Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 7
Þriðjudagur 31. ágúst 2004 7 Stefán Vilhjálmsson rifjaði upp á Leir skemmtilegt erindi sem hann orti fyrir mörgum Herrans árum eftir að hafa horft á sjónvarpsmynd um einkenni alkóhólisma: Aldrei verð ég neinn alki talinn þó eigi ég víða pela falinn og detti svo í það af og til. Bakkus má hafa um helgar völdin, þó helli ég mér í glas á kvöldin á daginn er edrú - um það bil! Eins og einn góður vinur minn sagði stundum: "Nú er ég hættur að drekka, en ég er ekki fanatískur!" Kaupfélagsfundahretið Hjálmar Freysteinsson segir að í góða veðrinu hafi rifjast upp fyrir sér að þegar KEA veldið stóð með blóma var það árviss viðburður að hér kæmi svonefnt kaupfélagsfundarhret, stórhríð í nokkra daga þegar aðalfundur KEA var haldinn. Nú er af sem áður var. Núna er tíðin gjöful og góð og gerir bændurna ríka, kaupfélagið er komið úr móð og kaupfélagsfundurinn líka. Vissu ekki af vatninu Hjálmar orti líka á dögunum þegar flóðin miklu urðu í Jöklu: Jökla færir flest í kaf, flóðin því ég kenni að verkfræðingar vissu ekki af vatninu í henni. Kórdrengirnir Séra Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur segir svo frá á Leir: ,,Á dögunum var verið að setja forseta lýðveldisins inn í embætti. Allt fór það friðsamlega fram sem vænta mátti. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sat á næstfremsta bekk og sá yfir forsetann inn í kórinn hvar 5 (fimm) biskupar sátu á stólum "og höfðust lítt að en undirritaður breiddi úr sér fyrir altarinu. Undir sálminum "Heyr himnasmiður..." bærðist önd ráðherrans: Í messunni þar mátti sjá mildings ásýnd skína. En Hjálmar kíkti kankvís á kórdrengina sína. Vitlausramannahelgi Þórir Jónsson yrkir um verslunarmannahelgina: Vaknar í tjaldi vesælt lið, viti og krafti sérhver rúinn. Þetta er nú verra vesenið! - Vitlausramannahelgin búin! Illviðrisdjöfull Þórir Jónsson segir þessa sögu og vísuna sem fylgir henni: ,,Sigurbjörn K. Stefánsson, fyrrum skósmiður á Siglufirði, gaf árið 1967 út ljóðabók, mikla gersemi, handskrifaða listavel. Hann fluttist til Reykjavíkur á efri árum og kunni ákaflega illa við sig, ekki síst var veðurfarið honum lítt að skapi. Nú um stundir á þessi vísa líklega ekki illa við: Austri á rokið og rigningu er gjöfull, rennblotnar skinn sem flík. Andskotans, bölvaður illviðradjöfull er þessi Reykjavík. Mælt af munni fram Umsjón: Sigurdór Sigurdórsson Það verður ekki sagt um Þorfinn Þórarinsson, bónda á Spóastöðum í Biskupstungum, að hann ríði við einteyming í sínum búskap. Fyrir utan það að vera með gott kúabú er hann skógarbóndi, hann framleiðir og selur túnþökur, leigir út hagabeit fyrir hross, er með seiðaeldi til sleppinga í Sogið og Stóru-Laxá. Einnig er hann með veiðirétt í Brúará og leigir út land undir sumarbústaði þar sem hann sér um lagnir á heitu og köldu vatni. Loks er svo eiginkona hans, Áslaug Jóhannesdóttir, með gróðurhús þar sem hún stundar paprikuframleiðslu En þau hjónin eru ekki ein því tveir synir þeirra eru í búskapnum með þeim. Þorfinnur hefur á 15 árum plantað út trjám í 95 hektara lands. Hann segist í upphafi hafa ákveðið að leggja 100 hektara undir skóg og því eru nú aðeins 5 hektarar eftir. En hvers vegna gerðist hann skógarbóndi? ,,Við vorum með allt að 300 fjár hér á Spóastöðum en ákváðum að hætta sauðfjárbúskap og keyptum mjólkurrétt í staðinn. Við stóðum uppi með mikið land og lítið nýtt og ákváðum því að nota hluta af því í skógrækt. Annan hluta leigðum við fyrir hrossabeit og þriðja hlutann létum við undir sumarbústaðalóðir. En hvað varðar skógræktina þá höfðum við áhuga fyrir henni og höfðum aðeins komið að henni áður en alvaran tók við. Árið 1974 gekkst Búnaðarsamband Suðurlands fyrir því að bændur settu upp skjólbelti. Það var Stefán Jasonarson, þáverandi formaður þess, sem stóð fyrir þessu en hann var áhugamaður um skógrækt. Við tókum þátt í þessu og settum niður skjólbelti hér fyrir norðan bæinn. Þetta heppnaðist mjög vel og má segja að það hafi kveikt áhugann fyrir því að fara út í skógrækt. Það var svo árið 1989 sem við fórum af stað með hana og skipulögðum 100 hektara lands undir skóg. Langmest er af ösp og greni en dálítið af furu. Skógur þriggja jarða, Spóastaða, Hrosshaga og Skálholts liggja saman og mér er sagt að það sé stærsti asparskógur á landinu. Þegar við byrjuðum að planta út var eitthvað sagt frá því í fréttum og svo kom fólk og spurði hvar skógurinn væri því plönturnar sáust ekki í móanum. Nú aftur á móti kemur fólk og spyr hver eigi þennan skóg," segir Þorfinnur. Hann segist yfirleitt hafa gróðursett um tíu þúsund plöntur á ári en í ár hafi það verið heldur minna vegna þess að hann segist vera að treina þessa 5 hektara sem eftir eru af skipulögðu landi undur skóg. Þorfinnur segir að nú sé komið að því að fara yfir elsta hluta skógarins, bæta þar í, grisja og laga. Þá fer vinnan við skógræktina að aukast og það segir hann að sé vinna sem Sunnlendingar kunna ekki og þurfi því tilsögn. Fram að þessu hafi vinnan við skóginn bara snúist um að planta út og bera áburð á. Þorfinnur var spurður um hve langt væri í að skógurinn hans yrði nytjaskógur? ,,Það má segja að það sem við frumherjarnir höfum verið að gera til þessa sé nánast bara að útbúa skjól fyrir skóg framtíðarinnar. Skipulagið er þannig að önnur hver röð er ösp en á milli er greni og öspin er til þess að búa til skjól fyrir grenið. Þegar þar að kemur verður öspin höggvin og líklega kurluð og síðan verður aftur hægt að planta út." -Breytir skógurinn miklu fyrir landið í kring? ,,Hann myndar skjól og það breytir miklu. Fuglalífið kom mjög fljótt í skóginn en nú er það að ganga til baka vegna þess að refurinn hefur sest að í skóginum og hreinsar upp egg og unga. Það eru komin tvö greni í okkar landi og það er alveg nýtt en ref hefur fjölgað mjög og hann er nú hér um allar sveitir. Það hefur verið reynt að fækka honum en nú er ríkið að spara í refa- og minkaveiðum og því erfitt við að eiga." Aðspurður um hvernig skógræktin falli við annan búskap segir Þorfinnur að það sé þannig með flestar greinar búskapar að annatíminn sé sá sami, það er maí og júní. Það er sá árstími sem menn planta út skógi en aftur á móti þegar grisjun skóganna hefst þá breytist þetta því hún fer fram á öðrum tíma Þorfinnur segist hafa trú á því að skógarbændum eigi eftir að fjölga. Þróunin sé sú að þeim fækki sem stundi hefðbundinn búskap eins og mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. ,,Búunum fækkar en þau stækka og því hafa menn miklu meira land til að leggja undir skógrækt en áður var," segir Þorfinnur Þórarinsson. "Á fundi sínum þann 19. ágúst 2004 fjallaði stjórn Bændasam- taka Íslands um það samkomulag sem náðist þann 1. ágúst sl. í Genf um alþjóðaviðskipti með bú- vörur. Þó að margt bíði frekari útfærslu á ráðherrafundi WTO í Hong Kong í árslok 2005, leggur þetta samkomulag línurnar að því sem koma skal," segir í álykt- un sem stjórn BÍ sendi frá sér. Miklar kröfur "Stjórn Bændasamtaka Íslands lýsir áhyggjum af þeirri stefnu, sem þarna hefur verið mörkuð og felur í sér að þrengt verður verulega að möguleikum aðildarríkja til að velja leiðir til að styðja við landbúnað, og heimildir til styrkja verða skornar umtalsvert niður. Mestar kröfur eru gerðar til ríkja eins og Íslands, Noregs og Sviss, sem mesta áherslu leggja á framleiðslu fyrir heima- markað og þátt landbúnaðar í byggða- og umhverfismálum. Lítið tillit er tekið til slíkra sjónarmiða eða heilbrigðissjónarmiða, þrátt fyrir að það væri afdráttarlaust tekið fram í samkomulagi, sem kennt er við Doha og lagði grunninn að yfir- standandi viðræðum. Ljóst er að þetta mun hafa veruleg áhrif á ís- lenskan landbúnað. Bændasamtök Íslands mótmæla hugmyndum um að niðurstaða viðræðnanna leiði sjálfkrafa til minni stuðnings við landbúnað og landsbyggðina. Auk breytinga á styrkjafyrir- komulagi var samið um breytingar á heimildum til tollverndar. Þótt enn sé ósamið um margt, liggur fyrir að hæstu tollar verða skornir mest niður. Þótt einstök lönd geti skilgreint "viðkvæmar vöruteg- undir", er ósamið um hve margar þær mega vera, auk þess sem jafn- hliða er krafist aukinna tollkvóta á lágmarkstollum. Það er því fullljóst að þetta mun hafa veruleg áhrif á landbúnað hér á landi. Þá var samið um afnám útflutn- ingsbóta sem eru löngu aflagðar hér á landi. Ekki verður hins vegar séð að tillit sé tekið til sjónarmiða landa eins Íslands, sem framleiðir fáar tegundir búvara, greiðir ekki út- flutningsbætur og truflar heims- viðskipti þar af leiðandi lítið, auk þess sem innflutningur á flestöllum búvörum, sem vega þyngst fyrir þróunarlönd, er tollalaus, svo sem á kaffi, sykri, hrísgrjónum og ávöxt- um, svo að dæmi séu tekin. Það er ennfremur engin trygging fyrir því að aukið frelsi í viðskiptum með búvörur leiði sjálfkrafa til bættra kjara bænda í þróunarlöndum. Ekkert jafnvægi er í samningum Við tökum því undir með norsku bændasamtökunum, sem hafa lýst því yfir að ekkert jafnvægi sé í samningnum. Hann leggi of miklar byrðar á lönd eins og Noreg (og Ísland), þar sem stundaður er umhverfisvænn smábúskapur við erfið náttúruleg skilyrði og við hátt verðlag og hefur sáralítil truflandi áhrif á heimsviðskipti með landbúnaðarvörur. Stjórn BÍ lýsir einnig áhyggjum sínum af þeim vinnubrögðum, sem virðast hafa verið tekin upp á þessum fundi, þar sem stórir hlutar samninganna fóru fram bak við luktar dyr með þátttöku örfárra landa. Sérstaklega er deilt á áhrif svokallaðra FIP's landa ("five interested parties" sem eru ESB, USA, Brasilía, Ástralía og Indland). Stjórn BÍ skorar á íslensk stjórnvöld að standa öflugan vörð um hagsmuni íslensks landbúnaðar í samstarfi við önnur lönd með líka hagsmuni og fylgja fast eftir þeirri kröfu að staðið verði við þann hluta Doha samkomulagsins, sem kveður á um að tillit skuli tekið til sjón- armiða sem ekki eru viðskiptalegs eðlis (NTC). Stjórn BÍ lýsir yfir ánægju með það samráð, sem stjórnvöld hafa boðið upp á í samningaferlinu, og treysta því að svo verði áfram." Stjórn Bændasamtakanna sam- þykkti ályktunina samhljóða. Þorfinnur Þórarinsson, bóndi á Spóastöðum Skógarbændum á eftir að fjölga mikið Skora á íslensk stjórnvöld að standa öflugan vörð um landbúnaðinn

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.