Bændablaðið - 26.07.2012, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 26.07.2012, Blaðsíða 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 26. júlí 2012 7 örupiltar amerískir skutu Bin Laden varnarlausan þann 1. maí og sturtuðu búknum í hafið“. Þá orti Zófonías Þorvaldsson: Eftir mikið ævistrit eltur upp af dónum. Fyrsta maí hann fór á vit feðranna á sjónum. Ólafur Steinþórsson frá Lambadal, bóndi í Fremri Hjarðardal lítur yfir liðna tíð og minnist sinna mann- dómsára: Í útliti er ansi grár, af mér tínast hárin. Undirvöxtur orðinn smár; oft því felli tárin. Nú er þetta næstum búið nálgast loka æviskeið. Ellina fær enginn flúið allir halda sömu leið. Efnistökin eru áfram fyrir vestan, en nú er sögupersónan Einar Kolbeinsson í Bólstaðarhlíð. Á dögunum var hann á þvælingi vestur á Látrabjargi: Ekki heillaði huga minn helvítis fuglagargið, þegar ég fór í þriðja sinn þarna á Látrabjargið. Í framhaldi af Látrabjargsvísu Einars fylgdu fleiri vísur. Efnislega innihéldu þær lítinn feginleik vegna endurkomu okkar hjóna frá Austurríki. Mér hafði orðið á, að inna bóndann Einar eftir vorverk- um og hvernig sauðburður hefði gengið. Sveigir hann svíðingslega að mér í ljósi fyrri verka minna við sauðburð í Bólstaðarhlíð: Sporin ekki þættu þung að þræða lambahaga, ef ég hefði ónytjung eins og forðum daga. Hugðist ég endurvekja við Einar fornan vinskap, og hringdi til hans eitt fagurt sumarkvöld. Sátum við hjónin þá í heitapottinum: Tilvalið má telja það, svo taka baðið megi. Þingeyinga þarf jú að þvo á hverjum degi. Vindur svo fram viðræðum okkar Einars þetta kvöld, og einhverra hluta vegna, grunar hann mig um landaneyslu: Legg ég saman tvo og tvo, tekur mig að gruna, að langtum mest sé þörf að þvo þankauppsprettuna. Dvölin fjölmargt gott þér gaf, gæfu í flösku líki, en líkast til fékkst lítið af landa í Austurríki. Fátt er mér sárara en að vera brigslað um neyslu ólöglegra efna. Grömdust mér getgátur Einars, og til að eyðileggja þessar ávirðingar og brigsl, brýt ég fyrri loforð um að birta ekki eigin kveðskap. Tvær næstu vísur sendi ég honum til áréttingar mínu fágaða eðli: Landann jafnan metur mest, meir en nokkuð annað, enda tekst þér alltaf best íþví sem er bannað. Guðaveigum gutlar í, gortar yfir högum. Búnast líka best í því sem bannað er með lögum. Umsjón: Árni Jónsson kotabyggd1@gmail.com Í umræðunni MÆLT AF MUNNI FRAM P Á Höfðabrekkuafrétti milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands, um 14 km frá þjóðveginum, er mikil náttúruperla sem ekki er á allra vitorði og nefnd er Þakgil. Þangað er samt auðvelt að komast á nánast hvaða ökutæki sem er. Hafist var handa við uppbygg- ingu ferðamannaaðstöðu í Þakgili vorið 2001 og var þar opnað tjald- svæði á miðju sumri 2002. Er það rekið af Helgu Ólafsdóttur og Bjarna Jóni Finnssyni í Vík sem komið hafa þar upp myndarlegri þjónustu með aðgengi að rafmagni frá eigin vatns- aflsrafstöð. Þakgil er opið frá 1. júní til 31. ágúst og utan þess tíma ef sér- staklega er óskað. Þegar ekið er þjóðveginn um 5 km austur frá Vík í Mýrdal, blasir við dalur á vinstri hönd sem lætur lítið yfir sér og flestir þeysa framhjá. Ef þar er hinsvegar beygt út af þjóðveg- inum við Höfðabrekku liggur leiðin upp Kerlingardal og inn á heiðar, eftir vegi sem var áður þjóðvegur nr. 1, eða allt til 1955. Ekið er inn heiðar og gilbotna þar til komið er að skilti sem bendir inn í Þakgil. Þetta er ægifögur leið þar sem iðagrænt gras vex upp á hæstu tinda en inn á milli glittir í kolsvart hraun og sand- steinskletta með aragrúa hella. Við enda vegarins, fast upp undir eldstöð Kötlu og umlukt fjöllum, er svo þessi einstæða náttúruperla sem nefnd er Þakgil. Vegurinn inn í Þakgil er fær öllum bílum og á þessu svæði eru margar fallegar gönguleiðir við allra hæfi. Tjaldsvæði, snyrting og sturta eru á staðnum. „Matsalurinn“ er nátt- úrulegur hellir og í honum eru borð og bekkir og bæði kamína og grill. Þar hafa fyrirtæki oft haldið starfs- mannaveislur, en hellirinn rúmar nokkra tugi manna. Segir Helga að töluvert sé um að haldin séu ættarmót í Þakgili og vinnustaðahópar sæki þangað talsvert. Er hellirinn þá nýttur til veisluhalda. Tóku svæðið á leigu árið 2000 Helga segir að þau hjón hafi tekið svæðið á leigu af sveitarfélaginu Vík frá árinu 2000. „Þá byrjuðum við að koma upp þarna salernisaðstöðu og rotþró. Um leið virkjuðum við kranavatnið, sem leitt var inn á klósettið til að fá ljós í húsið. Þessa litlu virkjun má reyndar enn sjá á útvegg hússins en hún er nú bara til skrauts.“ Segir hún að þau hafi sett upp smáhýsi með gistiaðstöðu í gilinu sumarið 2007. Til að skaffa þeim rafmagn var sett upp dísilrafstöð. Höfðu þau stefnt að því að virkja ána og bjuggu til smá jarðvegsstíflu í gili þarna innaf. Var vatnið síðan leitt í vatnstúrbínu sem komið var fyrir inni í berginu fremst í gilinu og knýr hún rafal sem sér svæðinu fyrir nægu rafmagni. Eldgos fældu frá „Aðsóknin var stígandi ár frá ári en eftir gosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli datt hún niður. Ég held að þetta sé þó að færast aftur í rétt horf. Fólk var greinilega hrætt við öskuna, hélt að þarna væri allt á kafi og vart hægt að draga andann. Íslendingar komu því nánast ekkert þarna inneftir í tvö ár eftir gos, aðeins útlendingar. Nú er þetta aðeins að lagast.“ Segir Helga að áhrifa eldgosanna hafi ekki gætt mikið í Þakgili. Aska hafi ekki verið til vandræða og aðeins sé eftir um eins sentímetra öskulag í sverðinum sem fæstir verði varir við. Helga segist ekkert óttast gos í Kötlu og vöktunarkerfi Almannavarna og Veðurstofunnar á eldstöðinni séu góð. Nægur tími eigi því að gefast til að koma öllum sem þarna dveljast í öruggt skjól ef þörf krefur. Ofan á allt annað fór vegurinn þarna inneftir í sundur um leið og flóðið varð í Múlakvísl í fyrrasumar. Var því ófært þangað í viku á háanna- tíma. Múlakvísl gróf þó bara í sundur veginn sitt hvoru megin við brúna sem er þarna á leiðinni, en brúin stóð. Eins og fyrr segir var hluti af veginum inn í Þakgil þjóðvegur 1 til ársins 1955. Þá tók brúna af yfir Múlakvísl í hlaupi frá Kötlu og vegurinn var færður neðar á Mýrdalssand, nokkru ofar en hann er nú. Á leiðinni í Þakgil er Stórihellir sunnan við Lambaskörð, ca. 6 km frá þjóðveginum, þar voru haldnir dansleikir í gamla daga. Byggð var brú yfir Illagil 1931-1933. Hún var aflögð árið 2002 og sett ræsi í staðinn. Nýtt í smalamennsku Bændur í Mýrdal hafa rekið fé sitt á afréttinn í margar aldir og eru djúpar kindagötur víða á afréttinum sem nýtast að hluta til sem göngustígar. Í Miðfellshelli í Þakgili hafa smalar rist fangamörk sín og ártöl á hellis- veggina. Hellirinn var notaður sem gangnamannakofi til ársins 1918. Eftir Kötlugosið það ár var flutt í Brík, skúta fremst í Þakgili, og verið þar eitt haust. Síðan var hlaðinn kofi í Ausubólshólum vestan við Þakgil. Kofinn var notaður í ca. 50 ár. Við tóftina eru þrír aflraunasteinar sem nefndir eru amlóði, hálfsterkur og fullsterkur líkt og víðar þekkist. Núverandi gangnamannakofi er gamalt skólahús, flutt frá Deildará í Mýrdal. „Þarna er mikil náttúrufegurð og fallegar gönguleiðir upp að Mýrdalsjökli. Þar eru magnaðir staðir með fossum og stundum eru þar lón. Þarna uppi sér maður í góðu skyggni yfir stóran hluta af Suðausturlandi, austur að Lómagnúp og Vatnajökli,“ segir Helga. Ólýsanleg upplifun Þegar tíðindamaður Bændablaðsins átti þarna leið um sat þýskur ferða- maður í hellinum góða og ritaði ferðasögu sína í litla bók. Aðspurður sagðist hann vera búinn að koma á Þingvelli, sem honum fannst til- komumikil upplifun og eins hafi hann komið á Laugarvatn og víðar. Hann hafi svo ákveðið að gista á Hótel Höfðabrekku á leið sinni austur og hafi þar frétt af Þakgili. Ákvað hann af rælni að keyra þar inneftir og sagði upplifunina af að koma þarna ólýsanlega. Þetta topp- aði allt sem hann hafi séð í þessari Íslandsferð sinni. Tjaldsvæðið í Þakgili er rennislétt og tilvalið hvort sem er fyrir ein- staklinga eða hópa. Gisting kostar 1.100 krónur nóttin fyrir 12 ára og eldri. Smáhýsið kostar 15.000 kr. nóttin en þar er svefnpláss fyrir fjóra. Annars er hægt að fá nánari upp- lýsingar um Þakgil í síma 893-4889, á vefslóðinni thakgil.is og eins er hægt að senda staðarhaldara tölvu- póst á helga@thakgil.is. /HKr. Þakgil – ægifögur náttúruperla við Kötlurætur Þýskur ferðamaður hripar ferðalýsingu í dagbók sína í hellismunnanum í Þakgili. Hann átti vart orð tiil að lýsa hrifningu sinni af landslaginu og litadýrðinni. Myndir / HKr. Hafursey blasir við á leiðinni inn í Þakgil. Meðfram henni rennur Múlakvísl sem getur reynst illskeytt þegar hlaup kemur í hana. Helga Ólafsdóttir staðarhaldari í Þakgili.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.