Morgunblaðið - 04.06.2010, Síða 25
Minningar 25
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. JÚNÍ 2010
ur og Guðmundur sem arkitekt.
Mikil og ómetanleg vinátta mynd-
aðist með okkur öllum.
Nokkrar ferðirnar fórum við
Gunna saman eftir að við kynnt-
umst, bæði innanlands og utan.
Fyrstu árin vorum við duglegar að
fara á gönguskíði og þar með urðu
allar helgar uppteknar á veturna í
fjöllunum. En Gunna var mikil
skíðadrottning á sínum yngri árum
á Ísafirði, þar sem hún ólst upp.
Síðan urðum við meðlimir í ferða-
félaginu Útivist. Með félaginu fór-
um við meðal annars í gönguferðir
bæði á kvöldin og í styttri dags-
ferðir. Ein þessara ferða var sér-
staklega eftirminnileg, en það var
ferðin yfir Leggjabrjót, þar sem
hún bæði handleggs- og rifbeins-
brotnaði. Hún lét það þó ekki aftra
sér frá því að ljúka göngunni, sem
lýsir því svolítið hvernig kona hún
var. Gunna var mikill göngugarpur
allt til síðasta dags þó að hún væri
komin með göngugrind sér til
stuðnings síðustu mánuðina. Við
Gunna fórum einnig í útilegur með
lítinn tjaldvagn sem ég átti. Í
Stykkishólmi lentum við í því að það
vantaði eina skrúfu til að við gætum
tjaldað vagninum. Gunna lét það nú
ekki aftra sér og hélt tjaldinu uppi í
hálfa klukkustund meðan ég skaust
inn í bæinn til að ná í viðgerðar-
mann.
Svo kom að því að við ákváðum að
fara utan og Mallorka varð fyrir
valinu. Þessi fyrsta ferð okkar var
svo velheppnuð að margar aðrar ut-
anlandsferðir fylgdu í kjölfarið eins
og Búdapest, Svartiskógur og
Gardavatn. Allar þessar ferðir voru
sögulegar og ævintýri líkastar, hver
á sinn hátt. Einnig fórum við til
Færeyja og síðasta ferðin okkar var
til Grænlands árið 2006. Ég geymi
margar góðar minningar um Gunnu
úr þessum ferðum.
Gunna varð fyrir mörgum áföll-
um í lífinu. Eitt af því var þegar hún
missti elstu dóttur sína, Ellu Stínu.
Það var henni þungbært og sorgin
óyfirstíganleg en alltaf hélt hún
ótrauð áfram.
Gunna var minn klettur í lífinu
sem ég gat alltaf leitað til þegar ég
þurfti á góðum ráðleggingum að
halda. Ég kveð með söknuði mína
elskulegu vinkonu en á sama tíma
er ég full þakklætis fyrir að hafa
kynnst þessari sérstöku konu sem
hefur haft mikil áhrif á líf mitt og
fjölskyldu minnar. Ég sendi börn-
um hennar, tengdabörnum, barna-
börnum og barnabarnabörnum
mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Ragnhildur Auður
Vilhjálmsdóttir.
Kæra Guðrún mín.
Mig langar að skrifa þér örfá
kveðjuorð og þakka fyrir samveru-
stundirnar okkar sem allar voru
góðar.
Stórbrotnari og hlýrri manneskju
hef ég varla kynnst. Þú varst létt í
lund, fróð og gast verið svo
skemmtilega hnyttin og þú varst
með þetta „glimt i öjet“ sem ein-
kenndi þig svo mjög. Ógrynnin öll
kunnir þú af vísum og ljóðum sem
ætíð hittu í mark við hin ýmsu tæki-
færi.
Það var ekki nein lognmolla
kringum þig. Þú áttir stóran og
samheldinn afkomendahóp og
marga vini og allir sóttu til „ömmu
Gunnu“.
Ávallt fór ég glaðari frá þér.
Ég vildi hafa kynnst þér miklu
fyrr og átt með þér lengri tíma.
Hjartans þakkir fyrir fá en góð
ár, elsku Guðrún mín.
Þín vinkona,
Júlía Leví.
Elsku Gunna mín. Ekki datt mér
í hug, þegar ég kom til þín á
fimmtudaginn fyrir hvítasunnu, að
það væri síðasta stundin, sem við
ættum saman. Þú varst þá svo
hress miðað við hvað þú ert búin að
vera veik undanfarið. Þú hefur oft
orðið fyrir áföllum í lífinu, bæði
veikindum og missi en staðið sterk
sem eik á eftir. Okkar fyrstu kynni
voru þegar ég var á öðru ári og for-
eldrar okkar deildu saman íbúð á
Öldunni á Ísafirði. Þar var þröngt
búið og m.a. var eldhúsið sameig-
inlegt. Vinátta þeirra var ævilöng.
Að leiðarlokum þakka ég þér
tryggð þína við mig. Minningarnar
eru margar, sem nú rifjast upp,
skíðaferðir á Seljalandsdal, bad-
minton á morgnana fyrir vinnu.
Báðar spiluðum við handbolta. Þú í
Herði, en ég í Vestra. Þegar þú
varst að fara frá Ísafirði með
Bjarna Gunnar og giftist Þorsteini
hvattir þú mig til að koma suður.
Það var ekki síst fyrir þína hvatn-
ingu sem ég hóf nám í hjúkrun. Þú
bauðst mér að gista hjá ykkur í
Karfavoginum. Fljótlega fékk ég
vinnu og húsnæði. Þið fluttuð á
Baldursgötuna þar sem ég var tíður
gestur og alltaf jafn velkomin.
Bjarni Gunnar hafði gaman af því
að lána mér rúmið sitt því þá fékk
hann að sofa uppi í hjá mömmu og
Steina. Leiðir skildi síðan þegar þið
fluttuð til Vestmannaeyja. Á sein-
asta námsárinu mínu í hjúkruninni
bauðstu mér að koma þangað í sum-
arfríinu. Þú útvegaðir mér vinnu í
frystihúsinu og útbjóst mig með
nesti. Fríið endaði ég svo á þjóðhá-
tíðinni í Eyjum 1954.
Segja má að nýr kafli í samskipt-
um okkar hafi hafist þegar þið flutt-
uð upp á land eftir gosið. Alltaf var
gaman að fá ykkur í heimsókn til
okkar í Borgarnes og sjá þessi
myndarlegu börn ykkar. Eftir að
við fluttum suður og aldurinn færð-
ist yfir höfum við notið þess að geta
hist og spjallað saman og rifjað upp
gamla daga. Ég minnist þess þegar
ég fór í Þjóleikhúsið í fyrsta sinn,
þá var það með ykkur Steina til að
sjá Íslandsklukkuna eftir opnun
leikhússins. Það rifjast líka upp
þegar við fyrir tilviljun hittumst á
götu á Ítalíu. Því miður var Steini
orðinn lasinn í þeirri ferð.
Ég þakka þér fyrir ræðuna, sem
þú hélst í 80 ára afmælinu mínu.
Systkini mín höfðu mjög gaman af
því þegar þú sagðir svo skemmti-
lega frá foreldrum okkar.
Kæra vinkona. Ég þakka þér
ævilanga tryggð og vináttu sem
aldrei bar skugga á. Við Húnbogi
sendum börnum þínum og fjöl-
skyldum þeirra innilegar samúðar-
kveðjur.
Erla Ingadóttir.
Kveðja frá Þorgerðarsystrum
Með söknuði kveðjum við kæra
vinkonu okkar Guðrúnu A. Gunn-
arsson. Þrátt fyrir að aldurinn
færðist yfir, kom skyndilegt fráfall
hennar mjög á óvart. Hún sat og
spjallaði í síma að kvöldi en að
morgni var hún látin. Sjóninni hafði
hrakað mikið en engu að síður
stundaði hún gönguferðir í ná-
grenni við heimili sitt þegar vel
viðraði. Útivist hafði alltaf höfðað til
hennar og var það partur af hennar
daglega lífi. Guðrún var minnug og
sagði skemmtilega frá. Hún bar sig
ævinlega vel, var vel máli farin og
orðheppin. Enda hélt hún óskiptri
athygli allra viðstaddra. En hennar
tími var kominn.
Guðrún var aðalhvatamaður að
stofnun nýrrar Oddfellowstúku í
Reykjavík árið 1977 með konum
sem búið höfðu í Vestmannaeyjum.
Flestar áttu heimili sitt þar þegar
eldgosið hófst í Heimaey 1973 og
íbúar þurftu að flýja Eyjarnar og til
viðbótar voru konur sem áður voru
fluttar upp á fastalandið. Það voru
miklar breytingar hjá fólki sem
skyndilega þurfti að yfirgefa heimili
sín og setjast að á nýjum stað. Því
var kærkomið að hittast og sameina
hópinn sem hafði starfað saman úti
í Vestmannaeyjum. Guðrún hafði
brennandi áhuga á þessu máli og
dreif hlutina áfram. Hún var sjálf-
kjörin til forystu og hreif hinar með
sér. Þessir forystuhæfileikar fylgdu
Guðrúnu og oft á liðnum árum lagði
hún góðum málum lið og hafa orð
hennar ævinlega vegið þungt. Fram
til þess síðasta var hún virkur þátt-
takandi í sístækkandi stúku okkar
sem hún var upphafsmaður að fyrir
rúmum 30 árum síðan, félagi þar
sem eining og áhugi til að láta gott
af sér leiða er hafður að leiðarljósi.
Við sem höfum starfað með Guð-
rúnu í gegnum árin eiguðumst vin-
áttu hennar og tryggð. Hennar
verður sárt saknað.
Guð blessi minningu Guðrúnar A.
Gunnarsson.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Vald. Briem.)
Börnum Guðrúnar og öðrum ást-
vinum hennar vottum við okkar
innilegustu samúð.
Gyða Guðbjörnsdóttir.
Gunna Gunn var ein af þeim per-
sónum sem verða svo minnisstæðar
þeim sem eftir lifa. Hún var stór
persónuleiki eins og stundum er
sagt.
Gunna var þátttakandi í lífi mínu
í um það bil 35 ár, sem móðir æsku-
vinkonu minnar. Við Anna Hedvig,
yngsta dóttir hennar, höfum verið
bestu vinkonur frá unga aldri og
vorum gjarnan kallaðar samlokurn-
ar eða Önnurnar. Á þeim árum var
ég heimagangur hjá Gunnu og lærði
fljótt að meta mannkosti hennar og
einstakan persónuleika. Hún hafði
sérstakt lag á að láta manni líða vel
inni á heimilinu, eins og maður væri
hluti af fjölskyldunni. Hún spjallaði
við barnið eins og jafningja sinn, af
virðingu. Mér fannst ég alltaf svo-
lítið fullorðin þegar við töluðum
saman og bar lotningu fyrir visku
þessarar konu.
Þegar ég komst á fullorðinsár
breyttust umræðuefnin og snerust
meira um ættfræði, sögur frá Ísa-
firði og Eyjum og ósjaldan um að-
dáun okkar beggja á dótturdóttur
hennar og nöfnu, Guðrúnu Önnu,
guðdóttur minni.
Gunna hafði mikinn áhuga á ís-
lenskri tungu. Hún leiðrétti mál-
fræði og tungutak okkar vinkvenn-
anna óspart og uppfræddi um
merkingar fornra orða en áhugi og
undirtektir voru oft takmarkaðar.
Hún var líka vel hagmælt, kunni
mikið af ljóðum og orti talsvert
sjálf. Eftir hana liggja ógrynni af
stökum og vísum sem hún skrifaði á
miða hér og þar.
Gunna var ávallt skemmtilegasti
gesturinn í boðinu. Það var unun að
hlusta á hana segja sögur. Hún
sagði þær svo undir tók í salnum og
allir lögðu við eyru. Hún hafði kald-
hæðna kímnigáfu og skemmtilegt
lag á að gera grín að sjálfri sér og
öðrum. Gunna varð sjaldan orðlaus,
hún átti alltaf hnyttin tilsvör og
glotti þegar vel tókst til. Hún var
djúpvitur kona sem hafði reynt eitt
og annað í lífinu, bjó yfir fróðleik og
lífsspeki sem hún kunni að miðla til
samferðafólks. Ég naut þess að
heimsækja hana og spjalla um
heima og geima og fannst ég alltaf
svo miklu ríkari að visku þegar ég
kvaddi.
Gunna var ákaflega stolt kona og
vildi lifa með andlegri og líkamlegri
reisn og það fékk hún svo sann-
arlega að gera. Hún gekk í Elliðaár-
dalnum sínum fram á síðasta dag og
naut þess að vera sjálfstæð í eigin
íbúð. Hún kvaddi á þann hátt sem
hún hefði helst kosið.
Ég átti eftir að spjalla meira við
Gunnu og sakna þess að fá ekki að
halda samræðunum áfram eilítið
lengur. Samræðum við konu eins og
hana lýkur reyndar aldrei, maður
heldur þeim áfram í huganum. Mér
þótti afar vænt um Gunnu og er
henni þakklát, hún skilur eftir sig
svo hlýjar og góðar hugsanir. Ég
hlakka til þeirra stunda þegar við
dóttir hennar og dótturdóttir sam-
einumst í frásögnum og minningum
um Gunnu. Við munum njóta þess
að segja dóttur minni frá þessari
mögnuðu og merkilegu konu, sem
færði henni svo fallegar gjafir og
kveðjur og gladdist svo einlæglega
með mér þegar hún kom í heiminn.
Ég sendi allri fjölskyldu Gunnu
mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Sérstaklega votta ég elsku vinkonu
minni, Önnu Hedvig, og dóttur
hennar, Guðrúnu Önnu, samúð
mína og vona og veit að birtan og
hlýjan hennar Gunnu fylgir þeim
um ókomin ár.
Anna Birna.
„Þú ert nú meiri angurgapinn,“
sagðir þú.
„Ha?“ svaraði ég.
„Svei … ég hélt að þú værir ætt-
aður að vestan, veistu ekki hvað
angurgapi þýðir?“ sagðir þú.
„Ha?“ svaraði ég.
Þá pírðir þú augun lítið eitt og
settir upp þitt sérstaka bros – bros
sem táknaði að þú skemmtir þér.
Svo hlóstu og sagðir: „Komdu í það
minnsta og fáðu þér gott kaffi.“
Stuttu seinna sofnaðir þú yfir kaffi-
könnunni. Þú sofnaðir líka inni í
pottaskáp. Það var helst þegar
svefninn sótti á þig sem ég hafði
betur í orðaskaki.
Ég man það betur en flest annað
þegar við hittumst fyrst á stigapall-
inum í Litlahjalla fyrir tuttugu og
fimm árum. Ég var í þeim erinda-
gjörðum að eltast við dóttur þína en
þú varst í þeim erindagjörðum að
skemmta þér á minn kostnað. Ég sá
tilvonandi tengdamömmu en þú
sást taugaveiklaðan stubb sem
reyndi að hverfa ofan í viðinn. Við
rifjuðum þennan atburð upp fyrir
nokkrum dögum og hlógum mikið.
Þegar fyrstu kynnum var lokið
þarna á pallinum léstu vaða: „Hver
hefur gefið þér leyfi til að eltast við
hana dóttur mína?“ Ég svitnaði í
lófunum en mér tókst að stynja
upp: „Ja, ég ætlaði einmitt að fara
að biðja þig um leyfi.“ Upp frá því
tókst vinátta sem átti sér fá líkindi.
Við ræddum svo margt sem eng-
inn veit. Við lásum ljóð og horfðum
á fótbolta, ég lærði að stuðla en þú
stökkst úr stólunum og hrópaðir
„rangstaða!“ Skömmu seinna vor-
um við sest inn í eldhús yfir kaffi og
döðluköku. Það voru hinir bestu
tímar.
Þegar ég átti mínar erfiðustu
stundir sendir þú mér línur sem ég
geymi á meðal þess sem reynst hef-
ur verðmæti í þessu lífi:
Vonir þínar, vinur minn,
verða við þig bundnar.
Alltaf mun ég elska þig
til okkar hinstu stundar.
(Guðrún G.)
Ég skrifaði þér seinna nokkrar
línur sem ég sendi þér aldrei,
kannski vegna þess að þú áttir að fá
þær nú:
Þú veist það ekki, vina mín,
þótt vita mættir flest
að alltaf voru orðin þín
allra orða best.
(Atli G.)
Þú býrð í huga mér sem góður
vinur – eins og sólblóm við svefn-
herbergisglugga sem gægist yfir
sylluna og boðar góðan dag. Vinur
sem hreyfir við strengjum kátínu
og veitir tímanum tilgang. Þar sem
þú ert, þar er góður félagsskapur.
Þú gengur nú um í grænni laut á
heiðum degi. Þeir sem hafa beðið
þín fá nú loks að njóta kátínu þinnar
og þola beinskeytta vestfirska
fyndni. Þú lifir áfram á meðal okkar
hinna sem mær minning og von um
að við sláumst aftur í sama hóp þeg-
ar sú stund rennur upp.
Það eru til manneskjur sem segja
töfraorð. Töfraorð eru bara ósköp
venjuleg orð sem flestir kunna en
þau bera með sér töfra þegar mann-
eskja eins og þú gefur þeim gildi.
Töfraorð eru eins og faðmlag í ein-
semd, hlátur á meðal vina, sól að
morgni og hlý sæng að vetrarnóttu.
Í anda Þorgerðar.
Þinn vinur,
Atli.
Í dag kveð ég góðan vin minn,
Guðrúnu Önnu Gunnarson, sem
kom eins og stormsveipur inn í líf
mitt fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi síð-
an, þegar hún gerðist húsvörður í
Snælandsskóla í Kópavogi. Með
okkur tókst strax góð vinátta og er
óhætt að segja að hún hafi laðað
það besta fram í öllum sem hún um-
gekkst, ekki hvað síst nemendum
skólans sem vildu allir allt fyrir
hana gera. Fyrir hvern skóla er það
ómetanlegt að hafa starfsfólk sem á
gott með að umgangast börn og
unglinga og kemur fram við ung-
dóminn af virðingu.
Ég geri mér ekki alveg grein fyr-
ir því hvað það var sem varð til þess
að við urðum svona miklir vinir, en
einhvern veginn hitti hún mig bara
beint í hjartað. Hún var ein sú allra
besta og skemmtilegasta mann-
eskja sem ég hef kynnst um ævina.
Velvilji hennar í garð annarra og
manngæska áttu sér engan sinn
líka. Hún hafði lifað margt og hafði
frá mörgu að segja, frá árunum á
Ísafirði forðum daga og eins úr
Vestmannaeyjum og svo líka frá ár-
unum hérna á mölinni síðustu árin.
Hún var fróð um margt, ljóðelsk
með afbrigðum og átti gott með að
setja saman tækifærisvísur, ég fór
ekki varhluta af þeim frekar en aðr-
ir vinir hennar. Umfram allt var
hún skemmtileg manneskja og
glettin og átti svo gott með að koma
auga á hið spaugilega í lífinu. Hún
sagði skemmtilega frá og var hlát-
urmild, hún hafði einhvern veginn
mannbætandi áhrif á alla í kringum
sig, það fann maður langar leiðir.
Um leið og ég kveð þig kæra vin-
kona, vil ég þakka þér fyrir hönd
okkar sem voru þér samferða hér í
Snælandsskóla fyrir öll þín góðu
verk hér – þau voru mörg og ómet-
anleg. Ég vil líka þakka þér fyrir
samveruna og tryggðina við mig í
gegnum árin, þú gerðir mig svo
sannarlega að betri manni. Takk
líka fyrir allar skötuveislurnar, vís-
urnar, sögurnar og samverustund-
irnar. Minningarnar mun ég geyma
í hjarta mér.
Um leið og ég votta öllum að-
standendum og vinum samúð mína
bið ég þér Guðs blessunar, Gunna
mín, ég veit að þú munt áfram hafa
mannbætandi áhrif bæði í þessu lífi
og því næsta.
Þinn vinur,
Helgi B. Helgason.
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir
og amma,
ÁSGERÐUR SIGURBJÖRNSDÓTTIR
sjúkraliði,
Byggðavegi 86,
Akureyri,
andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi
þriðjudaginn 1. júní.
Útför hennar verður auglýst síðar.
Haraldur Magnússon,
Anton Haraldsson,
Sigurbjörg Haraldsdóttir,
Þorvaldur Rafn Kristjánsson,
Sverrir Haraldsson,
Magnús Orri Haraldsson,
Sigurbjörn Haraldsson
og barnabörn.
Morgunblaðið birtir minningar-
greinar endurgjaldslaust alla út-
gáfudaga.
Skilafrestur | Ef óskað er eftir
birtingu á útfarardegi verður grein-
in að hafa borist eigi síðar en á há-
degi tveimur virkum dögum fyrr (á
föstudegi ef útför er á mánudegi
eða þriðjudegi).
Þar sem pláss er takmarkað get-
ur birting dregist, enda þótt grein
berist áður en skilafrestur rennur
út.
Minningargreinar