Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 14
14 Þriðjudagur 31. ágúst 2004 Hef áhuga á að búa fyrir norðan Hrafnhildur Tryggvadóttir er að hefja MLIS nám í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Hún ólst upp á Engi í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Bærinn er byggður í landi Halldórsstaða og stendur vestan megin Skjálfandafljóts sem rennur eftir Bárðardalnum. "Ég er elst fimm systkina. Foreldrar mínir eru Svanhildur Sigtryggsdóttir, ættuð úr Eyjafirði og Tryggvi Halldórsson frá Halldórsstöðum í Bárðardal. Ekkert okkar systkinanna hefur tekið við búskap en við búum þrjú í Reykjavík og tvö á Akureyri." Meðan Hrafnhildur var að alast upp var stundaður hefðbundinn búskapur á Engi en nú er þar eingöngu búið með sauðfé. Hrafnhildur segist reyna að komast norður eins oft og hún geti. "Ég fór til dæmis eina helgi í vor til að komast í sauðburð. Þegar við systkinin vorum yngri áttum við hvert sína kindina og okkur þótti sérstaklega spennandi þegar þær báru og vildum náttúrlega helst að lömbin yrðu flekkótt." Þingeyingar héldu hópinn "Fyrstu sex skólaárin var ég í barnaskóla Bárðdæla en fór þaðan að Stóru-Tjörnum og lauk 10. bekk. Ég hóf nám við Menntaskólann á Akureyri haustið 1985 og það var það mikil upplifun. Ég var þá nánast farin að heiman 16 ára og hef aðeins dvalið þar í fríum síðan. Fyrsta námsárið var ég á heimavist og hina þrjá veturna leigði ég með vinkonum mínum sem var svolítið ævintýralegt. Það má segja að á þeim tíma sem ég var í MA umgekkst ég aðallega krakka úr Þingeyjarsýslu sem voru þá á Akureyri, ýmist í námi eða vinnu. Sumir voru í bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal og komu til Akureyrar um helgar. Við héldum mikið hópinn, skemmtum okkur saman og fórum í bíó. Aðra skólafélaga mína í MA umgekkst ég minna." Góður frönskukennari réð úrslitum Hrafnhildur var á málabraut en hafði þá ekki ákveðið hvað hún vildi læra eftir menntaskólann. "Franska var eiginlega það eina sem ég hafði ákveðið að ég ætlaði að læra. Tungumál þóttu mér skemmtileg , franska og þýska alveg sérstaklega. Ég veit nú ekki hvað réð úrslitum með það að ég lagði frekari stund á frönsku. Það hefur kannski eitthvað haft að segja að frönskukennarinn var mjög skemmtilegur en það var Tómas Ingi Olrich. Hann var strangur og ég var skíthrædd við hann. Maður tók ekki þá áhættu að sleppa því að læra heima. Þegar við nemendur hans vorum komin lengra í náminu þá sagði hann okkur frá ýmsu tengdu Frakklandi sem vakti frekari áhuga minn á frönsku en hann hafði sjálfur verið þar við nám. Eftir stúdentsprófið starfaði ég einn vetur á Akureyri og hélt svo til Frakklands í tungumálanám. Ég var eitt ár í Suður- Frakklandi, í Montpellier. Það var mér mikið ævintýri að koma til Frakklands. Ég þekkti engan en þegar til kom voru margir Íslendingar þarna við nám eða störf. Frönskudeildin við Háskóla Íslands var að byrja á þessum tíma samstarf við háskólann í Montpellier en nemendur á 2. eða 3. ári við frönskudeild HÍ geta farið á Erasmus-styrk sem skiptinemar og það voru þarna nokkrir nemendur samtímis mér." Heimkomin hóf Hrafnhildur nám í frönskudeild Háskóla Íslands og hafði þá tækifæri til að komast aftur út til Frakklands. "Veturinn 1992-93 fékk ég Erasmus- styrk til frönskunáms og við vorum átta sem fórum frá frönskudeildinni og fylgdum frönskum stúdentum í námskeiðum við háskólann í Montpellier. Það var alveg frábært og við lærðum mikið á þessum vetri, ég held að það sé alveg nauðsynlegt til að læra tungumál vel að dvelja í landinu um tíma." Fólk er alls staðar eins Eftir BA-próf í frönsku, með íslensku sem aukagrein, tók Hrafnhildur kennslufræði til að afla sér starfsréttinda. "Ég kenndi fyrst við Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði. Þetta var lítill skóli með um 100 nemendur. Ég kenndi þrjár námsgreinar; frönsku, dönsku og ensku. Maður stökk eiginlega út í djúpu laugina sem er líklega besta leiðin til þess að læra inn á hlutina. Ég kynntist mjög góðu fólki þarna fyrir austan, aðallega þó í kringum skólann. Þarna kenndi ég í tvo vetur, þá losnaði kennarastaða við Verkmenntaskólann á Akureyri og ég ákvað að fara þangað. Það var krefjandi að kenna en gaman þegar vel gekk en stundum svolítið bras. Mér líkaði mjög vel að kenna við Verkmenntaskólann þar sem ég kenndi í fjóra vetur. Ég taldi mig vera búna að sjá það út eftir þessa sex vetur hvort ég mundi velja kennslu sem framtíðarstarf en mér þótti rétt að breyta aðeins til. Fólk er alls staðar eins og það var ekki mikill munur á því að kenna ungu fólki á Höfn eða Akureyri. En landslagið og veðráttan í Skaftafellssýslu var alveg nýtt fyrir mér. Náttúrufegurðin þar er ótrúlega mikil. Mér er það minnisstætt þegar ég gekk til vinnu í góðu veðri að vorlagi og sá fjalla- og jöklasýnina. Það er ógleymanleg sjón og gjörólíkt landslaginu sem ég var vön fyrir norðan. Í fyrsta skipti sem ég ók frá Höfn til Reykjavíkur um Suðurlandið fannst mér þetta svo framandi, þá hafði nýlega orðið jökulhlaup á Skeiðarársandi og jakarnir voru út um allt og landslagið þarna undir Eyjafjöllum, þetta var mér alveg ný sýn. Eins fannst mér það tilkomumikil stjón að sjá yfir Hornafjörðinn af Almannaskarði. Þarna voraði miklu fyrr en annars staðar og það rigndi líka nokkuð mikið svo hver landshluti hefur sín sérkenni." Enskir reyfarar og glæpasögur Hrafnhildur hóf nám í bókasafns- og upplýsingafræði haustið 2002 og hefur sótt um að hefja MLIS-nám eða meistaranám í greininni næsta haust en það er í fyrsta skipti sem slíkt nám er í boði hér á landi. "Námið stendur til boða þeim sem hafa lokið BA-prófi í annarri grein. Mér fannst það eiginlega liggja beint við að fara í þetta nám. Mér þykir öll tölvuvinna spennandi svo sem netið og þessir rafrænu gagnabankar. Ég hef reyndar takmarkaða reynslu af bókasöfnum nema sem notandi. Ég hef þó sótt mér afþreyingar- bókmenntir og les þá aðallega skáldsögur. Núna les ég mikið enska reyfara og glæpasögur og hef gaman af því. Ég get ekki farið að sofa án þess að vera með eitthvað til að lesa. Mér hefur alltaf þótt spennandi og gott að vera innan um bækur og ég býst við að sá áhugi hafi orðið til þess að ég valdi bókasafns- og upplýsingafræði." Að fara norður aftur Hrafnhildur segist hafa áhuga á að starfa fyrir norðan að námi loknu og lítur þá til Akureyrar en þaðan er klukkustandar akstur í Bárðardalinn. "Ég ætlaði mér alltaf að fara norður aftur en það verður svo bara að ráðast hvar maður fær vinnu að námi loknu. Mér líkar það ekkert illa að vera í Reykjavík en mundi frekar vilja vera fyrir norðan ef tækifæri gæfist til þess." Í frístundum segist Hrafnhildur fyrir utan bóklestur hafa gaman af gönguferðum um hálendið. "Ég hef tvisvar gengið um Horn- strandir og austur á landi hef ég gengið á fjöll og stefni að því að ganga eitthvað í sumar." Ég verð alltaf sveitastrákur Viggó Ingimar Jónasson hefur lokið tveimur árum í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann er uppalinn á bænum Rauðanesi í Borgarfirði þar sem foreldrar hans, Rósa Margrét Viggósdóttir og Jónas Sævar Valdimarsson, stunda hefðbundinn búskap. "Ég hafði rosalega gaman af því að umgangast dýrin en mér þótti ekki skemmtilegt að þurfa að sinna þeim. Þegar maður er á unglingsárum þá þykir manni allt kvöð sem maður þarf að gera. Það var ekki þannig að ég hefði einhvern brennandi áhuga á að hlaupa út í fjós og moka flórinn en maður skilur það náttúrlega núna að þetta var þroskandi og sjálfsagður hlutur að létta undir með foreldrunum og ég vildi óska þess að ég hefði gert mér það ljóst aðeins fyrr. Ég er yngstur systkina minna og það vildi svo skemmtilega til að afi minn og amma áttu heima á Rauðanesi II. Elsti bróðir minn, Jónas, fór alltaf út í bílskúr með pabba og gerði við ýmis tól og tæki og þar af leiðandi er hann mjög flinkur í höndunum. Hann er menntaður rafvirki og kerfisfræðingur, starfar við kerfisfræði og er mjög handlaginn. Halldóra systir mín var alltaf út í fjárhúsi og fjósi með mömmu og einnig í hesthúsinu en hún er það systkinið sem kemur til með að taka við búinu heima þegar foreldrar mínir hætta búskap. Ég, litla barnið, var hins vegar "geymdur" hjá afa og ömmu þar sem mér voru sagðar sögur allan liðlangan daginn og þess vegna kann ég næstum því ekkert nema að tala. Amma þurfti ekki að lesa sögurnar upp úr bókum, hún kunni þær allar utan að eins og Búkollu, Grámann og Smjörtunnuna svo fátt eitt sé nefnt. Maður sat í fanginu á ömmu í eldhúsinu sem hossaði manni um leið og hún þuldi hverja söguna af annarri og mínar bestu æskuminningar tengjast afa og ömmu. Mér finnst það hafa verið svo mikil forréttindi, sem svo margir fara á mis við nú á tímum, að hafa afa og ömmu svona nálægt sem höfðu lifað allt aðra tíma. Ef maður lítur í kringum sig bara hérna í Reykjavík þá sér maður fullt af börnum sem enginn nennir að sinna. Ég er að vinna í sjoppu með skólanum og þangað koma 6 til 7 ára gamlir krakkar með miða frá foreldrum sínum um að þeir eigi að kaupa sígarettur fyrir þá. Þetta sýnir hvað fólk er orðið upptekið af þessu blessaða lífsgæðakapphlaupi að það gleymir því sem mestu máli skiptir, að gera börnin sín að heilbrigðum einstaklingum." Áhugi á gömlum sögum "Ég hef alltaf haft rosalega gaman af gömlum sögum. Ástæðan fyrir því að ég fór í sagnfræði er sú að ég vissi að ég yrði að læra eitthvað. Þegar ég leit yfir námskrána í Háskólanum gekk ég bara á listann og notaði útilokunaraðferðina og niðurstaðan var sagnfræðin. Hún var það eina sem ég gat mögulega hugsað mér að læra. Sagnfræðin er að mínum dómi mjög góð alhliða menntun sem kemur inn á marga þætti. Sagnfræðingar koma víða við í samfélaginu, til dæmis eru margir fréttamenn með þessa menntun. Það er ekki bara verið að mata nemendur á staðreyndum heldur er líka verið að kynna ýmiss konar vinnubrögð sem tilheyra sagnfræðinni. Ég hugsaði með mér að þetta væri þekking sem væri gott að hafa. Ég hef ekki ákveðið hvað ég muni taka sem aukagrein en mig langar að taka ritlist en ég hef lokið 60 einingum í sagnfræði. Næsta vetur hef ég ákveðið að vinna því ég eignaðist nýlega mitt fyrsta barn svo nú hef ég fyrir konu og barni að sjá. Svo er ég eiginlega búinn að fá nóg af skóla í bili. Mig langar til að upplifa einn vetur þannig að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verða að klára hitt og þetta fyrir skólann. Mig langar til að vera vinnandi heimilisfaðir og vita að þegar ég er búinn í vinnunni hef ég lokið vinnudeginum en ekki með eitthvað yfir höfði mínu allt kvöldið." Fékk hund í afmælisgjöf Viggó segist hafa gaman af dýrum og vera sérstaklega mikill hundavinur "Hundar voru mínir bestu vinir. Þegar ég var lítill áttum við gamla tík sem kölluð var Skotta. Hún var orðin blind og lasburða og pabbi sagði einn daginn að nú þyrfti að fara að lóga henni Skottu gömlu. Ég gat auðvitað ekki hugsað mér það og grátbað um að fá að eiga hana og sagðist skyldi hugsa um hana og pabbi hætti við að láta hana fara og hún lifði minnir mig í þrjú ár eftir þetta og var einn sá besti hundur sem ég hef átt. Ég segi alltaf að fólk líkist þeirri dýrategund sem það heldur upp á. Hundafólk er trygglynt og miklar félagsverur en kattafólk er meira tækifærissinnað. Það sem mér finnst verst við að búa hér í Reykjavík er að búa í blokk og geta ekki verið með hund. Reyndar held ég að ég mundi ekki vilja leggja það á hund að vera í þéttbýli því sú hundategund sem ég held mest upp á er íslenski fjárhundurinn sem geltir nokkuð. Ég á reyndar íslenska tík sem er heima í Rauðanesi. Hún er hefur frábæra tilburði, ég fékk hana í afmælisgjöf þegar ég var tólf ára og hún er því að verða þrettán ára gömul og á kannski ekki mikið eftir. Aðal skemmtunin hjá henni er að fá að sitja uppi í traktornum á sumrin þegar pabbi er að slá og binda rúllur, þá situr hún við hliðina á honum allan heila daginn." Heim að Laugum Eftir grunnskólapróf í Borgarnesi fór Viggó í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi en margir skólafélagar hans fóru þangað. "Við fórum á milli í rútu á hverjum degi sem var hálftíma akstur hvora leið. Þetta var dálítið ferðalag. Haustið 1997 fór ég að verða virkari í félagslífinu og þá fór ég á heimavistina. Af þeim greinum sem ég lærði í fjölbraut þótti mér skemmtilegast að læra sálfræði og ætlaði mér alltaf að fara í háskólanám í sálfræði og prófaði að fara í hana en þótti hún alveg drepleiðinleg." Árið 1998 fór Viggó í framhaldsskólann að Laugum í Þingeyjarsýslu og lauk stúdentsprófi þaðan. Hann ber Laugaskóla vel söguna og er um þessar mundir að skrifa BA-ritgerð sína í sagnfræði sem fjallar einmitt um sögu skólans. "Laugaskóli er það besta sem hefur komið fyrir mig. Það er svo gott samspil af svo mörgum þáttum á Laugum og umhverfið er stórkostlegt. Þetta er ekki þessi dæmigerði framhaldsskóli þar sem þú ferð út á vídeoleigu eða sjoppu þegar þér dettur í hug, heldur hefur hann svona sveitaumgjörð. Þar er heimavist sem þýðir það að maður er alltaf á staðnum. Þetta er einingakerfi og það er alveg pottþétt að þessi skóli bjargaði lífi mínu. Ég ætlaði aldrei meira í skóla þegar ég hætti í Fjölbrautaskóla Fólksflótti af landsbyggðinni hefur verið mikill undanfarin ár og sjaldan jafnmikill og síðasta áratuginn. Dreifbýlið á undir högg að sækja og sveitirnar eru ólíkar því þegar hver jörð var setin á seinni hluta síðustu aldar. Langflestir flytja á suðvesturhorn landsins og þá aðallega á Stór-Reykjavíkursvæðið og ekki fyrirséð að það breytist í nánustu framtíð. Hér eru viðtöl við fjóra einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að stunda nám við Háskóla Íslands og hafa alist upp á sveitabæjum þar sem stundaður var hefðbundinn búskapur. Þetta er allt ungt og efnilegt fólk og foreldrar þess stunda enn búskap. Öll voru þau í framhaldsskólum á landsbyggðinni og hefðu áhuga á að flytjast aftur út á land að námi loknu ef í boði væri starf við hæfi. Viðhorf nemendanna til landsbyggðarinnar og búskapar er jákvætt eins og fram kemur í viðtölunum. En hverjir eru atvinnumöguleikar háskólanema úti í hinum dreifðu byggðum landsins eftir að námi lýkur? Hrafnhildur Eygló

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.