Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 15

Bændablaðið - 31.08.2004, Blaðsíða 15
Þriðjudagur 31. ágúst 2004 15 Vesturlands en ákvað að gefa skólagöngu síðasta tækifæri. Eins og ég sagði var sálfræðin alltaf eitthvað sem heillaði mig og ég hafði tekið svo mikla sálfræði á Akranesi svo það var eina fagið sem mér fannst ég kunna eitthvað í. Þegar ég kom svo að Laugum þá sagði kennarinn sem kenndi mér sálfræði að það væri hálf ósanngjarnt að hann væri að kenna mér sálfræði því ég kynni raunar miklu meira í henni en hann. Þetta var svona létt grín á milli vina. Ég hef aldrei verið mikill námshestur en geri það sem ég þarf að gera og ekkert meira. Mér finnst ég vera að koma "heim" þegar ég kem norður að Laugum. Ritgerðin mín heitir - Heim að Laugum - en titillinn er tekinn úr ljóði eftir Örn Snorrason sem var kennari við Laugaskóla. Ljóðið er yfirleitt kallað Laugamannasöngur." Sögukennarinn hafði mikil áhrif "Ég bar mikla virðingu fyrir kennurunum á Laugum og ekki síður bar ég virðingu fyrir þeim sem vinum. Það var sérstaklega einn maður sem einmitt kenndi mér sögu og var námsráðgjafi og áfangastjóri á þeim tíma, Sverrir Haraldsson heitir hann. Hann hafði þau áhrif á mig að ég sá að ég var kannski ekki eins vitlaus og mér fannst ég alltaf vera og ber ég mikla virðingu fyrir honum enda bæði góður maður og kennari. Það má eiginlega segja að hann hafi komið mér einhvern veginn á sporið svona óviljandi eða orðið þess valdandi að ég fékk áhuga á frekara námi. Ég fór allt í einu að hlusta sem er hlutur sem ég var ekkert duglegur við áður í lífinu. Ég byrjaði haustið 2002 í Háskóla Íslands og þá í sálfræði en hætti eftir mánuð, ég náði að þrauka það lengi og hugsaði með mér að þetta væri hlutur sem ég gæti aldrei gengið í gegnum í fjögur ár. Ég sá það að ég hafði lifað í draumaheimi fram að því og sálfræðin var sveipuð einhverjum dýrðarljóma í mínum huga og sennilega eru fleiri á sama máli, þar sem þetta er ein af aðsóknarmestu greinum háskólans. Það sem vekur áhuga minn varðandi sagnfræðina er það að mér finnst ég ekki vera að læra neinar staðreyndir utan að, þó kannski einstaka ártöl. Mér finnst námið víkkar sjóndeildarhringinn og ég sé hlutina í miklu víðara samhengi. Maður er eiginlega að læra bakgrunn allra hluta sem eru að gerast svo sem hver undirrót atburðanna er. Það gerir manni kleift að skilja það sem hefur gerst í heiminum miklu betur og mér finnst ég hafa þroskast alveg gífurlega mikið á þessum stutta tíma sem ég hef verið í sagnfræðinni. Það er alltaf inni í myndinni að ég nái mér í kennsluréttindi síðar meir. En núna legg ég mig lítið fram við námið og það er merkilegt hvað maður kemst langt á litlu þegar nám er annars vegar." Dreymir um að verða rithöfundur "Mér finnst eins og þetta nám hafi vakið áhuga minn á svo mörgu jafnvel þótt ég sé ekki kominn á það stig að á jólagjafaóskalistanum séu ævisögur stórmenna eða Saga Reykjavíkur svo fátt eitt sé nefnt en að vissu marki hef ég gaman af því að lesa þetta. Annars er ég mikill draumóramaður. Mig dreymir til dæmis um að verða rithöfundur sem ég veit að er ekki mjög raunhæft. Þessi vinnubrögð sem ég læri í sagnfræðinni geta hjápað mér mjög mikið ef ég til dæmis skrifaði skáldsögu. Það er draumur minn að geta séð fyrir mér og mínum með ritstörfum hvort sem það tekst eða ekki og búa úti á landi. Mér líður mjög vel í Kópavogi en ég verð alltaf sveitastrákur. Ef ég fengi símtal í dag úr mínu heimahéraði, Borgarfirði, og mér væri boðin góð vinna, vel borguð og ég yrði að byrja strax á morgun þyrfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um, ég mundi hlaupa af stað. Kærasta mín er líka dreifbýlismanneskja, uppalin á Bakkafirði. Ég kynntist henni á Laugum. Við höfum ákveðið að vera hér í bænum þangað til ég hef lokið háskólanáminu en flytja síðan út á land hvert sem það verður." Gráskinna í uppáhaldi "Áhugamál mín tengjast bóklestri. Ég hef til dæmis gaman af því að lesa þjóðsögur Jóns Árnasonar. Ein af mínum uppáhaldsbókum er Gráskinna. Það er bók sem ég las spjaldanna á milli þegar ég var lítill og ég les hana enn. Ég er með hausinn í skýjunum og þar af leiðandi eru áhugamálin mjög tengd því. Nú er aðaláhugamálið mitt að taka þátt í því að ala upp nýfæddan son okkar. Ég fór nýlega með hann í ungbarnaskoðun. Þar voru fleiri börn sem fædd voru um svipað leyti og mér fannst hann algjör risi enda var hann fæddur 17 merkur." Fallegasta bæjarstæði landsins "Rauðanes, sem er sögufrægur staður, er í mínum huga fallegasta bæjarstæði landsins. Það hét áður Raufarnes. Þar var Skalla-Grímur Kveldúlfsson með smiðju og þar er þessi frægi Skalla-Grímssteinn sem hann á að hafa kafað eftir í Borgarfjörðinn og róið með í land eins og segir í Egils sögu. Þessi steinn er þarna enn í fjörunni og talinn fjögurra manna tak. Afi minn var harður á því að þetta væri Skalla- Grímssteinn." Sveitin togar alltaf í mig Eygló Traustadóttir er nemandi í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Hún býr á stúdentagörðum ásamt kærasta sínum, Óla Gneista Sóleyjarsyni, sem einnig er við nám í bókasafns- og upplýsingafræði. Eygló ólst upp á Rauðhólum í Vopnafirði. Bærinn er í Hofsárdal sem er einn þeirra þriggja dala sem eru í Vopnafirði en um hann rennur hin fengsæla laxveiðiá, Hofsá. Foreldrar Eyglóar, Steinunn Zoëga og Trausti Gunnsteinsson, búa með kindur auk þess að stunda atvinnu utan heimilis. "Núna eru eingöngu kindur og hundar en þegar ég var að alast hér upp vorum við líka með fleiri dýr svo sem hænur, kálfa, gæsir, ketti og kanínur. Ég kem heim reglulega og finnst eiginlega ómissandi að koma í sauðburðinn á vorin eftir að skólinn er búinn. Ég hef mjög gaman af dýrunum og sveitin togar alltaf í mig." Námið tekið á hraðferð Skólaganga Eyglóar hófst í Vopnafjarðarskóla þar sem hún lauk grunnskólaprófi og hélt síðan til náms á Akureyri. "Ég var í tvo vetur við nám í Verkmenntaskólanum á Akureyri og flutti síðan til Reykjavíkur og útskrifaðist með stúdentspróf af félagsfræðibraut frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla um jólin 2002." Eygló hóf námið í bókasafns- og upplýsingafræði til 90 eininga í janúar 2003 og er rúmlega hálfnuð og má segja að hún taki námið á hraðferð enda hefur hún tekið um 20 einingar á önn en fullt nám miðast við 15 einingar. "Ég vinn ekki með náminu yfir veturinn og er ekki komin með fjölskyldu þess vegna hef góðan tíma til að sinna því. Ég er mjög ánægð með námið og stefni að því að klára það á næsta ári. Í sumar starfa ég á Borgarbókasafninu í Grafarvogi þannig að ég fæ ágætis æfingu á safni. Í framtíðinni gæti ég hugsað mér að fara í framhaldsnám, þá jafnvel í kennslufræði og síðan námsráðgjöf eða fara í framhaldsnám erlendis í bókasafns- og upplýsingafræði en fyrst ætla ég að vinna um tíma. Það verður bara að koma í ljós hvort eða hvenær ég fer í frekara nám." Litlir atvinnumöguleikar "Ég gæti vel hugsað mér að búa á Vopnafirði eða á Akureyri og er þess vegna með það í huga að gott væri að hafa kennslufræðina jafnhliða BA-náminu í bókasafns og upplýsingafræði. En það kemur í ljós hvernig þetta vinnst allt saman og auðvitað hefur það sitt að segja hvar ég fæ góða vinnu. Atvinnumöguleikar fólks með háskólapróf eru ekki miklir úti á landsbyggðinni, það er þá helst við kennslu eða hjúkrunarstörf." Áhugamál Eyglóar utan námsins eru fjölmörg. "Ég hef gaman af lestri og les töluvert skáldsögur, ævisögur og fræðibækur. Ég hef líka mjög gaman af að spila ýmis borðspil svo sem Picitionary, Trivial Pursuit og Risk og hóa gjarnan í vini til að spila. Þá hef ég gaman af ferðalögum bæði innanlands og utan og ég og kærasti minn fórum eftir að prófum lauk í 5 daga ferð til Kaupmannahafnar og skoðuðum þar ýmislegt markvert eins og dýragarðinn og mörg söfn." Fjölskyldan gagntekin af hestaáhuga Eðvarð Ingi Friðriksson hefur lokið fyrsta ári í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann ólst upp á Varmalæk í fyrrum Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Þar var til skamms tíma stundaður hefðbundinn búskapur en núna tengist búskapurinn á Varmalæk nær eingöngu hestum og mikið er unnið við tamningar og kemur það ekki á óvart þegar Skagfirðingar eru annars vegar. "Ég er næstyngstur fjögurra alsystkina. Foreldrar mínir eru Lovísa Sveinsdóttir og Friðrik Rúnar Friðriksson en hann býr á Lambeyrum sem er í sama hreppi. Við búum á Varmalæk 1, ég mamma, amma og yngri bróðir minn. Bróðir mömmu og fjölskylda hans búa á Varmalæk II og þau eru með fjölda hesta. Elsti bróðir minn er kominn með fjölskyldu og býr líka í hreppnum. Hann vinnur við smíðar en starfar jafnframt við tamningar. Systir mín er nýlega flutt í Húnavatnssýslu og rekur þar tamningamiðstöð. Yngsti bróðir minn er enn heima við og er að læra smíðar. Hestaáhuginn í fjölskyldunni er sérstaklega mikill. Ég ólst upp við hestamennsku sem hefur verið hluti af lífi mínu alveg fram að þessu. Eftir að ég fór að heiman hafa afskipti mín af hestum og dýrum minnkað en áhuginn er fyrir hendi og ég fer nokkrum sinnum á ári á hestbak." Ekkert sem freistar mín frekar Eftir grunnskóla fór Eðvarð í Menntaskólann á Akureyri og varð stúdent þaðan vorið 2002. "Mér fannst alveg frábært að vera á Akureyri. Ég var á eðlisfræðibraut en var ekki alveg tilbúinn til að halda áfram í endalausri eðlis- og stærðfræði og valdi því viðskiptafræðina þegar ég hóf nám við Háskóla Íslands síðastliðið haust. Þegar ég fór að skoða námskrána fannst mér að áhuginn væri helst á þessu sviði. Ég kann ágætlega við þetta nám það sem af er og stefni á að klára það en það er ekkert freistar mín frekar. Það voru alveg frábærir kennarar sem kenndu bæði stærðfræði og eðlisfræði við Menntaskólann á Akureyri sem ég virði mjög mikils. Níels Karlsson kenndi stærðfræði og Þorsteinn Egilsson, sem er hættur, var eðlisfræðikennari. Þetta voru aðalkennararnir mínir við MA og báðir mjög góðir kennarar. Ég valdi eðlisfræði- brautina vegna áhuga á stærðfræði, mér fannst hún passa mér best. Stærðfræðin í viðskiptafræðinni er mér því frekar létt og mér þykir námið skemmtilegt." Eðvarð segir að ýmislegt hafi komið honum á óvart þegar hann byrjaði í viðskiptafræðinni. "Ég bjóst til dæmis ekki við að það væri komið inn á heimspeki og stjórnun en það er hægt að velja um svo margar leiðir í viðskiptafræðinni. Á þriðja námsári verður komið inn á lögfræði sem mér þykir frekar heillandi." Flestir héldu áfram námi "Þegar ég fór í Menntaskólann á Akureyri þá voru örugglega um 80% skóla- systkina minna sem héldu áfram í námi og fóru í framhaldsnám en það varð þó eitt- hvert brottfall eftir fyrsta námsárið. Mér finnst það orðið frekar algengt að unglingar fari í framhaldsnám og ekkert síður krakkar úr sveitum. Flestir Skagfirðingar fara í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Ég held að það sé að aukast að sveitakrakkar haldi áfram í námi. Vinahópurinn sem ég myndaði í Menntaskólanum á Akureyri samanstendur 8 til 10 strákum og eru þeir flestir komnir suður í Háskóla Íslands. Það var mjög skrýtið að mæta í fyrsta tímann í viðskiptafræðinni. Ég þekkti engan og í tímanum voru örugglega um 300 manns og kennt var í Háskólabíói. Þegar til kom þá voru þarna nokkrir sem ég kannaðist við úr MA og svo hefur maður kynnst mörgum síðan. Við höldum mikið hópinn sem kynntumst best í MA. Við leigjum þrír saman íbúð hér í Reykjavík, stutt frá okkur búa fjórir skóla- bræður okkar í annarri íbúð og það er mikill samgangur á milli. Það var fyrir algjöra tilviljun að við leigðum svona nálægt hver öðrum." Festival í Ríó og salteyðimerkur "Við þrír sem leigjum saman fórum eftir að við útskrifuðumst úr MA í þriggja mánaða skipulagt ferðalag um Suður-Ameríku. Það var farið í gegnum sex lönd, Brasilíu, Argentínu til Chile, þaðan til Bolivíu, Perú og Ekvador. Það var trukkur sem flutti okkur á milli staða og gistum við ýmist í tjaldi eða á hóteli." Eðvarð segir að það sé margt sem sé honum ógleymanlegt sem bar fyrir augu hans. "Við hófum ferðina á festivali í Ríó sem var toppurinn og merkilegt að sjá salteyðimerkurnar í Bolivíu og einnig að kynnast lífsháttum fólksins og sjá fátækrahverfin. Við vissum lítið um þessi lönd fyrir en þegar við fórum á milli staða fengum við bæklinga og allar upplýsingar um löndin og það markverðasta á hverjum stað. Þetta víkkaði óneitanlega sjóndeildarhringinn." Orðnir æfðir í eldhúsverkum "Við eldum alltaf og erum búnir að vera rosalega duglegir í eldhúsverkunum og eldum yfirleitt kvöldmat fjórum til fimm sinnum í viku og stundum hádegismat líka." Aðspurður um það hvað sé á matseðlinum segir Eðvarð að það sé afar fjölbreytt. "Þetta reddast alltaf, við hringjum í mæður okkar og gerum ýmsar tilraunir. Okkur finnst til dæmis mjög gaman að hafa venjulegan mat eins og lasanía, hrygg, gæs eða file. Það eru þrír pítsustaðir sem eru í innan við einnar mínútna göngufæri frá okkur og þó höfum við ekki pantað okkur pitzu nema þrisvar sinnum frá því að við fluttum inn í haust. Við erum líka nokkuð duglegir í að skemmta okkur og hittumst allar helgar og endum þá oftast niðri í bæ og stundum á einhverju veitingahúsi." Vildi helst búa í Skagafirði Eðvarð segist hafa áhuga á að búa úti á landi að loknu námi "Ég gæti mjög vel hugsað mér það og þá allra helst í Skagafirði. Það fer þó allt eftir atvinnuframboði en framtíðin verður að leiða það í ljós. Ég ætlaði mér nú aldrei að enda inni á skrifstofu einhvers staðar en eftir þennan fyrsta vetur í viðskiptafræðinni þá þykir mér það ekkert svo óhugsandi. Ég stefni að því að klára þetta nám og langar síðan að læra eitthvað meira en hef ekki endanlega ákveðið hvað það verður, ég ætla bara að bíða og sjá hvað mér dettur í hug þegar líður á námið. Áhugamál mín tengjast ýmsum íþróttum. Við félagarnir leigjum sal og æfum fótbolta. Í vetur æfði ég körfu. Einnig hef ég mikinn áhuga á flúðasiglingum. Það má segja að ég hafi farið í flúðasiglingar í staðinn fyrir hestamennskuna. Ég byrjaði að sigla við 15 ára aldur." Arnheiður Guðlaugsdóttir. Viggó Edvarð

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.