Morgunblaðið - 07.09.2011, Qupperneq 32

Morgunblaðið - 07.09.2011, Qupperneq 32
32 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 7. SEPTEMBER 2011 Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Rúmenski kvikmyndagerðarmaðurinn Adrian Sitaru verður kynntur á Alþjóðlegri kvik- myndahátíð í Reykjavík, RIFF, sem Upprenn- andi meistari og stuttmyndir eftir hann sem og kvikmyndir í fullri lengd sýndar á hátíðinni. Stuttmyndirnar eru The Cage, Lord og Waves en kvikmyndirnar Hooked frá árinu 2007 og From Love with Best Intentions, einnig nefnd Best Intentions, sem frumsýnd var nú í sumar. Sitaru hefur notið mikillar velgengni, myndir hans verið sýndar víða á hátíðum og hlotið fjölda verðlauna og má þar nefna að sú síðastnefnda hlaut tvenn verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Locarno í sumar, silfurhlébarða fyrir bestu leik- stjórn og besta karlleikara í aðalhlutverki. Sit- aru verður viðstaddur sýningar á kvikmyndum sínum og stuttmyndum og mun svara spurn- ingum áhorfenda að þeim loknum. Ferskir vindar Sitaru vakti fyrst alþjóðlega athygli þegar stuttmynd hans Waves hlaut verðlaun á Loc- arno-hátíðinni fyrir fjórum árum, var þar valin besta alþjóðlega stuttmyndin. Sitaru útskrif- aðist frá kvikmyndaakademíunni í Búkarest árið 2003 og hefur því náð frama í kvikmyndaheim- inum á tiltölulega skömmum tíma. Sitaru til- heyrir hópi ungra, rúmenskra kvikmyndagerð- armanna sem vakið hafa athygli utan heimalands síns undanfarin tíu ár eða þar um bil og þykja bera með sér ferska vinda í rúmenskri kvikmyndagerð, jafnan kenndir við „rúmensku kvikmyndanýbylgjuna“. Kvikmyndagerð- armennirnir eiga það sameiginlegt að hafa alist upp á tímum kommúnismans í Rúmeníu, upp- lifað fall hans og umskipti í landinu í átt að lýð- ræði. Sitaru fæddist árið 1971 og var því á 18. aldursári þegar einræðisherranum Ceausescu var steypt af stóli. Þekktasta kvikmyndin sem tilheyrir þessari nýbylgju er eflaust 4 Months, 3 Weeks and 2 Days, kvikmynd Cristian Mungiu sem hlaut aðalverðlaun Cannes, Gullpálmann, árið 2007. „Slice of life“ Blaðamaður ræddi við Sitaru í fyrradag og spurði hann fyrst út í rúmensku kvikmyndaný- bylgjuna. „Hún hófst, að mati margra gagnrýn- enda og að mínu mati einnig, á Stuff and Dough, fyrstu kvikmynd Cristi Puiu sem heitir Marfa si Banii á rúmensku og er frá árinu 2001,“ segir Sitaru. Upp frá því hafi menn orðið varir við breytingar í rúmenskri kvikmyndagerð, frá- sagnartækni og stíl. „Þó að við séum ekki að hittast og ræða dogma eða eitthvað í þá veru er- um við að einhverju leyti með svipaðan stíl. Til dæmis eru þessir kvikmyndagerðarmenn ekki hrifnir af því að nota áhrifatónlist í myndum sín- um,“ segir Sitaru. Þó sé hver leikstjóri með sína skoðun á því hvernig best sé að segja sögu. „Það er erfitt að segja af hverju rúmenska nýbylgjan hefur náð slíkum vinsældum. Við erum að gera 10-15 myndir á ári, þær voru færri fyrir um sex árum, aðeins fáeinar á ári.“ Sitaru segir myndirnar raunsæjar, það sem kallað sé á ensku „slice of life“. Ekkert sé ýkt að óþörfu og nýjustu kvikmyndirnar þess eðlis að sögurnar eigi að höfða til allra, ekki bundnar við rúmenskt samfélag, pólitík eða sögu. Byggð á reynslu leikstjórans – Þú ert afar hrifinn af POV-myndatökum, þ.e. að taka myndirnar frá sjónarhorni persóna þannig að áhorfandinn sjái hlutina með þeirra augum. „Já, það er þó ekki mín uppfinning,“ segir Sit- aru kíminn. Hann hafi fallið fyrir þeirri töku- tækni þegar hann gerði kvikmyndina Hooked. „Ég er kannski aðeins að ýkja en þetta er fram- tíð kvikmyndagerðar að mínu mati. Það er auð- veldara og eðlilegra að setja áhorfendur í spor persónanna með þessum hætti þannig að þeir séu í miðri atburðarásinni, fylgist ekki með henni utan frá. En þetta er mjög erfitt tækni- lega, það er erfitt að líkja eftir augnhreyfingum í kvikmyndum,“ segir Sitaru. Þessari aðferð sé beitt í tölvuleikjum í síauknum mæli og í sjón- varpsþáttum á borð við Big Brother. „Mér finnst áhugaverðara að sjá hlutina með augum sögupersónanna.“ Kvikmyndin From Love with Best Intentions er að miklu leyti byggð á reynslu Sitaru en í henni segir af 33 ára manni, Alex og móður hans sem fær heilablóðfall. Hún er lögð inn á spítala í heimabæ sínum en Alex býr í Búkarest. Hann heldur til heimabæjarins til að hjúkra móður sinni en verður afar tortrygginn í garð lækna, hjúkrunarfólks og nánustu ættingja, fer að hugsa órökrétt og gruna fólk um græsku, verður taugaveiklaður og ofsóknaróður. Þó vilja allir móður hans vel. Sitaru hefur áður sagt í við- tölum að hann hafi mikinn áhuga á mannlegri hegðun og þá tilhneigingu okkar mannanna til sjálfstortímingar og virðist myndin höggva í þann knérunn. Hann segir móður sína hafa fengið heilablóðfall fyrir nokkrum árum en þó hafi allt farið vel. Þetta hafi engu að síður verið erfið lífsreynsla og hann hafi verið ósáttur við eigin hegðun á meðan á þessu stóð. Myndin snú- ist ekki um sjúkrahús eða heilbrigðiskerfið í Rúmeníu heldur óttann við að missa einhvern sér nákominn og órökrétt viðbrögð sonarins gagnvart þeim sem eru að reyna að gera sitt besta, hafa gott eitt í huga. „Hún er um mann sem reynir að hafa stjórn á ástandinu en það er asnalegt að halda að maður geti það,“ segir Sit- aru. Gott fyrir myndirnar Sitaru segist hafa byrjað að gera stuttmyndir áður en hann komst inn í kvikmyndaskólann í Búkarest en honum hafði þá verið synjað nokkr- um sinnum um skólavist. Það hafi því verið gott fyrir sjálfstraustið að hljóta virt kvikmynda- verðlaun. „Ég var heppinn,“ segir hann og hlær. Nú líti hann slík verðlaun hins vegar öðrum aug- um, þau séu fyrst og fremst góð fyrir kvikmynd- irnar, tryggi þeim betri dreifingu og meiri at- hygli. Hann gleðjist yfir verðlaunum með sama hætti og foreldri gleðst yfir því þegar barn fær viðurkenningu og hrós. Þá sé það gott fyrir rúm- enska kvikmyndagerð að rúmensk kvikmynd hljóti eftirsótt verðlaun og góða dreifingu. – Ertu byrjaður á nýrri mynd? „Já, reyndar, æfingar eru hafnar því í við vilj- um hefja tökur í byrjun nóvember,“ segir Sitaru en myndin mun heita Domestic. Sitaru hefur þann háttinn á að láta leikara æfa vel fyrir tökur og setja sig af fremsta megni inn í hugarheim persóna. Handritið að Domestic var skrifað þeg- ar For Love With Best Intentions var í fram- leiðslu. Domestic verður svört kómedía um þrjár fjölskyldur sem tengdar eru saman í fimm ólík- um sögum um fólk og húsdýr. Angist Stilla úr kvikmyndinni From Love With Best Intentions, eða Din dragoste cu cele mai bune intentii eins og hún heitir á rúmensku. Leikarinn Bogdan Dumitrache er hér næst linsu mynda- vélarinnar en hann hlaut verðlaun á síðustu kvikmyndahátíð í Locarno fyrir bestan leik karls í aðalhlutverki og leikstjórinn Sitaru verðlaun fyrir besta leikstjórn. Áhorfandinn í atburðarásinni miðri  Rúmenski kvikmyndaleikstjórinn Adrian Sitaru kynntur sérstaklega á Alþjóðlegri kvikmynda- hátíð í Reykjavík, RIFF  Margverðlaunaður og tilheyrir rúmensku kvikmyndanýbylgjunni Alþjóðleg kvik- myndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst 22. september næstkomandi og lýkur 2. október. Í ár er sjónum beint sérstaklega að Rúmeníu, í flokknum Sjónarrönd. Auk stutt- mynda og kvikmynda Adrians Sit- aru verða sýndar The Autobiog- raphy og Nicolae Ceaucescu eftir Andrei Ujica, Outbound eftir Bogd- an George Apetri, Loverboy eftir Catalin Mitulescu og Crulic eftir Anca Damian. Myndirnar hafa flestar verið valdar til sýninga á þekktum kvikmyndahátíðum, m.a. í Cannes, Lundúnum, Locarno og New York. Forseti Alþjóðlegu kvik- myndahátíðarinnar í Transilvaníu, Tudor Giurgiu, mun einnig sitja í dómnefnd hátíðarinnar fyrir verð- launaflokkinn Vitranir. Sjónum beint að Rúmeníu SJÓNARRÖND Adrian Sitaru Hooked Úr kvikmynd Sitaru, Hooked, eða Pescuit Sportiv á frummálinu, frá árinu 2007. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum, m.a. í Stokkhólmi. Frekari upplýsingar um Alþjóðlega kvik- myndahátíð í Reykjavík má finna á riff.is.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.