttarvitund og efumst við ekki um að Heiðrún hefur lagt mikið af mörkum í þann góða hóp. Hún lét til sín taka á ýmsum vettvangi, meðal annars í stéttar- félagapólitík, sat í stjórn félagsins um árabil og vann einnig mikið á vettvangi Faghóps leikskólasér- kennara og var formaður hópsins til nokkurra ára. Heiðrún var einstak- lega ljúf og glaðvær manneskja og átti auðvelt með samskipti við annað fólk. Hún var einnig fylgin sér og þeim málstað sem hún stóð fyrir, var áhugasöm um menn og málefni, hafði skoðanir og lét þær í ljós. Þess vegna valdist hún til ýmissa trún- aðarstarfa sem hún sinnti af mikilli samviskusemi og alúð. Um leið og við vottum eiginmanni og fjölskyldu Heiðrúnar einlæga samúð viljum við fyrir hönd Félags leikskólakennara þakka henni mikilvæg störf í þágu félagsins okkar, leikskólakennara og leikskólabarna alla tíð. Björg Bjarnadóttir og Marta Dögg Sigurðardóttir. Elsku Heiðrún vinkona okkar er látin. Á sorgarstundum þegar falla frá kærir vinir og skyldmenni verður okkur oft hugsað til þess hversu ör- lögin geta verið grimm og ósann- gjörn, og við sem trúum á Guð al- máttugan skapara himins og jarðar skiljum hreinlega ekki hvað sá hái herra er að hugsa á stundum sem þeim að frá okkur eru teknir vinir á besta aldri. Stórt skarð er nú höggvið í vina- hópinn þegar elskuleg vinkona okk- ar hjóna Heiðrún Sverrisdóttir er fallin frá á besta aldri eftir fremur stutt en erfið veikindi. Við höfðum vonað og beðið fyrir henni og að með sífellt betri lyfjum og nýjungum í læknisfræðinni myndi hægt að komast fyrir meinið. Æðruleysi hennar var með ein- dæmum þótt hún væri svona mikið veik og bjartsýnin var ætíð til stað- ar. Síðast þegar við hittum hana var hún nýbúin á erfiðum lyfjakúr en fallega brosið og góða skapið var enn til staðar og slegið var á létta strengi eins og hennar var von og vísa, það var ekki eins og hún væri að berjast við alvarleg veikindi. Heiðrún var ævinlega kennd við Skóga á Þelamörk þar sem hún ólst upp og hafði alla tíð miklar taugar til æskustöðvanna. Við kynntumst henni þegar við vorum 15-16 ára og með okkur tókst mikil vinátta og þegar þau felldu hugi saman, hún og eftirlifandi mað- ur hennar, Þorsteinn Berg, urðum við enn nánari og samverustundirn- ar fleiri. Við áttum þarna vini eins og þeir gerast bestir og ævinlega leið okkur vel saman og þótt langt væri á milli, við á Akureyri og þau í Kópavogi, voru allar leiðir nýttar til að heim- sækja hvert annað. Þær voru því ófáar ánægjustundirnar sem við átt- um með þessum kæru vinum okkar. Heiðrún var afskaplega skemmti- leg kona sem ætíð sá húmorinn í líf- inu og það var engin lognmolla yfir umræðunum hjá okkur þegar setið var að spjalli um dagana og oft glatt á hjalla. Hún hafði lag á að stríða manni þegar sá var gállinn á henni enda tók hún vel stríðni sjálf en það var ekki fyrir hvern sem var að fara í or- ustu við hana og maður lærði það fljótt að sú orusta var oftast fyr- irfram töpuð. Heiðrún var mjög greind og fljót að koma auga á rétt og rangt, hafði fastar skoðanir á þjóðmálum og lét um tíma bæjarmálin til sín taka enda eftirsótt til starfa sem slík bæði harðdugleg og ósérhlífin. Hún hafði samt afskaplega gott lag á því að slappa af í góðra vina hópi og maður varð aldrei var við það að erill væri hjá henni þótt mað- ur vissi að oft var það svo, en þegar vinir komu í heimsókn þá hafði það forgang fram yfir allt og það var ævinlega notalegt að setjast niður með henni og maður datt inn í heim þægilegheita og góðra vina spjalls. Elsku Þorsteinn, Sverrir Ágúst og Þröstur, megi Guð sefa sorg ykkar og söknuð og vera með ykkur og fjölskyldum ykkar á þessum erfiðu tímum missis og tómleika. Við vottum einnig öðrum í fjöl- skyldu Heiðrúnar okkar dýpstu samúð. Við erum hjá ykkur í huganum og vitum að Heiðrún skildi eftir ljós, ljós minninganna, Guð blessi hana. Kristján Gunnarsson og Jóna Árnadóttir.  Fleiri minningargreinar um Heið- rúnu Sverrisdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.