Freyr

Árgangur

Freyr - 15.07.1978, Blaðsíða 13

Freyr - 15.07.1978, Blaðsíða 13
Að þessu og því um líku gerðu nágrann- arnir góðlátlegt grín, og var ekki laust við, að sumir teldu, að Valgerður, þessi myndar- og röskleikakvenmaður, hefði nú getað krækt sér í eitthvað burðugra heldur en hann Grímsa, ef hún hefði ekki verið svona skelfing óþolinmóð að komast í það heilaga, eftir að hún kom úr kvennaskólanum. Verst var þó, að þeim Grímsa búnaðist ekki allt of vel heldur. Ekki vantaði það, að hann nuddaði ekki við búskapinn, eftir því sem kraftarnir leyfðu. Eða þá að Val- gerður léti sinn hlut eftir liggja. En það var sama, hvað þau lögðu að sér, alltaf voru þau í basli, og alltaf var skuld í við- skiptareikningnum. Á þessu var reyndar ósköp einföld skýr- ing, þó að Grímsi gæti ekki eða vildi ekki sjá hana. Það var þetta óskaplega vélastóð, sem hann hafði hlaðið utan um búskapinn. Ekki var nóg með, að hann teldi sig þurfa þrjár dráttarvélar til að heyja með tún- bleðilinn, og tvöfalt úthald af öllum venju- legum heyvinnuvélum, heldur fannst hon- um hann vera alveg handlama, ef hann hafði ekki bæði heyhleðsluvagn og hey- bindivél. Heybindivélin var síðasta viðbót hans við vélasafnið. Hann hafði pantað hana þegj- andi og hljóðalaust í gegnum kaupfélagið einn grimman vetrardag fyrir tveimur ár- u.m. Þá varð Valgerður bæði hrygg og reið, því að með þessum kaupum og tilheyrandi skuldaaukningu sá hún fjúka burt vonina um nýja eldhússinnréttingu, sem hún hafði alið með sér um skeið og reyndar talfært við bónda sinn einu sinni eða tvisvar. Sá draumur var sem sagt rokinn út í veður og vind, og hún gat ekki stillt sig um að segja það alveg hreint út úr pokanum, hvaða skoðun hún hefði á þessari ráðsmennsku. ,,Þú segir annað, þegar við förum að hand- leika baggana næsta vetur,“ sagði Grímsi, „þá er ég viss um, að þú þakkar mér fyrir framtakið, og það svo um munar.“ Ekki varð Grímsi sannspár í þessu frekar en í langtíma veðurspám sínum, sem hann þreyttist aldrei á, hversu oft sem konan gat rekið ofan í hann vitleysurnar. Strax í vetrarbyrjun, þegar farið var að gefa kúm og Grímsi spretti böndum af fyrsta bagg- anum, gaus upp þykkt mygluský, sem fyllti fjósið og lagðist eins og grátt teppi yfir allt og fyllti vit manns. Ekki fann Valgerður ástæðu til að þakka fyrir þær trakteringar og það því síður, sem lausa heyið í hlöð- unni var alveg ryklaust og mjúkt eins og silki. ,,Ekki skil ég, hvað þú sérð við þessa bagga,“ sagði hún annað sinn. „Þessi bönd ætla alveg að skera af mér fingurna og svo er illgerlegt að ná þeim út af bagganum.“ Þá varð Grímsi venju fremur skjótur til viðbragðs. Eins og eldibrandur var hann kominn að hlið konu sinnar, stjakaði hrana- lega við henni, þreif upp vasakutann sinn og mælti spekingslega: „Hnífiaus er nú líka alltaf líflaus." Síðan smellti hann eggjárn- inu á þanin baggaböndin, sem hrukku sund- ur með dimmum smell, og bagginn teygði feginsamlega úr sér á fóðurganginum. „Svona, þetta er nú öll kúnstin,“ sagði hann og labbaði sigri hrósandi þangað, sem fjós- rekan beið hans í hálfmokuðum flórnum, en Valgerður fór að reyta sundur myglaðan baggann, og rykský þyrlaðist um sveitt höfuð hennar. Verra var þó í vændum. Grímsi var fyrsta flokks trassi með baggaböndin. Gjarnan kastaði hann þeim upp í glugga- skot eða hann brá þeim um slár og bita um allt fjósið, og reyndar fjárhúsin líka. Þessir spottar voru alltaf að slást í andlit þeirra hjónanna. Sama var Grímsa, hann var ekki að kippa sér upp við smámuni og ekki heldur, þótt fyrir kæmi, að hann flækti fætur í bandahrúgu, sem dottið hafði á gólf- ið, svo að hann steyptist fram yfir sig endilangur á fóðurgang eða fjárhússgarða. Öðru máli gegndi með Valgerði. Þessi blái bandaskógur fór óskaplega í taugarnar á henni, því þó að hún tæki sig til alltaf annað veifið og tíndi saman böndin og F R E Y R 471

x

Freyr

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Freyr
https://timarit.is/publication/863

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.