Bændablaðið - 14.05.2008, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 14.05.2008, Blaðsíða 7
7 Bændablaðið | Þriðjudagur 14. maí 2008 Hreiðar Karlsson segir að for- sætisráðherra fari víða og færi höfðingjum gjafir. Þó geri hann sér mannamun. Frægur mun verða Geir af gjafmildi sinni, gleður leiðtoga heimsins að eigin sögn. Páfanum bar hann biblíu í rauðu skinni, Brown mátti láta sér nægja grafarþögn. Ræddu um Evrópu Davíð Hjálmar Haraldsson segir svo frá fundi Geirs og Brán: Gaspraði mikið Gordon Brán, Geir komst þar varla nokkuð að en ræddi samt lengi Evrópu án þess eiginlega að vita það. Gullna hliðið opið eða lokað Pétur Stefánsson orti það sem hann kallaði þanka fyrir þá sem eru á leið út á lífið, eða bara almennan freistinganna þanka: Ég lokkast ei til djöfla díkis í dans við tál og freistingar. Þó hátt sé upp til Himnaríkis, hólpinn mun ég enda þar. Friðrik Steingrímsson svaraði þanka Péturs og sagði: Er héðan burt í hinsta sinn heldur yfir sviðið, er næsta víst að nafni þinn neiti að opna hliðið. Yrkir hver eins og hann lystir Kristján Bersi orti þessa vísu einhvern tíma þegar vel lá á honum: Á leirvefnum okkar yrkir hver eins og hann lystir, – sem betur fer. En hrifnastur þó ég alltaf er af andskotans bullinu úr sjálfum mér. Velmegunarvandi Hjálmar Freysteinsson orti, þegar hann heyrði í Geir H. Haarde ræða um velmegunarvandann, þensluna, frestun framkvæmda og segja, að allir yrðu að leggja sitt að mörkum: Hlotist getur vandi af vinnuþjörkum er velmegunin ógnar þjóðarhag. Ég ætla að leggja mitt af mörkum og mun því ekki gera neitt í dag. Að sitja kyrr og njóta Það er mikið til í þessari vísu Péturs Stefánssonar: Það er ýmsum mikið mál í Mammonsgarði' að róta. – Aðrir rækta sína sál, sitja og kyrrðar njóta. Þolinmæði Hjálmar Freysteinsson, læknir á Akureyri, orti þessa vísu um kvefið: Af langri reynslu lært ég hef þá læknisfræði, að það sem læknar þrálátt kvef er þolinmæði. Ljótasta áin Hreiðar Karlsson segir: Jökulsá á Dal hefur ekki verið í miklum metum hjá þjóðinni fram undir þetta! Ýmsir kveina af eftirsjá, aðrir þótt hljóðlega fagni. Ljótasta og versta landsins á loksins kemur að gagni. Í aðdraganda kosninga Séra Hjálmar Jónsson orti í að- draganda síðustu kosninga: Nú er offramboð mætra manna, sem mörg nýleg dæmi sanna. Fyrst er prófkjör og röðun, síðan pólitísk böðun og svo grátur og gnístran tanna. Umsjón: Sigurdór Sigurdórsson ss@bondi.is Í umræðunni MÆLT AF MUNNI FRAM Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á nokkrum lögum sem varða m.a. matvæli og dýrasjúk- dóma vegna innleiðingar á mat- vælalöggjöf Evrópusambandsins (ESB). Þessi ESB löggjöf hefur verið lengi í smíðum og tekið mikl- um breytingum til batnaðar á und- anförnum árum. Lagabreytingarnar hér á landi eru nauðsynlegar sökum þess að Evrópusambandið setti fram skilyrði um innleiðingu nýju löggjafar ESB, ef Ísland ætl- aði að halda áfram að flytja út fisk og fiskimjöl í frjálsu flæði til Evrópusambandsins. Ella yrði íslenskur fiskur tekinn í skoðun á landamærastöðvum sambandsins, með tilheyrandi sýnatökum, rann- sóknum og töfum. Það var því ekki um annað að ræða fyrir íslensk stjórnvöld en að semja við ESB um þessi mál. Í upphafi samningafer- ilsins var sett fram skýlaus krafa af Íslands hálfu að löggjöf um lifandi dýr yrði haldið fyrir utan samn- ingana og samþykkti ESB það. Þó að lagabreytingar þessar séu mjög umfangsmiklar, sérstaklega á íslensku matvælalöggjöfinni, þá hefur breytingin á lögum um dýra- sjúkdóma og varnir gegn þeim vakið hvað mesta athygli. Það er í þessum lögum sem bannið við innflutningi á kjöti hefur verið og stendur nú til að afnema. Þrátt fyrir þetta bann þá hafa á undanförnum árum verið veittar síauknar und- anþágur af landbúnaðarráðuneytinu til innflutnings á hráu og frosnu kjöti, að fengnum meðmælum yfir- dýralæknis. Ekki er til þess vitað að þessi innflutningur hafi valdið neinum vandamálum. Verði ofan- greint frumvarp samþykkt nú á vorþinginu, þá hefur Ísland aðlög- unartíma í 18 mánuði vegna nauð- synlegra aðgerða til innleiðingar löggjafarinnar. Að þeim tíma lokn- um eða um áramótin 2009 og 2010 mun geta hafist innflutningur, án sérstakrar heimildar ráðuneytisins, á því kjöti sem er löglega fram- leitt eða innflutt í löndum ESB og Noregi og síðar einnig Sviss. Sviss er þessa mánuðina að semja við ESB á svipuðum nótum og Ísland, en þeir taka einnig yfir löggjöf um lifandi dýr. Nauðsynlegt er að taka fram að umfang þessa innflutnings verður sennilega eins og hingað til, fyrst og fremst háð tollum. Núverandi löggjöf um innflutn- ing á kjöti mun því líklega haldast óbreytt fram til áramóta 2009 og 2010 og það gildir einnig um inn- flutning ferðamanna á kjöti og mjólkurvörum. Eftir aðlögunartím- ann gengur í gildi sérstök löggjöf ESB varðandi innflutning ferða- manna á ýmsum búfjárafurðum, þar sem ferðamenn mega þá taka það magn sem þeir vilja af slík- um vörum frá ESB og Noregi, en ekki frá öðrum löndum, nema í ákveðnu magni frá fáeinum til- teknum löndum eins og Grænlandi og Færeyjum. En hér, eins og með innflutning á verslunarvöru, munu tollar sennilega ráða ferðinni, þar sem ferðamenn mega bara koma með 3 kg af matvöru án þess að greiða af því toll. Áhættumat varðandi dýrasjúkdóma En víkjum nú að þeirri áhættu sem að ofangreindar breyting- ar geta haft í för með sér. Ef fyrst er skoðuð aukin áhætta á því að nýir dýrasjúkdómar geti borist til landsins, þá er sú hætta vissulega fyrir hendi. Mikilvægast er þó að breytingarnar munu ekki ná til lif- andi dýra og þar mun Ísland áfram stjórna ferðinni, en það er með lif- andi dýrum sem mest áhætta fylgir. En einhver áhætta mun fylgja hugs- anlega auknum innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti. Því gerði yfir- dýralæknir, áður en samningaferill- inn við ESB hófst, ákveðnar kröfur um mótvægisaðgerðir hér á landi til að mæta þessari áhættu. Það var samþykkt og sérstakir fjármunir fengust í þessum tilgangi. Sérstök skimun vegna dýrasjúkdóma, sem ekki hafa greinst hér á landi og sem gætu hugsanlega borist með hráu kjöti, er þegar hafin og verð- ur hluti af árlegri vöktunaráætlun Matvælastofnunar vegna dýra- sjúkdóma. Það eru sem betur fer tiltölulega fáir dýrasjúkdómar sem eru þekktir fyrir að berast með hráu kjöti og þá aðallega skæðir sjúk- dómar sem ekki leyna sér, ef þeir koma upp, svo sem gin- og klaufa- veiki, fuglaflensa og svínapest. Kúariða berst til dæmis ekki með hráu kjöti, aðeins með menguðu kjöt- og beinamjöli og sérstaklega var samið við ESB um varanleg ákvæði til að viðhalda áratuga löngu banni okkar á innflutningi þess. Í þessu sambandi er vert að geta þess að hér á landi hefur verið í gildi áratuga langt bann við fóðr- un svína með matarleifum og svo er einnig í flestum löndum ESB, en slík fóðrun er þekkt smitleið þegar smitefni dýrasjúkdóma leynast í matarúrgangi. ESB hefur nú sett umfangs- mikla löggjöf og eftirlitskerfi með dýrasjúkdómum, sem allir yfir- dýralæknar í ESB og Noregi, Sviss og Íslandi fá jafnóðum tilkynningar um. Komi slíkir sjúkdómar upp í ofangreindum löndum þá er sam- kvæmt þessu kerfi strax lokað fyrir útflutning á hráu kjöti og mjólk frá viðkomandi landsvæðum, því aðrar þjóðir í ofangreindum lönd- um eru auðvitað jafn hræddir og Íslendingar við að fá þessa sjúk- dóma. Þjóðir eins og t.d. Danir eru mjög harðar í að fylgjast með að þessi kerfi virki í öllum ESB lönd- um með sannfærandi hætti, vegna útflutningshagsmuna sinna. Þjóðir eins og USA og Japan eru fljótar að loka á innflutning frá allri Evrópu, ef þær fá minsta tilefni til að treysta ekki dýrasjúkdómakerfum ESB. Það er því mikill munur að hafa ekki þurft að taka upp ofangreinda löggjöf fyrr en nú vegna viðskipta- hagsmuna okkar með útflutning á fiski og fiskimjöli, þar sem löggjöf- in og allt eftirlit með henni hefur tekið miklum framförum á síðustu árum. Þó skal ekki reynt að halda því fram að það sé allt gallalaust frekar en annað og því eru okkar mótvægisaðgerðir til komnar. Það er rétt að vekja athygli á því að þeir tveir dýrasjúkdómar sem vitað er um að hafi borist til lands- ins á undanförnum 10 árum eru án efa hingað komnir með fólki. Árið 1998 kom upp áður óþekktur vírus- sjúkdómur í hestum sem síðar var kallaður Hitasótt. Hann var mjög smitandi en sem betur fer ekki mjög hættulegur okkar hestum, en breiddist út um allt land. Nær víst er að þessi sjúkdómur er landlæg- ur í Evrópu án þess að valda þar vandræðum, utan þess að þekkt er að íslenskir hestar, sem fluttir eru út til Evrópu, veikjast fyrsta mán- uðinn vegna ýmissa vírusa, sem þar eru landlægir. Sennilega hefur sjúk- dómurinn borist hingað vegna þess að einhver ferðalangur var ógætinn og kom hingað í hesthús beint úr hesthúsum í Evrópu. Hinn sjúkdómurinn kom upp í Eyjafirði á síðari hluta ársins 2007 og er kallaður Hringskyrfi og er hvimleiður húðsjúkdómur af völd- um sveppa, sem leggst fyrst og fremst á nautgripi, en getur borist í fólk, sem getur einnig verið smit- berar í dýr. Hann hefur nú einnig greinst í Skagafirði. Sjúkdómurinn er landlægur í flestum löndum nema Íslandi. Þessa sjúkdóms hafði áður orðið vart á árunum 1966 fyrir norðan og 1987 fyrir sunnan, en það tókst að útrýma honum með markvissum aðgerðum. Í báðum tilfellum var hægt að rekja sjúk- dóminn til þess að hann hefði bor- ist hingað með erlendu vinnufólki. Þótt ekki hafi enn tekist að rekja smitleiðir nú, þá er vart um annað að ræða en að það hafi verið með fólki sem kom erlendis frá. Einnig er staðfest tilfelli af berklum sem komu upp í nautgripum á skólabúi norðanlands fyrir meira en 40 árum. Talið var fullvíst að erlendur starfsmaður sem var berklaveik- ur hafi smitað nautgripina. Í þessu sambandi er vert að geta þess að það eru útlendingar sem í mörgum tilfellum vinna núna hér á landi við umhirðu dýra og slátrun þeirra og ef þetta fólk kemur frá löndum Evrópusambandsins þá þarf það ekki að ganga undir sérstaka heislu- farsskoðun hér á landi áður en það hefur vinnu hér. Áhættumat varðandi lýðheilsu Í núgildandi löggjöf um innflutn- ing búfjárafurða hefur ekki bara verið höfð hliðsjón af því að vernda heilsu dýra, heldur mikil áhersla lögð á að vernda einnig lýðheilsu, t.d. gagnvart salmonellu, kam- fýlóbakter og leifum af vaxtarauk- andi efnum sem eru sums staðar enn notuð, þó ekki í löndum ESB, Noregi og Sviss. Stefnt er að því að vernd gegn salmonellu muni haldast óbreytt. En sú vernd gegn kamfýlóbakter í kjúklingakjöti, sem hefur fólgist í kröfunni um að allt innflutt kjöti skuli hafa verið fryst í a.m.k. 30 daga, fellur nú niður að loknum aðlögunartímanum. Í ofan- greindu frumvarpi er ákvæði, sem tekið er beint úr Evrópulöggjöfinni sem gefur möguleikann á að beita sérstökum aðgerðum til að vernda heilsu fólks, sé talið að ákveð- in matvæli beri með sér heilsuvá. Líklegt má telja að þessi ákvæði munu verða notuð ef á þarf að halda til að koma í veg fyrir innflutning á kjúklingakjöti sem mengað er kam- fýlóbakter og gæti sett í hættu þann góða árangur sem Ísland hefur náð við að koma í veg fyrir veikindi fólks af völdum þessarar örveru. Einnig er rétt að minnast á að tríkínur, sem eru örsmá sníkjudýr, geta leynst í kjöti, aðallega svína- og hrossakjöti. Þessi sníkjudýr hafa aldrei greinst í íslensku kjöti og sjaldgæft er að þau finn- ist í kjöti af eldisdýrum í löndum Evrópusambandsins. Sníkjudýr þessi geta verið banvæn berist þau í fólk og því er gífurleg áhersla lögð á eftirlit með þessu í kjötskoðun flestra landa. Suða og frost drepa þessi sníkjudýr. Hér á landi hefur þó, enn sem komið er, aðeins verið leitað eftir tríkínum í hrossakjöti ætluðu til útflutnings til Evrópu. Leit að tríkínum, við slátrun á öllu hrossa- og svínakjöti verður nú gerð að skyldu hér á landi. Tríkínur finnast helst í villisvínum sem veidd eru í skógum Mið- og Austur- Evrópu. Varasamastar eru því alls konar hrápylsur, sem eru heimatil- búnar úr slíku kjöti, en pylsur sem eru löglega framleiddar til sölu eiga að vera úr kjöti sem kemur úr slát- urhúsum þar sem kjötið hefur verið prófað sérstaklega þar að lútandi. Ef svo slysalega vildi til að sníkju- dýr þessi bærust í húsdýr okkar, þá ætti þeirra að verða strax vart í auknu eftirliti við kjötskoðun hér á landi í kjölfar nýju löggjafarinn- ar. Hér eftir sem áður verður mikil vörn í að neyta aðeins matvæla sem eru löglega framleidd hér á landi sem erlendis. Niðurstaða Eins og málum er nú háttað þá eru, að mati yfirdýralæknis, meiri líkur á að hingað berist framandi dýra- sjúkdómar með fólki heldur en með löglega innfluttu hráu kjöti. Ekki eru miklar líkur á að lýð- heilsu verði stefnt í aukna hættu með umræddum breytingum, að því gefnu að gerðar verði ráðstaf- anir til að stemma stigu við inn- flutningi á kjúklingakjöti menguðu af kamfýlóbakter. Innflutningur búfjárafurða Halldór Runólfsson yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun halldor.runolfsson@mast.is Matvælalöggjöf Sáðmenn sandanna valin fræðibók ársins Sáðmenn sandanna, Saga land- græðslu á Íslandi 1907-2007 hefur verið valin besta fræði- bók ársins 2007 af Upplýsingu, Félagi bókasafns- og upplýs- ingafræða. Tók höfundur bók- arinnar Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðingur við viðurkenn- ingarskjali úr hendi Sigrúnar Klöru Hannesdóttur formanns Upplýsingar. Í rökstuðningi matsnefndar segir meðal annars að mikill feng- ur sé að bókinni því Sáðmenn sandanna sé aðgengileg hand- bók um landgræðslu á Íslandi sem standist jafnframt fræðilegar kröfur. Bókin hafi mikið nota- gildi fyrir þá sem vilji kynna sér sögu elstu landgræðslustofnunar í heiminum og hvernig tekist var á við gróður- og jarðvegseyðingu með samstilltu átaki víða um land. Matsnefndin ber einnig lof á stíl bókarinnar sem hún segir falleg- an og málfar frjótt og lifandi líkt og gróðurinn sem fjallað er um. Þá segir að fagmennska og vand- virkni hafa verið í fyrirrúmi við allan frágang. Það var Landgræðsla ríkisins sem stóð að útgáfu bókarinnar í tilefni af 100 ára afmæli skipulegs landgræðslustarfs á Íslandi. Að sögn Sveins Runólfssonar land- græðslustjóra er nú unnið að þýð- ingu bókarinnar á ensku en mikil eftirspurn hefur verið eftir þessari sögu á erlendum tungumálum. Frá afhendingu viðurkenningar fyrir bestu fræðibók ársins 2007. Frá vinstri Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir form. matsnefndar Upplýsingar, Andrés Arnalds úr ritnefnd Sáðmanna sandanna, Friðrik G. Olgeirsson rithöfundur, Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Sigrún Klara Hannesdóttir formaður Upplýsingar.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.