Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 28
28 Þriðjudagur 31. ágúst 2004 Lifandi steinar er nafn á litlu galleríi að Hlégarði í Aðaldal þar sem hjónin Bergljót Benediktsdóttir og Hálfdan Ármann Björnsson búa. Skiltið lætur ekki mikið yfir sér séð frá veginum en þegar beygt er heim þá birtast vegfarandanum persónugerðir steinar af ýmsum stærðum sem eru uppstilltir fyrir framan húsið og einnig má sjá dansandi timburmenn sem húsbóndinn hefur búið til úr birki. Lífgar þetta mjög upp á og um leið lifnar yfir galleríinu og forvitnin eykst. Litla húsið sem hýsir listmunina er garðhús og settu Bergljót og Hálfdan það upp við hlið íbúðarhússins. Inni eru hillur þar sem margt er að sjá og rúmast þar ótrúlega margir talandi steinar, hver á sína vísu. Þau Bergljót og Hálfdan byrjuðu fyrir 10 árum að huga að steinum í því augnamiði að mála á þá og eru nú að uppskera í vinnu sinni góðan árangur því þau unnu til verðlauna á handverkssýningunni að Hrafnagili í fyrra. Þetta er árátta mannsins að skapa eitthvað og sjá út úr náttúrunni möguleika sem margir aðrir sjá ekki, en saman fara þau út og ganga í fjörum og við árfarvegi, jafnvel í vegköntum og finna sér steina. Ekki geta þau tekið allt sem þau sjá því ekki er hægt að taka steina nema í þeim búi einhverjir möguleikar. Á þessum gönguferðum vakna því margar hugmyndir sem aðrir fá augljóslega ekki því í galleríi þeirra má sjá ótrúlegan fjölda steina sem hafa verið gæddir persónum manna og dýra á mjög skemmtilegan hátt. Síðan er farið heim og glímt við sköpunina og gaman segja þau að sé að láta steinana vinna með sér og enginn steinn sé eins. Þarna er fólk af ýmsum toga að fást við ýmislegt, húsdýr í röðum, fuglar, blóm og bæir svo eitthvað sé nefnt. Það eru stór dýr og lítil og á tröppum hússins eru gæludýrin, hundur og köttur, stórir steinar sem hafa verið gæddir lífi. Formlegt listnám hafa þau hjón ekki stundað en þau fóru fyrir áratug á taumálunarnámskeið og telja sig þar hafa lært mikið um meðferð lita og pensla. Þá hafa þau kynnt sér grunnteikningu en með árunum og í því að fást við steinana sjálfa hafa þau lært hvað mest. Bergljót og Hálfdan stunduðu búskap í áratugi á Hjarðarbóli, fluttu í Hlégarð þegar þau fóru að minnka við sig en taka enn þann dag í dag þátt í því sem er að gerast á búinu. Á síðasta ári varð Hálfdan sjötugur og gaf út af því tilefni ljóðabókina Fjóshendur, sem inniheldur kveðskap frá 40 ára tímabili við hin daglegu störf, mest í fjósinu á Hjarðarbóli, og var hripaður niður á innvigtunarseðla mjólkurbílsins, fóðurblöndupoka eða á annað sem til féll. Þá skal geta þess að Bergljót er mikil garðyrkjukona og í þessu lífstarfi hjónanna er ljóst að saman hefur safnast mikil þekking á dýrum og náttúru sem hjálpar mikið við þá listsköpun sem þau fást við nú þar sem litir og form eru svo nálæg. Í vinnuherbergi þeirra hjóna er margt að sjá og persónurnar sem þar eru á hillunum gleðja augað. Nýjast framleiðslan er dansfólkið sem dansar við undirleik nokkurra harmoníkuleikara og er það reyndar mjög athyglisverð sería. Þá koma við sögu fuglar sem Hálfdan hefur skapað úr m.a. úr ýsubeinum og teygja þar kríur vængina, tilbúnar í flugið. Hálfdan segir að Bergljót sé duglegri en hann í steinamáluninni en hún talar ekki mikið um það. Hins vegar fór hún að hugsa um listsköpun á sínum tíma sem hugsanlega atvinnu kvenna í sveitum en hvað sem má segja um atvinnumöguleika á þessu sviði þá er víst að hjónin í Hlégarði hafa fundið sér farveg sem gefur lífinu skemmtileg gildi. Við endum þetta með síðasta erindinu í ljóðinu Maínótt eftir Hálfdan sem er í ljóðabók hans og hljóðar svo: Svo tekur hún fram litakassa og litapensil sinn og leitar uppi stað, þar sem ríkir friðurinn. Hún léreftir sitt strengir á víkur,voga og ála, með vatnslitum svo myndir á sléttan flötinn málar. Lifandi steinar Nokkur þeirra dýra sem koma úr smiðju þeirra hjóna. Bbl/Atli. Um þessar mundir eru að hefjast tökur á kvikmynd byggðri á Bjólfskviðu og verður hún tekin upp við Höfn í Hornafirði og nærri Vík í Mýrdal. Þetta er ein dýrasta kvikmynd sem tekin hefur verið upp alfarið hér á landi en kostnaðaráætlunin nemur um 900 milljónum króna. Um 170 manns koma að gerð mynd- arinnar. Það eru kanadískir aðilar sem standa að gerð hennar og Vestur-Íslendingur- inn Sturla Gunnarsson verður leikstjóri. Sem kunnugt er hafa útisenur margra kvikmynda, bæði inn- lendra og erlendra, verið teknar upp á Suður og S-Austurlandi og hefur þetta skapað umtalsverða atvinnu við ýmis þjónustustörf við kvikmyndatökurnar. Frumkvöðla- setur Austurlands hefur því áformað að stofna þjónustu- fyrirtæki við kvikmyndaiðnaðinn á Suður- og S-Austurlandi í tengsl- um við tökur á Bjólfskviðu. Þegar hafa safnast um 15 milljónir króna í hlutafé frá ýmsum aðilum. Atvinnuþróunarsjóður Suður- lands hefur ákveðið að leggja 7 milljónir króna í kvikmynda- verkefnið Bjólfskviðu og stofnað einkahlutafélagið Gjöll ehf. til að halda utan um þetta mál. Orri Hlöðversson, bæjarstjóri í Hveragerði ogformaður stjórnar Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands, sagði í samtali við Bændablaðið að sjóðurinn hefði verið beðinn um það í fyrra að taka þátt í þessu verkefni. Óskin kom frá Ný- sköpunarsjóði en auk hans koma að þessu Frumkvöðlasetur Austur- lands, iðnaðarráðuneytið og Byggðastofnun. Hann sagði að stjórn sjóðsins hefði ákveðið að taka þátt í uppbyggingu félags sem mun einbeita sér að því að markaðssetja Suður- og S-Austurland sem svæði fyrir kvikmyndatökur sem gæti orðið mjög atvinnuskapandi. Hann segir að Gjöll ehf. hafi verið stofnað m.a. vegna þess að Atvinnuþróunarsjóðurinn hafi lítið sem ekkert verið í hlutafjárkaupum undanfarin ár. Hann segir þetta millileik því þegar stóra félagið hefur verið stofnað mun Gjöll ehf. að öllum líkindum vera lagt inn í það félag. ,,Við vildum hafa þetta sér í okkar bókum vegna þess að hér er um hlutafé og áhættufjárfestingu að ræða en Atvinnuþróunarsjóð- urinn er hins vegar að mestu leyti í hefðbundinni veðlánastarfsemi," sagði Orri Hlöðversson. Áformað að stofna félag um þjónustu við kvikmyndagerð Hér hafa brugðið á leik þeir Steindór Gunnarsson vestur- íslenski leikstjóri myndarinnar og Ingvar E. Sigurðsson sem leikur Grenli jötun. /Bbl. Jónas Erlendsson AUGLÝSING um breytingu á auglýsingu nr. 545/2004 um útflutningshlutfall kindakjöts 2004 - 2005. 1. gr. Með vísan til auglýsingar nr. 545/2004 hefur landbúnaðarráðherra ákveðið að útflutningshlutfall kindakjöts fyrir neðangreint tímabil verði sem hér segir: Dilkakjöt: Tímabil: Útflutningshlutfall: 13. sept. 2004 - 28. nóv. 2004 36% 2. gr. Auglýsing þessi er sett í samræmi reglugerð nr. 524/1998 um útflutning á kindakjöti með síðari breytingum og með heimild í 4. mgr. 29. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Landbúnaðarráðuneytinu, 27. ágúst 2004. F.h.r. Ólafur Friðriksson.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.