Bændablaðið - 11.06.2009, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 11.06.2009, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | fimmtudagur 11. júní 2009 Það er mikið umleikis á Tann- staðabakka í Hrútafirði þar sem hjónin Skúli Einarsson og Ólöf Ólafsdóttir reka bú af miklum myndarskap. Bústofninn telur um 28 þúsund kjúklinga, um fjörutíu mjólkurkýr ásamt geld- neytum og nálægt 180 vetrar- fóðraðar ær. Það er því óhætt að segja að um stórbýli sé að ræða. Jafnhliða búskapnum sinnir Skúli svo formennsku í Félagi kjúklingabænda og má segja að ekki hafi verið tíðindalaust á þeim vígstöðvum að undan- förnu, enda hefur félagið þurft að leggja umtalsverða vinnu í mat vælafrumvarpið og fyrir dyr- um stendur að veita umsögn um mögulega aðildarumsókn að Evr- ópu sambandinu. Blaðamaður Bændablaðsins sótti þau hjón heim á dögunum í þeim tilgangi að taka Skúla tali um formennskuna og verkefnin fram- undan. Þau hjón voru þá að enda við að taka á móti ungum til upp- eldis og greinilegt að nóg var um að vera. Yfir kaffibolla sagði Skúli frá þeim verkefnum sem staðið hefur verið í að undanförnu og því sem framundan er. Blaðamaður byrjaði á að spyrja hvort formanns- embættið hefði ekki tekið mikinn toll af tíma hans. „Jú, vissulega eitthvað pínulít- ið (þá grípur Ólöf fram í og segir: „þú færð örugglega önnur svör ef þú spyrð mig“ og glottir). Ég ætlaði í raun að minnka við mig félags- málavafstur en lofaði að taka þetta að mér í eitt ár og ákvað síðan að taka annað. Stuttu eftir að ég varð formaður helltust síðan yfir verk- efni. Matvælafrumvarpið kom upp og það tók auðvitað mikinn tíma. Ég þurfti að fara allnokkrar ferð- ir til Reykjavíkur til funda, bæði í ráðuneytum og við Alþingismenn. Það hefur dregið úr því að undan- förnu því málið er svo sem komið í annan farveg.“ – Nú bíða verkefni eins og mögu leg Evrópusambandsumsókn. Er ekki ljóst að það mun mæða veru lega á þér og félaginu í því máli? „Það er nú reyndar svo að margt af því sem unnið var vegna mat- vælafrumvarpsins nýtist í það verk- efni. Það er búið að vinna talsverða forvinnu í afstöðu okkar og rök- semdavinnu fyrir henni. Því er þó ekki að neita að það er vinna eftir í málunum og það má gera ráð fyrir því að það vindi upp á sig.“ Kjúklingabændur alfarið á móti Evrópusambandsaðild Skúli segir að kjúklingbænd- ur hafi frá upphafi tekið afstöðu gegn Evr ópusambandsaðild enda séu þeir sannfærðir um að aðild myndi hafa mjög alvarlegar afleið- ingar í för með sér fyrir greinina. „Við erum alfarið á móti aðild að Evrópusambandinu, það eru alveg hreinar línur og okkar afstaða er alveg skýr í þeim efnum. Það hefur ekki breyst neitt í gegnum tíðina. Árið 2007 voru tollar á innflutt kjúklingkjöt lækkaðir um fjörutíu prósent og við sáum undir eins hvaða áhrif það hafði. Það þýddi bara verulegan tekjusamdrátt fyrir okkur.“ – Hvað myndi þá gerast ef að tollverndin félli alveg niður? „Þá getum við bara pakk- að saman og hætt. Það á svo sem við um fleiri, svínabændur líka til að mynda. Það sem mér finnst kannski eitt af því sem horfa þarf til varðandi mögulega Evrópu- sam bands aðild er að kornrækt á Íslandi hefur verið nefnd sem mik- ill framtíðarvaxtarsproti. Jónatan Hermannsson jarðræktarfræðingur á Rannsóknarstofnun landbúnað- ar ins og einn helsti kornfræðing ur á Íslandi kom hér á fund í fyrra- vor. Þá voru ýmsir spekingar í Samfylkingunni búnir að lýsa því yfir að best væri að leggja bara niður kjúklingarækt og svínarækt á landinu, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Ágúst Ólaf Ágústs- son fremst í flokki. Jónatan sagði á þessum fundi að til að ná stærð- arhagkvæmni í kornrækt hér á landi þyrfti að hafa öfluga kjúk- lingarækt og öfluga svínarækt í landinu. Annars yrði kornrækt hérlendis hvorki fugl né fiskur. Til þessa verður að horfa núna. Það þýðir ekki að tala í öðru orðinu um möguleikana sem felast í kornrækt hér á landi og jarða síðan þá mögu- leika með Evrópusambandsaðild í hinu orðinu. Mér finnst þessi Evr- ópu sambandsumræða svo mikil upp gjöf. Það er verið að einblína á ein hverja skyndilausn sem að mínu mati mun hafa alvarlegar afleið- ingar fyrir land og þjóð, bæði til skemmri og lengri tíma.“ Þyrfti þrjú álver til að skapa sama fjölda starfa – Eru menn þá blindir á þær teng- ingar sem eru í íslenskum landbún- aði? Sjá menn ekki mikilvægi þess- ara hvítukjötsgreina í afleiddum störfum, í rekstri sláturhúsa og kjötvinnsla í landinu? „Ég hugsa að almenningur sé býsna grunlaus um þetta, eða leiði ekki hugann að þessu. Kjötvinnslur munu margar hverjar ekki bera sig ef ekki verður framleitt hvítt kjöt hér á landi. Stór hluti fasta- kostnaðarins nýtist í allar þessar kjötgreinar. Ég held hins vegar að stjórnmálamenn almennt séu nokkuð upplýstir um mikilvægi greinarinnar. Það eru á bilinu tólf til fimmtán hundruð störf sem eru afleidd beint af kjúklingarækt hér á landi. Ef gengið verður inn í Evrópusambandið leggst kjúk- lingarækt hér á landi nánast af og með henni þessi störf. Til þess að veita þessum fjölda atvinnu þyrfti að byggja hér þrjú álver svo að við setjum þetta í eitthvert sam- hengi. Auk þess má ekki vanmeta hversu mikill virðisauki er að því að framleiða þessa vöru hér heima. Það sem blasir við okkur núna er að við verðum að halda áfram að upplýsa ráðamenn um mikilvægi greinarinnar. Það eru býsna margir nýir þingmenn til að mynda eftir síðustu kosningar og það er alveg ljóst að við verðum að koma þeim í skilning um stöðu okkar. Ég hef nú þá trú að þingmenn séu almennt velviljaðir íslenskum landbún- aði. Mér líst líka mjög vel á nýjan landbúnaðarráðherra. Hann þekkir íslenskan landbúnað og er honum velviljaður. Það er einmitt þannig ráðherra sem við þurfum að hafa á þessum erfiðu tímum.“ Ekkert samráð haft við búgrein- arnar í matvæla frumvarpsmálinu Eins og Skúli segir í upphafi fór mikill tími í vinnu vegna matvæla- frumvarpsins. Hann er ómyrk- ur í máli þegar kemur að því og segir forkastanlegt hvernig stað- ið hafi verið að samningum við Evrópusambandið varðandi mat- vælalöggjöfina. „Eitt sem mér finnst furðu sæta er að þær samn- inganefndir sem sendar hafa verið út til að semja við Evr ópu sam- bandið um málefni landbúnaðarins hafa nákvæmlega ekkert samráð haft við búgreinarnar sem þeir eru þó að semja fyrir. Mér blöskra þessi vinnubrögð. Menn virðast hafa farið þarna út og gert samn- inga um upptöku á löggjöfinni án þess að hafa nægilegt vit á því hvernig þeir samningar myndu koma við búgreinarnar. Það þarf að nást samstaða um það hjá stjórn- málamönnum um að verja land- búnaðinn í heild, hann stendur og fellur með því og ekki síst þeim lögum og reglugerðum sem hér verða sett. Steingrímur J. Sigfússon setti reglugerð þegar hann sat í stóli landbúnaðarráðherra um að ekki mætti flytja til landsins kamfýló- smitað kjöt sem þýðir að það verð- ur að rannsaka allt kjöt áður en það er flutt til landsins. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir grein- ina og það er óskandi að það takist líka að landa matvælafrumvarpinu í heild sinni á einhvern ásættanlegan hátt.“ – Ertu þá svartsýnn á það sem framundan er ef við förum í aðild- arviðræður við Evrópusambandið í ljósi þess að það er ekki ólíklegt að sömu aðilar muni vinna að þeim viðræðum og sömdu að þínu mati af sér varðandi matvælafrumvarpið? „Ég er bjartsýnni nú en áður. Það voru gerð mistök þegar samið var um matvælafrumvarpið með því að undanskilja ekki innflutning á hráu kjöti og ég trúi ekki öðru en að betur verði staðið að málum ef farið verður af stað aftur. Það breyt- ir þó ekki því að ég er alfarið á móti umsókn. Ég hef því miður enga trú á því að það takist að fá þær undan- þágur sem til þarf svo að íslenskur landbúnaður geti staðið aðild af sér, ekki síst kjúklingaræktin.“ Fylgst með árangri Íslendinga í sjúkdómavörnum um allan heim – Það hefur náðst nánast undra- verður árangur í að verja kjúk- lingaræktina fyrir smitsjúkdómum hér á landi. Þetta er oft nefnt sem dæmi um hve miklir möguleikar fel- ist í kjúklingarækt hér. Ef gengið yrði inn í Evrópusambandið skap- ar þetta þá einhverja möguleika? Getur greinin staðið gegn óheftum innflutningi á þessum grunni? „Það eru auðvitað einhverj- ir markaðir fyrir kjöt erlendis sem hægt er að markaðssetja sem laust við sjúkdóma. Það er hins vegar alveg spurning hvort neyt- endur yrðu tilbúnir að borga það verð fyrir afurðirnar sem þyrfti að verðleggja þær á. Eina von okkar að mínu mati er sú að íslenska aðferðin þyki svo góð að hún verði yfirfærð yfir á sambandið í heild. Nú er rætt um að yfirfæra íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið á Evrópusambandslöndin. Kannski verður hægt að gera slíkt hið sama með sjúkdómavarnir í búfé. Ég á þó alls ekki von á því.“ – Hvernig meturðu stöðu grein- arinnar nú ef ekki verður gengið í Evrópusambandið? „Ég met hana þannig að við höfum ágætis möguleika og við eigum að leggja þunga áherslu á aukna kornrækt og þróun í hveiti- rækt. Þar með getum við alið kjúk- lingana frekar á heimaöfluðu fóðri. Við verðum líka að leggja áfram áherslu á að halda skepnunum heil- brigðum. Það er gaman að segja frá því að það er fylgst með okkur alls staðar úti í heimi og menn undrast hvernig við höfum náð árangri í þessum efnum. Það er fjöldi manns sem hefur komið hingað til lands á undanförnum árum til að fræðast um hvernig okkur hefur nánast tek- ist að útrýma kamfýlóbaktersmiti í kjúklingum. Í þessu felast vissu- lega tækifæri og ef greinin fær að dafna, það verður ekki kippt undan henni fótunum, þá er ég þokkalega bjartsýnn.“ Kjúklingaræktin þarf að vera sem víðast um land – Hver eru næstu skref í kjúklinga- ræktinni? „Mér finnst skipta máli að upp- bygging í greininni eigi sér stað sem víðast um land, og reyna að teygja hana meira frá þéttbýlinu. Til að mynda skiptir þetta máli varðandi nýtingu á búfjáráburði sem fellur til. Það er líka mikilvægt fyrir byggðirnar út um land því það skapast auðvitað vinna í nágrenn- inu. Jafnframt er líka lykilatriði núna í öllum greinum landbúnaðar- ins að upplýsa menn um mikilvægi íslensks landbúnaðar. Það eru möguleikar núna því að íslenskur landbúnaður nýtur nú um stundir mikillar velvildar og við verðum að byggja undir þá skoðun. Við megum ekki missa það tækifæri út úr höndunum á okkur því við höfum allt of lengi þurft að berjast gegn neikvæðum röddum.“ – Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á neysluvenj- um Íslendinga. Kjúklingakjöt hefur sótt mjög á. Eru fleiri tækifæri til markaðssetningar fyrir greinina? „Neyslan er komin upp í einhver sex til sjö þúsund tonn. Ég veit ekki hvort búast má við að hún aukist verulega og það má segja að hún haldi þokkalegu jafnvægi þarna. Þetta mun þróast eitthvað áfram og neytandinn hefur auðvitað síðasta orðið varðandi það. Það skiptir líka miklu máli að við höldum kjötinu sjúkdómafríu.“ – Hvernig er afkoman í grein- inni? „Hún er afar sveiflukennd. Við verðum auðvitað bara að standa okkur. Þegar fóðurverð hækkaði sem mest á síðasta ári til dæmis þá komu afar litlar hækkanir til okkar á móti, við urðum að bera hækk- anirnar sjálf. Í raun má segja með okkar bú að hér hafi bara verið orðinn hallarekstur. Ég er að vona að við sjáum ekki stórar breytingar í umhverfinu sem greinin býr við. Ég vona að menn sjái mikilvægi greinarinnar og standi vörð um hana.“ fr „Getum pakkað saman og hætt ef tollverndin fellur niður“ Formaður kjúklingabænda segist enga trú hafa á að greinin standi ESB-aðild af sér. Blöskrar vinnubrögð í matvælafrumvarpsmálinu Skúli Einarsson bóndi á Tannstaðabakka í Hrútafirði og formaður Félags kjúklingabænda. Skúli og Ólöf við eldhúsborðið á Tannstaðabakka. Til hægri má sjá nýkomna kjúklingana.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.