Bændablaðið - 31.08.2004, Side 12

Bændablaðið - 31.08.2004, Side 12
12 Þriðjudagur 31. ágúst 2004 F orystumenn norrænna bænda hafa lengi haft með sér reglulegt samráð í því sem nefnist Miðstjórn norrænu bændasamtakanna, Nordiske Bønders Centralråd, skammstafað NBC. Þetta ráð hélt fund sinn hér á landi 17. ágúst og ræddi helstu hagmunamál norrænna bænda um þessar mundir. Bændablaðið fór á vettvang og hitti að máli tvo framámenn norrænna bænda: Peter Gæmelke, sem er formaður dönsku bændasamtakanna, Dansk Landbrug, og jafnframt framámaður í samtökum evrópskra bænda og Bjarne Undheim, sem er formaður norsku bændasamtakanna og formaður NBC. Norrænir bændur hafa eflaust ýmislegt að ræða um þessar mundir þar sem hagsmunir þeirra og afstaða til alþjóðasamninga er um margt ólík. Þrjú ríkjanna, Finnland, Svíþjóð og Danmörk, eiga aðild að Evrópusambandinu en Ísland og Noregur standa utan þess og eru því ekki aðilar að sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB. Danir hafa auk þess þá sérstöðu að landbúnaður þeirra byggist á miklum útflutningi meðan landbúnaður hinna ríkjanna er að mestu leyti miðaður við þarfir heimamarkaðarins. Dags daglega þarf þetta ekki að þvælast fyrir farsælu samstarfi norrænna bænda en þegar átök á vettvangi WTO harðna þarf hver að halda á sínu og þá getur jafnvel hvesst í samskiptum bestu vina. Meira sem sameinar en sundrar Peter Gæmelke viðurkennir að þessi mismunur á stöðu norrænu ríkjanna hafi haft þau áhrif að samstarfið á vettvangi NBC hafi ekki sama vægi og áður en að það sé alltaf gott að koma á þessa árlegu fundi og ræða sameiginleg hagsmunamál norrænna bænda. "Við eigum hugsmuna að gæta við að tryggja framþróun norræns landbúnaðar, einkum hvað varðar matvælaöryggi, gæða- og umhverfismál," sagði Gæmelke þegar blaðamaður ræddi við hann. En hefur landbúnaðurinn ekki þróast með ólíkum hætti á Norðurlöndum? "Jú, það liggur í augum uppi að það er mikill munur á íslenskum og norskum landbúnaði annars vegar og svo dönskum hins vegar. Danskur landbúnaður byggist í æ meira mæli á framleiðslu til útflutnings og fyrir vikið verður afstaðan til atburða á vettvangi viðskiptalífsins oft ólík. Þetta kom glöggt fram á fundinum hér þar sem Danir og Svíar deildu um markmið og leiðir. Við Danir lögðum áherslu á að taka skjótar ákvarðanir og koma hlutunum í verk en Svíarnir vildu skilgreina hlutina út í hið óendanlega! Það er samt meira sem tengir okkur saman, ekki síst sameiginlegur menningararfur og lífssýn norrænna bænda." - Viðbrögð landanna við WTO-samningnum á dögunum hafa verið nokkuð ólík. Hefur það ekki litað umræðurnar hér? "Það er rétt að Norðmenn hafa annarra hagsmuna að gæta í WTO-samningunum en ESB- ríkin. Hins vegar eigum við það sameiginlegt að vilja stuðla að áframhaldandi landbúnaðarframleiðslu í löndum okkar. Hún er öðruvísi en mörg önnur framleiðsla af því jörðina er ekki hægt að flytja í burtu eins og gert er við sokkaverksmiðjur. Norðmenn hafa bent á það hér að Genfar-samþykktin geri þeim erfiðara fyrir en okkur hinum og á því verðum við að taka í framhaldsviðræðunum." Þurfum ekki viðskiptastríð - Hver er afstaða Dana til Genfar-samkomulagsins? "Okkur finnst gott að það hafi náðst árangur í samningaviðræðunum. Þarna er eingöngu um að ræða rammasamning sem á eftir að gæða innihaldi og fyrr en það hefur verið gert er ekki hægt að taka endanlega afstöðu til hans. Það gleðilega við þetta samkomulag er að með því eru umheiminum send skilaboð um að það sé eitthvað að gerast, samningarnir eru komnir á hreyfingu aftur. Það er jákvætt í sjálfu sér vegna þess að heimurinn hefur enga þörf fyrir viðskiptastríð. Menn geta haft ólíkar skoðanir á því hversu langt eigi að ganga í átt til frjálsra viðskipta en um það er betra að semja. Meðan fólk heldur áfram að svelta og ríki mismuna hvert öðru með viðskiptahindrunum þá er þörf á aðgerðum." - Norðmenn og Íslendingar hafa gagnrýnt vinnubrögðin í WTO-samningaferlinu þar sem samkomulagið í Genf var gert á lokuðum fundum stóru hagsmunablokkanna, ESB og landa á borð við Bandaríkin, Ástralíu, Brasilíu og Indland, en fulltrúar annarra landa fengu ekki að fylgjast með. Hvað segirðu um þessa gagnrýni? "Já, ég hef heyrt þetta og hef einungis það að segja að á þessum tímapunkti var mikilvægast að koma á samkomulagi á milli stærstu hagsmunaaðilanna um rammann. Að sjálfsögðu verður að taka tillit til einstakra ríkja þegar kemur að því að semja um innihald hans. Það verður hins vegar að ríkja jafnvægi í samningagerð eins og þessari og þar verða Norðmenn að líta í eigin barm. Þeim finnst sjálfsagt að hafa fullt frelsi til að flytja út lax og olíu hvert sem er án nokkurra hindrana en á sama tíma vilja þeir halda uppi fullri vernd fyrir landbúnaðinn. Þetta fer ekki saman. Ég hef hins vegar skilning á því að lönd sem ekki flytja mikið út af landbúnaðarafurðum og trufla ekki alþjóðleg viðskipti með þær svo nokkru nemi fái leyfi til að halda uppi einhverjum vörnum fyrir landbúnað sinn. Við erum í þeirri stöðu að stuðningur við framleiðslu og útflutning er á undanhaldi. Hins vegar er ég ekki trúaður á að stuðningur við landbúnað hverfi alveg heldur mun hann breytast í þá veru að styðja bændur til að vernda umhverfið og bæta landið. Til dæmis las ég grein í blaði nýlega þar sem danskir skógarbændur vildu fá stuðning til að viðhalda skógum sínum. Eins og er fá þeir ekkert út úr því að viðhalda skóglendi en ég get alveg séð fyrir mér að það breytist. Það væri þó best fyrir alla að matvælaframleiðsla geti gengið án stuðnings og það gerir stór hluti hennar hjá okkur Dönum." Hver er besta þróunaraðstoðin? - Því hefur verið haldið fram að WTO-samningarnir snúist um það eitt að ríku löndin vilji loka mörkuðum sínum fyrir þeim fátækari og niðurgreiða eigin framleiðslu. Er þetta að breytast? "Kjarni þess samkomulags sem gert var í Genf er að allir útflutningsstyrkir skuli afnumdir. Þetta eykur þrýstinginn á norræna og evrópska bændur um að lækka framleiðslukostnað og auka hagræðingu. Norrænum bændum á eftir að fækka, það liggur ljóst fyrir. Við ræddum á fundinum hér hvernig best er að haga stuðningi við þróunarlönd og þar er ég þeirrar skoðunar að það megi gera með ýmsum öðrum hætti en eingöngu að auka viðskiptafrelsi með afurðirnar. Vísindamenn sem hafa rannsakað þessi mál halda því fram að viðskiptafrelsi sé ekki allra meina bót, í sumum þróunarlöndum sé þörf á opinberum stuðningi og verndaraðgerðum til að byggja upp landbúnað. Þess vegna er mikilvægt að uppfræða bændur í þróunarríkjum og kenna þeim að skipuleggja sig í samtökum. Að öðrum kosti er hætta á að iðnfyrirtækin kaupi framleiðsluna beint af bændum á því verði sem sem þau ákveða sjálf og að þau séu þeir einu sem hagnist á landbúnaði. Kaffi- og kakóframleiðslan er víti til varnaðar en þar ríkir algert viðskiptafrelsi. Þar ráða nokkur stórfyrirtæki öllum markaðnum og bændur fá sáralítið í sinn hlut. Norrænir bændur búa að langri reynslu af samvinnufyrirtækjum sem tryggja þeim sanngjarnan hlut af öllu framleiðsluferlinu frá bændum til neytenda. Þetta getum við kennt bændum þróunarríkjanna og veitt þeim stuðning til að byggja upp samtök sín," sagði Peter Gæmelke. Samningurinn takmarkar svigrúm okkar Bjarne Undheim er formaður í Bondelaget, sem eru heildarsamtök norskra bænda, og jafnframt formaður NBC. Hann sagði blaðamanni að NBC héldi árlega fundi, annað hvert ár eru fundirnir stærri og lengri og þar er kosið í stjórn eða öllu heldur skiptast löndin á að stjórna ráðinu í tvö ár í senn. Hitt árið eru haldnir styttri fundir og fundurinn á Hótel Íslandi var af þeirri gerðinni. Þar voru alþjóðamál í brennidepli. "Við hittumst síðast í Kolding í Danmörku fyrir ári og þá var staðan allt önnur, bæði hvað varðar WTO-samninginn og endurskoðun landbúnaðarstefnu ESB sem þá var í gangi. Nú stöndum við frammi fyrir rammasamningnum frá Genf og verðum að bregðast við honum. Hann snýst um að skera niður útflutningsbætur og lækka tolla og mun því takmarka svigrúm Norðmanna og Íslendinga til að styðja landbúnað sinn. Þetta snýst um möguleika og rétt okkar til að halda uppi eigin matvælaframleiðslu." Bjarne segir að vissulega skipti ESB-aðild þriggja Norðurlanda máli í samskiptum norrænna bænda en þeir geti þó talað saman án þess að fara að brjóta mublur. "Við eigum svo margt sameiginlegt þótt vissulega séu sjónarmiðin ólík á sumum sviðum. Það er bara eðlilegt og við tökum á því með lýðræðislegum aðferðum. Þessi staða Noregs og Íslands utan ESB er ekki bara til bölvunar heldur getur hún skapað okkur aðra samningsstöðu en hin löndin hafa. Við erum óbundin af samþykktum ESB og eigum samleið með ýmsum voldugum ríkjum á borð við Japan sem styrkir matvælaframleiðslu sína með miklum framlögum úr ríkissjóði." - Norðmenn hafa gagnrýnt Genfar-samkomulagið harðlega. Í hverju er sú gagnrýni helst fólgin? "Við verðum að hafa það hugfast að hér er einungis um rammasamning að ræða en hann gefur þó ýmsar vísbendingar um framhaldið. Við höfum áhyggjur af því hversu hart á að ganga fram í því að skera niður útflutningsstyrki og lækka tolla. Í samningnum eru hins vegar ákvæði um að lönd geti undanþegið viðkvæmar vörutegundir frá þessum niðurskurði en þau ákvæði á alveg eftir að útfæra. Við vitum að landbúnaðarframleiðsla í Noregi og á Íslandi er mjög dýr og við teljum að taka þurfi tillit til þess þegar gerðir eru alþjóðlegir viðskiptasamningar. Við óttumst að það verði ekki gert og þar með næst ekkert jafnvægi í þessa samninga. Það verður meginverkefni okkar að fá ríkisstjórnir landa okkar til að þrýsta á um að tekið verði tillit til þessara hagsmuna, að öðrum kosti verður það ekki lengur fýsilegt fyrir duglega bændur að yrkja jörðina. Þetta verður erfitt verkefni fyrir Íslendinga og Norðmenn." Matvælaöryggið mikilvægt - Sérðu fyrir þér að Norðmenn og Íslendingar komist upp með það í framtíðinni að halda uppi þessum mikla opinbera stuðningi? "Ekki í því formi sem hann er núna. Markmiðið hlýtur að vera að koma hlutunum þannig fyrir að landbúnaður verði áfram fýsilegur kostur fyrir duglega bændur. Það hlýtur líka að vera áhyggjuefni fyrir þjóðir að missa tökin á matvælaframleiðslu sinni. Við vitum hversu mikilvægur aðgangur að orku er fyrir þjóðir heims og ég hef þá trú að sjálfstæð framleiðsla og óheftur aðgangur að matvælum verði ekki síður mikilvægur í framtíðinni. Stórfyrirtæki sækjast eftir því að ná undir sig þessari framleiðslu og það hlýtur að vera mikilvægt fyrir þjóðríki að hamla gegn því að yfirráðin yfir henni færist til alþjóðlegra stórfyrirtækja." - Í Noregi er rætt um hugsanlega aðild að ESB rétt eins og hér á landi. Hver er afstaða norsku bændasamtakanna til hennar? "Norskir bændur voru mjög eindregið andvígir aðild árið 1994 þegar hún var felld og það hefur ekki breyst mikið. Skoðanakannanir hafa sýnt talsvert mikinn stuðning við aðild að ESB undanfarin misseri en í síðustu Gallup-könnun voru andstæðingarnir komnir í meirihluta. Afstaða almennings sveiflast því töluvert. Ég hef ekki trú á því að norska ríkisstjórnin leggi fram aðildarumsókn á næstunni. Það er skynsamlegt að bíða og sjá hvaða áhrif stækkun ESB hefur. Sú mikla tilraun er rétt að hefjast og best að leyfa henni að sanna sig áður en hugað er að aðild Noregs," sagði Bjarne Undheim. -ÞH Miðstjórn Norrænu bændasamtakanna Samkomulag WTO helsta umræðuefnið - Hagsmunir Norðurlanda í landbúnaðarmálum eru um margt ólíkir en norrænir bændaleiðtogar geta þó rætt málin í mesta bróðerni Peter Gæmelke Bjarne Undheim Helsta umræðuefni fundarins var sá fjörkippur sem nú virðist vera kominn í umræður um nýjan samning um viðskipti með landbúnaðarafurðir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, eftir samkomulag sem náðist í Genf 1. ágúst. Samningalotan sem kennd hefur verið við borgina Doha virtist hafa lognast út af eftir að ráðherrafundi WTO-ríkjanna mistókst að ná samkomulagi í Mexíkó í fyrrahaust en nú hefur verið gerður rammasamningur og ætlunin að fylla upp í hann fram að ráðherrafundi sem haldinn verður í Hong Kong í desember á næsta ári.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.