Íslenzk tunga - 01.01.1960, Qupperneq 64
62
ÁSGEIR BLÖNDAL MAGNÚSSON
þjóðarsuguna í réttri tímaröð írá fortíð til nútíðar. En hitt er okkur
engu síður hollt og nauðsynlegt að fara hina leiðina, feta okkur aftur
á bak, skyggnast eftir upptökum og tildrögum þess, sem er, í hinu
Iiðna. Með því móti má og vera, að við komum frekar auga á ýmis
þau vandamál og úrlausnarefni, sem okkur hefði annars sézt yfir.
lfitaðar heimildir um íslenzka tungu eru tiltölulega mjög auðugar
— og fyllri og samfelldari en samsvarandi heimildir velflestra ann-
arra germanskra og indóevrópskra mála. Fræðaiðja og skáldskapur
hafa haldizt hér óslitið, frá því að þjóðin varð til. Ritöld hefst hér
skömmu eftir landnám, og bókmenntastörf falla aldrei niður úr því.
Fornbókmenntirnar eru tiltölulega fjölbreyttar. Hér skapaðist heldur
aldrei neinn teljandi munur á máli lærðra og leikra né heldur milli
ritmáls og talmáls, og íslenzkt alþýðufólk hefur jafnan lagt meiri
stund á ritstörf og bókmenntir en dæmi munu um annars staðar.
Engu að síður er sú raunin á, að fjölmörg orð úr mæltu máli hafa
aldrei komizt á bækur, og þess eru mörg dæmi, að fátíð orð, sem
ef til vill hafa verið bókfest einu sinni eða svo, hafa lifað öldum
saman á vörum fólks.
Þessi staðreynd ætti að sýna okkur, hve valt er að draga víðtækar
ályktanir af skjalfestum orðaforða einstakra tungna eða málkvísla
— og það því fremur sem heimildir um hann og sögu hans eru ofl
fátæklegar og af skornum skanunti. Menn hafa t. d., svo sem rétt er
og eðlilegt, reynt að notfæra sér orðaforða einstakra indóevrópskra
mála eða málætta til að gera sér grein fyrir mállýzkuskiptingu frum-
tungunnar. En mjög er viðsjált að leggja of mikið upp úr því atriði,
svo sem heimildum og geymd þessara mála margra hverra er farið.
Þá er það og algengt að sjá í orðsifjabókum, m. a. um forníslenzku,
athugasemd eitthvað á þessa leið: Heimildir um orðið eru ungar, og
er það vísast nýgervingur eða tökuorð. Dómar um aldur orða, sem
ekki styðjast við önnur rök en þessi, eru harðla lítils virði, og vænti
ég, að þau orð, sem hér verður drepið á, færi mönnum heim sanninn
um það. Ég skal nú ekki hafa þennan formála lengri, en snúa mér að
efninu.