Bændablaðið - 23.09.2008, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 23.09.2008, Blaðsíða 10
10 Bændablaðið | þriðjudagur 23. september 2008 Í byrjun september fékk Sam- band garðyrkjubænda góða heimsókn frá Finnlandi. Þar var á ferð Mona Riihimäki frá vísindastofnun sem ber heit- ið Martens trädgårdsstiftelse. Erindi hennar var að ræða við framámenn í íslenskri garðyrkju og við Landbúnaðarháskóla Íslands um að koma á samstarfi um rannsóknir á sviði garð- yrkju á milli Íslendinga, Finna og Norðmanna. Bændablaðið hitti Monu að máli áður en hún slapp úr landi og spurði fyrst hvernig þetta samstarf væri tilkomið. „Þetta hófst fyrir þremur árum á því að íslenskir ræktendur komu í heimsókn í stofnunina okkar í Finnlandi. Þeim leist vel á það sem við vorum að gera, ekki síst að við skyldum kalla finnska garð- yrkjumenn á okkar fund, skýra út fyrir þeim hversu mikið fjármagn við hefðum til rannsókna og spyrja þá hvað þeir vildu að við rannsök- uðum. Hálfu ári síðar höfðu þeir samband og báðu mig að koma til Íslands og kynna starfsemi okkar. Það var svo í fyrravetur sem við gerðum samning við LbhÍ og Samband garðyrkjubænda um að koma á samstarfi við rannsóknir. Ástæðan fyrir áhuga okkar á þessu samstarfi er sú að við glímum við mjög svipuð vandamál í Finnlandi og þið hér. Meðalstærð gróðurhúsanna er svipuð, rúmlega 2.000 fermetrar, og við ræktum það sama með svipuðum aðferðum.“ Notaleg norræn samvinna Samningurinn sem hefur verið undirritaður gildir í fjögur ár. Fjármagnið kemur bæði frá Íslandi og Finnlandi og rannsóknirnar hér á landi fara fram að Reykjum í Ölfusi. Mona er mjög hrifin af aðstöðunni þar, einkum er varðar rannsóknir í smáum skala. „Við erum með meira pláss til að gera stærri rannsóknir svo þetta fellur ágætlega saman.“ Fyrstu sameiginlegu rannsókn- irnar verða á paprikurækt en þar segir Mona að Íslendingar hafi náð góðum árangri í ræktun með raflýs- ingu. „Af einhverjum ástæðum hefur finnskum garðyrkjubænd- um gengið erfiðlega að ná tökum á slíkri ræktun svo þar getum við lært af ykkur. Við verðum með rann- sóknir á öðrum sviðum en svo deil- um við upplýsingunum. Norska fyr- irtækið Bioforsk í Særheim í Noregi hefur einnig fengist við rannsóknir á paprikurækt með raflýsingu og þeir vilja taka þátt í þessu samstarfi. Þetta lítur því afar vel út, notaleg norræn samvinna sem gagnast öllum.“ Hún bætir því við að í Finnlandi sé einnig unnið að rannsóknum á tómötum en vegna plássleysis sé ekki hægt að stunda margar rann- sóknir samtímis. „Við erum hins vegar mjög spennt fyrir því að hefja rannsóknir á því sem kall- ast hálflokuð gróðurhús. Í slíkum húsum eru notaðar vélar til að fjar- lægja óþarfa raka og hita frá plönt- unum. Fyrir vikið er hægt að hafa húsin meira lokuð og halda kol- tvísýringnum betur inni í þeim. Við það fer minna af honum út í and- rúmsloftið og framleiðni plantanna eykst. Við getum aðeins gert eina rannsókn á þessu í einu en ég heyri að íslenskir ræktendur hafa einnig mikinn áhuga á þessari tækni svo ef til vill verður hægt að gera fram- haldsrannsóknir í Hveragerði.“ Margt sameiginlegt Martens trädgårdsstiftelse er sjálf- stæð vísindastofnun sem nýtur styrkja frá Evrópusambandinu, þriggja ára styrks úr byggðasjóði sambandsins. Auk þess fá þau styrki frá finnska ríkinu og sveitarstjórnum þar sem ylrækt er mikilvæg atvinnugrein. Hluti rannsóknarfjárins kemur svo frá samtökum finnskra garðyrkjubænda. Mona sér ýmis svið fyrir sér þar sem norrænt rannsóknasamstarf getur skilað árangri. „Finnar hafa að vísu miklar áhyggjur af orku- verðinu en það er ekki eins mikið vandamál hér á landi, þið hafið allan þennan jarðhita. Það má finna mismunandi aðstæður að ýmsu leyti en þegar norrænir garðyrkjumenn heimsækja hollenska starfsbræð- ur sína kemur mismunurinn fyrst í ljós. Meðan við mælum húsin okkar í þúsundum fermetra mæla Hollendingar sín í hektörum. Þar er stunduð allt önnur ræktun. Ég finn það hins vegar í þessari heimsókn að Íslendingar og Finnar tala sama tungumál í ræktuninni. Íslendingar nýta auðlindir sínar vel og ég sé að hér eru innan um eldri hús sem við í Finnlandi myndum telja of lítil til að geta talist arðbær. Ég fékk ekki betur séð en að þarna væri stunduð góð ræktun svo eig- endurnir hljóta að vera færir garð- yrkjumenn. Finnskir ræktendur eru talsvert uppteknir af að stækka hús sín og auka sjálfvirkni en við getum eflaust lært mikið af Íslendingum,“ segir Mona Riihimäki. Hún bætir því við að gangi þessi fjögurra ára samstarfsáætlun sem nú er hafin vel sjái hún ekkert því til fyrirstöðu að framlengja sam- starfið, af nógu er að taka þegar horft er á rannsóknir á norrænni garðyrkju. –ÞH Mikla athygli hefur vakið hversu vel Sölufélagi garðyrkjumanna (SFG) hefur tekist að markaðs- setja vörur sínar eftir að óheft- ur og tollfrjáls innflutningur var leyfður á grænmeti. Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, á án nokkurs vafa stærstan þátt í þess- ari velheppnuðu markaðssetningu. Áður en Gunnlaugur tók við fram- kvæmdastjórastöðunni vann hann á auglýsingastofu og tæpum tveim- ur árum áður en hann tók við hjá SFG fór hann að sinna ákveðnum markaðsmálum fyrir fyrirtækið. Menn sáu á þeim tíma að stefndi í óefni og að markaðsstaðan var erfið, enda voru samkeppnismál í gangi og tollfrjáls innflutningur á grænmeti yfirvofandi. ,,Menn tala um það í dag að þetta hafi ekki verið vandamál vegna þess að það var í grænmetinu, það sé allt annað uppi á teningnum þegar um kjöt sé að ræða. Þetta er bara ekki rétt. En þetta var vissulega erfiður tími. Menn óttuðust að papriku- og agúrkurækt legðist af hér á landi vegna tollfrjáls innflutnings. Þá var það að einn bóndi lét reyna á papr- ikuræktina með nýjum áherslum. Fyrstu sex mánuðina eftir að ég tók við fyrirtækinu var megináhersla lögð á að móta vörurnar í nýtt form, koma á samræmdum merk- ingum og virðisaukandi pakkn- ingum. Við komum þá með nýjar áherslur í markaðssetningu, þar sem höfuðáherslan var sú að neyt- andinn gæti séð hvaða grænmeti væri íslenskt og hvað innflutt, auk þess að merkja það hverjum bónda. Þrátt fyrir þetta eru enn dæmi um að neytandinn sé ekki nægilega meðvitaður um þessar merking- ar, þ.e. hvað er íslenskt og hvað er erlent,“ segir Gunnlaugur. Íslenska fánaröndin gulls ígildi Gunnlaugur bendir á að utan á vörum af erlendum uppruna geti verið letur eða óljósar merkingar, sem geti orðið þess valdandi að fólk ætli vöruna íslenska. Dæmi um hreina, meðvitaða misnotkun séu hinsvegar fá og engin dæmi um misnotkun á fánaröndinni. Íslenska fánaröndin sé uppruna- merking garðyrkjunnar og menn standi mjög stífan vörð um hana, enda sé hún örugg vottun á upp- runa. Neytendur átti sig æ betur á þessu og í því felist mikill styrkur fyrir greinina. ,,Árið 2001 fórum við í grein- ingarvinnu á stöðunni, skilgreind- um ákveðin markmið og settum upp áætlun um hvað þyrfti að gera. Enn þann dag í dag vinnum við eftir þessari áætlun. Við erum líka svo heppin að íslenskir neytendur hafa tekið þessu mjög vel og velja frekar íslenskt grænmeti en innflutt. Ég er viss um að það er ekki vegna upp- runa heldur fyrst og fremst vegna gæða. Við leggjum því ofuráherslu á að standa undir því að íslenskt grænmeti sé betra en innflutt. Þetta er lífæðin í greininni, ásamt því að tenging framleiðanda og neytanda sé sem styst. Að framleiðandinn viti hvað neytandinn vill og neyt- andinn viti hvað framleiðandinn er að hugsa. Hér er ekki um nein eldflaugavísindi að ræða heldur er þetta í raun afar einfalt. Við vinnum bara mjög markvisst í sömu átt. Við stundum ekki markaðssetningu sem gengur út á það að tala illa um samkeppnisaðilana heldur tölum við bara út frá okkar vörum,“ segir Gunnlaugur. Ákveðin aðferðafræði Aðspurður hvort hægt væri að yfir- færa þessa vel heppnuðu mark- aðssetningu á aðrar landbúnaðar- afurðir, svo sem dilkakjöt, svarar Gunnlaugur: ,,Ég held að það sé alveg ljóst. Þetta er bara ákveðin aðferðafræði, að því gefnu að neyt- andinn sé tilbúinn að kaupa vöruna út frá þeim forsendum. Það þarf auðvitað að þróa vöruna í samræmi við það sem neytandinn vill. Ég held líka að þetta markaðsstarf okkar sé að opna leið fyrir fleiri vörur. Neytandinn er orðinn meðvitaður um uppruna vörunnar og gæði og það ætti að eiga við um fleiri land- búnaðarafurðir. Ég er mjög andvíg- ur því að framleiðendur hér á landi framleiði til að mynda salami, kalli það „ekta ítalskt“ salami og setji ítalska fánann á umbúðirnar. Svo einn daginn kemur ítalskt salami á markaðinn og hvað ætla menn þá að gera? Við eigum að sjálfsögðu heldur aldrei að nota íslenska fán- ann á innflutta landbúnaðarvöru eða vöru unna úr innfluttu hráefni. Neytandinn er alltaf að verða upp- lýstari um þessa hluti og hann gerir þá sjálfsögðu kröfu að svona hlutir séu í lagi,“ segir Gunnlaugur. Menn verða að vera heiðarlegir Hann bendir á að hér á landi séu neytendur farnir að velja sér t.a.m. hangikjöt frá ákveðnum héröðum. Austurlamb bjóði dilkakjöt frá ákveðnum bæjum, þar sem lömb- in eru alin á mismunandi fóðri af mismunandi svæðum. Þetta telur Gunnlaugur vera gott skref í rétta átt, sem megi auka mjög í landinu. ,,Það er því alveg ljóst að þessi aðferðafræði sem við förum eftir í grænmetinu á alveg eins við í kjöti sem öðru. Menn verða fyrst og fremst að vera heiðarlegir og sam- kvæmir sjálfum sér í öllu sem gert er og vinna traust og trúnað neyt- andans. Það má aldrei vera neinn afsláttur af því,“ segir Gunnlaugur Karlsson. S.dór Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna: „Nýjar áherslur í markaðssetningu“ Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna. Finnar geta margt af íslenskum garðyrkju- mönnum lært Rætt við Monu Riihimäki um rannsóknasamstarf Finna, Íslendinga og Norðmanna Mona Riihimäki frá Martens trädgårdsstiftelse sem er til húsa á vesturströnd Finnlands. Ljósm. -smh

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.