Bændablaðið - 12.12.2013, Side 41

Bændablaðið - 12.12.2013, Side 41
42 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. desember 2013 Í síðasta Bændablaði greindi Ólafur R. Dýrmundsson ráðu nautur í stuttu máli frá ráðstefnu um sauðfé og nýtingu ullar sem haldin var í haust á Hjaltlandseyjum. Auk hans fór þangað 19 manna hópur frá Íslandi til að taka þátt í hinni árlegu ullarviku (Wool Week) og sækja 3. Norður-Atlantshafs ráðstefnuna um sauðfé og ull (North Atlantic Native Sheep and Wool Conference). Í tengslum við þessa viðburði var farin kynnisferð um eyjarnar, en 15 þeirra eru byggðar og heildarflatarmál Hjaltlandseyja, sem eru miðja vegu á milli Noregs og Færeyja, er rúmlega 1.400 ferkílómetrar. Þær eru nyrsti hluti Stóra-Bretlands, um 200 km frá meginlandi Skotlands. Hér verður stiklað á stóru um ýmislegt sem fyrir augu og eyru bar í ferðinni. Forn norræn tengsl Rómverjar kölluðu eyjarnar „Ultima Thule“, sem þýðir „Fjærsta landið“ eða „Endimörk veraldar“. Í hugum víkinga frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð voru þessar eyjar næstu nágrannar og hétu Hjaltlandseyjar í þeirra munni. Frá þessum tímum eru margar minjar, s.s. grafhaugar, steinhringar Drúída og hálfhrundir vaktturnar úr steini. Eyjarnar eru misviðrasamar, með þoku, óveðrum og löngum vetrum. Þar er einkum hægt að rækta kartöflur, hafra og bygg. Eyjarskeggjar lifa aðallega á fiskveiðum en rækta líka dverghesta, nautgripi og sauðfé. Úr ullinni er framleitt gæða efni, tweed, og góðar prjónavörur. Þá er gert mikið til að efla ferðaþjónustu. Náttúrufegurð eyjanna bætir upp erfið veðurfarsleg skilyrði. Mikið er um fuglabjörg, þar sem hafaldan brýtur á litskrúðugum klettum. Engin byggð á eyjunum er fjær sjó en 5 km. Fall er fararheill Við lentum syðst á Hjaltlandseyjum, á Mainland sem áður hét Hrossey, með barningi þó en það tókst í annarri atrennu, reyndar eftir að hafa dokað við í Glasgow í tvo tíma vegna vélarbilunar. En svo fannst önnur vél sem kom okkur til skila. Þaðan var ekið til Leirvíkur þar sem við settum okkur inn á gamalt hótel, skammt frá höfninni, sem mátti muna fífil sinn fegri. Fimmtudagurinn 10. október sem var fyrsti heili dagurinn á Hjaltlandseyjum fór í að skoða syðri hluta aðaleyjarinnar. Býlið Burland Craft Trail Trondra var heimsótt en þar er sjálfsþurftarbúskapur stundaður og kenndi ýmissa grasa. Alls konar kartöflur og garðávextir, hænsni af öllum gerðum og stærðum, kalkúnar, endur og gæsir, um 60 fjár, smalahundar, 3 kýr sem kálfar gengu undir og nokkrir Hjaltlandseyjadverghestar. Gömul mylla var í læknum og þar nærri bjuggu tröll að sögn innfæddra. Bóndinn var með gott smíðaverkstæði og þar smíðaði hann báta og fiðlur og lék fyrir okkur á eina slíka. Því næst var ekið til Burra en á handverksverkstæði þar bjó kona til bangsa, Burra bears, úr gömlum peysum og afgangs prjónlesi frá prjónaverkstæðum. Að Jarlshofi komum við en þar eru menjar frá ýmsum tímum og býsna miklar hleðslur sem hafa verið grafnar upp og eru flottar. Á leiðinni aftur til Leirvíkur komum við í prjónaverkstæði sem var með allskonar mjög fallegar vörur svo sem vettlinga, grifflur, húfur og Tammys sem eru eins konar alpahúfur. Peysur voru líka í miklu úrvali og að sögn handunnar sem er að hluta til rétt. Bolur og ermar voru prjónaðar í vél en eftir það handprjónaðar. Þetta var allt úr fínu bandi og ekki dýrt en vinnan er þó heldur lítils metin. Ráðstefnan sett í þjóðmenningarhúsinu (Shetland Museum) Föstudagur 11. október var léttur dagur – rölt um bæinn og skoðað. Þjóðmenningar húsið, sem jafnframt er ráðstefnusetur, var leitað uppi og reyndist hinn huggulegasti staður. Þar er fallegt safn um ýmislegt úr sögu Hjaltlandseyinga, lítil minjagripaverslun, matsölustaður og ráðstefnusalur. Fyrir neðan er bátahöfn. Um kvöldið var ráðstefnan sett af Robert Hunter, sem bauð okkur velkomin og kynnti dagskrána í stuttu máli. Þá talaði ágætur ullarspekingur, Eric Wilson, sem mælti af eldmóði um nauðsyn þess að hefja ullina aftur til vegs og virðingar. Karin Flatöy Svarstad kom með erindi um hversu ágæt og nauðsynleg svona ráðstefna væri en hún snerist ekki bara um kindur heldur fólkið sem hefði með þær að gera og landið sem þessar skepnur þrifust á, og hvernig allt þyrfti að spila saman. Að lokum töluðu Ronnie Eunson fjárbóndi og Lyall Halcrow, doktorsnemi í Aberdeen. Ronnie er með um 1.200 fjár, að meðtöldum lömbum, og með lífræna vottun. Hann er afar upptekinn af kolefnisjöfnun og sjálfbærni heiðabúskapar á eyjunum og útskýrði Lyall þau mál með athyglisverðum fyrstu niðurstöðum úr rannsóknum. Mat á lífhrútum og hrútauppboð Við mættum tímanlega að morgni laugardags 12. október í landbúnaðarmiðstöð í útjaðri Leirvíkur þar sem ýmsir fagmenn landbúnaðar starfa en þar er einnig til húsa fjárrétt við hlið uppboðsmarkaðar fyrir sauðfé og nautgripi og lítið sláturhús, hið eina á eyjunum. Hrútasýning var í réttinni og var skemmtileg á að horfa. Fyrst var ullin metin af tveim mönnum þá komu aðrir tveir og skoðuðu munnsvipinn og tennurnar, fætur skulu og vera sterklegir og réttir því að fé þar gengur úti allt árið. Að lokum var dindillinn skoðaður vel og vandlega því að hann skiptir miklu máli. Hæfilega langur skal hann vera, V -laga, snögghærður, helst glansandi og fallegur. Í sláturhúsinu upplýsti Ronnie Eunson okkur um allt þar. Það kostar 12 pund að slátra lambi og 140 að farga nauti. Þarna starfa tvær konur og gera allt sem gera þarf, ef mikið er að gera eru fengnir einhverjir til aðstoðar og vinna þeir í akkorði. Slátrun er mjög breytileg og fer eftir markaðs aðstæðum. Sláturhúsið er rekið sem samvinnufélag og kaupir ekki kjötið. Bændur sjá um sjálfir að afsetja það. Þau taka að sér að úrbeina og ganga frá því eða leigja bændum aðstöðu til að gera þetta sjálfir. Ekkert stress er í gripunum í þessu sláturhúsi. Eftir hádegið hófst hrútauppboð þar sem bestu hrútarnir voru boðnir falir fyrir rétt verð. Lágmarksverð fyrir lambhrút var 50 pund (um 10.000 kr.) og eldri hrúta 100 pund. Þetta gekk afar liðugt og uppboðshaldarinn var ekki að gera þetta í fyrsta sinn. Dýrasti hrúturinn fór á 900 pund en ekki seldust allir, því að eigendurnir voru ekki ánægðir með verðið. Bæði var um að ræða lambhrúta og fullorðna, hvíta, mórauða og svarta. Að þessu loknu tók Oliver Henry ullarmatsmaður til við að sýna hvernig ull er flokkuð og metin sem var afar áhugavert. Lagt í norðurferð Sunnudaginn 13. október var lagt af stað kl. 7.30 í mikla ferð norður á allar stærstu eyjarnar, var ráðstefnugestum smalað saman í rútu við Þjóðmenningarsafnið og ekið sem leið liggur norður eftir aðaleynni í átt að Toft. Þar beið ferja yfir til Ulsta á Yell-eyju og eftir henni var ekið í átt að nyrstu eyjunni, Unst, en þar á milli er líka ferja sem er líkust pramma. Á leiðinni var skoðað vinalegasta strætóskýli sem sést hefur. Þar var sófi, gluggatjöld, prjónakarfa, gestabók, myndir af kindum og tuskukindur, svo sem hrúturinn Hreinn sem Ólafur segir vera af Suffolk-kyni. Svo var farið í Haroldswick Hall, sem er meðal huggulegustu félagsheimila í sveit, en þar beið morgunkaffi hjá kvenfélaginu, gasalega fínar kökur og kaffi að hætti Hjaltlendinga. Eftir þetta var farið í þjóðgarðinn þeirra á Unst, í Hammernes réttir, en þar höfðu bændur smalað saman nokkrum kindum af afréttinum sínum og sögðu okkur undan og ofan af þeirri tilhögun. Voru þetta mest hrútar sem þeir voru að taka úr ánum. Sá afréttur er tæpir 800 ha og þangað mega þeir reka 770 fjár. Landgræðslan var að minnka við þá því ekki fyrir svo löngu mátti reka 900 fjár á afréttinn, en þá voru 24 sem áttu hluti. Öllusaman er deilt uppí hluti sem samanstanda af 30 ám og einum hrúti. Átján fjárbændur eiga nú beitarrétt í þessum afrétti og sumir fleiri en einn hlut. Afréttir eru mismunandi og hlutirnir misstórir. Til dæmis er annar afréttur sem okkur var sagt frá, þar eru 14 ær í hlutnum. Reglur um notkun eru frá 1927. Féð gengur á heiðinni nánast allt árið, smalað í október og lömbin tekin, eftirleit í nóvember og þau lömb sem fundust þá tekin. Hrútunum er sleppt í ærnar í byrjun desember og þeir eru teknir heim í janúar. Eitthvað hafði þetta klikkað í fyrra því að í einum dilknum voru nokkur lömb fædd í júnílok. Féð er haft heima við á sauðburði til þess að hver geti merkt sitt og sleppt jafnharðan. Sumir nota eyrnamörk, t.d. sáum við kind með Hestsmarkinu. Merki velur hver sér eftir hentugleikum, í ýmsum litum, en fullorðinsmerki eins og við notum sáum við ekki, þó eru þeir í ESB. Frjósemin er 0,7–1,0 lamb á á þarna en margir eru með annað fé heima við og þar er meiri frjósemi og annars konar ræktun vegna blöndunar við önnur fjárkyn. Þarna var vel veitt að sveitasið og ýmsar gerðir af viskíi smakkaðar sem og af ýmsum öðrum veigum enda blandaðist hópurinn vel á eftir og margt var skrafað. Þegar hæfilega var drukkið var lagt í hann til baka og nú í hádegisverð hjá kvenfélaginu í Haroldswick. Þar skyldi líka skoða minjasafnið þeirra á Unst, blúndu- prjón og spuna. Handverksfólk úr nágrenninu var með vörur sínar til sýnis og sölu og Framfarafélagið í sveitinni seldi tombólumiða. Lunddælingar voru heppnir og fengu m.a. band og rauðvínsflösku. Þeir sem vildu gátu fengið ljósrit af fundargerðum fjallskilanefndar sem var ekki ónýtt því að þar kom fram ýmislegt um afréttarnýtinguna. Í fyrrverandi herstöð var komin súkkulaðigerð en við höfðum ekki tíma til að heimsækja hana. Nú var ekki til setunnar boðið því að ferjunni skyldi ná og gekk það eftir. Þar var bóndinn sem var í fyrri ferðinni með sturtuvagninn fullan af taði en nú var hann að sækja meira yfir á Yell. Í litlu félagsheimili á Yell beið okkar kaffi og kex, söngur og sýning með útskýringum. Þeir eru með tvö hús sem eru með tveimur vinnustofum hvort og þar getur fólk fengið inni til að sinna hugðarefnum sínum og best er ef þetta skapar atvinnu fyrir einhverja. Í einni vinnustofu var vefstofa sem tveir ágætir sambýlingar sáu um meðfram tónlistarkennslu í nágrenninu. Í annarri vinnustofu var listakona með myndlistargallerý og vinnustofu. Hún saumaði litlar myndir með saumavél og þær voru ótrúlega flottar. Í litlu húsi í nágrenninu bjó listakona með manni sínum, sú vélprjónaði landslagsmyndir sem hún bætti svo í með lit og fyllingu og þetta rammaði hún inn með ýmsu sem fannst í fjörunni. Þau áttu líka fjórar geitur og dverghesta, kyntu með mó og ræktuðu garðinn sinn, en beð voru afmörkuð með flöskum sem var stungið á haus niður og gangstígar voru þaktir bæklingum svo að ekki sprytti gras og illgresi þar. Í safnhaugnum sáum við ýmislegt, m.a. hrossaskít, brauðvél, hey, tölvu og þara. Fróðlegt að vita hvernig útkoman verður. Að lokum kom annar vefarinn í rútuna og söng gamla vögguvísu fyrir okkur. Eitt og annað vakti athygli okkar Íslendinga en það var m.a. að á Hjaltlandseyjum eru almenningsklósett víða. Stóð eitt slíkt, eitt og sér, lengst úti í sveit og leit bara ljómandi vel út enda er kjörorð eyjarskeggja „MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA“ sem er tekið úr Njálssögu. Enn gott dæmi um forn norræn tengsl. Annað athyglisvert var að þeir voru í óða önn að taka mó fyrir veturinn en jarðvegur er grunnur, 30–50 cm. Þeir fletta torfunni ofanaf, skera síðan móinn og leggja svo torfuna aftur yfir. Mótekja er þó mun minni en áður. Sjálf ráðstefnan Í virðulegum sal, og með tjaldi á vegg sem hægt var að varpa vísdómi á, stóð ráðstefnan mánudaginn 14. október. Vel fyrir kl. 10 fóru ráðstefnugestir að tínast inn, þetta var undarlegt samansafn frá ýmsum afkimum. Mest fór að sjálfsögðu fyrir Íslendingum, enda fjölbreyttur hópur og uppistaða þeirra konur með ólíkan bakgrunn Hjaltlandseyjar – þar sem ull verður gull Frá Hjaltlandseyjum, nyrsta hluta Bretlandseyja. Mynd / KG Hópurinn í réttarferð í Unst, nyrst á Hjaltlandseyjum. Mynd / DMP

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.