Bændablaðið - 23.09.2008, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 23.09.2008, Blaðsíða 8
8 Bændablaðið | þriðjudagur 23. september 2008 Pétur Guðmundsson fjallar í Bændablaðinu 8. júlí um mark- aðsvæðingargrein mína. Strax eru honum rök gegn dúnuppboði þrotin. Skulu viðskipti mín nú tortryggð, spunnið um að ég „fari á taugum“. Verðleiðrétting hefur aðdraganda, er án geðþótta. Mánaða bið án árangurs kostar fé, yfirvegað val ábyrgs stjórnanda er milli sölu á lægra verði eða þrots vegna áfall- ins kostnaðar. Góð hreinsun er dýr því útvistun fjaðratínslu er bönnuð (!) með lögum settum að undirlagi heildsala, með skjalfestum stuðningi Péturs, tilgangurinn að hefta rekstur minn, sjálfir hafa þeir ekki þekkingu til að nýta þá leið. Hverjum dytti í hug að lögbinda 66°N til að flytja flíspeysusaum aftur heim frá Kína og tífalda launakostnað? Í reifun þessa felst engin „viðurkenning“ einhverrar „skammar“, þvert á móti stolt, engu var „spillt“, heldur staðið í skilum, allir kaupendur ánægðir, kaupa enn. Spillingin felst í ítökum óviðkomandi heildsala í lagasmíð landbúnaðarráðuneytis. Skrykkjótt verðþróun er afleiðing endurtekinn- ar yfirkeyrslu þeirra á markaðnum. Hyrfi heildsölustigið næðist sparn- aður með uppboði, gegnsæ, jöfn verðþróun og heimsmarkaðsverð í vasa bænda. Stóðhestur var geymd- ur í afskekktri sveit, – enginn sýndi undaneldi áhuga, hann sigrar síðan á landsmóti og nú bjóðast milljónir. Æðardúnn er falinn í ruslapokum í gámum, bílskúrum, loftum en dún- bóndi ver milliliðinn og berst gegn því (!) að dúnn verði með uppboði gerður sýnilegur erlendum kaupend- um, verk sem ÆÍ með opinn krana ríkisstyrkja og sínar 4 milljónir á bók stæði næst að hefja. Fælist dún- hreinsarinn Pétur þá gæðakröfu og vinnsluhraða sem uppboð útheimt- ir? Pétur þegir þegar húsbændur hans keyra verðið upp og kaupendur í stopp, iðja hinna stikkfrí heildsala frá ómunatíð. Hvar eru þá upphróp- anir hans um „skömm“ eða eiga þeir heiður skilinn? Pétur staðfestir að hann sitji fundi þeirra, því ljóst er að mállausir heildsalarnir nota dún- bóndann sér til varna, mata hann á staðlausum dylgjum um mína vöru og viðskipti, dylgjum sem hann sjálfur getur ekki sannreynt því hann kann ekkert erlent mál. Hann er tilneyddur, enda háður þeim, getur ekki selt sinn dún út sjálf- ur. Séu viðskipti við mig slæm og við hann og húsbóndann hagfelld, hvers vegna var ég í júni sl. búinn að hreinsa 300 ný kg og af hverju auglýsir Pétur ekki fast verð og hví að gína yfir meiri dúni ef hann á enn óseldan frá í fyrra? Ég tók af skarið sl. vetur, aðrir greiddu fegnir sama verð og feluleikur nettóverðs í flóknum útreikningi hreinsikostn- aðar hjá öðrum viðgengst enn. Við uppboð yrði hreinsun greidd sem prósenta af því sem fengist fyrir vél- hreinsaðan dún. Við mín sólarhring- safköst í góðu hráefni sem losa 25 kg hreins dúns (Ólafur í Stakkahlíð getur staðfest það) bliknar snig- ilhraðahreinsun Péturs í brunagámi og er þar komin ástæða andstöðu hans við sumaruppboð vélhreins- aðs dúns. Mín vinnsla gerði bænd- um kleift að ná uppboði en ég tæki sem fyrr aðeins gæðahráefni inn. Ég er það góður að til að keppa við mig þarf að drepa nýsköpun mína með ólögum, orðspor mitt með lygum. Pétur dróttar því ég eigni mér uppfinningar Baldvins í Sylgu. Ég hef endurbætt Baldvinstínu, fjarlægt drifið blöðkukefli sem lamdi troml- una en sett fjaðrandi blöðkur í stað- inn sem virka vel. Þá var hans tromla í kassa með skúffu undir fjaðrir, opnum að neðan þannig að þó hún væri tengd afsogi var það óvirkt. Ég lét forma kassann í V-laga belg með afsogi neðst en sleppti lofti að tromlunni lárétt, rykhreinsun batn- aði, tæming varð óþörf. Með nýju fyrirkomulagi tromlu tvöfaldaði ég afköst vélarinnar bara hjá mér en aðrir, t.d. Pétur í vanþakklæti, nota grunnútgáfu. Nýja krafsara hef ég látið gera í nákvæmum hlutföllum og stærðum hreyfanlegra hluta fyrstu vélarinnar smíðaðrar á Króknum, enda er hún góð, en breytti umbúnaði, rusltæming varð sjálfvirk. Baldvin var ekki fyrstur til að smíða krafsara, mótaði hann eftir vél Dalamanns, fyrstu hreinsivélinni en hún er nú er í vörslu Þjóðminjasafnsins. Hitara hef ég hannað alveg frá grunni með hug- mynd útfrá lauslegri lýsingu kunnugs af erlendu tæki í öðrum iðnaði. Með þeim tryggi ég jafna varmadreifingu sem hindrar bruna, nokkuð sem hrjá- ir Pétur, þeir geta gengið eftirlitsfríir allan sólarhringinn og hver hitun tekur 6 tíma en ekki sólarhring eins og hjá Pétri, rafmagnskostnaður sl. sumar 60.000 kr. á 500 hrein kg. Pétur telur sölu vélhreinsaðs dúns óráð þó fjaðratínsla sé dýr hér en ódýr erlendis. Hér verður ekki til virðisauki á þessu stigi, til fellur óþarfa kostnaður sem ekki næst til baka í hærra verði. Óhagræðið er skyldað með dúnmatslögunum. Til að tryggja sér ítök náðu heildsalar með þeim að hefta framþróun grein- arinnar. Æðarræktarfélagið stóð fyrir útgáfu sögu æðarræktarinnar með opinberu styrkjafé, heildarkostn- aður 6 milljónir kr. Sömu hagfræði var beitt við bókaútgáfuna og nú gegn dúnuppboði enda er Pétur end- urskoðandi athugasemdalauss árs- reiknings ÆÍ og fer ekki „á taugum“ yfir arðsemi fjárfestingarinnar, enda kosta skattborgarar hana. Tekjur ÆÍ af sölu bókarinnar voru heilar 14.000 kr árið 2006 svo þannig tæki það ÆÍ 4 aldir (!) að hafa uppí höfuðstólinn sem er í samræmi við mottó Péturs í dúnsölu: „Bara bíða“. Jón Sveinsson dúnbóndi/-hreinsari/-útflytjandi Uppboð – landsmót æðarbænda Umsögn Bændasamtaka Íslands um svokallað matvælafrumvarp ríkisstjórnarinnar er ítarleg og vönduð. Ljóst er að samtökin hafi nýtt sumarið vel til að vinna að umsögn sinni. Eins og við var að búast leggjast Bændasamtökin algjörlega gegn innflutningi á hráu ófrosnu kjöti og hafna þannig meg- inefni frumvarps ríkisstjórnarinnar. Umsögn BÍ er því þungavigtar við- bót við þann mikla fjölda umsagna sem bárust sjávarútvegs- og land- búnaðarnefnd þar sem þessum meginákvæðum frumvarpsins var algjörlega hafnað. Vissulega var meintur tilgang- ur með s.k. matvælafrumvarpi að tryggja matvælaöryggi og vernda neytendur á EES-svæðinu. Á Íslandi er hins vegar árangur á sviði matvæla- og neytendaöryggi einn sá besti í heiminum – raunar framar öllum ríkjum ESB. Reynsla Dana af því að taka upp samræmda matvælalöggjöf ESB er ekki góð: Þar geisar nú salmonellufaraldur, mun meira er af sýktu kjöt í búðum en fyrir upptöku löggjafarinnar. Hafa ber í huga að íslenskar sjúk- dómavarnir hafa verið öðrum þjóð- um til fyrirmyndar á undanförnum árum, m.a. vegna þess að íslenskir kjúklingabændur réðust í stórtækar aðgerðir til að draga úr salmonellu- sýkingum. Aðilar sem tóku þátt í því átaki, bæði framleiðendur og dýralæknar, hafa lagst gegn mat- vælalöggjöfinni á þeirri forsendu að þeim mikla árangri verði stefnt í hættu. Aðvörunarorð Margrétar Guðnadóttur vega þungt Það er þó langt í frá að hættan sé ein- ungis bundin við kjúklingarækt, eins og Margrét Guðnadóttir, prófessor í veirufræði og einhver fremsti sér- fræðingur heims á því sviði, hefur bent á. Niðurstöður Margrétar er afdráttalausar og vel rökstuddar en hún segir að Alþingi eigi að fella frumvarpið og taka þurfi upp nýjar samningaviðræður við EES. Í rök- stuðningi sínum bendir hún á tilvist mæði-, riðu- og garnaveiki í lönd- um ESB og hvernig við ýmist hér á landi höfum útrýmt eða takmarkað mjög þessa sjúkdóma. Hún tíundar einnig þann vandræðagang sem átti sér stað innan ESB vegna kúariðu- faraldurs á Bretlandseyjum. Þá bendir Margrét réttilega á að árang- ur á þessu sviði er ekki auðfenginn og auðvelt er að glutra honum niður. Að afsala sér forræði í þessum mála- flokki er því algjört glapræði í ljósi þess gríðarlega árangurs sem Ísland hefur náð og þeirrar miklu sérstöðu sem við búum við. Orð Margrétar Guðnadóttur vega þungt í ljósi hennar framlags til rannsókna á þessu sviði. Ekki verður séð að aðrir sem fjallað hafa um þessa þætti málsins hafi getað hrakið þessa niðurstöðu hennar né að stjórnvöld hafi sýnt viðleitni til þess. Matvælafrumvarpið stefnir matvælaöryggi í hættu og því vinn- ur það gegn aðalmarkmiði sínu. Að taka það upp á Íslandi væri eins og að taka upp samevrópska löggjöf um hreinleika vatns og þannig dæla óhreinindum í íslenskt lindarvatn bara svo að það hafi sama magn af sýklum og kranavatnið í evrópsk- um stórborgum. Matvælaöryggi og framtíð íslensks landbúnaðar í húfi Ofangreind rök eru veigamest til rökstuðnings því að það væri full- komlega ábyrgðarlaust að sam- þykkja frumvarpið þó bæta megi mörgum fleiri við ef menn svo vilja: 1. Fjölmörgum störfum í landbún- aði og matvælavinnslu er stefnt í hættu. Mörg þung högg dynja á íslenskum landbúnaði og hefur rekstrarumhverfi hans versn- að, sérstaklega vegna hækk- andi verðs á aðföngum, olíu, áburði, háum vöxtum og mikilli verðbólgu. Ljóst er að með nýrri verðskrá sláturleyfishafa er verð aðeins lítillega leiðrétt miðað við þessar hækkanir. Innflutningur á ódýru hráu kjöti til viðbótar við þetta yrði mjög erfiður biti að kyngja fyrir marga bændur. Að auki, mitt í öllu tali um mann- aflsfrekar framkvæmdir, skýtur það skökku við að tefla í tvísýnu einni öflugustu atvinugrein landsins – landbúnaðinum, inn- lendri matvælaframleiðslu og matvælaiðnaði. 2. Einokun á matvörumarkaði. Ef þeir fáu aðilar sem eru á mat- vörumarkaði geta flutt inn ódýrt hrátt kjöt geta þeir stýrt mat- arverði enn frekar. 3. Ekki hafa verið færð fram óyggj- andi rök fyrir því að Ísland verði að taka upp fyrrnefnda löggjöf og Bændasamtökunum hafa ekki borist nein haldbær gögn þar að lútandi. Stefán G. Þórisson lögmaður og sérfræðingur í Evrópurétti sem Bændasamtökin fengu til að athuga málið fyrir sig hefur dregið í efa að Ísland þurfi að falla frá undanþágu um innflutning á hráu kjöti. Hefur hann lýst undrun sinni á því hve erfitt virtist að fá fram formlegar kröfur framkvæmdastjórnar ESB þegar undanþága Íslands var tekin til endurskoðunar. Þau rök að Ísland sem eyríki væri á viss- an hátt berskjaldað fyrir ákveð- inni sjúkdómahættu ættu jafnt við nú og árið 1992 þegar samið var um undanþágu Íslands gagn- vart innflutningi á hráu kjöti við gerð EES samningsins. 4. Stjórnvöld hafa ekki lagt í neina vinnu til að kanna veigamestu þætti þessa máls. Í gögnum um samningaviðræður embættis- manna við ESB, sem bárust BÍ seint og illa sem og þing- flokki VG eftir mikla eftirfylgni, kemur fram að síðla árs 2005 féllu stjórnvöld frá undanþágu á hráu kjöti, létu engan vita um þá stefnubreytingu og virðast í engu hafa reynt að halda uppi vörnum fyrir því framúrskarandi matvælaöryggi sem við búum við. 5. Sú niðurstaða að hafna frum- varpinu er líka í takt við þann mikla fjölda sveitastjórna, sam- tök sveitarfélaga, matvælafram- leiðanda, sláturleyfishafa, bún- aðarsambanda o.fl. sem hafa ályktað um þessi mál. Það er fáheyrður atburður að jafn mik- ill fjöldi neikvæðra athugasemda berist nefnd á vegum Alþingis eins og gerðist við umfjöllun nefndarinnar á matvælafrum- varpi ríkisstjórnarinnar. Matvælafrumvarpi hafnað! Hrútadagurinn verður í Faxa- höllinni á Raufarhöfn í Norður- þingi þann 4. október og hefst kl. 14. Þar verða til sölu hrútar frá þeim bæjum sem hafa líf- söluleyfi og þess óska. Búist er við að um 16 bændur mæti með u.þ.b. 250 hrúta. Lengi hefur verið leyfð sala á líffé úr Þistilfirði og Langanesi, en fyrir fáum árum var lífsölusvæðið stækkað, þannig að Öxfirðingar og Sléttubændur fengu líka leyfi fyrir sölu. Það var því úr mörgum bæjum að velja fyrir kaupendur og ljóst að þeir sem voru í kaup- hugleiðingum gætu ekki skoðað á mörgum bæjum þegar þeir kæmu í héraðið. Það var hópur framtaksamra bænda í Þistilfirði, Sléttu og Öxarfirði sem ákváðu að safna þeim hrútum saman á einn stað, sem bændur á þessu svæði þóttu söluhæfir. Þetta var gert m.a. til að auðvelda kaupendum valið, þ.e.a.s. að hafa hrútana alla á einum stað og geta borið þá saman. Faxahöllin á Raufarhöfn var ákjósanlegur staður, mið- svæðis á sölusvæðinu og góð aðstaða fyrir bæði menn og fé. Varðandi reglur um val á hrút- um, verður sú regla nú höfð að þegar salan byrjar geta kaupend- ur farið í hrútasafnið og valið sér hrút, en hver bær hefur afmarkað svæði. Þegar kaupandinn hefur valið sér hrút, verður að taka hann úr sölustíunum og setja hann í stíu með seldum hrútum og skrá hrút- inn hjá ritara Faxahallar. Ekki er leyfilegt að merkja sér fleiri hrúta en ætlunin er að kaupa. Þegar hrútur er tekinn úr sölustíu telst hann seldur. Það margir hrútar verða til sölu, frá mörgum rækt- endum, að ætla mætti að allir geti fengið hrút við sitt hæfi. Leiðbeinandi verð á hverjum hrút er 15.600 kr. auk þúsund króna á hvert stig umfram 80 stig. Tekið skal fram að þetta er ein- ungis leiðbeinandi verð. Dýralæknir verður á staðnum og sprautar þá hrúta sem keypt- ir eru út af svæðinu, þannig að kaupendur geta farið með hrútana sína heim. Á staðnum verða einnig sér- fræðingar í sauðfjárrækt sem eru tilbúnir að veita alla þá aðstoð sem menn óska, við val á lífhrút- um. Í lok söludagsins verða boðn- ir upp þeir hrútar sem stiguðust hæst á svæðinu, eða þykja skara framúr öðrum hrútum að ein- hverju leyti. Þar gildir sú regla að sá sem býður hæst, fær hrútinn. Á síðasta ári voru tveir hrútar boðnir upp, annar var svarkrúnótt-leist- ótt kyntröll frá Svalbarði með 84 stig og seldist á 44.000 kr., hinn var hvítt vöðvabúnt og frá Sveinungsvík með 84 stig og seldist á 50.000 kr. Þegar hinir nýkeyptu hrútar fara heim með sínum nýja eig- enda verður lesið uppúr söludilk- unum, þannig að hver og einn fari með þann hrút sem hann valdi sér. Hrútadagurinn er nú haldinn í fjórða sinn og eru Raufarhafn- arbúar jafnvel farnir að merkja þann dag rauðan á dagatalið, líkt og aðra lögboðna hátíðisdaga og hafa ýmislegt til skemmtunar, fyrir sig og það fólk sem sækir Raufarhöfn heim þennan dag. Listakonur í héraðinu verða með sölusýningu á sínum vörur í Faxahöll. Á síðasta ári var í fyrsta sinn Íslandsmeistarakeppni í kjöt- súpugerð, en þá skráðu sig 7 keppendur, víðsvegar að af land- inu, en vegna veðurs mættu bara heimamenn í keppnina og því varð hún ekki eins spennandi og til stóð. Hafin er undirbúningur fyrir keppninni í ár og er búist við töluverðri þátttöku. Líkt og á síðasta ári verður hagyrðingakvöld, en nú í félags- heimilinu Hnitbjörgu, samkomu- húsi þeirra Raufarhafnarmanna og hefst samkoman kl.21.00. Þar kveðast á valdir heimamenn og fáeinir útvaldir gestir en a.m.k. 4 hagyrðingar eru búnir að skrá sig. Margir þingeyingar eru vel hagmæltir og nægir að nefna hér textahöfundinn Jónas Friðrik sem einmitt er frá Raufarhöfn. Margt fleira verður í boði, ýmist undirbúið eða ekki. Tilboð verða á gistingu á Hótel Norðurljósi á Raufarhöfn þessa helgi. Með kveðju úr Norðurþingi Sigurlína Jóhanna Jóhannesdóttir bóndi, Snartarstöðum 2 Hrútadagurinn á Raufarhöfn Huginn Freyr Þorsteinsson formaður Vinstri grænna á Akureyri Matvælafrumvarpið Frá Hrútadeginum á Raufarhöfn fyrir tveimur árum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.