Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 18
18 Þriðjudagur 31. ágúst 2004
,,Það má segja að allt fram til
loka síðustu aldar hafi menn ekki
hugsað um íslenska hestinn sem
alvöru búgrein eins og hann er
orðinn nú. Stórt skref var stigið
þegar ákveðið var að gera
Hólaskóla að skóla þar sem
hestamennska og reiðlist væru
kenndar og síðar háskóla í
hestamennsku ásamt fiskirækt og
ferðaþjónustu. Ég tel þá ákvörðun
eitt stærsta skrefið sem stigið
hefur verið varðandi íslenska
hestinn og framtíð hans. Því má
svo aldrei gleyma í þessari
umræðu að frumherjar okkar í
hestamennsku og hrossarækt,
starf Búnaðarfélagsins og
hrossaræktarráðunautanna, voru
að sjálfsögðu mjög mikilvægir.
Ég vil líka minna á markaðsstarf
SÍS erlendis. Það var enginn vafi í
mínum huga þegar ég tók við
starfi landbúnaðarráðherra fyrir 5
árum að þessi mál þurfti að taka
nokkuð föstum tökum og gera
íslenska hestinum hátt undir
höfði. Þegar ég fór á mínu fyrsta
starfssumri sem ráðherra á
heimsmeistaramót íslenskra hesta
í Þýskalandi skynjaði ég að
íslenski hesturinn er alþjóðaeign
og á gríðarleg tækifæri í
veröldinni. Ég hef sjaldan orðið
jafn hrifinn og þegar ég sá tugi
þúsunda útlendinga, alls staðar að
úr heiminum, koma til að fylgjast
með keppni á íslenskum hestum.
Þá auðvitað sá maður betur en
áður hversu vænleg búgrein
ræktun íslenska hestsins er. En ég
vil taka fram að þessa búgrein
stundar enginn nema í honum búi
brot af Sigurbirni Bárðarsyni, það
þarf mikla þrautseigju og
kunnáttu í verkefnið," sagði
Guðni Ágústsson í samtali við
Bændablaðið.
Hestamiðstöðin
í Skagafirði
Hann segir að á þessu fyrsta
sumri hans sem
landbúnaðarráðherra hafi
hugsjónamenn í Skagafirði komið
að máli við sig og lagt mikið upp
úr því að fá hestamiðstöð í
Skagafjörð og gera hestinn að
byggða- og átaksverkefni hjá sér,
ennfremur bauð sveitarfélagið
Skagafjörður að leggja fram sjálft
15 milljónir á ári. Þar með segir
Guðni að hesturinn hafi verið
kominn inn á sitt borð fyrir
alvöru.
,,Mér fannst að samtímis og
ákveðið var að stofna
Hestamiðstöð Íslands í Skagafirði
yrðum við að gera eitthvað stórt á
landsvísu varðandi íslenska
hestinn. Ég beitti mér því fyrir því
í ríkisstjórn að gerður var
samningur við Bændasamtökin,
Landssamband hestamanna, Félag
hrossabænda og Félag
tamningamanna um fjárupphæð
til ákveðinna átaksverkefna.
Hestamenn hafa sagt mér að þetta
hafi haft mikla þýðingu hvað
varðar forystuhlutverk okkar í
veröldinni um íslenska hestinn."
Guðni segir að forráðamenn
Flugleiða hafi framar öðrum lagt
áherslu á gildi hestsins fyrir
ferðamannalandið Ísland.
Hesturinn sé besti sendiherrann
sem við eigum. Forstjóri
Flugleiða og hans fólk hafi unnið
stórkostlegt starf með
Landssambandi hestamanna í
kringum landsmótin.
Átök um
forystuhlutverk
Landbúnaðarráðherra var
spurður hvort hann væri ánægður
með stöðuna og samvinnu þeirra
sem fást við hrossarækt og
hestamálin yfirleitt í landinu?
,,Ég er ekki alls kosta
ánægður með allt sem er að gerast
þar. Það eru átök um
forystuhlutverk og tilgang. Ég tel
að þessir aðilar geti komið sér
betur saman um hlutverk hvers
annars og þurfi að vinna í mikilli
einingu. Það eru
áhugamannafélögin sem mynda
Landssamband hestamanna sem
er gríðarlega mikilvægur
vettvangur og hefur gert þéttbýlið
á Íslandi að lifandi bændum,
hvort sem það er
höfuðborgarsvæðið eða annað
þéttbýli í landinu. Félag
hrossabænda er hins vegar
búgreinin sjálf sem ég sé vaxa
hratt. Þriðji aðilinn er svo sá hluti
ferðaþjónustunnar sem byggir á
hestinum, hestaleigur og þeir sem
standa fyrir bæði stuttum og
löngum hestaferðum með
ferðamenn. Fagmennska er orðin
mikil í hestamennsku og ljóst að
Hólaskóli hefur skilað
hundruðum fagmanna inn í kerfið
sem aftur hefur orðið til þess að
ræktunin er í sókn á hinum
fjölmörgu hestabúgörðum sem
risið hafa um allt land. Félag
tamningamanna hefur barist fyrir
fagmennsku og metnaði. Maður
sér margt nýtt í íslenskum
sveitum sem tengist íslenska
hestinum og ég tel að þar séu
gríðarleg tækifæri sem þarf að
fylgja eftir."
Umboðsmaðurinn mikilvægur
Guðni var spurður hvort
stofnun embættis umboðsmanns
hestsins hafi heppnast?
,,Það er engin spurning að
Jónas R. Jónsson er að vinna
mikilvægt starf. Hann hefur greint
markaðinn og segist sjá gríðarleg
tækifæri erlendis. Hann hefur
einnig bent á mörg vandamál sem
við erum að glíma við og hefur
bent á hvar mest þurfi að taka á.
Hann bendir á nauðsyn þess að
við séum bestir og með mestum
glæsibrag á öllum sýningum
erlendis og þar séu að verki okkar
færustu hestamenn. Síðan þarf að
styðja við bakið á okkar bestu
markaðsmönnum. Ég er því ekki í
nokkrum vafa um að starf
umboðsmanns íslenska hestsins
mun borga sig fyrir búgreinina
sjálfa, ræktunarmennina sem ætla
að lifa á því að selja vel tamda
gæðinga til útlanda og gera
hrossaræktina að alvöru búgrein.
Ég reyndar sé fyrir mér að með
samstöðu greinarinnar og nýjum
átaksverkefnum geti
raunverulegir hrossabúgarðar í
sveitum Íslands orðið æði margir
og kannski ekkert færri
hestabændur en kúabændur. Þá á
ég auðvitað við þá sem jarðir sitja
og stunda hrossabúskap bæði sem
aðalatvinnu eða aukabúgrein með
tekjur af öðru með. Ekkert hefði
samt jafn stórtæk áhrif á
búgreinina og ef tækist að fella
niður tolla af hestinum til
Evrópulanda og skoða skattamál
á sölu á hestum hér innanlands.
Ég er afskaplega þakklátur fyrir
að hafa getað lagt nokkur lóð á þá
vogarskál að gera hestinn að
miklu áhugamáli og ævintýri,"
sagði Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra
Hrossaræktin hefur vaxið
og dafnað á síðustu árum
Í ráðherratíð Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra hefur hrossarækt og
hestamennska á öllum sviðum eflst til mikilla muna, enda Guðni mikill
áhugamaður um íslenska hestinn og setti hann ofarlega á verkefnalistann þegar
hann tók við embætti landbúnaðarráðherra.
Í byrjun ágúst kom norski
landbúnaðarráðherrann, Lars
Sponheim, í heimsókn til
Íslands. Hann er bóndi í Noregi
og mikill áhugamaður um
hesta. Guðni Ágústsson,
kollegi hans, bauð honum í
reiðtúr og hér sjást þeir ríða
niður Almannagjá á Þingvöllum
ásamt Sigurbirni Bárðarsyni,
sem lagði til gæðingana, Einari
Sæmundsen og Jónasi R.
Jónssyni. Eftir að hafa séð
Sigurbjörn Bárðarson taka
gæðing til kostanna og riðið
glæsihestinum Hirti niður
Almannagjá hreifst norski
landbúnaðarráðherrann svo af
íslenska hestinum að hann
hefur nefnt það við Guðna að
nú ætli hann að kaupa
íslenskan gæðing.
Sláturhús SS
á Selfossi
Miklar
endurbætur
og stækkun
á húsnæðinu
Miklar endurbætur hafa verið
gerðar á útflutningsvinnslu- og
frystihúshluta sláturhúss SS á
Selfossi á þessu ári. Salir til
vinnslu á fersku kjöti voru
nálægt því tvöfaldaðir. Jafn-
framt var sérbyggt rými til
þvotta og geymslu á körum,
grindum og öðrum stærri
ílátum. Þá var aðstaða til með-
höndlunar á frystu kjöti bætt.
Hermann Árnason, stöðvar-
stjóri sláturhússins, segir að þurft
hafi að fara í þessar framkvæmdir
til að standast þær kröfur sem
gerðar eru varðandi útflutning á
fersku kjöti. Sláturfélag Suður-
lands hefur undanfarin ár flutt út
ferskt lamakjöt til Danmerkur með
góðum árangri. Hermann segir að
miðað við það magn sem selt hafi
verið út hafi útflutnings-
vinnsluhluti hússins verið orðinn
allt of lítill en reynt sé að koma
sem mestu af kjötinu fersku út.
Hann segir strangar kröfur
gerðar til pökkunarleiðarinnar í
húsinu og kröfur eru gerðar um
aðskilnað á kjötinu í umbúðunum.
Sem dæmi nefnir hann að pappi
og trébretti megi ekki koma að
ópökkuðu kjöt. Því verði að pakka
kjötinu í plast áður en það er sett í
pappakassa.
Við stækkun pökkunarlínunn-
ar segir Hermann að starfsfólki
muni eitthvað fjölga þegar allt
verður komið á fulla ferð á slátur-
tíð. Slátrun er byrjuð hjá SS á
Selfossi. Í fyrra var slátrað þar 112
þúsund fjár sem var metár. Her-
mann segist búast við einhverri
fækkun í ár og að um 100 þúsund
fjár verði slátrað hjá SS á Selfossi.
Brunavarnir á
Héraði
Nýjar
klippur og
tankbíll
Bændablaðið skýrði frá því í
byrjun árs að
Brunamálastofnun hefði farið
yfir tækjabúnað Brunavarna á
Héraði, sem er slökkvilið
fjögurra hreppa.
Brunamálastofnun dæmi
tankbíl slökkviliðsins
ónothæfan og klippur þess voru
innsiglaðar því þær voru taldar
hættulegar.
Austanmenn brugðust skjótt
við og hafa nú fengið nýjar
klippur eftir að Bónus gaf
slökkviliðinu eina milljón til
klippukaupa. Þá var keyptur
olíutankbíll af Olíudreifingu og
hann gerður upp þannig að þar
er kominn afar góður tankbíll
fyrir slökkviliðið.
Bernharð Jóhannesson hjá
Brunamálastofnun hældi þeim
Austanmönnum fyrir skjót og
góð viðbrögð í þessum málum,
sagði þau til fyrirmyndar.